Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 26

26 Davíðssálmur. Lát mig ná rétti mínum, Drottinn, því að ég geng fram í grandvarleik og þér treysti ég óbifanlega.

Rannsaka mig, Drottinn, og reyn mig, prófa hug minn og hjarta.

Því að ég hefi elsku þína fyrir augum, og ég geng í sannleika þínum.

Ég tek mér eigi sæti hjá lygurum og hefi eigi umgengni við fláráða menn.

Ég hata söfnuð illvirkjanna, sit eigi meðal óguðlegra.

Ég þvæ hendur mínar í sakleysi og geng í kringum altari þitt, Drottinn,

til þess að láta lofsönginn hljóma og segja frá öllum þínum dásemdarverkum.

Drottinn, ég elska bústað húss þíns og staðinn þar sem dýrð þín býr.

Hríf eigi sál mína burt með syndurum né líf mitt með morðingjum,

10 þeim er hafa svívirðing í höndum sér og hægri höndina fulla af mútugjöfum.

11 En ég geng fram í grandvarleik, frelsa mig og líkna mér.

12 Fótur minn stendur á sléttri grund, í söfnuðunum vil ég lofa Drottin.

Sálmarnir 28

28 Davíðssálmur. Til þín, Drottinn, hrópa ég, þú bjarg mitt, ver eigi hljóður gagnvart mér. Ef þú þegir við mér, verð ég sem þeir, er til grafar eru gengnir.

Heyr þú á grátbeiðni mína, er ég hrópa til þín, er ég lyfti höndum mínum til Hins allrahelgasta í musteri þínu.

Hríf mig eigi á burt með óguðlegum og með illgjörðamönnum, þeim er tala vinsamlega við náunga sinn, en hafa illt í hyggju.

Launa þeim eftir verkum þeirra, eftir þeirra illu breytni, launa þeim eftir verkum handa þeirra, endurgjald þeim það er þeir hafa aðhafst.

Því að þeir hyggja eigi á verk Drottins né handaverk hans, hann rífi þá niður og reisi þá eigi við aftur.

Lofaður sé Drottinn, því að hann hefir heyrt grátbeiðni mína.

Drottinn er vígi mitt og skjöldur, honum treysti hjarta mitt. Ég hlaut hjálp, því fagnar hjarta mitt, og með ljóðum mínum lofa ég hann.

Drottinn er vígi lýð sínum og hjálparhæli sínum smurða.

Hjálpa lýð þínum og blessa eign þína, gæt þeirra og ber þá að eilífu.

Sálmarnir 36

36 Til söngstjórans. Eftir Davíð, þjón Drottins.

Rödd syndarinnar talar til hins guðlausa í fylgsnum hjarta hans, enginn guðsótti býr í huga hans.

Hún smjaðrar fyrir honum í augum hans og misgjörð hans verður uppvís og hann verður fyrir hatri.

Orðin af munni hans eru tál og svik, hann er hættur að vera hygginn og breyta vel.

Í hvílu sinni hyggur hann á tál, hann fetar vonda vegu, forðast eigi hið illa.

Drottinn, til himna nær miskunn þín, til skýjanna trúfesti þín.

Réttlæti þitt er sem fjöll Guðs, dómar þínir sem reginhaf. Mönnum og skepnum hjálpar þú, Drottinn.

Hversu dýrmæt er miskunn þín, ó Guð, mannanna börn leita hælis í skugga vængja þinna.

Þau seðjast af feiti húss þíns, og þú lætur þau drekka úr lækjum unaðsemda þinna.

10 Hjá þér er uppspretta lífsins, í þínu ljósi sjáum vér ljós.

11 Lát miskunn þína haldast við þá er þekkja þig, og réttlæti þitt við þá sem hjartahreinir eru.

12 Lát eigi fót hins hrokafulla troða á mér né hönd óguðlegra hrekja mig burt.

13 Þar eru illgjörðamennirnir fallnir, þeim er varpað um koll og þeir fá eigi risið upp aftur.

Sálmarnir 39

39 Til söngstjórans, eftir Jedútún. Davíðssálmur.

Ég sagði: "Ég vil gefa gætur að vegum mínum, að ég drýgi eigi synd með tungunni, ég vil leggja haft á munn minn, meðan hinn illgjarni er í nánd við mig."

Ég var hljóður og þagði, en kvöl mín ýfðist.

Hjartað brann í brjósti mér, við andvörp mín logaði eldurinn upp, ég sagði:

"Lát mig, Drottinn, sjá afdrif mín og hvað mér er útmælt af dögum, lát mig sjá, hversu skammær ég er.

Sjá, örfáar þverhendur hefir þú gjört daga mína, og ævi mín er sem ekkert fyrir þér. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]

Sem tómur skuggi gengur maðurinn um, gjörir háreysti um hégómann einan, hann safnar í hrúgur, en veit eigi hver þær hlýtur."

Hvers vona ég þá, Drottinn? Von mín er öll á þér.

Frelsa mig frá öllum syndum mínum, lát mig eigi verða heimskingjum að spotti.

10 Ég þegi, ég opna eigi munninn, því að þú hefir talað.

11 Lát plágu þína víkja frá mér, ég verð að engu fyrir krafti handar þinnar.

12 Þá er þú beitir hirtingu við manninn fyrir misgjörð hans, lætur þú yndisleik hans eyðast, sem mölur væri. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]

13 Heyr bæn mína, Drottinn, og hlýð á kvein mitt, ver eigi hljóður við tárum mínum, því að ég er aðkomandi hjá þér, útlendingur eins og allir feður mínir.

