Add parallel Print Page Options

27 Vertu ekki hróðugur af morgundeginum, því að þú veist ekki, hvað dagurinn ber í skauti sínu.

Lát aðra hrósa þér og ekki þinn eigin munn, óviðkomandi menn, en ekki þínar eigin varir.

Steinar eru þungir, og sandurinn sígur í, en gremja afglapans er þyngri en hvort tveggja.

Heiftin er grimm, og reiðin er svæsin, en hver fær staðist öfundina?

Betri er opinber ofanígjöf en elska sem leynt er.

Vel meint eru vinar sárin, en viðbjóðslegir kossar hatursmannsins.

Saddur maður treður hunangsseim undir fótum, en hungruðum manni þykir allt beiskt sætt.

Eins og fugl, sem floginn er burt úr hreiðri sínu, svo er maður, sem flúinn er burt af heimili sínu.

Ilmolía og reykelsi gleðja hjartað, en indælli er vinur en ilmandi viður.

10 Yfirgef eigi vin þinn né vin föður þíns og gakk eigi í hús bróður þíns á óheilladegi þínum. Betri er nábúi í nánd en bróðir í fjarlægð.

11 Vertu vitur, sonur minn, og gleð hjarta mitt, svo að ég geti svarað þeim orði, sem smána mig.

12 Vitur maður sér ógæfuna og felur sig, en einfeldningarnir halda áfram og fá að kenna á því.

13 Tak þú skikkjuna af þeim manni, sem hefir gengið í ábyrgð fyrir ókunnugan, tak veð af þeim manni, sem hefir gengið í ábyrgð fyrir útlending.

14 Hver sem blessar náunga sinn snemma morguns með hárri raustu, það skal metið við hann sem formæling.

15 Sífelldur þakleki í rigningatíð og þrasgjörn kona _ er hvað öðru líkt.

16 Sá er hana stöðvaði, gæti stöðvað vindinn og haldið olíu í hægri hendi sinni.

17 Járn brýnir járn, og maður brýnir mann.

18 Sá sem gætir fíkjutrés, mun eta ávöxt þess, og sá sem þjónar húsbónda sínum með virktum, mun heiður hljóta.

19 Eins og andlit horfir við andliti í vatni, svo er hjarta eins manns gagnvart öðrum.

20 Dánarheimar og undirdjúpin eru óseðjandi, svo eru og augu mannsins óseðjandi.

21 Deiglan er fyrir silfrið og bræðsluofninn fyrir gullið, og maðurinn er dæmdur eftir orðstír hans.

22 Þótt þú steyttir afglapann í mortéli með stauti innan um grjón, þá mundi fíflska hans ekki við hann skilja.

23 Haf nákvæmar gætur á útliti sauða þinna og veit hjörðunum athygli þína.

24 Því að auður varir ekki eilíflega, né heldur kóróna frá kyni til kyns.

25 Sé heyið komið undan og grængresi komið í ljós, og hafi jurtir fjallanna verið hirtar,

26 þá átt þú lömb þér til klæðnaðar og geithafra til þess að kaupa fyrir akur

27 og nóga geitamjólk þér til fæðslu, til fæðslu heimili þínu, og til viðurlífis þernum þínum.

28 Hinir óguðlegu flýja, þótt enginn elti þá, en hinir réttlátu eru öruggir eins og ungt ljón.

Þegar land gengur undan drottnara sínum, gjörast þar margir höfðingjar, en meðal skynsamra og hygginna manna mun góð skipan lengi standa.

Maður sem er fátækur og kúgar snauða, er eins og regn, sem skolar burt korninu, en veitir ekkert brauð.

Þeir sem yfirgefa lögmálið, hrósa óguðlegum, en þeir sem varðveita lögmálið, eru æfir út af þeim.

Illmenni skilja ekki hvað rétt er, en þeir sem leita Drottins, skilja allt.

Betri er fátækur maður, sem framgengur í ráðvendni sinni, heldur en sá, sem beitir undirferli og er þó ríkur.

Sá sem varðveitir lögmálið, er hygginn sonur, en sá sem leggur lag sitt við óhófsmenn, gjörir föður sínum smán.

Sá sem eykur auð sinn með fjárleigu og okri, safnar honum handa þeim, sem líknsamur er við fátæka.

