Add parallel Print Page Options

70 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Minningarljóð.

Guð, lát þér þóknast að frelsa mig, Drottinn, skunda mér til hjálpar.

Lát þá verða til skammar og hljóta kinnroða, er sitja um líf mitt, lát þá hverfa aftur með skömm, er óska mér ógæfu.

Lát þá hörfa undan sakir smánar sinnar, er hrópa háð og spé.

En allir þeir er leita þín, skulu gleðjast og fagna yfir þér, þeir er unna hjálpræði þínu, skulu sífellt segja: "Vegsamaður sé Guð!"

Ég er þjáður og snauður, hraða þér til mín, ó Guð. Þú ert fulltingi mitt og frelsari, dvel eigi, Drottinn!

71 Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar.

Frelsa mig og bjarga mér eftir réttlæti þínu, hneig eyru þín til mín og hjálpa mér.

Ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar, því að þú ert bjarg mitt og vígi.

Guð minn, bjarga mér úr hendi illgjarnra, undan valdi illvirkja og harðstjóra.

Því að þú ert von mín, þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku.

Við þig hefi ég stuðst frá móðurlífi, frá móðurskauti hefir þú verið skjól mitt, um þig hljómar ætíð lofsöngur minn.

Ég er mörgum orðinn sem undur, en þú ert mér öruggt hæli.

Munnur minn er fullur af lofstír þínum, af dýrð þinni daginn allan.

Útskúfa mér eigi í elli minni, yfirgef mig eigi, þá er þróttur minn þverrar.

10 Því að óvinir mínir tala um mig, þeir er sitja um líf mitt, bera ráð sín saman:

11 "Guð hefir yfirgefið hann. Eltið hann og grípið hann, því að enginn bjargar."

12 Guð, ver eigi fjarri mér, Guð minn, skunda til liðs við mig.

13 Lát þá er sýna mér fjandskap farast með skömm, lát þá íklæðast háðung og svívirðing, er óska mér ógæfu.

14 En ég vil sífellt vona og auka enn á allan lofstír þinn.

15 Munnur minn skal segja frá réttlæti þínu, frá hjálpsemdum þínum allan daginn, því að ég veit eigi tölu á þeim.

16 Ég vil segja frá máttarverkum Drottins, ég vil boða réttlæti þitt, það eitt.

17 Guð, þú hefir kennt mér frá æsku, og allt til þessa kunngjöri ég dásemdarverk þín.

18 Yfirgef mig eigi, ó Guð, þegar ég er gamall orðinn og grár fyrir hærum, að ég megi kunngjöra styrkleik þinn komandi kynslóð.

19 Máttur þinn og réttlæti þitt, ó Guð, nær til himins, þú sem hefir framið stórvirki, Guð, hver er sem þú?

20 Þú sem hefir látið oss horfa upp á miklar nauðir og ógæfu, þú munt láta oss lifna við að nýju og láta oss aftur stíga upp úr undirdjúpum jarðar.

21 Þú munt auka við tign mína og aftur veita mér huggun.

22 Þá vil ég lofa trúfesti þína með hörpuleik, Guð minn, leika á gígju fyrir þér, þú Hinn heilagi í Ísrael.

23 Varir mínar skulu fagna, er ég leik fyrir þér, og sál mín er þú hefir leyst.

24 Þá skal og tunga mín tala um réttlæti þitt liðlangan daginn, því að þeir urðu til skammar, já hlutu kinnroða, er óskuðu mér ógæfu.

22 Vér vitum, að öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa.

23 En ekki einungis hún, heldur og vér, sem höfum frumgróða andans, jafnvel vér stynjum með sjálfum oss meðan vér bíðum þess, að Guð gefi oss barnarétt og endurleysi líkami vora.

24 Því að í voninni erum vér hólpnir orðnir. Von, er sést, er ekki von, því að hver vonar það, sem hann sér?

25 En ef vér vonum það, sem vér sjáum ekki, þá bíðum vér þess með þolinmæði.

26 Þannig hjálpar og andinn oss í veikleika vorum. Vér vitum ekki, hvers vér eigum að biðja eins og ber, en sjálfur andinn biður fyrir oss með andvörpum, sem ekki verður orðum að komið.

27 En hann, sem hjörtun rannsakar, veit hver er hyggja andans, að hann biður fyrir heilögum eftir vilja Guðs.

28 Vér vitum, að þeim, sem Guð elska, samverkar allt til góðs, þeim sem kallaðir eru samkvæmt ákvörðun Guðs.

29 Því að þá, sem hann þekkti fyrirfram, hefur hann og fyrirhugað til þess að líkjast mynd sonar síns, svo að hann sé frumburður meðal margra bræðra.

30 Þá sem hann fyrirhugaði, þá hefur hann og kallað, og þá sem hann kallaði, hefur hann og réttlætt, en þá sem hann réttlætti, hefur hann einnig vegsamlega gjört.

31 Hvað eigum vér þá að segja við þessu? Ef Guð er með oss, hver er þá á móti oss?

32 Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni, heldur framseldi hann fyrir oss alla, hví skyldi hann ekki líka gefa oss allt með honum?

33 Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Guð sýknar.

34 Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá, sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir oss.

35 Hver mun gjöra oss viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð?

36 Það er eins og ritað er: Þín vegna erum vér deyddir allan daginn, erum metnir sem sláturfé.

37 Nei, í öllu þessu vinnum vér fullan sigur fyrir fulltingi hans, sem elskaði oss.

38 Því að ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar,

39 hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum.

Read full chapter