Book of Common Prayer
120 Ég ákalla Drottin í nauðum mínum, og hann bænheyrir mig.
2 Drottinn, frelsa sál mína frá ljúgandi vörum, frá tælandi tungu.
3 Hversu mun fara fyrir þér nú og síðar, þú tælandi tunga?
4 Örvar harðstjórans eru hvesstar með glóandi viðarkolum.
5 Vei mér, að ég dvel hjá Mesek, bý hjá tjöldum Kedars.
6 Nógu lengi hefir sál mín búið hjá þeim er friðinn hata.
7 Þótt ég tali friðlega, vilja þeir ófrið.
121 Ég hef augu mín til fjallanna: Hvaðan kemur mér hjálp?
2 Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar.
3 Hann mun eigi láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki.
4 Nei, hann blundar ekki og sefur ekki, hann, vörður Ísraels.
5 Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar.
6 Um daga mun sólarhitinn eigi vinna þér mein, né heldur tunglið um nætur.
7 Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína.
8 Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.
122 Ég varð glaður, er menn sögðu við mig: "Göngum í hús Drottins."
2 Fætur vorir standa í hliðum þínum, Jerúsalem.
3 Jerúsalem, þú hin endurreista, borgin þar sem öll þjóðin safnast saman,
4 þangað sem kynkvíslirnar fara, kynkvíslir Drottins _ það er regla fyrir Ísrael _ til þess að lofa nafn Drottins,
5 því að þar standa dómarastólar, stólar fyrir Davíðs ætt.
6 Biðjið Jerúsalem friðar, hljóti heill þeir, er elska þig.
7 Friður sé kringum múra þína, heill í höllum þínum.
8 Sakir bræðra minna og vina óska ég þér friðar.
9 Sakir húss Drottins, Guðs vors, vil ég leita þér hamingju.
123 Til þín hef ég augu mín, þú sem situr á himnum.
2 Eins og augu þjónanna mæna á hönd húsbónda síns, eins og augu ambáttarinnar mæna á hönd húsmóður sinnar, svo mæna augu vor á Drottin, Guð vorn, uns hann líknar oss.
3 Líkna oss, Drottinn, líkna oss, því að vér höfum fengið meira en nóg af spotti.
4 Sál vor hefir fengið meira en nóg af háði hrokafullra, af spotti dramblátra.
124 Hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, _ skal Ísrael segja _
2 hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, þegar menn risu í móti oss,
3 þá hefðu þeir gleypt oss lifandi, þegar reiði þeirra bálaðist upp í móti oss.
4 Þá hefðu vötnin streymt yfir oss, elfur gengið yfir oss,
5 þá hefðu gengið yfir oss hin beljandi vötn.
6 Lofaður sé Drottinn, er ekki gaf oss tönnum þeirra að bráð.
7 Sál vor slapp burt eins og fugl úr snöru fuglarans. Brast snaran, burt sluppum vér.
8 Hjálp vor er í nafni Drottins, skapara himins og jarðar.
125 Þeir sem treysta Drottni eru sem Síonfjall, er eigi bifast, sem stendur að eilífu.
2 Fjöll eru kringum Jerúsalem, og Drottinn er kringum lýð sinn héðan í frá og að eilífu.
3 Því að veldissproti guðleysisins mun eigi hvíla á landi réttlátra, til þess að hinir réttlátu skuli eigi rétta fram hendur sínar til ranglætis.
4 Gjör þú góðum vel til, Drottinn, og þeim sem hjartahreinir eru.
5 En þá er beygja á krókóttar leiðir mun Drottinn láta hverfa með illgjörðamönnum. Friður sé yfir Ísrael!
126 Þegar Drottinn sneri við hag Síonar, þá var sem oss dreymdi.
2 Þá fylltist munnur vor hlátri, og tungur vorar fögnuði. Þá sögðu menn meðal þjóðanna: "Mikla hluti hefir Drottinn gjört við þá."
3 Drottinn hefir gjört mikla hluti við oss, vér vorum glaðir.
4 Snú við hag vorum, Drottinn, eins og þú gjörir við lækina í Suðurlandinu.
5 Þeir sem sá með tárum, munu uppskera með gleðisöng.
6 Grátandi fara menn og bera sæðið til sáningar, með gleðisöng koma þeir aftur og bera kornbindin heim.
127 Ef Drottinn byggir ekki húsið, erfiða smiðirnir til ónýtis. Ef Drottinn verndar eigi borgina, vakir vörðurinn til ónýtis.
