Add parallel Print Page Options

Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Bjóð þú Ísraelsmönnum að láta burt fara úr herbúðunum alla menn líkþráa og alla, er rennsli hafa, svo og alla þá, er saurgaðir eru af líki.

Skuluð þér láta burt fara bæði karla og konur, þér skuluð láta þá fara út fyrir herbúðirnar, svo að þeir saurgi ekki herbúðir sínar, með því að ég bý á meðal þeirra."

Og Ísraelsmenn gjörðu svo og létu þá fara út fyrir herbúðirnar. Eins og Drottinn hafði boðið Móse, svo gjörðu Ísraelsmenn.

Drottinn talaði við Móse og sagði: "Tala þú til Ísraelsmanna:

Þá er karl eða kona drýgir einhverja þá synd, er menn hendir, með því að sýna sviksemi gegn Drottni, og sá hinn sami verður sekur,

þá skulu þau játa synd sína, er þau hafa drýgt, og bæta skulu þau sekt sína fullu verði og gjalda fimmtungi meira og greiða það þeim, er þau hafa orðið sek við.

En eigi maðurinn engan nákominn ættingja, er sektin verði greidd, þá skal sektin, er greiða skal, heyra Drottni og falla undir prest, auk friðþægingarhrútsins, sem friðþægt er með fyrir þau.

Sérhver fórnargjöf af öllum helgigjöfum Ísraelsmanna, sem þeir færa prestinum, skal vera hans eign,

10 og það sem sérhver helgar, skal vera hans eign. Það sem einhver gefur prestinum, skal vera hans eign."

11 Drottinn talaði við Móse og sagði:

12 "Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Nú gjörist kona marglát og reynist ótrú manni sínum.

13 Annar maður hefir samræði við hana, en maður hennar veit eigi af. Hún verður eigi uppvís að og hefir þó saurgað sig, og engin vitni eru mót henni og hún er eigi að því staðin.

14 En yfir manninn kemur afbrýðisandi, svo að hann verður hræddur um konu sína, og hún hefir saurgað sig. Eða afbrýðisandi kemur yfir mann, og hann verður hræddur um konu sína, þótt hún hafi eigi saurgað sig.

15 Þá fari maðurinn með konu sína til prestsins og færi honum fórnargjöfina fyrir hana: tíunda part úr efu af byggmjöli. Eigi skal hann hella yfir það olíu né leggja reykelsiskvoðu ofan á það, því að það er afbrýðismatfórn, minningarmatfórn, sem minnir á misgjörð.

16 Presturinn skal taka konuna og leiða hana fram fyrir Drottin.

17 Og prestur skal taka heilagt vatn í leirker, og prestur skal taka mold af gólfi búðarinnar og láta í vatnið.

18 Og prestur skal leiða konuna fram fyrir Drottin og leysa hár konunnar og fá henni í hendur minningarmatfórnina _ það er afbrýðismatfórn. En á beiskjuvatninu, er bölvan veldur, skal presturinn halda.

19 Prestur skal særa hana og segja við konuna: ,Hafi enginn maður hjá þér legið og hafir þú eigi saurgað þig með lauslæti í hjúskap þínum, þá verði þetta beiskjuvatn, sem bölvan veldur, þér ósaknæmt.

20 En hafir þú verið lauslát í hjúskapnum og hafir þú saurgast og einhver annar en maður þinn hefir haft samræði við þig,`

21 þá skal prestur láta konuna vinna bölvunarsæri, og prestur skal segja við konuna: ,Drottinn gjöri þig að bölvan og að særi meðal fólks þíns, er Drottinn lætur lendar þínar hjaðna og kvið þinn þrútna.

22 Og vatn þetta, er bölvan veldur, skal fara í innýfli þín, svo að kviðurinn þrútni og lendarnar hjaðni.` Og konan skal segja: ,Amen, amen!`

23 Síðan skal prestur rita formælingu þessa í bók og strjúka hana út í beiskjuvatnið,

24 og hann skal láta konuna drekka beiskjuvatnið, er bölvan veldur, svo að vatnið, sem bölvan veldur, fari ofan í hana og verði að beiskju.

25 Og presturinn skal taka við afbrýðismatfórninni úr hendi konunnar, og hann skal veifa matfórninni frammi fyrir Drottni og bera hana á altarið.

26 Og presturinn skal taka hnefafylli af matfórninni sem ilmhluta hennar og brenna á altarinu. Síðan skal hann láta konuna drekka vatnið.

27 Og þegar hann hefir látið hana drekka vatnið, þá skal svo fara, að hafi hún saurgað sig og verið manni sínum ótrú, þá skal vatnið, er bölvan veldur, fara ofan í hana og verða að beiskju, og kviður hennar þrútna og lendar hennar hjaðna, og konan skal verða að bölvan meðal fólks síns.

28 En hafi konan ekki saurgað sig og sé hún hrein, þá skal það ekki saka hana, og hún mun geta fengið getnað."

29 Þetta eru lögin um afbrýðisemi, þegar gift kona gjörist marglát og saurgar sig

30 eða þegar afbrýðisandi kemur yfir mann og hann verður hræddur um konu sína, þá skal hann leiða konuna fram fyrir Drottin, og prestur skal með hana fara í alla staði eftir lögum þessum.

31 Maðurinn skal vera sýkn saka, en konan skal bera sekt sína.

Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Nú vill karl eða kona vinna heit nasírea til þess að helga sig Drottni,

þá skal hann halda sér frá víni og áfengum drykk. Hann skal hvorki drekka vínsýru né sýru úr áfengum drykk, né heldur skal hann drekka nokkurn vínberjalög, og vínber ný eða þurrkuð skal hann eigi eta.

Allan bindindistíma sinn skal hann eigi eta neitt það, sem búið er til af vínviði, hvorki kjarna né hýði.

Allan tíma bindindisheitis hans skal rakhnífur eigi koma á höfuð honum. Uns þeir dagar eru fullnaðir, er hann hefir helgað sig Drottni, skal hann vera heilagur. Skal hann láta höfuðhár sitt vaxa sítt.

Alla þá stund, er hann hefir helgað sig Drottni, skal hann ekki koma nærri líki.

Hann skal ekki saurga sig vegna föður síns, vegna móður sinnar, vegna bróður síns eða vegna systur sinnar, er þau deyja, því að helgun Guðs hans er á höfði honum.

Allan bindindistíma sinn er hann helgaður Drottni.

Og verði einhver maður bráðkvaddur hjá honum, svo að helgað höfuð hans saurgast, þá skal hann raka höfuð sitt á hreinsunardegi sínum. Á sjöunda degi skal hann raka það.

10 Og á áttunda degi skal hann færa prestinum tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur að dyrum samfundatjaldsins.

11 Og prestur skal fórna annarri í syndafórn, en hinni í brennifórn og friðþægja fyrir hann, vegna þess að hann hefir syndgast á líki. Og hann skal helga höfuð sitt samdægurs.

12 Og hann skal helga sig Drottni bindindistíma sinn og færa veturgamla kind í sektarfórn, en fyrri tíminn skal ónýttur, því að helgun hans var saurguð.

13 Þetta eru ákvæðin um nasíreann: Þegar bindindistími hans er liðinn, skal leiða hann að dyrum samfundatjaldsins.

14 Og hann skal færa Drottni fórn sína: veturgamalt hrútlamb gallalaust í brennifórn og veturgamla gimbur gallalausa í syndafórn og hrút gallalausan í heillafórn

15 og körfu með ósýrðu brauði úr fínu mjöli, kökur olíublandaðar og ósýrð flatbrauð olíusmurð, ásamt matfórninni og dreypifórnunum.

16 Og presturinn skal bera það fram fyrir Drottin og fórna syndafórn hans og brennifórn.

17 Og hann skal fórna Drottni hrútnum í heillafórn ásamt körfunni með ósýrða brauðinu, og presturinn skal fórna matfórn hans og dreypifórn.

