Add parallel Print Page Options

33 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni! Hreinlyndum hæfir lofsöngur.

Lofið Drottin með gígjum, leikið fyrir honum á tístrengjaða hörpu.

Syngið honum nýjan söng, knýið strengina ákaft með fagnaðarópi.

Því að orð Drottins er áreiðanlegt, og öll verk hans eru í trúfesti gjörð.

Hann hefir mætur á réttlæti og rétti, jörðin er full af miskunn Drottins.

Fyrir orð Drottins voru himnarnir gjörðir og öll þeirra prýði fyrir anda munns hans.

Hann safnaði vatni hafsins sem í belg, lét straumana í forðabúr.

Öll jörðin óttist Drottin, allir heimsbúar hræðist hann,

því að hann talaði _ og það varð, hann bauð _ þá stóð það þar.

10 Drottinn ónýtir ráð þjóðanna, gjörir að engu áform lýðanna,

11 en ráð Drottins stendur stöðugt um aldur, áform hjarta hans frá kyni til kyns.

12 Sæl er sú þjóð er á Drottin að Guði, sá lýður er hann hefir kjörið sér til eignar.

13 Drottinn lítur niður af himni, sér öll mannanna börn,

14 frá bústað sínum virðir hann fyrir sér alla jarðarbúa,

15 hann sem myndað hefir hjörtu þeirra allra og gefur gætur að öllum athöfnum þeirra.

16 Eigi sigrar konungurinn fyrir gnótt herafla síns, eigi bjargast kappinn fyrir ofurafl sitt.

17 Svikull er víghestur til sigurs, með ofurafli sínu bjargar hann ekki.

18 En augu Drottins hvíla á þeim er óttast hann, á þeim er vona á miskunn hans.

19 Hann frelsar þá frá dauða og heldur lífinu í þeim í hallæri.

20 Sálir vorar vona á Drottin, hann er hjálp vor og skjöldur.

21 Já, yfir honum fagnar hjarta vort, hans heilaga nafni treystum vér.

22 Miskunn þín, Drottinn, sé yfir oss, svo sem vér vonum á þig.

34 Sálmur Davíðs, þá er hann gjörði sér upp vitfirringu frammi fyrir Abímelek, svo að Abímelek rak hann í burt, og hann fór burt.

Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni.

Sál mín hrósar sér af Drottni, hinir hógværu skulu heyra það og fagna.

Miklið Drottin ásamt mér, tignum í sameiningu nafn hans.

Ég leitaði Drottins, og hann svaraði mér, frelsaði mig frá öllu því er ég hræddist.

Lítið til hans og gleðjist, og andlit yðar skulu eigi blygðast.

Hér er volaður maður sem hrópaði, og Drottinn heyrði hann og hjálpaði honum úr öllum nauðum hans.

Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá.

Finnið og sjáið, að Drottinn er góður, sæll er sá maður er leitar hælis hjá honum.

10 Óttist Drottin, þér hans heilögu, því að þeir er óttast hann líða engan skort.

11 Ung ljón eiga við skort að búa og svelta, en þeir er leita Drottins fara einskis góðs á mis.

12 Komið, börn, hlýðið á mig, ég vil kenna yður ótta Drottins.

13 Ef einhver óskar lífs, þráir lífdaga til þess að njóta hamingjunnar,

14 þá varðveit tungu þína frá illu og varir þínar frá svikatali,

15 forðast illt og gjörðu gott, leita friðar og legg stund á hann.

16 Augu Drottins hvíla á réttlátum, og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra.

17 Auglit Drottins horfir á þá er illa breyta, til þess að afmá minningu þeirra af jörðunni.

18 Ef réttlátir hrópa, þá heyrir Drottinn, úr öllum nauðum þeirra frelsar hann þá.

19 Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.

20 Margar eru raunir réttláts manns, en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum.

21 Hann gætir allra beina hans, ekki eitt af þeim skal brotið.

22 Ógæfa drepur óguðlegan mann, þeir er hata hinn réttláta, skulu sekir dæmdir.

23 Drottinn frelsar líf þjóna sinna, enginn sá er leitar hælis hjá honum, mun sekur dæmdur.

24 Fimm dögum síðar fór Ananías æðsti prestur ofan þangað og með honum nokkrir öldungar og Tertúllus nokkur málafærslumaður. Þeir báru sakir á Pál fyrir landstjóranum.

Hann var nú kallaður fyrir, en Tertúllus hóf málsóknina og sagði: "Fyrir þitt tilstilli, göfugi Felix, sitjum vér í góðum friði, og þjóð vor hefur sakir þinnar forsjár öðlast umbætur í öllum greinum og alls staðar.

Þetta viðurkennum vér mjög þakksamlega.

En svo að ég tefji þig sem minnst, bið ég, að þú af mildi þinni viljir heyra oss litla hríð.

Vér höfum komist að raun um, að maður þessi er skaðræði, kveikir ófrið með öllum Gyðingum um víða veröld og er forsprakki villuflokks Nasarea.

Hann reyndi meira að segja að vanhelga musterið, og þá tókum vér hann höndum.

Með því að yfirheyra hann mátt þú sjálfur ganga úr skugga um öll sakarefni vor gegn honum."

Gyðingarnir tóku undir sakargiftirnar og kváðu þetta rétt vera.

10 Landstjórinn benti þá Páli að taka til máls. Hann sagði: "Kunnugt er mér um, að þú hefur verið dómari þessarar þjóðar í mörg ár. Mun ég því ótrauður verja mál mitt.

11 Þú getur og gengið úr skugga um, að ekki eru nema tólf dagar síðan ég kom upp til Jerúsalem að biðjast fyrir.

12 Og enginn hefur staðið mig að því að vera að stæla við neinn eða æsa fólk til óspekta, hvorki í samkunduhúsunum né neins staðar í borginni.

13 Þeir geta ekki heldur sannað þér það, sem þeir eru nú að kæra mig um.

14 En hitt skal ég játa þér, að ég þjóna Guði feðra vorra samkvæmt veginum, sem þeir kalla villu, og trúi öllu því, sem skrifað stendur í lögmálinu og spámönnunum.

15 Og þá von hef ég til Guðs, sem þeir og sjálfir hafa, að upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir.

16 Því tem ég mér og sjálfur að hafa jafnan hreina samvisku fyrir Guði og mönnum.

17 Eftir margra ára fjarveru kom ég til að færa fólki mínu ölmusugjafir og til að fórna.

18 Þetta var ég að gjöra í helgidóminum og hafði látið hreinsast, og enginn var þá mannsöfnuður né uppþot, þegar menn komu að mér.

19 Þar voru Gyðingar nokkrir frá Asíu. Þeir hefðu átt að koma fyrir þig og bera fram kæru, hefðu þeir fundið mér eitthvað til saka.

20 Annars skulu þessir, sem hér eru, segja til, hvað saknæmt þeir fundu, þegar ég stóð fyrir ráðinu.

21 Nema það sé þetta eina, sem ég hrópaði, þegar ég stóð meðal þeirra: ,Fyrir upprisu dauðra er ég lögsóttur í dag frammi fyrir yður."`

22 Felix, sem var vel kunnugt um veginn, frestaði nú málinu, og mælti: "Þegar Lýsías hersveitarforingi kemur ofan hingað, skal ég skera úr máli yðar."

23 Hann bauð hundraðshöfðingjanum að hafa Pál í vægu varðhaldi og varna engum félaga hans að vitja um hann.

24 Nokkrum dögum seinna kom Felix með eiginkonu sinni, Drúsillu. Hún var Gyðingur. Hann lét sækja Pál og hlýddi á mál hans um trúna á Krist Jesú.

25 En er hann ræddi um réttlæti, sjálfsögun og komandi dóm, varð Felix skelkaður og mælti: "Far burt að sinni. Ég læt kalla þig, þegar ég fæ tóm til."

26 Meðfram gjörði hann sér von um, að Páll mundi gefa sér fé. Því var það, að hann lét alloft sækja hann og átti tal við hann.

27 Þegar tvö ár voru liðin, tók Porkíus Festus við landstjórn af Felix. Felix vildi koma sér vel við Gyðinga og lét því Pál eftir í haldi.