2 Það er til ónýtis fyrir yður, þér sem snemma rísið og gangið seint til hvíldar og etið brauð, sem aflað er með striti: Svo gefur hann ástvinum sínum í svefni!
3 Sjá, synir eru gjöf frá Drottni, ávöxtur móðurkviðarins er umbun.
4 Eins og örvar í hendi kappans, svo eru synir getnir í æsku.
5 Sæll er sá maður, er fyllt hefir örvamæli sinn með þeim, þeir verða eigi til skammar, er þeir tala við óvini sína í borgarhliðinu.
22 Jósía var átta vetra gamall, þá er hann varð konungur, og þrjátíu og eitt ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jedída Adajadóttir og var frá Boskat.
2 Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, og fetaði algjörlega í fótspor Davíðs forföður síns og veik hvorki af til hægri né vinstri.
3 Á átjánda ríkisári Jósía konungs sendi konungur Safan Asaljason, Mesúllamssonar, kanslara, í musteri Drottins og sagði:
4 "Gakk þú til Hilkía æðsta prests og innsigla fé það, er borið hefir verið í musteri Drottins, það er dyraverðirnir hafa safnað saman af lýðnum,
5 og fá það í hendur verkstjórunum, þeim er umsjón hafa með musteri Drottins, þeir skulu fá það í hendur verkamönnunum, sem vinna að því í musteri Drottins að gjöra við skemmdir á musterinu,
6 trésmiðunum og byggingamönnunum og múrurunum, svo og til að kaupa fyrir við og höggna steina til þess að gjöra við musterið.
7 Þó er ekki haldinn reikningur við þá á fénu, sem þeim var fengið í hendur, heldur gjöra þeir það upp á æru og trú."
8 Þá mælti Hilkía æðsti prestur við Safan kanslara: "Ég hefi fundið lögbók í musteri Drottins." Og Hilkía fékk Safan bókina og hann las hana.
9 Síðan fór Safan kanslari til konungs og skýrði konungi frá erindislokum og mælti: "Þjónar þínir hafa látið af hendi fé það, er var í musteri Drottins, og fengið í hendur verkstjórunum, sem umsjón hafa með musteri Drottins."
10 Og Safan kanslari sagði konungi frá og mælti: "Hilkía prestur fékk mér bók." Og Safan las hana fyrir konungi.
11 En er konungur heyrði orð lögbókarinnar, reif hann klæði sín.
12 Og hann bauð þeim Hilkía presti, Ahíkam Safanssyni, Akbór Míkajasyni, Safan kanslara og Asaja konungsþjóni á þessa leið:
13 "Farið og gangið til frétta við Drottin fyrir mig og fyrir lýðinn og fyrir allan Júda um þessa nýfundnu bók, því að mikil er heift Drottins, sú er upptendruð er í gegn oss, af því að feður vorir hafa eigi hlýtt orðum bókar þessarar með því að gjöra að öllu svo sem skrifað er í henni."
2 Ég hrósa yður fyrir það, að þér í öllu minnist mín og haldið fast við kenningarnar, eins og ég flutti yður þær.
17 En um leið og ég áminni um þetta, get ég ekki hrósað yður fyrir samkomur yðar, sem eru fremur til ills en góðs.
18 Í fyrsta lagi heyri ég, að flokkadráttur eigi sér stað á meðal yðar, er þér komið saman á safnaðarsamkomum, og því trúi ég að nokkru leyti.
19 Víst verður að vera flokkaskipting á meðal yðar, til þess að þeir yðar þekkist úr, sem hæfir eru.
20 Þegar þér komið saman er það ekki til þess að neyta máltíðar Drottins,
21 því að við borðhaldið hrifsar hver sína máltíð, svo einn er hungraður, en annar drekkur sig ölvaðan.
22 Hafið þér þá ekki hús til að eta og drekka í? Eða fyrirlítið þér söfnuð Guðs og gjörið þeim kinnroða, sem ekkert eiga? Hvað á ég að segja við yður? Á ég að hæla yður fyrir þetta? Nei, ég hæli yður ekki.
9 Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar.
2 Þar færa menn honum lama mann, sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra, sagði hann við lama manninn: "Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar."
3 Nokkrir fræðimenn sögðu þá með sjálfum sér: "Hann guðlastar!"
4 En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: "Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar?
5 Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru fyrirgefnar` eða: ,Statt upp og gakk`?
6 En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér" _ og nú talar hann við lama manninn: "Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín!"
7 Og hann stóð upp og fór heim til sín.
8 En fólkið, sem horfði á þetta, varð ótta slegið og lofaði Guð, sem gefið hafði mönnum slíkt vald.
by Icelandic Bible Society