14 Lít af mér, svo að hýrna megi yfir mér, áður en ég fer burt og er eigi til framar.

Fyrri bók konunganna 8:65-9:9

65 Þannig hélt Salómon hátíðina og allur Ísrael með honum, mikill söfnuður, norðan þaðan er leið liggur til Hamat, allt suður til Egyptalandsár. Þeir héldu hátíð frammi fyrir Drottni, Guði vorum, í sjö daga, og aðra sjö daga, fjórtán daga alls.

66 En áttunda daginn lét hann fólkið frá sér fara. Og þeir kvöddu konung og fóru heim til sín, glaðir og í góðu skapi yfir öllum þeim gæðum, sem Drottinn hafði veitt Davíð þjóni sínum og lýð sínum Ísrael.

Þá er Salómon hafði lokið að byggja musteri Drottins og konungshöllina og allt annað, er hann fýsti að gjöra,

þá vitraðist Drottinn honum í annað sinn, eins og hann hafði vitrast honum í Gíbeon.

Og Drottinn sagði við hann: "Ég hefi heyrt bæn þína og grátbeiðni, sem þú barst fram fyrir mig. Ég hefi helgað þetta hús, sem þú hefir reist, með því að ég læt nafn mitt búa þar að eilífu, og augu mín og hjarta skulu dvelja þar alla daga.

Ef þú nú gengur fyrir augliti mínu, eins og Davíð faðir þinn gjörði, í hreinskilni hjartans og einlægni, svo að þú gjörir allt, sem ég hefi fyrir þig lagt, og heldur lög mín og ákvæði,

þá vil ég staðfesta hásæti konungdóms þíns yfir Ísrael að eilífu, eins og ég hét Davíð föður þínum, er ég sagði: ,Eigi skal þig vanta eftirmann í hásæti Ísraels.`

En ef þér snúið baki við mér, þér og synir yðar, og varðveitið eigi boðorð mín og lög, þau er ég hefi lagt fyrir yður, en farið og þjónið öðrum guðum og fallið fram fyrir þeim,

þá mun ég uppræta Ísrael úr því landi, sem ég gaf þeim, og húsinu, sem ég hefi helgað nafni mínu, mun ég burt snara frá augliti mínu, og Ísrael skal verða að orðskvið og spotti meðal allra þjóða.

Og þetta hús, svo háreist sem það er _ hver sem gengur fram hjá því, honum mun blöskra og hann mun blístra. Og er menn spyrja: ,Hvers vegna hefir Drottinn leikið svo hart þetta land og þetta hús?`

munu menn svara: ,Af því að þeir yfirgáfu Drottin, Guð sinn, er leiddi feður þeirra af Egyptalandi, og héldu sér að öðrum guðum, féllu fram fyrir þeim og þjónuðu þeim. Fyrir því hefir Drottinn leitt yfir þá alla þessa ógæfu."`

Hið almenna bréf Jakobs 2:14-26

14 Hvað stoðar það, bræður mínir, þótt einhver segist hafa trú, en hefur eigi verk? Mun trúin geta frelsað hann?

15 Ef bróðir eða systir eru nakin og vantar daglegt viðurværi

16 og einhver yðar segði við þau: "Farið í friði, vermið yður og mettið!" en þér gefið þeim ekki það, sem líkaminn þarfnast, hvað stoðar það?

17 Eins er líka trúin dauð í sjálfri sér, vanti hana verkin.

18 En nú segir einhver: "Einn hefur trú, annar verk." Sýn mér þá trú þína án verkanna, og ég skal sýna þér trúna af verkum mínum.

19 Þú trúir, að Guð sé einn. Þú gjörir vel. En illu andarnir trúa því líka og skelfast.

20 Fávísi maður! Vilt þú láta þér skiljast, að trúin er ónýt án verkanna?

21 Réttlættist ekki Abraham faðir vor af verkum, er hann lagði son sinn Ísak á altarið?

22 Þú sérð, að trúin var samtaka verkum hans og að trúin fullkomnaðist með verkunum.

23 Og ritningin rættist, sem segir: "Abraham trúði Guði, og það var honum til réttlætis reiknað," og hann var kallaður Guðs vinur.

24 Þér sjáið, að maðurinn réttlætist af verkum og ekki af trú einni saman.

25 Svo var og um skækjuna Rahab. Réttlættist hún ekki af verkum, er hún tók við sendimönnunum og lét þá fara burt aðra leið?

26 Eins og líkaminn er dauður án anda, eins er og trúin dauð án verka.

Markúsarguðspjall 14:66-72

66 Pétur var niðri í garðinum. Þar kom ein af þernum æðsta prestsins

67 og sá, hvar Pétur var að orna sér. Hún horfir á hann og segir: "Þú varst líka með manninum frá Nasaret, þessum Jesú."

68 Því neitaði hann og sagði: "Ekki veit ég né skil, hvað þú ert að fara." Og hann gekk út í forgarðinn, [en þá gól hani.]

69 Þar sá þernan hann og fór enn að segja við þá, sem hjá stóðu: "Þessi er einn af þeim."

70 En hann neitaði sem áður. Litlu síðar sögðu þeir, er hjá stóðu enn við Pétur: "Víst ertu einn af þeim, enda ertu Galíleumaður."

71 En hann sór og sárt við lagði: "Ég þekki ekki þennan mann, sem þér talið um."

72 Um leið gól hani annað sinn, og Pétur minntist þess, er Jesús hafði mælt við hann: "Áður en hani galar tvisvar muntu þrisvar afneita mér." Þá fór hann að gráta.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society