18 Nasíreinn skal raka helgað höfuð sitt við dyr samfundatjaldsins og taka helgað höfuðhár sitt og kasta því á eldinn undir heillafórninni.

19 Og prestur skal taka soðna bóginn af hrútnum og eina ósýrða köku úr körfunni og eitt ósýrt flatbrauð og fá nasíreanum það í hendur, þá er hann hefir rakað helgað hár sitt.

20 Og prestur skal veifa því sem veififórn frammi fyrir Drottni. Það er heilagt og heyrir presti, ásamt bringunni, sem veifa skal, og lærinu, sem fórna skal. Upp frá því má nasíreinn drekka vín.

21 Þetta eru ákvæðin um nasírea, sem gjörir heit, um fórnargjöf hans Drottni til handa vegna helgunar hans, auk þess sem hann annars hefir efni á. Samkvæmt heitinu, sem hann hefir unnið, skal hann gjöra, eftir ákvæðunum um bindindi hans."

22 Drottinn talaði við Móse og sagði:

23 "Mæl þú til Arons og sona hans og seg: Með þessum orðum skuluð þér blessa Ísraelsmenn:

24 Drottinn blessi þig og varðveiti þig!

25 Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur!

26 Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið!

27 Þannig skulu þeir leggja nafn mitt yfir Ísraelsmenn, og ég mun blessa þá."

Aftur tók hann að kenna við vatnið. Svo mikill mannfjöldi safnaðist að honum, að hann varð að stíga í bát og sitja þar, úti á vatninu. En allt fólkið var á landi við vatnið.

Hann kenndi þeim margt í dæmisögum og sagði við þá:

"Hlýðið á! Sáðmaður gekk út að sá,

og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni, og fuglar komu og átu það upp.

Sumt féll í grýtta jörð, þar sem var lítill jarðvegur, og það rann skjótt upp, því það hafði ekki djúpa jörð.

En er sól hækkaði, visnaði það, og sökum þess að það hafði ekki rætur, skrælnaði það.

Og sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir uxu og kæfðu það, og það bar ekki ávöxt.

En sumt féll í góða jörð, kom upp, óx og bar ávöxt, það gaf þrítugfaldan, sextugfaldan og hundraðfaldan ávöxt."

Og hann sagði: "Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri!"

10 Þegar hann var orðinn einn, spurðu þeir tólf og hinir, sem með honum voru, um dæmisögurnar.

11 Hann svaraði þeim: "Yður er gefinn leyndardómur Guðs ríkis. Hinir, sem fyrir utan eru, fá allt í dæmisögum,

12 að sjáandi sjái þeir og skynji ekki, heyrandi heyri þeir og skilji ekki, svo þeir snúi sér eigi og verði fyrirgefið."

13 Og hann segir við þá: "Þér skiljið eigi þessa dæmisögu. Hvernig fáið þér þá skilið nokkra dæmisögu?

14 Sáðmaðurinn sáir orðinu.

15 Það hjá götunni, þar sem orðinu er sáð, merkir þá sem heyra, en Satan kemur jafnskjótt og tekur burt orðið, sem í þá var sáð.

16 Eins það sem sáð var í grýtta jörð, það merkir þá sem taka orðinu með fögnuði, um leið og þeir heyra það,

17 en hafa enga rótfestu. Þeir eru hvikulir og er þrenging verður síðan eða ofsókn vegna orðsins, bregðast þeir þegar.

18 Öðru var sáð meðal þyrna. Það merkir þá sem heyra orðið,

19 en áhyggjur heimsins, tál auðæfanna og aðrar girndir koma til og kefja orðið, svo það ber engan ávöxt.

20 Hitt, sem sáð var í góða jörð, merkir þá sem heyra orðið, taka við því og bera þrítugfaldan, sextugfaldan og hundraðfaldan ávöxt."

Read full chapter