A A A A A
Bible Book List

Orðskviðirnir 8-9 Icelandic Bible (ICELAND)

Heyr, spekin kallar og hyggnin lætur raust sína gjalla.

Uppi á hæðunum við veginn, þar sem göturnar kvíslast _ stendur hún.

Við hliðin, þar sem gengið er út úr borginni, þar sem gengið er inn um dyrnar, kallar hún hátt:

Til yðar, menn, tala ég, og raust mín hljómar til mannanna barna.

Þér óreyndu, lærið hyggindi, og þér heimskingjar, lærið skynsemi.

Hlýðið á, því að ég tala það sem göfuglegt er, og varir mínar tjá það sem rétt er.

Því að sannleika mælir gómur minn og guðleysi er viðbjóður vörum mínum.

Einlæg eru öll orð munns míns, í þeim er ekkert fals né fláræði.

Öll eru þau einföld þeim sem skilning hefir, og blátt áfram fyrir þann sem hlotið hefir þekkingu.

10 Takið á móti ögun minni fremur en á móti silfri og fræðslu fremur en úrvals gulli.

11 Því að viska er betri en perlur, og engir dýrgripir jafnast á við hana.

12 Ég, spekin, er handgengin hyggindunum og ræð yfir ráðdeildarsamri þekking.

13 Að óttast Drottin er að hata hið illa, drambsemi og ofdramb og illa breytni og fláráðan munn _ það hata ég.

14 Mín er ráðspekin og framkvæmdarsemin, ég er hyggnin, minn er krafturinn.

15 Fyrir mína hjálp ríkja konungarnir og úrskurða höfðingjarnir réttvíslega.

16 Fyrir mína hjálp stjórna stjórnendurnir og tignarmennin _ allir valdsmenn á jörðu.

17 Ég elska þá sem mig elska, og þeir sem leita mín, finna mig.

18 Auður og heiður eru hjá mér, ævagamlir fjármunir og réttlæti.

19 Ávöxtur minn er betri en gull og gimsteinar og eftirtekjan eftir mig betri en úrvals silfur.

20 Ég geng á götu réttlætisins, á stigum réttarins miðjum,

21 til þess að gefa þeim sanna auðlegð, er elska mig, og fylla forðabúr þeirra.

22 Drottinn skóp mig í upphafi vega sinna, á undan öðrum verkum sínum, fyrir alda öðli.

23 Frá eilífð var ég sett til valda, frá upphafi, áður en jörðin var til.

24 Ég fæddist áður en hafdjúpin urðu til, þá er engar vatnsmiklar lindir voru til.

25 Áður en fjöllunum var hleypt niður, á undan hæðunum fæddist ég,

26 áður en hann skapaði völl og vengi og fyrstu moldarkekki jarðríkis.

27 Þegar hann gjörði himininn, þá var ég þar, þegar hann setti hvelfinguna yfir hafdjúpið,

28 þegar hann festi skýin uppi, þegar uppsprettur hafdjúpsins komust í skorður,

29 þegar hann setti hafinu takmörk, til þess að vötnin færu eigi lengra en hann bauð, þegar hann festi undirstöður jarðar.

30 Þá stóð ég honum við hlið sem verkstýra, og ég var yndi hans dag hvern, leikandi mér fyrir augliti hans alla tíma,

31 leikandi mér á jarðarkringlu hans, og hafði yndi mitt af mannanna börnum.

32 Og nú, þér yngismenn, hlýðið mér, því að sælir eru þeir, sem varðveita vegu mína.

33 Hlýðið á aga, svo að þér verðið vitrir, og látið hann eigi sem vind um eyrun þjóta.

34 Sæll er sá maður, sem hlýðir mér, sem vakir daglega við dyr mínar og geymir dyrastafa minna.

35 Því að sá sem mig finnur, finnur lífið og hlýtur blessun af Drottni.

36 En sá sem missir mín, skaðar sjálfan sig. Allir þeir, sem hata mig, elska dauðann.

Spekin hefir reist sér hús, höggvið til sjö stólpa sína.

Hún hefir slátrað sláturfé sínu, byrlað vín sitt, já, hún hefir þegar búið borð sitt.

Hún hefir sent út þernur sínar, hún kallar á háum stöðum í borginni:

"Hver, sem óreyndur er, komi hingað!" Við þann, sem óvitur er, segir hún:

"Komið, etið mat minn og drekkið vínið, sem ég hefi byrlað.

Látið af heimskunni, þá munuð þér lifa, og fetið veg hyggindanna."

Sá sem áminnir spottara, bakar sér smán, og þeim sem ávítar óguðlegan, verður það til vansa.

Ávíta eigi spottarann, svo að hann hati þig eigi, ávíta hinn vitra, og hann mun elska þig.

Gef hinum vitra, þá verður hann að vitrari, fræð hinn réttláta, og hann mun auka lærdóm sinn.

10 Ótti Drottins er upphaf viskunnar og að þekkja Hinn heilaga eru hyggindi.

11 Því að fyrir mitt fulltingi munu dagar þínir verða margir og ár lífs þíns aukast.

12 Sért þú vitur, þá ert þú vitur þér til góðs, en sért þú spottari, þá mun það bitna á þér einum.

13 Frú Heimska er óhemja, einföld og veit ekkert.

14 Hún situr úti fyrir húsdyrum sínum, á stól uppi á háu stöðunum í borginni

15 til þess að kalla á þá, sem um veginn fara, þá er ganga beint áfram leið sína:

16 "Hver sem óreyndur er, komi hingað!" og við þann sem óvitur er, segir hún:

17 "Stolið vatn er sætt, og lostætt er launetið brauð."

18 Og hann veit ekki, að þar eru hinir framliðnu, að þeir sem hún hefir boðið heim, eru í djúpum Heljar.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Síðara bréf Páls til Kori 3 Icelandic Bible (ICELAND)

Erum vér nú aftur teknir að mæla með sjálfum oss? Eða mundum vér þurfa, eins og sumir, meðmælabréf til yðar eða frá yður?

Þér eruð vort bréf, ritað á hjörtu vor, þekkt og lesið af öllum mönnum.

Þér sýnið ljóslega, að þér eruð bréf Krists, sem vér höfum unnið að, ekki skrifað með bleki, heldur með anda lifanda Guðs, ekki á steinspjöld, heldur á hjartaspjöld úr holdi.

En þetta traust höfum vér til Guðs fyrir Krist.

Ekki svo, að vér séum sjálfir hæfir og eitthvað komi frá oss sjálfum, heldur er hæfileiki vor frá Guði,

sem hefur gjört oss hæfa til að vera þjóna nýs sáttmála, ekki bókstafs, heldur anda. Því að bókstafurinn deyðir, en andinn lífgar.

En ef þjónusta dauðans, sem letruð var og höggvin á steina, kom fram í dýrð, svo að Ísraelsmenn gátu ekki horft framan í Móse vegna ljómans af ásýnd hans, sem þó varð að engu,

hversu miklu fremur mun þá þjónusta andans koma fram í dýrð?

Ef þjónustan, sem sakfellir, var dýrleg, þá er þjónustan, sem réttlætir, enn þá miklu auðugri að dýrð.

10 Í þessu efni verður jafnvel það, sem áður var dýrlegt, ekki dýrlegt í samanburði við hina yfirgnæfandi dýrð.

11 Því að ef það, sem að engu verður, kom fram með dýrð, þá hlýtur miklu fremur hið varanlega að koma fram í dýrð.

12 Þar eð vér nú höfum slíka von, þá komum vér fram með mikilli djörfung

13 og gjörum ekki eins og Móse, sem setti skýlu fyrir andlit sér, til þess að Ísraelsmenn skyldu ekki horfa á endalok ljóma þess, sem var að hverfa.

14 En hugur þeirra varð forhertur. Því allt til þessa dags hvílir sama skýlan yfir upplestri hins gamla sáttmála og henni hefur ekki verið svipt burt, því að aðeins í Kristi hverfur hún.

15 Já, allt til þessa dags hvílir skýla yfir hjörtum þeirra, hvenær sem Móse er lesinn.

16 En "þegar einhver snýr sér til Drottins, verður skýlan burtu tekin."

17 Drottinn er andinn, og þar sem andi Drottins er, þar er frelsi.

18 En allir vér, sem með óhjúpuðu andliti endurspeglum dýrð Drottins, ummyndumst til hinnar sömu myndar, frá dýrð til dýrðar. Þetta gjörir andi Drottins.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes