Add parallel Print Page Options

19 Betri er fátækur maður, sem framgengur í ráðvendni sinni, heldur en lævís lygari og heimskur að auki.

Kapp er best með forsjá, og sá sem hraðar sér, misstígur sig.

Flónska mannsins steypir fyrirtækjum hans, en hjarta hans illskast við Drottin.

Auður fjölgar vinum, en fátækur maður verður vinum horfinn.

Falsvottur sleppur ekki óhegndur, og sá sem fer með lygar, kemst ekki undan.

Margir reyna að koma sér í mjúkinn hjá tignarmanninum, og allir eru vinir þess, sem gjafir gefur.

Allir bræður hins snauða hata hann, hversu miklu fremur firrast þá vinir hans hann.

Sá sem aflar sér hygginda, elskar líf sitt, sá sem varðveitir skynsemi, mun gæfu hljóta.

Falsvottur sleppur ekki óhegndur, og sá sem fer með lygar, tortímist.

10 Sællífi hæfir eigi heimskum manni, hvað þá þræli að drottna yfir höfðingjum.

11 Hyggni mannsins gjörir hann seinan til reiði, og það er honum til frægðar að ganga fram hjá mótgjörðum.

12 Konungsreiði er eins og ljónsöskur, en hylli hans sem dögg á grasi.

13 Heimskur sonur er föður sínum sönn óhamingja, og konuþras er sífelldur þakleki.

14 Hús og auður er arfur frá feðrunum, en skynsöm kona er gjöf frá Drottni.

15 Letin svæfir þungum svefni, og iðjulaus maður mun hungur þola.

16 Sá sem varðveitir boðorðið, varðveitir líf sitt, en sá deyr, sem ekki hefir gát á vegum sínum.

17 Sá lánar Drottni, er líknar fátækum, og hann mun launa honum góðverk hans.

18 Aga þú son þinn, því að enn er von, en farðu eigi svo langt, að þú deyðir hann.

19 Sá sem illa reiðist, verður að greiða sekt, því að ætlir þú að bjarga, gjörir þú illt verra.

20 Hlýð þú ráðum og tak umvöndun, til þess að þú verðir vitur eftirleiðis.

21 Mörg eru áformin í mannshjartanu, en ráðsályktun Drottins stendur.

22 Unun mannsins er kærleiksverk hans, og betri er fátækur maður en lygari.

23 Ótti Drottins leiðir til lífs, þá hvílist maðurinn mettur, verður ekki fyrir neinni ógæfu.

24 Latur maður dýfir hendinni ofan í skálina, en ekki nennir hann að bera hana aftur upp að munninum.

25 Sláir þú spottarann, verður hinn einfaldi hygginn, og sé vandað um við skynsaman mann, lærir hann hyggindi.

26 Sá sem misþyrmir föður sínum og rekur burt móður sína, slíkur sonur fremur smán og svívirðing.

27 Hættu, son minn, að hlýða á umvöndun, ef það er til þess eins, að þú brjótir á móti skynsamlegum orðum.

28 Samviskulaus vottur gjörir gys að réttinum, og munnur óguðlegra gleypir rangindi.

29 Refsidómar eru búnir spotturunum og högg baki heimskingjanna.

20 Vínið er spottari, sterkur drykkur glaumsamur, og hver sá, er drukkinn reikar, er óvitur.

Konungsreiði er eins og ljónsöskur, sá sem egnir hann á móti sér, fyrirgjörir lífi sínu.

Það er manni sómi að halda sér frá þrætu, en hver afglapinn ygglir sig.

Letinginn plægir ekki á haustin, fyrir því leitar hann um uppskerutímann og grípur í tómt.

Ráðin í hjarta mannsins eru sem djúp vötn, og hygginn maður eys þar af.

Margir menn eru kallaðir kærleiksríkir, en tryggan vin, hver finnur hann?

Réttlátur maður gengur fram í ráðvendni sinni, sæl eru því börn hans eftir hann.

Þegar konungur situr á dómstóli, þá skilur hann allt illt úr með augnaráði sínu.

Hver getur sagt: "Ég hefi haldið hjarta mínu hreinu, ég er hreinn af synd?"

10 Tvenns konar vog og tvenns konar mál, það er hvort tveggja Drottni andstyggð.

11 Sveinninn þekkist þegar á verkum sínum, hvort athafnir hans eru hreinar og einlægar.

12 Eyrað sem heyrir, og augað sem sér, hvort tveggja hefir Drottinn skapað.

13 Elskaðu ekki svefninn, svo að þú verðir ekki fátækur, opnaðu augun, þá muntu mettast af brauði.

14 "Slæmt! Slæmt!" segir kaupandinn, en þegar hann gengur burt, hælist hann um.

15 Til er gull og gnægð af perlum, en hið dýrmætasta þing eru vitrar varir.

16 Tak þú skikkjuna af þeim manni, sem hefir gengið í ábyrgð fyrir ókunnugan, tak veð af þeim manni, sem hefir gengið í ábyrgð fyrir útlendinga.

17 Sætt er svikabrauðið, en eftir á fyllist munnurinn möl.

18 Vel ráðin áform fá framgang, haf því holl ráð, er þú heyr stríð.

19 Sá sem ljóstar upp leyndarmálum, gengur um sem rógberi, haf því engin mök við málugan mann.

20 Sá sem formælir föður og móður, á hans lampa slokknar í niðamyrkri.

21 Arfur, sem í upphafi var skjótfenginn, blessast eigi að lokum.

22 Seg þú ekki: "Ég vil endurgjalda illt!" Bíð þú Drottins, og hann mun hjálpa þér.

23 Tvenns konar vog er Drottni andstyggð, og svikavog er ekki góð.

24 Spor mannsins eru ákveðin af Drottni, en maðurinn _ hvernig fær hann skynjað veg sinn?

25 Það er manninum snara að hrópa í fljótfærni: "Helgað!" og hyggja fyrst að, þegar heitin eru gjörð.

26 Vitur konungur skilur úr hina óguðlegu og lætur síðan hjólið yfir þá ganga.

27 Andi mannsins er lampi frá Drottni, sem rannsakar hvern afkima hjartans.

28 Kærleiki og trúfesti varðveita konunginn, og hann styður hásæti sitt með kærleika.

29 Krafturinn er ágæti ungra manna, en hærurnar prýði öldunganna.

30 Blóðugar skrámur hreinsa illmennið og högg, sem duglega svíða.

21 Hjarta konungsins er eins og vatnslækir í hendi Drottins, hann beygir það til hvers, er honum þóknast.

Manninum þykja allir sínir vegir réttir, en Drottinn vegur hjörtun.

Að iðka réttlæti og rétt er Drottni þóknanlegra en sláturfórn.

Drembileg augu og hrokafullt hjarta eru lampi óguðlegra, _ allt er það synd.

Fyrirætlanir iðjumannsins reynast fésamar vel, en öll flasfærni lendir í fjárskorti.

Fjársjóðir, sem aflað er með lygatungu, eru sem þjótandi vindblær, snörur dauðans.

Ofríki hinna óguðlegu dregur þá á eftir sér, því að þeir færast undan að gjöra það, sem rétt er.

Boginn er vegur þess manns, sem synd er hlaðinn, en verk hins hreina eru ráðvandleg.

Betri er vist í horni á húsþaki en sambúð við þrasgjarna konu.

10 Sál hins óguðlega girnist illt, náungi hans finnur enga miskunn hjá honum.

11 Sé spottaranum refsað, verður hinn einfaldi hygginn, og sé vitur maður fræddur, lærir hann hyggindi.

12 Gætur gefur réttlátur að húsi hins óguðlega, steypir óguðlegum í ógæfu.

13 Sá sem byrgir eyrun fyrir kveini hins fátæka, hann mun sjálfur kalla og eigi fá bænheyrslu.

14 Gjöf á laun sefar reiði og múta í barmi ákafa heift.

15 Réttlátum manni er gleði að gjöra það, sem rétt er, en illgjörðamönnum er það skelfing.

16 Sá maður, sem villist af vegi skynseminnar, mun brátt hvílast í söfnuði framliðinna.

17 Öreigi verður sá, er sólginn er í skemmtanir, sá sem sólginn er í vín og olíu, verður ekki ríkur.

18 Hinn óguðlegi er lausnargjald fyrir hinn réttláta, og svikarinn kemur í stað hinna hreinskilnu.

19 Betra er að búa í eyðimerkur-landi en með þrasgjarnri og geðillri konu.

20 Dýrmætur fjársjóður og olía er í heimkynnum hins vitra, en heimskur maður sólundar því.

21 Sá sem ástundar réttlæti og kærleika, hann öðlast líf, réttlæti og heiður.

22 Vitur maður vinnur borg kappanna og rífur niður vígið, sem hún treysti á.

23 Sá sem varðveitir munn sinn og tungu, hann varðveitir sálu sína frá nauðum.

24 Sá sem er hrokafullur, dramblátur, hann heitir spottari, sá sem gjörir allt af taumlausum hroka.

25 Óskir letingjans drepa hann, því að hendur hans vilja ekki vinna.

26 Ávallt er letinginn að óska sér, en hinn réttláti gefur og er ekki naumur.

27 Sláturfórn óguðlegra er Drottni andstyggð, hvað þá, sé hún framborin fyrir óhæfuverk.

28 Falsvottur mun tortímast, en maður, sem heyrt hefir, má ávallt tala.

29 Óguðlegur maður setur upp öruggan svip, en hinn hreinskilni gjörir veg sinn öruggan.

30 Engin viska er til og engin hyggni, né heldur ráð gegn Drottni.

31 Hesturinn er hafður viðbúinn til orustudagsins, en sigurinn er í hendi Drottins.

Þar eð vér því höfum þessi fyrirheit, elskaðir, þá hreinsum oss af allri saurgun á líkama og sál og fullkomnum helgun vora í guðsótta.

Gefið oss rúm í hjörtum yðar. Engum höfum vér gjört rangt til, engan skaðað, engan féflett.

Ég segi það ekki til að áfellast yður. Ég hef áður sagt, að þér eruð í hjörtum vorum, og vér deyjum saman og lifum saman.

Mikla djörfung hef ég gagnvart yður, mikillega get ég hrósað mér af yður. Ég er fullur af huggun, ég er stórríkur af gleði í allri þrenging vorri.

Því var og það, er vér komum til Makedóníu, að vér höfðum enga eirð, heldur vorum vér á alla vegu aðþrengdir, barátta hið ytra, ótti hið innra.

En Guð, sem huggar hina beygðu, hann huggaði oss með komu Títusar,

já, ekki aðeins með komu hans, heldur og með þeirri huggun, sem hann hafði fengið hjá yður. Hann skýrði oss frá þrá yðar, gráti yðar, áhuga yðar mín vegna, svo að ég gladdist við það enn frekar.

Að vísu hef ég hryggt yður með bréfinu, en ég iðrast þess ekki nú, þótt ég iðraðist þess áður, þar sem ég sá að þetta bréf hafði hryggt yður, þótt ekki væri nema um stund.

Nú er ég glaður, ekki yfir því, að þér urðuð hryggir, heldur yfir því, að þér urðuð hryggir til iðrunar. Þér urðuð hryggir Guði að skapi og biðuð því ekki í neinu tjón af oss.

10 Sú hryggð, sem er Guði að skapi, vekur afturhvarf til hjálpræðis, sem engan iðrar, en hryggð heimsins veldur dauða.

11 Einmitt þetta, að þér hryggðust Guði að skapi, _ hvílíka alvöru vakti það hjá yður, já, hvílíkar afsakanir, hvílíka gremju, hvílíkan ótta, hvílíka þrá, hvílíkt kapp, hvílíka refsingu! Í öllu hafið þér nú sannað, að þér voruð vítalausir um þetta.

12 Þótt ég því hafi skrifað yður, þá var það ekki vegna hans, sem óréttinn gjörði, ekki heldur vegna hans, sem fyrir óréttinum varð, heldur til þess að yður yrði ljóst fyrir augliti Guðs hversu heilshugar þér standið með oss.

13 Þess vegna höfum vér huggun hlotið. En auk huggunar vorrar gladdi það oss allra mest, hve Títus varð glaður. Þér hafið allir róað huga hans.

14 Því að hafi ég í nokkru hrósað mér af yður við hann, þá hef ég ekki þurft að blygðast mín. Já, eins og allt var sannleika samkvæmt, sem vér höfum talað við yður, þannig hefur og hrós vort um yður við Títus reynst sannleikur.

15 Og hjartaþel hans til yðar er því hlýrra sem hann minnist hlýðni yðar allra, hversu þér tókuð á móti honum með ugg og ótta.

16 Það gleður mig, að ég get í öllu borið traust til yðar.