A A A A A
Bible Book List

Sálmarnir 54-56 Icelandic Bible (ICELAND)

54 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Maskíl eftir Davíð,

þá er Sifítar komu og sögðu við Sál: Veistu að Davíð felur sig hjá oss?

Hjálpa mér, Guð, með nafni þínu, rétt hlut minn með mætti þínum.

Guð, heyr þú bæn mína, ljá eyra orðum munns míns.

Því að erlendir fjandmenn hefjast gegn mér og ofríkismenn sækjast eftir lífi mínu, eigi hafa þeir Guð fyrir augum. [Sela]

Sjá, Guð er mér hjálpari, það er Drottinn er styður mig.

Hið illa mun fjandmönnum mínum í koll koma, lát þá hverfa af trúfesti þinni.

Þá vil ég færa þér sjálfviljafórnir, lofa nafn þitt, Drottinn, að það sé gott,

því að það hefir frelsað mig úr hverri neyð, og auga mitt hefir svalað sér á að horfa á óvini mína.

55 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðs-maskíl.

Hlýð, ó Guð, á bæn mína, fel þig eigi fyrir grátbeiðni minni.

Veit mér athygli og svara mér. Ég kveina í harmi mínum og styn

sakir háreysti óvinarins, sakir hróps hins óguðlega, því að þeir steypa yfir mig ógæfu og ofsækja mig grimmilega.

Hjartað berst ákaft í brjósti mér, ógnir dauðans falla yfir mig,

ótti og skelfing er yfir mig komin, og hryllingur fer um mig allan,

svo að ég segi: "Ó að ég hefði vængi eins og dúfan, þá skyldi ég fljúga burt og finna hvíldarstað,

já, ég skyldi svífa langt burt, ég skyldi gista í eyðimörkinni. [Sela]

Ég skyldi flýta mér að leita mér hælis fyrir þjótandi vindum og veðri."

10 Rugla, Drottinn, sundra tungum þeirra, því að ég sé kúgun og deilur í borginni.

11 Dag og nótt ganga þær um á múrum hennar, en ógæfa og armæða eru þar inni fyrir.

12 Glötun er inni í henni, ofbeldi og svik víkja eigi burt frá torgi hennar.

13 Því að það er eigi óvinur sem hæðir mig _ það gæti ég þolað, og eigi hatursmaður minn er hreykir sér yfir mig _ fyrir honum gæti ég farið í felur,

14 heldur þú, jafningi minn, vinur minn og kunningi,

15 við sem vorum ástúðarvinir, sem gengum í eindrægni saman í Guðs hús.

16 Dauðinn komi yfir þá; stígi þeir lifandi niður til Heljar, því að illska er í bústöðum þeirra, í hjörtum þeirra.

17 En ég hrópa til Guðs, og Drottinn mun hjálpa mér.

18 Kvöld og morgna og um miðjan dag harma ég og styn, og hann heyrir raust mína.

19 Hann endurleysir sál mína og gefur mér frið, svo að þeir geta eigi nálgast mig, því að mótstöðumenn mínir eru margir.

20 Guð mun heyra, og hann er ríkir frá eilífð mun lægja þá. [Sela] Þeir breytast ekki og óttast eigi Guð.

21 Vinur minn lagði hendur á þann er lifði í sátt við hann, hann rauf sáttmál sitt.

22 Hálli en smjör er tunga hans, en ófriður er í hjarta hans, mýkri en olía eru orð hans, og þó brugðin sverð.

23 Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum.

24 Og þú, ó Guð, munt steypa þeim niður í grafardjúpið. Morðingjar og svikarar munu eigi ná hálfum aldri, en ég treysti þér.

56 Til söngstjórans. Lag: Dúfan í fjarlægum eikilundi. Miktam eftir Davíð, þá er Filistar gripu hann í Gat.

Ver mér náðugur, Guð, því að menn kremja mig, liðlangan daginn kreppa bardagamenn að mér.

Fjandmenn mínir kremja mig liðlangan daginn, því að margir eru þeir, sem berjast gegn mér.

Þegar ég er hræddur, treysti ég þér.

Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans, Guði treysti ég, ég óttast eigi. Hvað getur hold gjört mér?

Þeir spilla málefnum mínum án afláts, allt það er þeir hafa hugsað í gegn mér, er til ills.

Þeir áreita mig, þeir sitja um mig, þeir gefa gætur að ferðum mínum, eins og þeir væntu eftir að ná lífi mínu.

Sakir ranglætis þeirra verður þeim engrar undankomu auðið, steyp þjóðunum í reiði þinni, ó Guð.

Þú hefir talið hrakninga mína, tárum mínum er safnað í sjóð þinn, já, rituð í bók þína.

10 Fyrir því skulu óvinir mínir hörfa undan, er ég hrópa, það veit ég, að Guð liðsinnir mér.

11 Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans, með hjálp Drottins mun ég lofa orð hans.

12 Guði treysti ég, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?

13 Á mér hvíla, ó Guð, heit við þig, ég vil gjalda þér þakkarfórnir,

14 af því þú hefir frelsað sál mína frá dauða og fætur mína frá hrösun, svo að ég megi ganga frammi fyrir Guði í ljósi lífsins.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Bréf Páls til Rómverja 3 Icelandic Bible (ICELAND)

Hvað hefur þá Gyðingurinn fram yfir? Eða hvert er gagn umskurnarinnar?

Mikið á allan hátt. Fyrst er þá það, að þeim hefur verið trúað fyrir orðum Guðs.

Hvað um það, þótt nokkrir hafi reynst ótrúir? Mundi ótrúmennska þeirra að engu gjöra trúfesti Guðs?

Fjarri fer því. Guð skal reynast sannorður, þótt hver maður reyndist lygari, eins og ritað er: "Til þess að þú reynist réttlátur í orðum þínum og vinnir, þegar þú átt mál að verja."

En ef ranglæti vort sannar réttlæti Guðs, hvað eigum vér þá að segja? Hvort mundi Guð vera ranglátur, er hann lætur reiðina yfir dynja? _ Ég tala á mannlegan hátt. _

Fjarri fer því. Hvernig ætti Guð þá að dæma heiminn?

En verði sannleiki Guðs fyrir lygi mína skýrari honum til dýrðar, hvers vegna dæmist ég þá enn sem syndari?

Eigum vér þá ekki að gjöra hið illa, til þess að hið góða komi fram? Sumir bera oss þeim óhróðri að vér kennum þetta. Þeir munu fá verðskuldaðan dóm.

Hvað þá? Höfum vér þá nokkuð fram yfir? Nei, alls ekki. Vér höfum áður gefið bæði Gyðingum og Grikkjum að sök, að þeir væru allir undir synd.

10 Eins og ritað er: Ekki er neinn réttlátur, ekki einn.

11 Ekki er neinn vitur, ekki neinn sem leitar Guðs.

12 Allir eru þeir fallnir frá, allir saman ófærir orðnir. Ekki er neinn sem auðsýnir gæsku, ekki einn einasti.

13 Opin gröf er barki þeirra, með tungum sínum draga þeir á tálar. Höggorma eitur er innan vara þeirra,

14 munnur þeirra er fullur bölvunar og beiskju.

15 Hvatir eru þeir í spori að úthella blóði.

16 Tortíming og eymd er í slóð þeirra,

17 og veg friðarins þekkja þeir ekki.

18 Fyrir augum þeirra er enginn guðsótti.

19 Vér vitum, að allt sem lögmálið segir, það talar það til þeirra sem eru undir lögmálinu, til þess að sérhver munnur þagni og allur heimurinn verði sekur fyrir Guði,

20 með því að enginn lifandi maður réttlætist fyrir honum af lögmálsverkum. En fyrir lögmál kemur þekking syndar.

21 En nú hefur réttlæti Guðs, sem lögmálið og spámennirnir vitna um, verið opinberað án lögmáls.

22 Það er: Réttlæti Guðs fyrir trú á Jesú Krist öllum þeim til handa, sem trúa. Hér er enginn greinarmunur:

23 Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð,

24 og þeir réttlætast án verðskuldunar af náð hans fyrir endurlausnina, sem er í Kristi Jesú.

25 Guð setti hann fram, að hann með blóði sínu væri sáttarfórn þeim sem trúa. Þannig sýndi Guð réttlæti sitt, því að hann hafði í umburðarlyndi sínu umborið hinar áður drýgðu syndir,

26 til þess að auglýsa réttlæti sitt á yfirstandandi tíma, að hann sé sjálfur réttlátur og réttlæti þann, sem trúir á Jesú.

27 Hvar er þá hrósunin? Hún er úti lokuð. Með hvaða lögmáli? Verkanna? Nei, heldur með lögmáli trúar.

28 Vér ályktum því, að maðurinn réttlætist af trú án lögmálsverka.

29 Eða er Guð einungis Guð Gyðinga? Ekki líka heiðingja? Jú, líka heiðingja;

30 svo sannarlega sem Guð er einn, sem mun réttlæta umskorna menn af trú og óumskorna fyrir trúna.

31 Gjörum vér þá lögmálið að engu með trúnni? Fjarri fer því. Vér staðfestum lögmálið.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes