A A A A A
Bible Book List

Sálmarnir 20-22 Icelandic Bible (ICELAND)

20 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Drottinn bænheyri þig á degi neyðarinnar, nafn Jakobs Guðs bjargi þér.

Hann sendi þér hjálp frá helgidóminum, styðji þig frá Síon.

Hann minnist allra fórnargjafa þinna og taki brennifórn þína gilda. [Sela]

Hann veiti þér það er hjarta þitt þráir, og veiti framgang öllum áformum þínum.

Ó að vér mættum fagna yfir sigri þínum og veifa fánanum í nafni Guðs vors. Drottinn uppfylli allar óskir þínar.

Nú veit ég, að Drottinn veitir hjálp sínum smurða, svarar honum frá sínum helga himni, í máttarverkum kemur fulltingi hægri handar hans fram.

Hinir stæra sig af vögnum sínum og stríðshestum, en vér af nafni Drottins, Guðs vors.

Þeir fá knésig og falla, en vér rísum og stöndum uppréttir.

10 Drottinn! Hjálpa konunginum og bænheyr oss, er vér hrópum.

21 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Drottinn, yfir veldi þínu fagnar konungurinn, hve mjög kætist hann yfir hjálp þinni!

Þú hefir gefið honum það er hjarta hans þráði, um það sem varir hans báðu, neitaðir þú honum eigi. [Sela]

Því að þú kemur í móti honum með hamingjublessunum, setur gullna kórónu á höfuð honum.

Um líf bað hann þig, það veittir þú honum, fjöld lífdaga um aldur og ævi.

Mikil er sæmd hans fyrir þína hjálp, vegsemd og heiður veittir þú honum.

Já, þú hefir veitt honum blessun að eilífu, þú gleður hann með fögnuði fyrir augliti þínu.

Því að konungurinn treystir Drottni, og vegna elsku Hins hæsta bifast hann eigi.

Hönd þín nær til allra óvina þinna, hægri hönd þín nær til allra hatursmanna þinna.

10 Þú gjörir þá sem glóandi ofn, er þú lítur á þá. Drottinn tortímir þeim í reiði sinni, og eldurinn eyðir þeim.

11 Ávöxtu þeirra afmáir þú af jörðunni og afkvæmi þeirra úr mannheimi,

12 því að þeir hafa stofnað ill ráð í gegn þér, búið fánýtar vélar.

13 Því að þú rekur þá á flótta, miðar á andlit þeirra með boga þínum.

14 Hef þig, Drottinn, í veldi þínu! Vér viljum syngja og kveða um máttarverk þín!

22 Til söngstjórans. Lag: Hind morgunroðans. Davíðssálmur.

Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig? Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg.

"Guð minn!" hrópa ég um daga, en þú svarar ekki, og um nætur, en ég finn enga fró.

Og samt ert þú Hinn heilagi, sá er ríkir uppi yfir lofsöngvum Ísraels.

Þér treystu feður vorir, þeir treystu þér, og þú hjálpaðir þeim,

til þín hrópuðu þeir, og þeim var bjargað, þér treystu þeir og urðu ekki til skammar.

En ég er maðkur og eigi maður, til spotts fyrir menn og fyrirlitinn af lýðnum.

Allir þeir er sjá mig gjöra gys að mér, bregða grönum og hrista höfuðið.

"Hann fól málefni sitt Drottni. Hann hjálpi honum! hann frelsi hann, því að hann hefir þóknun á honum!"

10 Já, þú leiddir mig fram af móðurlífi, lést mig liggja öruggan við brjóst móður minnar.

11 Til þín var mér varpað frá móðurskauti, frá móðurlífi ert þú Guð minn.

12 Ver eigi fjarri mér, því að neyðin er nærri, og enginn hjálpar.

13 Sterk naut umkringja mig, Basans uxar slá hring um mig.

14 Þeir glenna upp ginið í móti mér sem bráðsólgið, öskrandi ljón.

15 Mér er hellt út sem vatni, og öll bein mín eru gliðnuð sundur; hjarta mitt er sem vax, bráðnað sundur í brjósti mér;

16 gómur minn er þurr sem brenndur leir, og tungan loðir föst í munni mér. Og í duft dauðans leggur þú mig.

17 Því að hundar umkringja mig, hópur illvirkja slær hring um mig, hendur mínar og fætur hafa þeir gegnumstungið.

18 Ég get talið öll mín bein _ þeir horfa á og hafa mig að augnagamni,

19 þeir skipta með sér klæðum mínum og kasta hlut um kyrtil minn.

20 En þú, ó Drottinn, ver eigi fjarri! þú styrkur minn, skunda mér til hjálpar,

21 frelsa líf mitt undan sverðinu og sál mína undan hundunum.

22 Frelsa mig úr gini ljónsins, frá hornum vísundarins. Þú hefir bænheyrt mig!

23 Ég vil kunngjöra bræðrum mínum nafn þitt, í söfnuðinum vil ég lofa þig!

24 Þér sem óttist Drottin, lofið hann! Tignið hann, allir niðjar Jakobs! Dýrkið hann, allir niðjar Ísraels!

25 Því að hann hefir eigi fyrirlitið né virt að vettugi neyð hins hrjáða og eigi hulið auglit sitt fyrir honum, heldur heyrt, er hann hrópaði til hans.

26 Frá þér kemur lofsöngur minn í stórum söfnuði, heit mín vil ég efna frammi fyrir þeim er óttast hann.

27 Snauðir munu eta og verða mettir, þeir er leita Drottins munu lofa hann. Hjörtu yðar lifni við að eilífu.

28 Endimörk jarðar munu minnast þess og hverfa aftur til Drottins og allar ættir þjóðanna falla fram fyrir augliti hans.

29 Því að ríkið heyrir Drottni, og hann er drottnari yfir þjóðunum.

30 Já, fyrir honum munu öll stórmenni jarðar falla fram, fyrir honum munu beygja sig allir þeir er hníga í duftið. En ég vil lifa honum,

31 niðjar mínir munu þjóna honum. Komandi kynslóðum mun sagt verða frá Drottni,

32 og lýð sem enn er ófæddur mun boðað réttlæti hans, að hann hefir framkvæmt það.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Postulasagan 21:1-17 Icelandic Bible (ICELAND)

21 Þegar vér höfðum slitið oss frá þeim, létum vér í haf og héldum beina leið til Kós, næsta dag til Ródus og þaðan til Patara.

Þar hittum vér á skip, er fara átti til Fönikíu. Stigum vér á það og létum í haf.

Vér höfðum landsýn af Kýpur, létum hana á bakborða og sigldum til Sýrlands og tókum höfn í Týrus. Þar átti skipið að leggja upp farminn.

Vér fundum lærisveinana og dvöldumst þar sjö daga. Þeir sögðu Páli af gift andans, að hann skyldi ekki halda áfram til Jerúsalem.

Að þessum dögum liðnum lögðum vér af stað. Fylgdu þeir oss allir á veg með konum og börnum út fyrir borgina. Vér féllum á kné í fjörunni og báðumst fyrir.

Þar kvöddumst vér. Vér stigum á skip, en hinir sneru aftur heim til sín.

Vér komum til Ptólemais frá Týrus og lukum þar sjóferðinni. Vér heilsuðum bræðrunum og dvöldumst hjá þeim einn dag.

Daginn eftir fórum vér þaðan og komum til Sesareu, gengum inn í hús Filippusar trúboða, sem var einn af þeim sjö, og dvöldumst hjá honum.

Hann átti fjórar ógiftar dætur, gæddar spádómsgáfu.

10 Þegar vér höfðum dvalist þar nokkra daga, kom spámaður einn ofan frá Júdeu, Agabus að nafni.

11 Hann kom til vor, tók belti Páls, batt fætur sína og hendur og mælti: "Svo segir heilagur andi: ,Þannig munu Gyðingar í Jerúsalem binda þann mann, sem þetta belti á, og selja hann í hendur heiðingjum."`

12 Þegar vér heyrðum þetta, lögðum vér og heimamenn að Páli að fara ekki upp til Jerúsalem.

13 En hann sagði: "Hví grátið þér og hrellið hjarta mitt? Ég er eigi aðeins reiðubúinn að láta binda mig, heldur og að deyja í Jerúsalem fyrir nafn Drottins Jesú."

14 Honum varð eigi talið hughvarf. Þá létum vér kyrrt og sögðum: "Verði Drottins vilji."

15 Að þessum dögum liðnum bjuggumst vér til ferðar og héldum upp til Jerúsalem.

16 Nokkrir lærisveinar frá Sesareu urðu oss samferða. Þeir fóru með oss til Mnasons nokkurs frá Kýpur, lærisveins frá elstu tíð, og skyldum vér gista hjá honum.

17 Þegar vér komum til Jerúsalem, tóku bræðurnir oss feginsamlega.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes