Book of Common Prayer
1 Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra, eigi gengur á vegi syndaranna og eigi situr í hópi þeirra, er hafa Guð að háði,
2 heldur hefir yndi af lögmáli Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.
3 Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.
4 Svo fer eigi hinum óguðlega, heldur sem sáðum, er vindur feykir.
5 Þess vegna munu hinir óguðlegu eigi standast í dóminum og syndugir eigi í söfnuði réttlátra.
6 Því að Drottinn þekkir veg réttlátra, en vegur óguðlegra endar í vegleysu.
2 Hví geisa heiðingjarnir og hví hyggja þjóðirnar á fánýt ráð?
2 Konungar jarðarinnar ganga fram, og höfðingjarnir bera ráð sín saman gegn Drottni og hans smurða:
3 "Vér skulum brjóta sundur fjötra þeirra, vér skulum varpa af oss viðjum þeirra."
4 Hann sem situr á himni hlær. Drottinn gjörir gys að þeim.
5 Því næst talar hann til þeirra í reiði sinni, skelfir þá í bræði sinni:
6 "Ég hefi skipað konung minn á Síon, fjallið mitt helga."
7 Ég vil kunngjöra ályktun Drottins: Hann mælti við mig: "Þú ert sonur minn. Í dag gat ég þig.
8 Bið þú mig, og ég mun gefa þér þjóðirnar að erfð og endimörk jarðar að óðali.
9 Þú skalt mola þá með járnsprota, mölva þá sem leirsmiðs ker."
10 Verið því hyggnir, þér konungar, látið yður segjast, þér dómarar á jörðu.
11 Þjónið Drottni með ótta og fagnið með lotningu.
12 Hyllið soninn, að hann reiðist eigi og vegur yðar endi í vegleysu,
13 því að skjótt bálast upp reiði hans. Sæll er hver sá er leitar hælis hjá honum.
3 Sálmur Davíðs, þá er hann flýði fyrir Absalon syni sínum.
2 Drottinn, hversu margir eru mótstöðumenn mínir, margir eru þeir er rísa upp í móti mér.
3 Margir segja um mig: "Hann fær enga hjálp hjá Guði!" [Sela]
4 En þú, Drottinn, ert hlífiskjöldur minn, þú ert sæmd mín og lætur mig bera höfuð mitt hátt.
5 Þá er ég hrópa til Drottins, svarar hann mér frá fjallinu sínu helga. [Sela]
6 Ég leggst til hvíldar og sofna, ég vakna aftur, því að Drottinn hjálpar mér.
7 Ég óttast eigi hinn óteljandi manngrúa, er fylkir sér gegn mér á allar hliðar.
8 Rís þú upp, Drottinn, hjálpa mér, Guð minn, því að þú hefir lostið fjandmenn mína kinnhest, brotið tennur illvirkjanna.
9 Hjá Drottni er hjálpin, blessun þín komi yfir lýð þinn! [Sela]
4 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðssálmur.
2 Svara mér, er ég hrópa, þú Guð réttlætis míns! Þá er að mér kreppti, rýmkaðir þú um mig, ver mér náðugur og heyr bæn mína.
3 Þér menn! Hversu lengi á sæmd mín að sæta smán? Hversu lengi ætlið þér að elska hégómann og leita til lyginnar? [Sela]
4 Þér skuluð samt komast að raun um, að Drottinn sýnir mér dásamlega náð, að Drottinn heyrir, er ég hrópa til hans.
5 Skelfist og syndgið ekki. Hugsið yður um í hvílum yðar og verið hljóðir. [Sela]
6 Færið réttar fórnir og treystið Drottni.
7 Margir segja: "Hver lætur oss hamingju líta?" Lyft yfir oss ljósi auglitis þíns, Drottinn.
8 Þú hefir veitt hjarta mínu meiri gleði en menn hafa af gnægð korns og vínlagar.
9 Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum.
7 Davíðssálmur, er hann kvað fyrir Drottni sakir Kús Benjamíníta.
2 Drottinn, Guð minn, hjá þér leita ég hælis, hjálpa mér undan öllum ofsækjendum mínum og bjarga mér,
3 svo að þeir rífi mig ekki í sundur eins og ljón, tæti mig í sundur og enginn bjargi mér.
4 Drottinn, Guð minn, hafi ég gjört þetta: sé ranglæti í höndum mínum,
5 hafi ég illt gjört þeim er lifðu í friði við mig, eða gjört fjandmönnum mínum mein að ástæðulausu,
6 þá elti mig óvinur minn og nái mér, troði líf mitt til jarðar og varpi sæmd minni í duftið. [Sela]
7 Rís þú upp, Drottinn, í reiði þinni, hef þig gegn ofsa fjandmanna minna og vakna mér til hjálpar, þú sem hefir fyrirskipað réttan dóm.
8 Söfnuður þjóðanna umkringi þig, og tak þú sæti uppi yfir honum á hæðum.
9 Þú Drottinn, sem dæmir þjóðirnar, lát mig ná rétti mínum, Drottinn, samkvæmt réttlæti mínu og ráðvendni.
10 Lát endi á verða illsku óguðlegra, en styrk hina réttlátu, þú, sem rannsakar hjörtun og nýrun, réttláti Guð!
11 Guð heldur skildi fyrir mér, hann hjálpar hinum hjartahreinu.
12 Guð er réttlátur dómari, hann reiðist illskunni dag hvern.
13 Vissulega hvetur hinn óguðlegi aftur sverð sitt, bendir boga sinn og leggur til hæfis,
14 en sjálfum sér hefir hann búið hin banvænu vopn, skotið brennandi örvum.
15 Já, hann getur illsku, er þungaður af ranglæti og elur tál.
16 Hann gróf gröf og gjörði hana djúpa, en sjálfur fellur hann í gryfjuna er hann gjörði.
17 Ranglæti hans kemur sjálfum honum í koll, og ofbeldi hans fellur í höfuð honum sjálfum.
18 Ég vil lofa Drottin fyrir réttlæti hans og lofsyngja nafni Drottins hins hæsta.
11 En er Míka Gemaríason, Safanssonar, heyrði öll orð Drottins úr bókinni,
12 þá gekk hann ofan í konungshöllina, inn í herbergi kanslarans, og sátu þá allir höfðingjarnir þar: Elísama kanslari, Delaja Semajason, Elnatan Akbórsson, Gemaría Safansson, Sedekía Hananíason og allir hinir höfðingjarnir.
13 En Míka skýrði þeim frá öllu því, er hann hafði heyrt, þá er Barúk las upphátt úr bókinni fyrir öllum lýðnum.
14 Þá sendu allir höfðingjarnir Júdí Nataníason, Selemíasonar, Kúsísonar, til Barúks með svolátandi orðsending: "Tak þér í hönd bókrolluna, sem þú last upphátt úr fyrir lýðnum og kom hingað." Og Barúk Neríason tók bókrolluna sér í hönd og kom til þeirra.
15 En þeir sögðu við hann: "Sestu niður og lestu hana upphátt fyrir oss." Og Barúk gjörði svo.
16 En er þeir höfðu heyrt öll orðin, litu þeir felmtsfullir hver á annan og sögðu við Barúk: "Vér verðum að segja konungi frá öllu þessu!"
17 Jafnframt spurðu þeir Barúk: "Seg oss, hvernig þú hefir skrifað öll þessi orð?"
18 Og Barúk svaraði þeim: "Hann hafði munnlega upp fyrir mér öll þessi orð, en ég skrifaði þau í bókina með bleki."
19 Þá sögðu höfðingjarnir við Barúk: "Far og fel þig, ásamt Jeremía, svo að enginn viti, hvar þið eruð."
20 Síðan gengu þeir til konungs inn í afhýsi hans, en létu bókrolluna eftir í herbergi Elísama kanslara, og sögðu konungi frá öllu þessu.
21 Þá sendi konungur Júdí til þess að sækja bókrolluna, og hann sótti hana í herbergi Elísama kanslara. Síðan las Júdí hana upphátt fyrir konungi og höfðingjunum, sem umhverfis konung stóðu.
22 Konungur bjó í vetrarhöllinni, með því að þetta var í níunda mánuðinum, og eldur brann í glóðarkerinu fyrir framan hann.
23 Í hvert sinn, er Júdí hafði lesið þrjú eða fjögur blöð, skar konungur þau sundur með pennahníf og kastaði þeim á eldinn í glóðarkerinu, uns öll bókrollan var brunnin á eldinum í glóðarkerinu.
24 En hvorki varð konungur hræddur, né nokkur af þjónum hans, þeim er heyrðu öll þessi orð, né heldur rifu þeir klæði sín,
25 og þótt Elnatan, Delaja og Gemaría legðu að konungi að brenna ekki bókrolluna, þá hlýddi hann þeim ekki,
26 heldur skipaði hann Jerahmeel konungssyni og Seraja Asríelssyni og Selemja Abdeelssyni að sækja Barúk skrifara og Jeremía spámann, _ en Drottinn fól þá.
13 Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.
2 Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt.
3 Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum, og þótt ég framseldi líkama minn, til þess að verða brenndur, en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari.
4 Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.
5 Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.
6 Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum.
7 Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.
8 Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. En spádómsgáfur, þær munu líða undir lok, og tungur, þær munu þagna, og þekking, hún mun líða undir lok.
9 Því að þekking vor er í molum og spádómur vor er í molum.
10 En þegar hið fullkomna kemur, þá líður það undir lok, sem er í molum.
11 Þegar ég var barn, talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn.
12 Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu, en þá munum vér sjá augliti til auglitis. Nú er þekking mín í molum, en þá mun ég gjörþekkja, eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn.
13 En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.
5 Þessa tólf sendi Jesús út og mælti svo fyrir: "Haldið ekki til heiðinna manna og farið ekki í samverska borg.
6 Farið heldur til týndra sauða af Ísraelsætt.
7 Farið og prédikið: ,Himnaríki er í nánd.`
8 Læknið sjúka, vekið upp dauða, hreinsið líkþráa, rekið út illa anda. Gefins hafið þér fengið, gefins skuluð þér láta í té.
9 Takið ekki gull, silfur né eir í belti,
10 eigi mal til ferðar eða tvo kyrtla og hvorki skó né staf. Verður er verkamaðurinn fæðis síns.
11 Hvar sem þér komið í borg eða þorp, spyrjist þá fyrir um, hver þar sé verðugur, og þar sé aðsetur yðar, uns þér leggið upp að nýju.
12 Þegar þér komið í hús, þá árnið því góðs,
13 og sé það verðugt, skal friður yðar koma yfir það, en sé það ekki verðugt, skal friður yðar aftur hverfa til yðar.
14 Og taki einhver ekki við yður né hlýði á orð yðar, farið þá úr því húsi eða þeirri borg og hristið dustið af fótum yðar.
15 Sannlega segi ég yður: Bærilegra mun landi Sódómu og Gómorru á dómsdegi en þeirri borg.
by Icelandic Bible Society