Sá sem snýr eyra sínu frá til þess að heyra ekki lögmálið, _ jafnvel bæn hans er andstyggð.

10 Sá sem tælir falslausa menn út á vonda leið, hann fellur sjálfur í gröf sína, en ráðvandir munu hljóta góða arfleifð.

11 Ríkur maður þykist vitur, en snauður maður, sem er hygginn, sér við honum.

12 Þegar hinir réttlátu fagna, er mikið um dýrðir, en þegar óguðlegir komast upp, fela menn sig.

13 Sá sem dylur yfirsjónir sínar, verður ekki lángefinn, en sá sem játar þær og lætur af þeim, mun miskunn hljóta.

14 Sæll er sá maður, sem ávallt er var um sig, en sá sem herðir hjarta sitt, fellur í ógæfu.

15 Eins og grenjandi ljón og gráðugur björn, svo er óguðlegur drottnari yfir lítilsigldum lýð.

16 Höfðingi, sem hefir litlar tekjur, er ríkur að kúgun, sá sem hatar rangfenginn ávinning, mun langlífur verða.

17 Sá maður, sem blóðsök hvílir þungt á, er á flótta fram á grafarbarminn; enginn dvelji hann.

18 Sá sem breytir ráðvandlega, mun frelsast, en sá sem beitir undirferli, fellur í gryfju.

19 Sá sem yrkir land sitt, mettast af brauði, en sá sem sækist eftir hégómlegum hlutum, mettast af fátækt.

20 Áreiðanlegur maður blessast ríkulega, en sá sem fljótt vill verða ríkur, sleppur ekki við refsingu.

21 Hlutdrægni er ljót, en þó fremja menn ranglæti fyrir einn brauðbita.

22 Öfundsjúkur maður flýtir sér að safna auði og veit ekki að örbirgð muni yfir hann koma.

23 Sá sem ávítar mann, mun á síðan öðlast meiri hylli heldur er tungumjúkur smjaðrari.

24 Sá sem rænir foreldra sína og segir: "Það er engin synd!" hann er stallbróðir eyðandans.

25 Ágjarn maður vekur deilur, en sá sem treystir Drottni, mettast ríkulega.

26 Sá sem treystir eigin hyggjuviti, er heimskingi, en sá sem breytir viturlega, mun undan komast.

27 Sá sem gefur fátækum, líður engan skort, en þeim sem byrgir augu sín, koma margar óbænir.

28 Þegar hinir óguðlegu komast upp, fela menn sig, en þegar þeir tortímast, fjölgar réttlátum.

29 Sá sem oftlega hefir ávítaður verið, en þverskallast þó, mun skyndilega knosaður verða, og engin lækning fást.

Þegar réttlátum fjölgar, gleðst þjóðin, en þegar óguðlegir drottna, andvarpar þjóðin.

Sá sem elskar visku, gleður föður sinn, en sá sem leggur lag sitt við skækjur, glatar eigum sínum.

Konungurinn eflir landið með rétti, en sá sem þiggur mútur, eyðir það.

Sá maður, sem smjaðrar fyrir náunga sínum, hann leggur net fyrir fætur hans.

Í misgjörð vonds manns er fólgin snara, en réttlátur maður fagnar og gleðst.

Réttlátur maður kynnir sér málefni hinna lítilmótlegu, en óguðlegur maður hirðir ekkert um að kynna sér það.

Spottarar æsa upp borgina, en vitrir menn lægja reiðina.

Þegar vitur maður á í þrætumáli við afglapa, þá reiðist hann og hlær, en hvíld fæst engin.

10 Blóðvargarnir hata hinn ráðvanda, en réttvísir menn láta sér annt um líf hans.

11 Heimskinginn úthellir allri reiði sinni, en vitur maður sefar hana að lokum.

12 Þegar drottnarinn hlýðir á lygaorð, verða allir þjónar hans bófar.

13 Fátæklingurinn og kúgarinn mætast, Drottinn ljær ljós augum beggja.

14 Sá konungur, sem dæmir hina lítilmótlegu með réttvísi, hásæti hans mun stöðugt standa að eilífu.

15 Vöndur og umvöndun veita speki, en agalaus sveinn gjörir móður sinni skömm.

16 Þegar óguðlegum fjölgar, fjölgar og misgjörðum, en réttlátir munu horfa á fall þeirra.

