Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 119:1-24

119 Sælir eru þeir sem breyta grandvarlega, þeir er fram ganga í lögmáli Drottins.

Sælir eru þeir er halda reglur hans, þeir er leita hans af öllu hjarta

og eigi fremja ranglæti, en ganga á vegum hans.

Þú hefir gefið skipanir þínar, til þess að menn skuli halda þær vandlega.

Ó að breytni mín mætti vera staðföst, svo að ég varðveiti lög þín.

Þá mun ég eigi til skammar verða, er ég gef gaum að öllum boðum þínum.

Ég skal þakka þér af einlægu hjarta, er ég hefi numið þín réttlátu ákvæði.

Ég vil gæta laga þinna, þá munt þú alls ekki yfirgefa mig.

Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum? Með því að gefa gaum að orði þínu.

10 Ég leita þín af öllu hjarta, lát mig eigi villast frá boðum þínum.

11 Ég geymi orð þín í hjarta mínu, til þess að ég skuli eigi syndga gegn þér.

12 Lofaður sért þú, Drottinn, kenn mér lög þín.

13 Með vörum mínum tel ég upp öll ákvæði munns þíns.

14 Yfir vegi vitnisburða þinna gleðst ég eins og yfir alls konar auði.

15 Fyrirmæli þín vil ég íhuga og skoða vegu þína.

16 Ég leita unaðar í lögum þínum, gleymi eigi orði þínu.

17 Veit þjóni þínum að lifa, að ég megi halda orð þín.

18 Ljúk upp augum mínum, að ég megi skoða dásemdirnar í lögmáli þínu.

19 Ég er útlendingur á jörðunni, dyl eigi boð þín fyrir mér.

20 Sál mín er kvalin af þrá eftir ákvæðum þínum alla tíma.

21 Þú hefir ógnað ofstopamönnunum, bölvaðir eru þeir, sem víkja frá boðum þínum.

22 Velt þú af mér háðung og skömm, því að ég hefi haldið reglur þínar.

23 Þótt þjóðhöfðingjar sitji og taki saman ráð sín gegn mér, þá íhugar þjónn þinn lög þín.

24 Og reglur þínar eru unun mín, boð þín eru ráðgjafar mínir.

Sálmarnir 12-14

12 Til söngstjórans. Á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.

Hjálpa þú, Drottinn, því að hinir trúuðu eru á brottu, hinir dygglyndu horfnir frá mönnunum.

Lygi tala þeir hver við annan, með mjúkfláum vörum og tvískiptu hjarta tala þeir.

Ó að Drottinn vildi eyða öllum mjúkfláum vörum, öllum tungum er tala drambsamleg orð,

þeim er segja: "Með tungunni munum vér sigra, varir vorar hjálpa oss, hver er drottnari yfir oss?"

"Sakir kúgunar hinna hrjáðu, sakir andvarpa hinna fátæku vil ég nú rísa upp," segir Drottinn. "Ég vil veita hjálp þeim, er þrá hana."

Orð Drottins eru hrein orð, skírt silfur, sjöhreinsað gull.

Þú, Drottinn, munt vernda oss, varðveita oss fyrir þessari kynslóð um aldur.

Hinir guðlausu vaða alls staðar uppi, og hrakmenni komast til vegs meðal mannanna.

13 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að gleyma mér með öllu? Hversu lengi ætlar þú að hylja auglit þitt fyrir mér?

Hversu lengi á ég að bera sút í sál, harm í hjarta dag frá degi? Hversu lengi á óvinur minn að hreykja sér upp yfir mig?

Lít til, svara mér, Drottinn, Guð minn, hýrga augu mín, að ég sofni ekki svefni dauðans,

að óvinur minn geti ekki sagt: "Ég hefi borið af honum!" að fjandmenn mínir geti ekki fagnað yfir því, að mér skriðni fótur.

Ég treysti á miskunn þína; hjarta mitt fagnar yfir hjálp þinni. Ég vil syngja fyrir Drottni, því að hann hefir gjört vel til mín.

14 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Guð er ekki til." Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.

Drottinn lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.

Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er _ ekki einn.

Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, allir illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Drottin?

Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, því að Guð er hjá kynslóð réttlátra.

Þér megið láta ráð hinna hrjáðu til skammar verða, því að Drottinn er samt athvarf þeirra.

Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Drottinn snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna og Ísrael gleðjast.

Jeremía 37:3-21

Og Sedekía konungur sendi Júkal Selemjason og Sefanía prest Maasejason til Jeremía spámanns með svolátandi orðsending: "Bið þú fyrir oss til Drottins, Guðs vors!"

En Jeremía gekk þá út og inn meðal lýðsins og þeir höfðu enn ekki sett hann í dýflissuna.

Her Faraós var og lagður af stað frá Egyptalandi, og er Kaldear, sem sátu um Jerúsalem, spurðu það, héldu þeir burt frá Jerúsalem.

Þá kom orð Drottins til Jeremía spámanns:

Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Svo skuluð þér segja við Júdakonung, sem sendi yður til mín, til þess að spyrja mig: Her Faraós, sem lagður er af stað yður til hjálpar, mun snúa aftur til síns lands, til Egyptalands,

og Kaldear munu og aftur snúa og herja á þessa borg, vinna hana og brenna hana í eldi.

Svo segir Drottinn: Svíkið ekki sjálfa yður með því að segja: "Kaldear munu vissulega fara burt frá oss!" því að þeir fara ekki burt.

10 Því að þótt þér fellduð allan her Kaldea, er á yður herjar, og ekki væru aðrir orðnir eftir af þeim en sverði lagðir menn, þá mundu þeir rísa upp, hver og einn í sínu tjaldi, og brenna þessa borg í eldi!

11 En er her Kaldea fór burt frá Jerúsalem undan her Faraós,

12 þá fór Jeremía frá Jerúsalem og hélt til Benjamínslands, til þess að taka þar á móti erfðahlut, mitt á meðal lýðsins.

13 En er hann kom í Benjamínshlið, þá var þar fyrir varðmaður, að nafni Jería Selemjason, Hananíasonar. Hann þreif í Jeremía spámann og sagði: "Þú ætlar að hlaupast burt til Kaldea!"

14 En Jeremía sagði: "Það er lygi! Ég ætla ekki að hlaupast burt til Kaldea!" En Jería hlustaði ekki á Jeremía og tók hann höndum og fór með hann til höfðingjanna.

15 Og höfðingjarnir reiddust Jeremía og börðu hann og settu hann í fangelsi í húsi Jónatans kanslara, því að það höfðu þeir gjört að dýflissu.

16 Þannig komst Jeremía í prísundina og í hvelfinguna, og þar sat Jeremía alllangan tíma.

17 En Sedekía konungur sendi og lét sækja hann, og konungur spurði hann á laun í höll sinni og mælti: "Hefir nokkurt orð komið frá Drottni?" "Svo er víst!" mælti Jeremía. "Þú munt seldur verða á vald Babelkonungs!"

18 Því næst sagði Jeremía við Sedekía konung: "Hvað hefi ég brotið gegn þér og gegn þjónum þínum og gegn þessum lýð, að þér hafið sett mig í dýflissu?

19 Og hvar eru nú spámenn yðar, þeir er spáðu yður og sögðu: ,Eigi mun Babelkonungur fara í móti yður og í móti þessu landi`?

20 Og heyr nú, minn herra konungur! Virst að heyra auðmjúka bæn mína! Lát eigi flytja mig aftur í hús Jónatans kanslara, svo að ég deyi þar ekki!"

21 Síðan var Jeremía settur í varðhald í varðgarðinum að boði Sedekía konungs og honum gefinn brauðhleifur á degi hverjum úr bakarastrætinu, uns allt brauð var uppgengið í borginni. Og þannig sat Jeremía í varðgarðinum.

Fyrra bréf Páls til Korin 14:13-25

13 Biðji því sá, er talar tungum, um að geta útlagt.

14 Því að ef ég biðst fyrir með tungum, þá biður andi minn, en skilningur minn ber engan ávöxt.

15 Hvernig er því þá farið? Ég vil biðja með anda, en ég vil einnig biðja með skilningi. Ég vil lofsyngja með anda, en ég vil einnig lofsyngja með skilningi.

16 Því ef þú vegsamar með anda, hvernig á þá sá, er skipar sess hins fáfróða, að segja amen við þakkargjörð þinni, þar sem hann veit ekki, hvað þú ert að segja?

17 Að vísu getur þakkargjörð þín verið fögur, en hinn uppbyggist ekki.

18 Ég þakka Guði, að ég tala tungum öllum yður fremur,

19 en á safnaðarsamkomu vil ég heldur tala fimm orð með skilningi mínum, til þess að ég geti frætt aðra, en tíu þúsund orð með tungum.

20 Bræður, verið ekki börn í dómgreind, heldur sem ungbörn í illskunni, en fullorðnir í dómgreind.

21 Í lögmálinu er ritað: Með annarlegu tungutaki og annarlegum vörum mun ég tala til lýðs þessa, og eigi að heldur munu þeir heyra mig, segir Drottinn.

22 Þannig er þá tungutalið til tákns, ekki þeim sem trúa, heldur hinum vantrúuðu. En spámannlega gáfan er ekki til tákns fyrir hina vantrúuðu, heldur þá sem trúa.

23 Ef nú allur söfnuðurinn kæmi saman og allir töluðu tungum, og inn kæmu fáfróðir menn eða vantrúaðir, mundu þeir þá ekki segja: "Þér eruð óðir"?

24 En ef allir töluðu af spámannlegri gáfu, og inn kæmi einhver vantrúaður eða fáfróður þá sannfærðist hann og dæmdist af öllum.

25 Leyndardómar hjarta hans verða opinberir, og hann fellur fram á ásjónu sína og tilbiður Guð og lýsir því yfir, að Guð er sannarlega hjá yður.

Matteusarguðspjall 10:24-33

24 Ekki er lærisveinn meistaranum fremri né þjónn herra sínum.

25 Nægja má lærisveini að vera sem meistari hans og þjóni sem herra hans. Fyrst þeir kölluðu húsföðurinn Beelsebúl, hvað kalla þeir þá heimamenn hans?

26 Óttist þá því eigi. Ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert, né leynt, er eigi verður kunnugt.

27 Það sem ég segi yður í myrkri, skuluð þér tala í birtu, og það sem þér heyrið hvíslað í eyra, skuluð þér kunngjöra á þökum uppi.

28 Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða, en fá ekki deytt sálina. Hræðist heldur þann, sem megnar að tortíma bæði sálu og líkama í helvíti.

29 Eru ekki tveir spörvar seldir fyrir smápening? Og ekki fellur einn þeirra til jarðar án vitundar föður yðar.

30 Á yður eru jafnvel höfuðhárin öll talin.

31 Verið því óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar.

32 Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum, mun og ég við kannast fyrir föður mínum á himnum.

33 En þeim sem afneitar mér fyrir mönnum, mun og ég afneita fyrir föður mínum á himnum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society