Book of Common Prayer
25 Davíðssálmur.
2 Til þín, Drottinn, hef ég sál mína, Guð minn, þér treysti ég. Lát mig eigi verða til skammar, lát eigi óvini mína hlakka yfir mér.
3 Hver sá er á þig vonar, mun eigi heldur verða til skammar, þeir verða til skammar, er ótrúir eru að raunalausu.
4 Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína.
5 Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér, því að þú ert Guð hjálpræðis míns, allan daginn vona ég á þig.
6 Minnst þú miskunnar þinnar, Drottinn, og kærleiksverka, því að þau eru frá eilífð.
7 Minnst eigi æskusynda minna og afbrota, minnst mín eftir elsku þinni sakir gæsku þinnar, Drottinn.
8 Góður og réttlátur er Drottinn, þess vegna vísar hann syndurum veginn.
9 Hann lætur hina hrjáðu ganga eftir réttlætinu og kennir hinum þjökuðu veg sinn.
10 Allir vegir Drottins eru elska og trúfesti fyrir þá er gæta sáttmála hans og vitnisburða.
11 Sakir nafns þíns, Drottinn, fyrirgef mér sekt mína, því að hún er mikil.
12 Ef einhver óttast Drottin, mun hann kenna honum veg þann er hann á að velja.
13 Sjálfur mun hann búa við hamingju, og niðjar hans eignast landið.
14 Drottinn sýnir trúnað þeim er óttast hann, og sáttmála sinn gjörir hann þeim kunnan.
15 Augu mín mæna ætíð til Drottins, því að hann greiðir fót minn úr snörunni.
16 Snú þér til mín og líkna mér, því að ég er einmana og hrjáður.
17 Angist sturlar hjarta mitt, leið mig úr nauðum mínum.
18 Lít á eymd mína og armæðu og fyrirgef allar syndir mínar.
19 Lít á, hversu margir óvinir mínir eru, með rangsleitnishatri hata þeir mig.
20 Varðveit líf mitt og frelsa mig, lát mig eigi verða til skammar, því að hjá þér leita ég hælis.
21 Lát ráðvendni og hreinskilni gæta mín, því að á þig vona ég.
22 Frelsa Ísrael, ó Guð, úr öllum nauðum hans.
9 Til söngstjórans. Almút labben. Davíðssálmur.
2 Ég vil lofa þig, Drottinn, af öllu hjarta, segja frá öllum þínum dásemdarverkum.
3 Ég vil gleðjast og kætast yfir þér, lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti.
4 Óvinir mínir hörfuðu undan, hrösuðu og fórust fyrir augliti þínu.
5 Já, þú hefir látið mig ná rétti mínum og flutt mál mitt, setst í hásætið sem réttlátur dómari.
6 Þú hefir hastað á þjóðirnar, tortímt hinum óguðlegu, afmáð nafn þeirra um aldur og ævi.
7 Óvinirnir eru liðnir undir lok _ rústir að eilífu _ og borgirnar hefir þú brotið, minning þeirra er horfin.
8 En Drottinn ríkir að eilífu, hann hefir reist hásæti sitt til dóms.
9 Hann dæmir heiminn með réttvísi, heldur réttlátan dóm yfir þjóðunum.
10 Og Drottinn er vígi orðinn hinum kúguðu, vígi á neyðartímum.
11 Þeir er þekkja nafn þitt, treysta þér, því að þú, Drottinn, yfirgefur eigi þá, er þín leita.
12 Lofsyngið Drottni, þeim er býr á Síon, gjörið stórvirki hans kunn meðal þjóðanna.
13 Því að hann sem blóðs hefnir hefir minnst þeirra, hann hefir eigi gleymt hrópi hinna hrjáðu:
14 "Líkna mér, Drottinn, sjá þú eymd mína, er hatursmenn mínir baka mér, þú sem lyftir mér upp frá hliðum dauðans,
15 að ég megi segja frá öllum lofstír þínum, fagna yfir hjálp þinni í hliðum Síonardóttur."
16 Lýðirnir eru fallnir í gryfju þá, er þeir gjörðu, fætur þeirra festust í neti því, er þeir lögðu leynt.
17 Drottinn er kunnur orðinn: Hann hefir háð dóm, hinn óguðlegi festist í því, er hendur hans höfðu gjört. [Strengjaleikur. Sela]
18 Hinir óguðlegu hrapa til Heljar, allar þjóðir er gleyma Guði.
19 Hinum snauða verður eigi ávallt gleymt, von hinna hrjáðu bregst eigi sífellt.
20 Rís þú upp, Drottinn! Lát eigi dauðlega menn verða yfirsterkari, lát þjóðirnar hljóta dóm fyrir augliti þínu.
21 Skjót lýðunum skelk í bringu, Drottinn! Lát þá komast að raun um, að þeir eru dauðlegir menn. [Sela]
15 Davíðssálmur Drottinn, hver fær að gista í tjaldi þínu, hver fær að búa á fjallinu þínu helga?
2 Sá er fram gengur í flekkleysi og iðkar réttlæti og talar sannleik af hjarta,
3 sá er eigi talar róg með tungu sinni, eigi gjörir öðrum mein og eigi leggur náunga sínum svívirðing til;
4 sem fyrirlítur þá er illa breyta, en heiðrar þá er óttast Drottin, sá er sver sér í mein og bregður eigi af,
5 sá er eigi lánar fé sitt með okri og eigi þiggur mútur gegn saklausum _ sá er þetta gjörir, mun eigi haggast um aldur.
44 Orðið sem kom til Jeremía um alla Júdamenn, sem bjuggu í Egyptalandi, þá er bjuggu í Migdól, Takpanes, Nóf og í Patróslandi:
2 Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Þér hafið séð alla þá óhamingju, sem ég hefi leitt yfir Jerúsalem og yfir allar borgirnar í Júda. Þær eru nú eyðirústir, og enginn maður býr í þeim.
3 Er það sakir illsku þeirrar, er þeir höfðu í frammi, að egna mig til reiði með því að fara og færa öðrum guðum reykelsisfórnir, er þeir ekki þekktu, hvorki þeir, né þér, né feður yðar.
4 Ég sendi til yðar alla þjóna mína, spámennina, bæði seint og snemma, til þess að segja yður: "Fremjið eigi slíka svívirðing, sem ég hata!"
5 En þeir hlýddu ekki og lögðu ekki við eyrun, að þeir sneru sér frá vonsku sinni, svo að þeir færðu ekki öðrum guðum reykelsisfórnir.
6 Þá var heift minni og reiði úthellt, og hún brann í borgum Júda og á Jerúsalem-strætum, svo að þær urðu að rúst, að auðn, eins og þær nú eru.
7 Og nú _ svo segir Drottinn, Guð allsherjar, Ísraels Guð _ hví viljið þér gjöra sjálfum yður mikið tjón, með því að uppræta fyrir yður bæði menn og konur, börn og brjóstmylkinga úr Júda, svo að þér látið engar leifar af yður eftir verða,
8 þar sem þér egnið mig til reiði með handaverkum yðar, þar sem þér færið öðrum guðum reykelsisfórnir í Egyptalandi, þangað sem þér eruð komnir, til þess að dveljast þar sem flóttamenn, til þess að þér verðið upprættir og til þess að þér verðið að formæling og spotti meðal allra þjóða á jörðu?
9 Hafið þér gleymt illgjörðum feðra yðar og illgjörðum Júdakonunga og illgjörðum höfðingja yðar og yðar eigin illgjörðum og illgjörðum kvenna yðar, er framdar hafa verið í Júda og á strætum Jerúsalem?
10 Ekki hafa þeir auðmýkt sig enn og ekki hafa þeir óttast né farið eftir lögmáli mínu og setningum, er ég lagði fyrir yður og fyrir feður yðar.
11 Fyrir því segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Sjá, ég sný andliti mínu gegn yður til óhamingju, og það til þess að uppræta allan Júda.
12 Og ég vil hrífa burt leifar Júdamanna, þá er ásettu sér að fara til Egyptalands, til þess að dveljast þar sem flóttamenn. Allir skulu þeir farast, falla í Egyptalandi, fyrir sverði og af hungri skulu þeir farast, bæði smáir og stórir, fyrir sverði og af hungri skulu þeir deyja. Og þeir skulu verða að bölvun, að skelfing, að formæling og að spotti.
13 Og ég mun vitja þeirra, sem búa í Egyptalandi, eins og ég vitjaði Jerúsalem, með sverði, hungri og drepsótt.
14 Og af leifum Júdamanna, þeim er komnir eru til Egyptalands, til þess að dveljast þar sem flóttamenn, skal enginn af bjargast eða undan komast, svo að hann geti horfið aftur til Júda, þangað sem þá langar til að hverfa aftur, til þess að búa þar, því að þeir munu eigi hverfa heim aftur, nema fáeinir, sem undan komast.
30 Hvers vegna erum vér líka að stofna oss í hættu hverja stund?
31 Svo sannarlega, bræður, sem ég get hrósað mér af yður í Kristi Jesú, Drottni vorum: Á degi hverjum vofir dauðinn yfir mér.
32 Hafi ég eingöngu að hætti manna barist við villidýr í Efesus, hvaða gagn hefði ég þá af því? Ef dauðir rísa ekki upp, etum þá og drekkum, því að á morgun deyjum vér!
33 Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.
34 Vaknið fyrir alvöru og syndgið ekki. Nokkrir hafa enga þekkingu á Guði. Yður til blygðunar segi ég það.
35 En nú kynni einhver að segja: "Hvernig rísa dauðir upp? Hvaða líkama hafa þeir, þegar þeir koma?"
36 Þú óvitri maður! Það sem þú sáir lifnar ekki aftur nema það deyi.
37 Og er þú sáir, þá er það ekki sú jurt, er vex upp síðar, sem þú sáir, heldur bert frækornið, hvort sem það nú heldur er hveitikorn eða annað fræ.
38 En Guð gefur því líkama eftir vild sinni og hverri sæðistegund sinn líkama.
39 Ekki eru allir líkamir eins, heldur hafa mennirnir einn, kvikféð annan, fuglarnir einn og fiskarnir annan.
40 Til eru himneskir líkamir og jarðneskir líkamir. En vegsemd hinna himnesku er eitt og hinna jarðnesku annað.
41 Eitt er ljómi sólarinnar og annað ljómi tunglsins og annað ljómi stjarnanna, því að stjarna ber af stjörnu í ljóma.
16 Við hvað á ég að líkja þessari kynslóð? Lík er hún börnum, sem á torgum sitja og kallast á:
17 ,Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð, og ekki vilduð þér syrgja.`
18 Jóhannes kom, át hvorki né drakk, og menn segja: ,Hann hefur illan anda.`
19 Mannssonurinn kom, át og drakk, og menn segja: ,Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra!` En spekin sannast af verkum sínum."
20 Þá tók hann að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gjört flest kraftaverk sín, fyrir að hafa ekki gjört iðrun.
21 "Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gjörst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gjörðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku.
22 En ég segi ykkur: Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur.
23 Og þú Kapernaum. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gjörst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gjörðust í þér, þá stæði hún enn í dag.
24 En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér."
by Icelandic Bible Society