A A A A A
Bible Book List

Sálmarnir 146-147 Icelandic Bible (ICELAND)

146 Halelúja. Lofa þú Drottin, sála mín!

Ég vil lofa Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum, meðan ég er til.

Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.

Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.

Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar, sá er setur von sína á Drottin, Guð sinn,

hann sem skapað hefir himin og jörð, hafið og allt sem í því er, hann sem varðveitir trúfesti sína að eilífu,

sem rekur réttar kúgaðra og veitir brauð hungruðum. Drottinn leysir hina bundnu,

Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta.

Drottinn varðveitir útlendingana, hann annast ekkjur og föðurlausa, en óguðlega lætur hann fara villa vegar.

10 Drottinn er konungur að eilífu, hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns. Halelúja.

147 Halelúja. Það er gott að leika fyrir Guði vorum, því að hann er yndislegur, honum hæfir lofsöngur.

Drottinn endurreisir Jerúsalem, safnar saman hinum tvístruðu af Ísrael.

Hann læknar þá, er hafa sundurkramið hjarta, og bindur um benjar þeirra.

Hann ákveður tölu stjarnanna, kallar þær allar með nafni.

Mikill er Drottinn vor og ríkur að veldi, speki hans er ómælanleg.

Drottinn annast hrjáða, en óguðlega lægir hann að jörðu.

Syngið Drottni með þakklæti, leikið á gígju fyrir Guði vorum.

Hann hylur himininn skýjum, býr regn handa jörðinni, lætur gras spretta á fjöllunum.

Hann gefur skepnunum fóður þeirra, hrafnsungunum, þegar þeir kalla.

10 Hann hefir eigi mætur á styrkleika hestsins, eigi þóknun á fótleggjum mannsins.

11 Drottinn hefir þóknun á þeim er óttast hann, þeim er bíða miskunnar hans.

12 Vegsama Drottin, Jerúsalem, lofa þú Guð þinn, Síon,

13 því að hann hefir gjört sterka slagbrandana fyrir hliðum þínum, blessað börn þín, sem í þér eru.

14 Hann gefur landi þínu frið, seður þig á hinu kjarnbesta hveiti.

15 Hann sendir orð sitt til jarðar, boð hans hleypur með hraða.

16 Hann gefur snjó eins og ull, stráir út hrími sem ösku.

17 Hann sendir hagl sitt sem brauðmola, hver fær staðist frost hans?

18 Hann sendir út orð sitt og lætur ísinn þiðna, lætur vind sinn blása, og vötnin renna.

19 Hann kunngjörði Jakob orð sitt, Ísrael lög sín og ákvæði.

20 Svo hefir hann eigi gjört við neina þjóð, þeim kennir hann ekki ákvæði sín. Halelúja.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Fyrra bréf Páls til Korin 15:1-28 Icelandic Bible (ICELAND)

15 Ég minni yður, bræður, á fagnaðarerindi það, sem ég boðaði yður, sem þér og veittuð viðtöku og þér einnig standið stöðugir í.

Fyrir það verðið þér og hólpnir ef þér haldið fast við orðið, fagnaðarerindið, sem ég boðaði yður, og hafið ekki ófyrirsynju trúna tekið.

Því það kenndi ég yður fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna vorra synda samkvæmt ritningunum,

að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum

og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf.

Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu, sem flestir eru á lífi allt til þessa, en nokkrir eru sofnaðir.

Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum.

En síðast allra birtist hann einnig mér, eins og ótímaburði.

Því ég er sístur postulanna og er ekki þess verður að kallast postuli, með því að ég ofsótti söfnuð Guðs.

10 En af Guðs náð er ég það sem ég er, og náð hans við mig hefur ekki orðið til ónýtis, heldur hef ég erfiðað meira en þeir allir, þó ekki ég, heldur náð Guðs, sem með mér er.

11 Hvort sem það því er ég eða þeir, þá prédikum vér þannig, og þannig hafið þér trúna tekið.

12 En ef nú er prédikað, að Kristur sé upprisinn frá dauðum, hvernig geta þá nokkrir yðar sagt, að dauðir rísi ekki upp?

13 Ef ekki er til upprisa dauðra, þá er Kristur ekki heldur upprisinn.

14 En ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun vor, ónýt líka trú yðar.

15 Vér reynumst þá vera ljúgvottar um Guð, þar eð vér höfum vitnað um Guð, að hann hafi uppvakið Krist, sem hann hefur ekki uppvakið, svo framarlega sem dauðir rísa ekki upp.

16 Því að ef dauðir rísa ekki upp, er Kristur ekki heldur upprisinn.

17 En ef Kristur er ekki upprisinn, er trú yðar fánýt, þér eruð þá enn í syndum yðar,

18 og þá eru einnig þeir, sem sofnaðir eru í trú á Krist, glataðir.

19 Ef von vor til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum vér aumkunarverðastir allra manna.

20 En nú er Kristur upprisinn frá dauðum sem frumgróði þeirra, sem sofnaðir eru.

21 Því að þar eð dauðinn kom fyrir mann, kemur og upprisa dauðra fyrir mann.

22 Því að eins og allir deyja fyrir samband sitt við Adam, svo munu allir lífgaðir verða fyrir samfélag sitt við Krist.

23 En sérhver í sinni röð: Kristur sem frumgróðinn, því næst, við komu hans, þeir sem honum tilheyra.

24 Síðan kemur endirinn, er hann selur ríkið Guði föður í hendur, er hann hefur að engu gjört sérhverja tign, sérhvert veldi og kraft.

25 Því að honum ber að ríkja, uns hann leggur alla fjendurna undir fætur hans.

26 Dauðinn er síðasti óvinurinn, sem verður að engu gjörður.

27 "Allt hefur hann lagt undir fætur honum." Þegar stendur, að allt hafi verið lagt undir hann, er augljóst, að sá er undan skilinn, sem lagði allt undir hann.

28 En þegar allt hefur verið lagt undir hann, þá mun og sonurinn sjálfur leggja sig undir þann, er lagði alla hluti undir hann, til þess að Guð sé allt í öllu.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes