Book of Common Prayer
140 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Frelsa mig, Drottinn, frá illmennum, vernda mig fyrir ofríkismönnum,
3 þeim er hyggja á illt í hjarta sínu og vekja ófrið á degi hverjum.
4 Þeir gjöra tungur sínar hvassar sem höggormar, nöðrueitur er undir vörum þeirra. [Sela]
5 Varðveit mig, Drottinn, fyrir hendi óguðlegra, vernda mig fyrir ofríkismönnum, er hyggja á að bregða fæti fyrir mig.
6 Ofstopamenn hafa lagt gildrur í leyni fyrir mig og þanið út snörur eins og net, hjá vegarbrúninni hafa þeir lagt möskva fyrir mig. [Sela]
7 Ég sagði við Drottin: Þú ert Guð minn, ljá eyra, Drottinn, grátbeiðni minni.
8 Drottinn Guð, mín máttuga hjálp, þú hlífir höfði mínu á orustudeginum.
9 Uppfyll eigi, Drottinn, óskir hins óguðlega, lát vélar hans eigi heppnast. [Sela]
10 Þeir skulu eigi hefja höfuðið umhverfis mig, ranglæti vara þeirra skal hylja sjálfa þá.
11 Lát rigna á þá eldsglóðum, hrind þeim í gryfjur, svo að þeir fái eigi upp staðið.
12 Illmáll maður skal eigi fá staðist í landinu, ofríkismanninn skal ógæfan elta með sífelldum höggum.
13 Ég veit, að Drottinn flytur mál hrjáðra, rekur réttar snauðra.
14 Vissulega skulu hinir réttlátu lofa nafn þitt, hinir hreinskilnu búa fyrir augliti þínu.
142 Maskíl eftir Davíð, er hann var í hellinum. Bæn.
2 Ég hrópa hátt til Drottins, hástöfum grátbæni ég Drottin.
3 Ég úthelli kveini mínu fyrir honum, tjái honum neyð mína.
4 Þegar andi minn örmagnast í mér, þekkir þú götu mína. Á leið þeirri er ég geng hafa þeir lagt snörur fyrir mig.
5 Ég lít til hægri handar og skyggnist um, en enginn kannast við mig. Mér er varnað sérhvers hælis, enginn spyr eftir mér.
6 Ég hrópa til þín, Drottinn, ég segi: Þú ert hæli mitt, hlutdeild mín á landi lifenda.
7 Veit athygli kveini mínu, því að ég er mjög þjakaður, bjarga mér frá ofsækjendum mínum, því að þeir eru mér yfirsterkari.
8 Leið mig út úr dýflissunni, að ég megi lofa nafn þitt, hinir réttlátu skipast í kringum mig, þegar þú gjörir vel til mín.
141 Davíðssálmur. Drottinn, ég ákalla þig, skunda þú til mín, ljá eyra raust minni, er ég ákalla þig.
2 Bæn mín sé fram borin sem reykelsisfórn fyrir auglit þitt, upplyfting handa minna sem kvöldfórn.
3 Set þú, Drottinn, vörð fyrir munn minn, gæslu fyrir dyr vara minna.
4 Lát eigi hjarta mitt hneigjast að neinu illu, að því að fremja óguðleg verk með illvirkjum, og lát mig eigi eta krásir þeirra.
5 Þótt réttlátur maður slái mig og trúaður hirti mig, mun ég ekki þiggja sæmd af illum mönnum. Bæn mín stendur gegn illsku þeirra.
6 Þegar höfðingjum þeirra verður hrundið niður af kletti, munu menn skilja, að orð mín voru sönn.
7 Eins og menn höggva við og kljúfa á jörðu, svo skal beinum þeirra tvístrað við gin Heljar.
8 Til þín, Drottinn, mæna augu mín, hjá þér leita ég hælis, sel þú eigi fram líf mitt.
9 Varðveit mig fyrir gildru þeirra, er sitja um mig, og fyrir snörum illvirkjanna.
10 Hinir óguðlegu falli í sitt eigið net, en ég sleppi heill á húfi.
143 Davíðssálmur. Drottinn, heyr þú bæn mína, ljá eyra grátbeiðni minni í trúfesti þinni, bænheyr mig í réttlæti þínu.
2 Gakk eigi í dóm við þjón þinn, því að enginn er réttlátur fyrir augliti þínu.
3 Óvinurinn eltir sál mína, slær líf mitt til jarðar, lætur mig búa í myrkri eins og þá sem löngu eru dánir.
4 Andi minn örmagnast í mér, hjarta mitt er agndofa hið innra í mér.
5 Ég minnist fornra daga, íhuga allar gjörðir þínar, ígrunda verk handa þinna.
6 Ég breiði út hendurnar í móti þér, sál mín er sem örþrota land fyrir þér. [Sela]
7 Flýt þér að bænheyra mig, Drottinn, andi minn örmagnast, byrg eigi auglit þitt fyrir mér, svo að ég verði ekki líkur þeim, er gengnir eru til grafar.
8 Lát þú mig heyra miskunn þína að morgni dags, því að þér treysti ég. Gjör mér kunnan þann veg, er ég á að ganga, því að til þín hef ég sál mína.
9 Frelsa mig frá óvinum mínum, Drottinn, ég flý á náðir þínar.
10 Kenn mér að gjöra vilja þinn, því að þú ert minn Guð. Þinn góði andi leiði mig um slétta braut.
11 Veit mér að lifa, Drottinn, sakir nafns þíns, leið mig úr nauðum sakir réttlætis þíns.
12 Lát þú óvini mína hverfa sakir trúfesti þinnar, ryð þeim öllum úr vegi, er að mér þrengja, því að ég er þjónn þinn.
36 Jójakím var tuttugu og fimm ára að aldri, þá er hann varð konungur, og ellefu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Sebúdda Pedajadóttir og var frá Rúma.
37 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört höfðu forfeður hans.
24 Á hans dögum fór Nebúkadnesar konungur í Babýlon herför þangað, og varð Jójakím honum lýðskyldur í þrjú ár. Síðan brá hann trúnaði við hann.
2 Þá sendi Drottinn í móti Jójakím ránsflokka Kaldea, ránsflokka Sýrlendinga, ránsflokka Móabíta og ránsflokka Ammóníta. Hann sendi þá gegn Júda til þess að eyða landið samkvæmt orði Drottins, því er hann hafði talað fyrir munn þjóna sinna, spámannanna.
3 Að boði Drottins fór svo fyrir Júda, til þess að hann gæti rekið þá burt frá augliti sínu sakir synda Manasse samkvæmt öllu því, er hann hafði gjört,
4 svo og sakir þess saklausa blóðs, er hann hafði úthellt, svo að hann fyllti Jerúsalem saklausu blóði _ það vildi Drottinn ekki fyrirgefa.
5 Það sem meira er að segja um Jójakím og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.
6 Og Jójakím lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og Jójakín sonur hans tók ríki eftir hann.
7 En Egyptalandskonungur fór enga herför framar úr landi sínu, því að konungurinn í Babýlon hafði unnið land allt frá Egyptalandsá að Efratfljóti, það er legið hafði undir Egyptalandskonung.
8 Jójakín var átján ára gamall, þá er hann varð konungur, og þrjá mánuði ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Nehústa Elnatansdóttir og var frá Jerúsalem.
9 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði faðir hans.
10 Um þær mundir fóru þjónar Nebúkadnesars, konungs í Babýlon, herför til Jerúsalem, og varð borgin í umsátri.
11 Og Nebúkadnesar Babelkonungur kom sjálfur til borgarinnar, þá er þjónar hans sátu um hana.
12 Gekk þá Jójakín Júdakonungur út á móti Babelkonungi ásamt móður sinni, þjónum sínum, herforingjum og hirðmönnum, og Babelkonungur tók hann höndum á áttunda ríkisstjórnarári hans.
13 Og hann flutti þaðan alla fjársjóðu musteris Drottins og fjársjóðu konungshallarinnar og tók gullið af öllum áhöldum, er Salómon Ísraelskonungur hafði gjöra látið í musteri Drottins, eins og Drottinn hafði sagt.
14 Og Nebúkadnesar herleiddi alla Jerúsalem og alla höfðingja og alla vopnfæra menn, tíu þúsund að tölu, svo og alla trésmiði og járnsmiði. Ekkert var eftir skilið nema almúgafólk landsins.
15 Og hann herleiddi Jójakín til Babýlon. Og konungsmóður og konur konungsins og hirðmenn hans og höfðingja landsins herleiddi hann og frá Jerúsalem til Babýlon.
16 Svo og alla vopnfæra menn, sjö þúsund að tölu, og trésmiði og járnsmiði, þúsund að tölu, er allir voru hraustir hermenn, _ þá herleiddi Nebúkadnesar til Babýlon.
17 Og konungurinn í Babýlon skipaði Mattanja föðurbróður Jójakíns konung í hans stað og breytti nafni hans í Sedekía.
12 Því að eins og líkaminn er einn og hefur marga limi, en allir limir líkamans, þótt margir séu, eru einn líkami, þannig er og Kristur.
13 Í einum anda vorum vér allir skírðir til að vera einn líkami, hvort sem vér erum Gyðingar eða Grikkir, þrælar eða frjálsir, og allir fengum vér einn anda að drekka.
14 Því að líkaminn er ekki einn limur, heldur margir.
15 Ef fóturinn segði: "Fyrst ég er ekki hönd, heyri ég ekki líkamanum til," þá er hann ekki fyrir það líkamanum óháður.
16 Og ef eyrað segði: "Fyrst ég er ekki auga, heyri ég ekki líkamanum til," þá er það ekki þar fyrir líkamanum óháð.
17 Ef allur líkaminn væri auga, hvar væri þá heyrnin? Ef hann væri allur heyrn, hvar væri þá ilmanin?
18 En nú hefur Guð sett hvern einstakan lim á líkamann eins og honum þóknaðist.
19 Ef allir limirnir væru einn limur, hvar væri þá líkaminn?
20 En nú eru limirnir margir, en líkaminn einn.
21 Augað getur ekki sagt við höndina: "Ég þarfnast þín ekki!" né heldur höfuðið við fæturna: "Ég þarfnast ykkar ekki!"
22 Nei, miklu fremur eru þeir limir á líkamanum nauðsynlegir, sem virðast vera í veikbyggðara lagi.
23 Og þeim, sem oss virðast vera í óvirðulegra lagi á líkamanum, þeim veitum vér því meiri sæmd, og þeim, sem vér blygðumst vor fyrir, sýnum vér því meiri blygðunarsemi.
24 Þess þarfnast hinir ásjálegu limir vorir ekki. En Guð setti líkamann svo saman, að hann gaf þeim, sem síðri var, því meiri sæmd,
25 til þess að ekki yrði ágreiningur í líkamanum, heldur skyldu limirnir bera sameiginlega umhyggju hver fyrir öðrum.
26 Og hvort heldur einn limur þjáist, þá þjást allir limirnir með honum, eða einn limur er í hávegum hafður, samgleðjast allir limirnir honum.
27 Þá er Jesús hélt þaðan, fóru tveir blindir menn eftir honum og kölluðu: "Miskunna þú okkur, sonur Davíðs."
28 Þegar hann kom heim, gengu blindu mennirnir til hans. Jesús spyr þá: "Trúið þið, að ég geti gjört þetta?" Þeir sögðu: "Já, herra."
29 Þá snart hann augu þeirra og mælti: "Verði ykkur að trú ykkar."
30 Og augu þeirra lukust upp. Jesús lagði ríkt á við þá og sagði: "Gætið þess, að enginn fái að vita þetta."
31 En þeir fóru og víðfrægðu hann í öllu því héraði.
32 Þegar þeir voru að fara, var komið til hans með mállausan mann, haldinn illum anda.
33 Og er illi andinn var út rekinn, tók málleysinginn að mæla. Mannfjöldinn undraðist og sagði: "Aldrei hefur þvílíkt sést í Ísrael."
34 En farísearnir sögðu: "Með fulltingi höfðingja illra anda rekur hann út illu andana."
by Icelandic Bible Society