17 Aga þú son þinn, þá mun hann láta þig hafa ró og veita unað sálu þinni.

18 Þar sem engar vitranir eru, kemst fólkið á glapstigu, en sá sem varðveitir lögmálið, er sæll.

19 Þræll verður eigi agaður með orðum, því að hann skilur þau að vísu, en fer ekki eftir þeim.

20 Sjáir þú mann, sem er fljótfær í orðum, þá er meiri von um heimskingja en hann.

21 Dekri maður við þræl sinn frá barnæsku, vill hann að lokum verða ungherra.

22 Reiðigjarn maður vekur deilur, og bráðlyndur maður drýgir marga synd.

23 Hroki mannsins lægir hann, en hinn lítilláti mun virðing hljóta.

24 Þjófsnauturinn hatar líf sitt, hann hlýðir á bölvunina, en segir þó ekki frá.

25 Ótti við menn leiðir í snöru, en þeim er borgið, sem treystir Drottni.

26 Margir leita hylli drottnarans, en réttur mannsins kemur frá Drottni.

27 Andstyggð réttlátra er sá, sem ranglæti fremur, og andstyggð óguðlegra sá, sem ráðvandlega breytir.

10 Nú áminni ég sjálfur, Páll, yður með hógværð og mildi Krists, ég, sem í návist yðar á að vera auðmjúkur, en fjarverandi djarfmáll við yður.

Ég bið yður þess, að láta mig ekki þurfa að vera djarfmálan, þegar ég kem, og beita þeim myndugleika, sem ég ætla mér að beita gagnvart nokkrum, er álíta, að vér látum stjórnast af mannlegum hvötum.

Þótt vér lifum jarðnesku lífi, þá berjumst vér ekki á jarðneskan hátt, _

því að vopnin, sem vér berjumst með, eru ekki jarðnesk, heldur máttug vopn Guðs til að brjóta niður vígi.

Vér brjótum niður hugsmíðar og allt, sem hreykir sér gegn þekkingunni á Guði, og hertökum hverja hugsun til hlýðni við Krist.

Og vér erum þess albúnir að refsa sérhverri óhlýðni, þegar hlýðni yðar er fullkomin orðin.

Þér horfið á hið ytra. Ef einhver treystir því, að hann sé Krists, þá hyggi hann betur að og sjái, að eins og hann er Krists, þannig erum vér það einnig.

Jafnvel þótt ég vildi hrósa mér í frekara lagi af valdi voru, sem Drottinn hefur gefið til að uppbyggja, en ekki til að niðurbrjóta yður, þá yrði ég mér ekki til skammar.

Ekki má líta svo út sem ég vilji hræða yður með bréfunum.

10 "Bréfin," segja menn, "eru þung og ströng, en sjálfur er hann lítill fyrir mann að sjá og enginn tekur mark á ræðu hans."

11 Sá, sem slíkt segir, festi það í huga sér, að eins og vér fjarstaddir tölum til yðar í bréfunum, þannig munum vér koma fram, þegar vér erum hjá yður.

12 Ekki dirfumst vér að telja oss til þeirra eða bera oss saman við suma af þeim, er mæla með sjálfum sér. Þeir mæla sig við sjálfa sig og bera sig saman við sjálfa sig og eru óskynsamir.

13 En vér viljum ekki hrósa oss án viðmiðunar, heldur samkvæmt þeirri mælistiku, sem Guð hefur úthlutað oss: Að ná alla leið til yðar.

14 Því að vér teygjum oss ekki of langt fram, ella hefðum vér ekki komist til yðar. En vér vorum fyrstir til yðar með fagnaðarerindið um Krist.

15 Vér höfum vora viðmiðun og stærum oss ekki af erfiði annarra. Vér höfum þá von, að eftir því sem trú yðar vex, verðum vér miklir á meðal yðar, já, stórmiklir samkvæmt mælistiku vorri.

16 Þá getum vér boðað fagnaðarerindið í löndum handan við yður án þess að nota annarra mælistikur eða stæra oss af því, sem þegar er gjört.

17 En "sá sem hrósar sér, hann hrósi sér í Drottni."

18 Því að fullgildur er ekki sá, er mælir með sjálfum sér, heldur sá, er Drottinn mælir með.