Add parallel Print Page Options

100 Þakkarfórnar-sálmur. Öll veröldin fagni fyrir Drottni!

Þjónið Drottni með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng!

Vitið, að Drottinn er Guð, hann hefir skapað oss, og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð.

Gangið inn um hlið hans með lofsöng, í forgarða hans með sálmum, lofið hann, vegsamið nafn hans.

Því að Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns.

101 Davíðssálmur. Ég vil syngja um miskunn og rétt, lofsyngja þér, Drottinn.

Ég vil gefa gætur að vegi hins ráðvanda _ hvenær kemur þú til mín? Í grandvarleik hjartans vil ég ganga um í húsi mínu.

Ég læt mér eigi til hugar koma neitt níðingsverk. Ég hata þá sem illa breyta, þeir fá engin mök við mig að eiga.

Rangsnúið hjarta skal frá mér víkja, ég kannast eigi við hinn vonda.

Rægi einhver náunga sinn í leyni, þagga ég niður í honum. Hver sem er hrokafullur og drembilátur í hjarta, hann fæ ég ekki þolað.

Augu mín horfa á hina trúföstu í landinu, að þeir megi búa hjá mér. Sá sem gengur grandvarleikans vegu, hann skal þjóna mér.

Enginn má dvelja í húsi mínu, er svik fremur. Sá er lygar mælir stenst eigi fyrir augum mínum.

Á hverjum morgni þagga ég niður í öllum óguðlegum í landinu. Ég útrými úr borg Drottins öllum illgjörðamönnum.

102 Bæn hrjáðs manns, þá er hann örmagnast og úthellir kveini sínu fyrir Drottni.

Drottinn, heyr þú bæn mína og hróp mitt berist til þín.

Byrg eigi auglit þitt fyrir mér, þegar ég er í nauðum staddur, hneig að mér eyra þitt, þegar ég kalla, flýt þér að bænheyra mig.

Því að dagar mínir hverfa sem reykur, bein mín brenna sem eldur.

Hjarta mitt er mornað og þornað sem gras, því að ég gleymi að neyta brauðs míns.

Sakir kveinstafa minna er ég sem skinin bein.

Ég líkist pelíkan í eyðimörkinni, er sem ugla í rústum.

Ég ligg andvaka og styn eins og einmana fugl á þaki.

Daginn langan smána óvinir mínir mig, fjandmenn mínir formæla með nafni mínu.

10 Ég et ösku sem brauð og blanda drykk minn tárum

11 sakir reiði þinnar og bræði, af því að þú hefir tekið mig upp og varpað mér burt.

12 Dagar mínir eru sem hallur skuggi, og ég visna sem gras.

13 En þú, Drottinn, ríkir að eilífu, og nafn þitt varir frá kyni til kyns.

14 Þú munt rísa upp til þess að miskunna Síon, því að tími er kominn til þess að líkna henni, já, stundin er komin.

15 Þjónar þínir elska steina hennar og harma yfir öskuhrúgum hennar.

16 Þá munu þjóðirnar óttast nafn Drottins og allir konungar jarðarinnar dýrð þína,

17 því að Drottinn byggir upp Síon og birtist í dýrð sinni.

18 Hann snýr sér að bæn hinna nöktu og fyrirlítur eigi bæn þeirra.

19 Þetta skal skráð fyrir komandi kynslóð, og þjóð, sem enn er ósköpuð, skal lofa Drottin.

20 Því að Drottinn lítur niður af sínum helgu hæðum, horfir frá himni til jarðar

21 til þess að heyra andvarpanir bandingjanna og leysa börn dauðans,

22 að þau mættu kunngjöra nafn Drottins í Síon og lofstír hans í Jerúsalem,

23 þegar þjóðirnar safnast saman og konungsríkin til þess að þjóna Drottni.

24 Hann hefir bugað kraft minn á ferð minni, stytt daga mína.

25 Ég segi: Guð minn, tak mig eigi burt á miðri ævinni. Ár þín vara frá kyni til kyns.

26 Í öndverðu grundvallaðir þú jörðina, og himnarnir eru verk handa þinna.

27 Þeir líða undir lok, en þú varir. Þeir fyrnast sem fat, þú skiptir þeim sem klæðum, og þeir hverfa.

28 En þú ert hinn sami, og þín ár fá engan enda.

29 Synir þjóna þinna munu búa kyrrir og niðjar þeirra standa stöðugir fyrir augliti þínu.

Páll, kallaður að Guðs vilja til að vera postuli Jesú Krists, og Sósþenes, bróðir vor, heilsa

söfnuði Guðs í Korintu, þeim sem helgaðir eru í Kristi Jesú, heilagir að köllun til, ásamt öllum þeim, sem alls staðar ákalla nafn Drottins vors Jesú Krists, sem er þeirra Drottinn og vor.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Ávallt þakka ég Guði mínum yðar vegna fyrir þá náð, sem hann hefur gefið yður í Kristi Jesú.

Í honum eruð þér auðgaðir orðnir í öllu, í hvers konar ræðu og hvers konar þekkingu.

Vitnisburðurinn um Krist er líka staðfestur orðinn á meðal yðar,

svo að yður brestur ekki neina náðargjöf meðan þér væntið opinberunar Drottins vors Jesú Krists.

Hann mun og gjöra yður staðfasta allt til enda, óásakanlega á degi Drottins vors Jesú Krists.

Trúr er Guð, sem yður hefur kallað til samfélags sonar síns Jesú Krists, Drottins vors.

10 En ég áminni yður, bræður, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að þér séuð allir samhuga og ekki séu flokkadrættir á meðal yðar, heldur að þér séuð fullkomlega sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun.

11 Því að mér hefur verið tjáð um yður, bræður mínir, af heimilismönnum Klóe, að þrætur eigi sér stað á meðal yðar.

12 Ég á við þetta, að sumir yðar segja: "Ég er Páls," og aðrir: "Ég er Apollóss," eða: "Ég er Kefasar," eða: "Ég er Krists."

13 Er þá Kristi skipt í sundur? Mun Páll hafa verið krossfestur fyrir yður? Eða eruð þér skírðir til nafns Páls?

14 Ég þakka Guði fyrir, að ég hef engan yðar skírt nema Krispus og Gajus,

15 til þess að enginn skuli segja, að þér séuð skírðir til nafns míns.

16 Jú, ég skírði líka Stefanas og heimamenn hans. Annars veit ég ekki til, að ég hafi skírt neinn annan.

17 Ekki sendi Kristur mig til að skíra, heldur til að boða fagnaðarerindið, _ og ekki með orðspeki, til þess að kross Krists missti ekki gildi sitt.

18 Því að orð krossins er heimska þeim er glatast, en oss, sem hólpnir verðum, er það kraftur Guðs.

19 Ritað er: Ég mun eyða speki spekinganna, og hyggindi hyggindamannanna mun ég að engu gjöra.

20 Hvar er vitringur? Hvar fræðimaður? Hvar orðkappi þessarar aldar? Hefur Guð ekki gjört speki heimsins að heimsku?

21 Því þar eð heimurinn með speki sinni þekkti ekki Guð í speki hans, þóknaðist Guði að frelsa þá, er trúa, með heimsku prédikunarinnar.

22 Gyðingar heimta tákn, og Grikkir leita að speki,

23 en vér prédikum Krist krossfestan, Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku,

24 en hinum kölluðu, bæði Gyðingum og Grikkjum, Krist, kraft Guðs og speki Guðs.

25 Því að heimska Guðs er mönnum vitrari og veikleiki Guðs mönnum sterkari.

26 Bræður, hyggið að köllun yðar: Þér voruð ekki margir vitrir að manna dómi, ekki margir máttugir, ekki margir stórættaðir.

27 En Guð hefur útvalið það, sem heimurinn telur heimsku, til að gjöra hinum vitru kinnroða, og Guð hefur útvalið það, sem heimurinn telur veikleika til að gjöra hinu volduga kinnroða.

28 Og hið ógöfuga í heiminum og hið fyrirlitna hefur Guð útvalið, það sem ekkert er, til þess að gjöra að engu það, sem eitthvað er,

29 til þess að enginn maður skuli hrósa sér fyrir Guði.

30 Honum er það að þakka að þér eruð í samfélagi við Krist Jesú. Hann er orðinn oss vísdómur frá Guði, bæði réttlæti, helgun og endurlausn.

31 Eins og ritað er: "Sá, sem hrósar sér, hrósi sér í Drottni."