A A A A A
Bible Book List

Sálmarnir 16-17 Icelandic Bible (ICELAND)

16 Davíðs-miktam. Varðveit mig, Guð, því að hjá þér leita ég hælis.

Ég segi við Drottin: "Þú ert Drottinn minn, ég á engin gæði nema þig."

Á hinum heilögu sem í landinu eru og hinum dýrlegu _ á þeim hefi ég alla mína velþóknun.

Miklar eru þjáningar þeirra, er kjörið hafa sér annan guð. Ég vil eigi dreypa þeirra blóðugu dreypifórnum og eigi taka nöfn þeirra mér á varir.

Drottinn er hlutskipti mitt og minn afmældi bikar; þú heldur uppi hlut mínum.

Mér féllu að erfðahlut indælir staðir, og arfleifð mín líkar mér vel.

Ég lofa Drottin, er mér hefir ráð gefið, jafnvel um nætur er ég áminntur hið innra.

Ég hefi Drottin ætíð fyrir augum, þegar hann er mér til hægri handar, skriðnar mér ekki fótur.

Fyrir því fagnar hjarta mitt, sál mín gleðst, og líkami minn hvílist í friði,

10 því að þú ofurselur Helju eigi líf mitt, leyfir eigi að þinn trúaði sjái gröfina.

11 Kunnan gjörir þú mér veg lífsins, gleðignótt er fyrir augliti þínu, yndi í hægri hendi þinni að eilífu.

17 Bæn Davíðs. Heyr, Drottinn, á réttvíst málefni, hlýð á hróp mitt, ljá eyra bæn minni, er ég flyt með tállausum vörum.

Lát rétt minn út ganga frá augliti þínu, augu þín sjá hvað rétt er.

Þá er þú rannsakar hjarta mitt, prófar það um nætur, reynir mig í eldi, þá finnur þú engar illar hugsanir hjá mér, munnur minn heldur sér í skefjum.

Hvað sem aðrir gjöra, þá hefi ég eftir orði vara þinna forðast vegu ofbeldismannsins.

Skref mín fylgdu sporum þínum, mér skriðnaði ekki fótur.

Ég kalla á þig, því að þú svarar mér, ó Guð, hneig eyru þín til mín, hlýð á orð mín.

Veit mér þína dásamlegu náð, þú sem hjálpar þeim er leita hælis við þína hægri hönd fyrir ofsækjendum.

Varðveit mig sem sjáaldur augans, fel mig í skugga vængja þinna

fyrir hinum guðlausu, er sýna mér ofbeldi, fyrir gráðugum óvinum, er kringja um mig.

10 Mörhjörtum sínum hafa þeir lokað, með munni sínum mæla þeir drambsamleg orð.

11 Hvar sem ég geng, umkringja þeir mig, þeir beina augum sínum að því að varpa mér til jarðar.

12 Þeir líkjast ljóni er langar í bráð, ungu ljóni, er liggur í felum.

13 Rís upp, Drottinn! Far í móti óvininum og varpa honum niður, frelsa mig undan hinum óguðlega með sverði þínu.

14 Frelsa mig undan mönnunum með hendi þinni, Drottinn, undan mönnum heimsins, sem hafa hlutskipti sitt í lífinu og þú kviðfyllir gæðum þínum. Þeir eru ríkir að sonum og skilja börnum sínum eftir nægtir sínar.

15 En ég mun sakir réttlætisins skoða auglit þitt, þá er ég vakna, mun ég mettast af mynd þinni.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Postulasagan 20:1-16 Icelandic Bible (ICELAND)

20 Þegar þessum látum linnti, sendi Páll eftir lærisveinunum, uppörvaði þá og kvaddi síðan og lagði af stað til Makedóníu.

Hann fór nú um þau héruð og uppörvaði menn með mörgum orðum. Síðan hélt hann til Grikklands.

Dvaldist hann þar þrjá mánuði. Þá bjóst hann til að sigla til Sýrlands, en þar eð Gyðingar brugguðu honum launráð, tók hann til bragðs að hverfa aftur um Makedóníu.

Í för með honum voru þeir Sópater Pýrrusson frá Beroju, Aristarkus og Sekúndus frá Þessaloníku, Gajus frá Derbe, Tímóteus og Asíumennirnir Týkíkus og Trófímus.

Þeir fóru á undan og biðu vor í Tróas.

En vér sigldum eftir daga ósýrðu brauðanna frá Filippí og komum til þeirra í Tróas á fimmta degi. Þar stóðum vér við í sjö daga.

Fyrsta dag vikunnar, er vér vorum saman komnir til að brjóta brauðið, talaði Páll til þeirra. Hann var á förum daginn eftir. Entist ræða hans allt til miðnættis.

Mörg ljós voru í loftstofunni, þar sem vér vorum saman komnir.

Ungmenni eitt, Evtýkus að nafni, sat í glugganum. Seig á hann svefnhöfgi, er Páll ræddi svo lengi, og féll hann sofandi ofan af þriðja lofti. Hann var liðinn, þegar hann var tekinn upp.

10 Páll gekk ofan, varpaði sér yfir hann, tók utan um hann og sagði: "Verið stilltir, það er líf með honum."

11 Fór hann síðan upp, braut brauðið og neytti og talaði enn lengi, allt fram í dögun. Að svo búnu hélt hann brott.

12 En þeir fóru með sveininn lifandi og hugguðust mikillega.

13 Vér fórum á undan til skips og sigldum til Assus. Þar ætluðum vér að taka Pál. Svo hafði hann fyrir lagt, því hann vildi fara landveg.

14 Þegar hann hafði hitt oss í Assus, tókum vér hann á skip og héldum til Mitýlene.

15 Þaðan sigldum vér daginn eftir og komumst til móts við Kíos. Á öðrum degi fórum vér til Samos og komum næsta dag til Míletus.

16 En Páll hafði sett sér að sigla fram hjá Efesus, svo að hann tefðist ekki í Asíu. Hann hraðaði ferð sinni, ef verða mætti, að hann kæmist til Jerúsalem á hvítasunnudag.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes