A A A A A
Bible Book List

Orðskviðirnir 13-15 Icelandic Bible (ICELAND)

13 Vitur sonur hlýðir umvöndun föður síns, en spottarinn sinnir engum átölum.

Maðurinn nýtur góðs af ávexti munnsins, en svikarana þyrstir í ofbeldi.

Sá sem gætir munns síns, varðveitir líf sitt, en glötun er búin þeim, er ginið glennir.

Sál letingjans girnist og fær ekki, en sál hinna iðnu mettast ríkulega.

Réttlátur maður hatar fals, en hinn óguðlegi fremur skömm og svívirðu.

Réttlætið verndar grandvara breytni, en guðleysið steypir syndaranum.

Einn þykist ríkur, en á þó ekkert, annar læst vera fátækur, en á þó mikinn auð.

Auðæfi mannsins eru lausnargjald fyrir líf hans, en hinn fátæki hlýðir ekki á neinar ávítur.

Ljós réttlátra logar skært, en á lampa óguðlegra slokknar.

10 Með hroka vekja menn aðeins þrætur, en hjá ráðþægnum mönnum er viska.

11 Skjótfenginn auður minnkar, en sá sem safnar smátt og smátt, verður ríkur.

12 Langdregin eftirvænting gjörir hjartað sjúkt, en uppfyllt ósk er lífstré.

13 Sá sem fyrirlítur áminningarorð, býr sér glötun, en sá sem óttast boðorðið, hlýtur umbun.

14 Kenning hins vitra er lífslind til þess að forðast snöru dauðans.

15 Góðir vitsmunir veita hylli, en vegur svikaranna leiðir í glötun.

16 Kænn maður gjörir allt með skynsemd, en heimskinginn breiðir út vitleysu.

17 Óguðlegur sendiboði steypir í ógæfu, en trúr sendimaður er meinabót.

18 Fátækt og smán hlýtur sá, er lætur áminning sem vind um eyrun þjóta, en sá sem tekur umvöndun, verður heiðraður.

19 Uppfyllt ósk er sálunni sæt, en að forðast illt er heimskingjunum andstyggð.

20 Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim, sem leggur lag sitt við heimskingja.

21 Óhamingjan eltir syndarana, en gæfan nær hinum réttlátu.

22 Góður maður lætur eftir sig arf handa barnabörnunum, en eigur syndarans eru geymdar hinum réttláta.

23 Nýbrotið land fátæklinganna gefur mikla fæðu, en mörgum er burtu kippt fyrir ranglæti sitt.

24 Sá sem sparar vöndinn, hatar son sinn, en sá sem elskar hann, agar hann snemma.

25 Hinn réttláti etur nægju sína, en kviður óguðlegra líður skort.

14 Viska kvennanna reisir húsið, en fíflskan rífur það niður með höndum sínum.

Sá sem framgengur í hreinskilni sinni, óttast Drottin, en sá sem fer krókaleiðir, fyrirlítur hann.

Í munni afglapans er vöndur á hroka hans, en varir hinna vitru varðveita þá.

Þar sem engin naut eru, þar er jatan tóm, en fyrir kraft uxans fæst mikill ágóði.

Sannorður vottur lýgur ekki, en falsvottur fer með lygar.

Spottarinn leitar visku, en finnur ekki, en hyggnum manni er þekkingin auðfengin.

Gakk þú burt frá heimskum manni, og þú hefir ekki kynnst þekkingar-vörum.

Viska hins kæna er í því fólgin, að hann skilur veg sinn, en fíflska heimskingjanna er svik.

Afglaparnir gjöra gys að sektarfórnum, en meðal hreinskilinna er velþóknun.

10 Hjartað eitt þekkir kvöl sína, og jafnvel í gleði þess getur enginn annar blandað sér.

11 Hús óguðlegra mun eyðileggjast, en tjald hreinskilinna mun blómgast.

12 Margur vegurinn virðist greiðfær, en endar þó á helslóðum.

13 Jafnvel þótt hlegið sé, kennir hjartað til, og endir gleðinnar er tregi.

14 Rangsnúið hjarta mettast af vegum sínum svo og góður maður af verkum sínum.

15 Einfaldur maður trúir öllu, en kænn maður athugar fótmál sín.

16 Vitur maður óttast hið illa og forðast það, en heimskinginn er framhleypinn og ugglaus.

17 Uppstökkur maður fremur fíflsku, en hrekkvís maður verður hataður.

18 Einfeldningarnir erfa fíflsku, en vitrir menn krýnast þekkingu.

19 Hinir vondu verða að lúta hinum góðu, og hinir óguðlegu að standa við dyr réttlátra.

20 Fátæklingurinn verður hvimleiður jafnvel vini sínum, en ríkismanninn elska margir.

21 Sá sem fyrirlítur vin sinn, drýgir synd, en sæll er sá, sem miskunnar sig yfir hina voluðu.

22 Vissulega villast þeir, er ástunda illt, en ást og trúfesti ávinna þeir sér, er gott stunda.

23 Af öllu striti fæst ágóði, en munnfleiprið eitt leiðir aðeins til skorts.

24 Vitrum mönnum er auður þeirra kóróna, en fíflska heimskingjanna er og verður fíflska.

25 Sannorður vottur frelsar líf, en sá sem fer með lygar, er svikari.

26 Í ótta Drottins er öruggt traust, og synir slíks manns munu athvarf eiga.

27 Ótti Drottins er lífslind til þess að forðast snörur dauðans.

28 Fólksmergðin er prýði konungsins, en mannaskorturinn steypir höfðingjanum.

29 Sá sem er seinn til reiði, er ríkur að skynsemd, en hinn bráðlyndi sýnir mikla fíflsku.

30 Rósamt hjarta er líf líkamans, en ástríða er eitur í beinum.

31 Sá sem kúgar snauðan mann, óvirðir þann er skóp hann, en sá heiðrar hann, er miskunnar sig yfir fátækan.

32 Hinn óguðlegi fellur á illsku sinni, en hinum réttláta er ráðvendnin athvarf.

33 Í hjarta hyggins manns heldur viskan kyrru fyrir, en á meðal heimskingja gerir hún vart við sig.

34 Réttlætið hefur upp lýðinn, en syndin er þjóðanna skömm.

35 Vitur þjónn hlýtur hylli konungsins, en sá hefir reiði hans, sem skammarlega breytir.

15 Mjúklegt andsvar stöðvar bræði, en meiðandi orð vekur reiði.

Af tungu hinna vitru drýpur þekking, en munnur heimskingjanna eys úr sér vitleysu.

Augu Drottins eru alls staðar, vakandi yfir vondum og góðum.

Hógværð tungunnar er lífstré, en fals hennar veldur hugarkvöl.

Afglapinn smáir aga föður síns, en sá sem tekur umvöndun, verður hygginn.

Í húsi hins réttláta er mikill auður, en glundroði er í gróðafé hins óguðlega.

Varir hinna vitru dreifa út þekkingu, en hjarta heimskingjanna er rangsnúið.

Fórn óguðlegra er Drottni andstyggð, en bæn hreinskilinna er honum þóknanleg.

Vegur hins óguðlega er Drottni andstyggilegur, en þann sem stundar réttlæti, elskar hann.

10 Slæm hirting bíður þess, sem yfirgefur rétta leið, sá sem hatar umvöndun, hlýtur að deyja.

11 Dánarheimur og undirdjúpin eru opin fyrir Drottni, hversu miklu fremur hjörtu mannanna barna!

12 Spottaranum er ekki vel við, að vandað sé um við hann, til viturra manna fer hann ekki.

13 Glatt hjarta gjörir andlitið hýrlegt, en sé hryggð í hjarta, er hugurinn dapur.

14 Hjarta hins vitra leitar að þekking, en munnur heimskingjanna gæðir sér á fíflsku.

15 Hinn volaði sér aldrei glaðan dag, en sá sem vel liggur á, er sífellt í veislu.

16 Betra er lítið í ótta Drottins en mikill fjársjóður með áhyggjum.

17 Betri er einn skammtur kálmetis með kærleika en alinn uxi með hatri.

18 Bráðlyndur maður vekur deilur, en sá sem seinn er til reiði, stillir þrætu.

19 Vegur letingjans er eins og þyrnigerði, en gata hreinskilinna er brautarvegur.

20 Vitur sonur gleður föður sinn, en heimskur maður fyrirlítur móður sína.

21 Óvitrum manni er fíflskan gleði, en skynsamur maður gengur beint áfram.

22 Áformin verða að engu, þar sem engin er ráðagerðin, en ef margir leggja á ráðin, fá þau framgang.

23 Gleði hlýtur maðurinn af svari munns síns, og hversu fagurt er orð í tíma talað!

24 Lífsins vegur liggur upp á við fyrir hinn hyggna, til þess að hann lendi ekki niður í Helju.

25 Drottinn rífur niður hús dramblátra, en setur föst landamerki ekkjunnar.

26 Ill áform eru Drottni andstyggð, en hrein eru vingjarnleg orð.

27 Sá kemur ólagi á heimilishag sinn, sem fíkinn er í rangfenginn gróða, en sá sem hatar mútugjafir, mun lifa.

28 Hjarta hins réttláta íhugar, hverju svara skuli, en munnur óguðlegra eys úr sér illsku.

29 Drottinn er fjarlægur óguðlegum, en bæn réttlátra heyrir hann.

30 Vingjarnlegt augnaráð gleður hjartað, góðar fréttir feita beinin.

31 Eyra sem hlýðir á holla umvöndun, mun búa meðal hinna vitru.

32 Sá sem aga hafnar, fyrirlítur sjálfan sig, en sá sem hlýðir á umvöndun, aflar sér hygginda.

33 Ótti Drottins er ögun til visku, og auðmýkt er undanfari virðingar.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Síðara bréf Páls til Kori 5 Icelandic Bible (ICELAND)

Vér vitum, að þótt vor jarðneska tjaldbúð verði rifin niður, þá höfum vér hús frá Guði, eilíft hús á himnum, sem eigi er með höndum gjört.

Á meðan andvörpum vér og þráum að íklæðast húsi voru frá himnum.

Þegar vér íklæðumst því, munum vér ekki standa uppi naktir.

En á meðan vér erum í tjaldbúðinni, stynjum vér mæddir, af því að vér viljum ekki afklæðast, heldur íklæðast, til þess að hið dauðlega uppsvelgist af lífinu.

En sá, sem hefur gjört oss færa einmitt til þessa, er Guð, sem hefur gefið oss anda sinn sem pant.

Vér erum því ávallt hughraustir, þótt vér vitum, að meðan vér eigum heima í líkamanum erum vér að heiman frá Drottni,

því að vér lifum í trú, en sjáum ekki.

Já, vér erum hughraustir og langar öllu fremur til að hverfa burt úr líkamanum og vera heima hjá Drottni.

Þess vegna kostum vér kapps um, hvort sem vér erum heima eða að heiman, að vera honum þóknanlegir.

10 Því að öllum oss ber að birtast fyrir dómstóli Krists, til þess að sérhver fái það endurgoldið, sem hann hefur aðhafst í líkamanum, hvort sem það er gott eða illt.

11 Með því að vér nú vitum, hvað það er að óttast Drottin, leitumst vér við að sannfæra menn. En Guði erum vér kunnir orðnir, já, ég vona, að vér séum einnig kunnir orðnir yður í hjörtum yðar.

12 Ekki erum vér enn að mæla með sjálfum oss við yður, heldur gefum vér yður tilefni til að miklast af oss, til þess að þér hafið eitthvað gagnvart þeim, er miklast af hinu ytra, en ekki af hjartaþelinu.

13 Því að hvort sem vér höfum orðið frávita, þá var það vegna Guðs, eða vér erum með sjálfum oss, þá er það vegna yðar.

14 Kærleiki Krists knýr oss,

15 því að vér höfum ályktað svo: Ef einn er dáinn fyrir alla, þá eru þeir allir dánir. Og hann er dáinn fyrir alla, til þess að þeir, sem lifa, lifi ekki framar sjálfum sér, heldur honum, sem fyrir þá er dáinn og upprisinn.

16 Þannig metum vér héðan í frá engan að mannlegum hætti. Þótt vér og höfum þekkt Krist að mannlegum hætti, þekkjum vér hann nú ekki framar þannig.

17 Ef einhver er í Kristi, er hann skapaður á ný, hið gamla varð að engu, sjá, nýtt er orðið til.

18 Allt er frá Guði, sem sætti oss við sig fyrir Krist og gaf oss þjónustu sáttargjörðarinnar.

19 Því að það var Guð, sem í Kristi sætti heiminn við sig, er hann tilreiknaði þeim ekki afbrot þeirra og fól oss að boða orð sáttargjörðarinnar.

20 Vér erum því erindrekar Krists, eins og það væri Guð, sem áminnti, þegar vér áminnum. Vér biðjum í Krists stað: Látið sættast við Guð.

21 Þann sem þekkti ekki synd, gjörði hann að synd vor vegna, til þess að vér skyldum verða réttlæti Guðs í honum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes