A A A A A
Bible Book List

Fjórða bók Móse 20-22 Icelandic Bible (ICELAND)

20 Ísraelsmenn, allur söfnuðurinn, komu í eyðimörkina Sín í fyrsta mánuðinum, og lýðurinn settist um kyrrt í Kades. Þar dó Mirjam og var þar grafin.

Fólkið hafði ekki vatn. Söfnuðust þeir þá saman í gegn Móse og Aroni.

Og lýðurinn þráttaði við Móse og sagði: "Guð gæfi að vér hefðum dáið, þá er bræður vorir dóu fyrir augliti Drottins.

Hví leidduð þið söfnuð Drottins í eyðimörk þessa, að vér og fénaður vor dæjum þar?

Hví létuð þið oss í burt fara af Egyptalandi, til þess að leiða oss í þennan vonda stað, þar sem eigi verður sáð, engar fíkjur vaxa né vínviður né granatepli, og eigi er vatn til að drekka?"

Móse og Aron gengu þá burt frá söfnuðinum að dyrum samfundatjaldsins og féllu fram á ásjónur sínar. Birtist þeim þá dýrð Drottins.

Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Tak stafinn og safna saman lýðnum, þú og Aron bróðir þinn, og mælið við klettinn í áheyrn þeirra, og mun hann vatn gefa. Og þú skalt leiða út vatn handa þeim af klettinum og gefa fólkinu og fénaði þeirra að drekka."

Þá sótti Móse stafinn inn í helgidóminn, eins og Drottinn hafði boðið honum.

10 Og Móse og Aron söfnuðu saman lýðnum við klettinn, og Móse sagði við þá: "Heyrið þér, þrjóskir menn. Hvort munum vér leiða mega vatn út af kletti þessum handa yður?"

11 Síðan hóf Móse upp hönd sína og laust klettinn tveim sinnum með staf sínum. Spratt þá upp vatn mikið, svo að fólkið drakk og fénaður þeirra.

12 Þá sagði Drottinn við Móse og Aron: "Fyrir því að þið trúðuð mér eigi, svo að þið helguðuð mig í augum Ísraelsmanna, þá skuluð þið eigi leiða söfnuð þennan inn í landið, sem ég hefi gefið þeim."

13 Þetta eru Meríbavötn, þar sem Ísraelsmenn þráttuðu við Drottin og hann sýndi heilagleik sinn á þeim.

14 Móse sendi frá Kades menn á fund Edómkonungs: "Svo mælir bróðir þinn Ísrael: Þú þekkir allar þær þrautir, er oss hafa mætt.

15 Feður vorir fóru suður til Egyptalands, og vér höfum verið í Egyptalandi langa ævi og hafa Egyptar þjáð oss, sem og feður vora.

16 En vér hrópuðum til Drottins, og hann heyrði bæn vora og sendi engil, og leiddi hann oss brott af Egyptalandi. Og sjá, nú erum vér í Kades, borginni við landamæri þín.

17 Leyf oss að fara um land þitt. Eigi munum vér fara yfir akra né víngarða, og eigi munum vér drekka vatn úr brunnum, heldur munum vér fara Konungsveg og eigi hneigja af til hægri handar eða vinstri, þar til er vér erum komnir út úr landi þínu."

18 En Edóm svaraði honum: "Eigi mátt þú fara um land mitt, ella mun ég fara í móti þér með sverði."

19 Þá sögðu Ísraelsmenn við hann: "Vér munum þræða brautarveginn, og ef vér drekkum af vatni þínu, ég og fénaður minn, þá mun ég fé fyrir gjalda. Hér er eigi til meira mælst en að ég megi fara um fótgangandi."

20 En hann sagði: "Eigi mátt þú fara um landið." Og Edóm fór í móti honum með miklu liði og sterkri hendi.

21 Og er Edóm skoraðist undan að leyfa Ísrael yfirför um land sitt, þá sneri Ísrael af leið frá honum.

22 Nú lögðu þeir upp frá Kades, og Ísraelsmenn, allur söfnuðurinn, komu til fjallsins Hór.

23 Og Drottinn talaði við Móse og Aron á Hórfjalli, við landamæri Edómlands, og sagði:

24 "Aron skal safnast til fólks síns, því að eigi skal hann komast í það land, sem ég hefi gefið Ísraelsmönnum, af því að þið þrjóskuðust gegn skipan minni hjá Meríbavötnum.

25 Tak þú Aron og Eleasar son hans og leið þá upp á Hórfjall.

26 Fær þú Aron úr klæðum sínum og skrýð Eleasar son hans þeim, en Aron skal safnast til fólks síns og deyja þar."

27 Móse gjörði svo sem Drottinn bauð honum, og þeir gengu upp á Hórfjall í augsýn alls fólksins.

28 Og Móse færði Aron úr klæðum hans og skrýddi Eleasar son hans þeim. Og Aron dó þar á háfjallinu. Gengu þeir Móse og Eleasar þá niður af fjallinu.

29 En er allt fólkið sá, að Aron var andaður, grétu allir Ísraelsmenn Aron þrjátíu daga.

21 Er kanverski konungurinn í Arad, sem bjó í Suður-Kanaan, spurði, að Ísrael kæmi Atarím-veginn, þá réðst hann á Ísrael og hertók nokkra þeirra.

Þá gjörði Ísrael Drottni heit og sagði: "Ef þú gefur lýð þennan á mitt vald, skal ég banni helga borgir þeirra."

Og Drottinn heyrði raust Ísraels og seldi Kanaanítana þeim í hendur. Og þeir helguðu þá banni og borgir þeirra, og var staðurinn kallaður Horma.

Lögðu þeir þá upp frá Hórfjalli leiðina til Rauðahafs til þess að fara í kringum Edómland. En lýðnum féllst hugur á leiðinni.

Og lýðurinn talaði í gegn Guði og í gegn Móse: "Hví leidduð þið oss brott af Egyptalandi, til þess að vér dæjum í eyðimörkinni. Hér er hvorki brauð né vatn, og vér erum orðnir leiðir á þessu léttmeti."

Þá sendi Drottinn eitraða höggorma meðal lýðsins, og þeir bitu fólkið, svo að margt manna dó af Ísrael.

Þá gekk lýðurinn til Móse og sagði: "Vér höfum syndgað, því að vér höfum talað í gegn Drottni og í gegn þér. Bið þú til Drottins, að hann taki höggormana frá oss." Móse bað þá fyrir lýðnum.

Og Drottinn sagði við Móse: "Gjör þér eiturorm og set hann á stöng, og það skal verða, að hver sem bitinn er og lítur á hann, skal lífi halda."

Móse gjörði höggorm af eiri og setti á stöng. Og það varð, að ef höggormur hafði bitið einhvern og hann leit til eirormsins, þá hélt hann lífi.

10 Eftir þetta lögðu Ísraelsmenn upp og settu búðir sínar í Óbót.

11 Og þeir lögðu upp frá Óbót og settu búðir sínar í Íje-Haabarím í eyðimörkinni, sem er fyrir austan Móab.

12 Þaðan lögðu þeir upp og settu búðir sínar í Sered-dal.

13 Þaðan lögðu þeir upp og settu búðir sínar hinum megin við Arnon, sem er í eyðimörkinni og kemur upp í landi Amoríta. Arnon skilur lönd Móabíta og Amoríta.

14 Fyrir því segir svo í bókinni um bardaga Drottins: Vaheb í Súfa og Arnondalir

15 og dalahlíðarnar, er ná þangað, sem Ar liggur, og liggja upp að löndum Móabíta.

16 Þaðan héldu þeir til Beer. Það er brunnurinn, sem Drottinn talaði um við Móse: "Safna saman lýðnum, ég vil gefa þeim vatn."

17 Þá söng Ísrael þetta kvæði: Vell þú upp, brunnur! Syngið í móti honum!

18 Brunnur, sem höfðingjarnir grófu og göfugmenni þjóðarinnar holuðu innan með veldissprota, með stöfum sínum. Frá eyðimörkinni héldu þeir til Mattana,

19 og frá Mattana til Nahalíel, og frá Nahalíel til Bamót,

20 og frá Bamót í dalinn, sem liggur í Móabslandi, að Pisgatindi, sem mænir yfir öræfin.

21 Ísrael sendi menn á fund Síhons Amorítakonungs og lét segja honum:

22 "Leyf mér að fara um land þitt. Eigi munum vér hneigja af út á akra né víngarða, og eigi munum vér drekka vatn úr brunnum, heldur munum vér fara Konungsveg, þar til vér erum komnir út úr landi þínu."

23 En Síhon leyfði eigi Ísrael að fara um land sitt. Hann safnaði að sér öllum lýð sínum og fór í móti Ísrael inn í eyðimörkina. Og er hann kom til Jahsa, lagði hann til orustu við Ísrael.

24 En Ísrael vann sigur á honum með sverðseggjum og lagði undir sig land hans frá Arnon til Jabbok, allt að Ammónítum, því að landamerki Ammóníta voru ekki auðunnin.

25 Ísrael tók allar þessar borgir og settist að í öllum borgum Amoríta, í Hesbon og öllum þorpunum þar í kring.

26 Hesbon var borg Síhons Amorítakonungs. Hafði hann átt í ófriði við hinn fyrri konung Móabíta og tekið frá honum allt land hans að Arnon.

27 Fyrir því sögðu háðskáldin: Komið til Hesbon! Endurreist og grundvölluð verði borg Síhons!

28 Því að eldur gekk út frá Hesbon, logi frá borg Síhons. Hann eyddi Ar í Móab, lávörðum Arnonhæða.

29 Vei þér, Móab! Það er úti um þig, Kamoss lýður! Kamos lét sonu sína verða flóttamenn og dætur sínar herteknar verða af Síhon, Amorítakonungi.

30 Vér skutum á þá. Gjöreydd var Hesbon allt til Díbon, og vér fórum herskildi yfir, svo að eldurinn bálaðist upp allt til Medeba.

31 Ísrael settist nú að í landi Amoríta.

32 En Móse sendi njósnarmenn til Jaser, og þeir unnu hana og þorpin þar í kring og ráku burt Amorítana, sem þar bjuggu.

33 Sneru þeir nú við og héldu veginn, sem liggur til Basan. En Óg, konungur í Basan, fór í móti þeim með öllu liði sínu til þess að heyja bardaga hjá Edreí.

34 Þá sagði Drottinn við Móse: "Eigi skalt þú óttast hann, því að ég gef hann og lið hans allt og land hans í þínar hendur, og skalt þú svo fara með hann, eins og þú fórst með Síhon, Amorítakonung, er bjó í Hesbon."

35 Og þeir felldu hann og sonu hans og allt hans lið, svo að enginn var eftir skilinn, er undan kæmist, og lögðu þeir land hans undir sig.

22 Ísraelsmenn lögðu upp og settu búðir sínar á Móabsheiðum, hinumegin Jórdanar gegnt Jeríkó.

En Balak Sippórsson sá allt það, sem Ísrael gjörði Amorítum.

Urðu Móabítar þá næsta hræddir við lýðinn, því að hann var fjölmennur, og það stóð þeim stuggur af Ísraelsmönnum.

Þá sögðu Móabítar við öldunga Midíansmanna: "Nú mun mannfjöldi þessi upp eta allt í kringum oss, eins og uxar eta grængresi í haga." Balak Sippórsson var um þær mundir konungur í Móab.

Sendi hann menn á fund Bíleams Beórssonar, til Petór, sem er við Efrat, í land samlanda sinna, til þess að sækja hann, og lét segja honum: "Sjá, þjóð nokkur er komin frá Egyptalandi. Þekur hún land allt og hefir nú tekið sér bólfestu gagnvart mér.

Kom því og bölva þjóð þessari fyrir mig, því að hún er mér ofurefli. Vera má, að ég fái þá sigrast á henni og stökkt henni úr landi, því að ég veit, að sá er blessaður, sem þú blessar, og sá bölvaður, sem þú bölvar."

Öldungar Móabíta og öldungar Midíansmanna fóru nú af stað og höfðu með sér spásagnarlaunin. Komu þeir til Bíleams og fluttu honum orð Balaks.

Bíleam sagði við þá: "Verið hér í nótt, og mun ég svara yður, eftir því sem Drottinn segir mér." Og höfðingjar Móabíta voru hjá Bíleam um nóttina.

En Guð kom til Bíleams og sagði: "Hvaða menn eru það, sem hjá þér eru?"

10 Bíleam sagði við Guð: "Balak Sippórsson, konungur í Móab, hefir gjört mér þessa orðsending:

11 ,Sjá, þjóð nokkur er hér komin af Egyptalandi, og þekur hún landið allt. Kom því og bið henni bölbæna fyrir mig. Vera má, að ég geti þá barist við hana og stökkt henni burt."`

12 En Guð sagði við Bíleam: "Eigi skalt þú fara með þeim, og eigi skalt þú bölva þessari þjóð, því að hún er blessuð."

13 Morguninn eftir reis Bíleam árla og sagði við höfðingja Balaks: "Farið heim í land yðar, því að Drottinn vill ekki leyfa mér að fara með yður."

14 Og höfðingjar Móabíta héldu af stað og komu til Balaks og sögðu: "Bíleam færðist undan að fara með oss."

15 Balak sendi þá enn höfðingja, fleiri og göfuglegri en þessir voru.

16 Og er þeir komu á fund Bíleams, sögðu þeir við hann: "Balak Sippórsson mælir svo: ,Lát þú ekkert aftra þér frá að koma á minn fund.

17 Ég vil veita þér mikla sæmd, og allt sem þú segir mér, skal ég gjöra. Kom því og bið lýð þessum bölbæna."`

18 En Bíleam svaraði og sagði við þjóna Balaks: "Þó að Balak gæfi mér hús sitt fullt af silfri og gulli, gæti ég samt ekki brugðið af boði Drottins, Guðs míns, hvorki í smáu né stóru.

19 En verið þér nú einnig hér í nótt, að ég megi vita, hvað Drottinn enn vill við mig tala."

20 Þá kom Guð til Bíleams um nóttina og sagði við hann: "Ef menn þessir eru komnir til að sækja þig, þá rís þú upp og far með þeim, og gjör þó það eitt, er ég býð þér."

21 Bíleam reis því árla um morguninn, söðlaði ösnu sína og fór með höfðingjum Móabíta.

22 En reiði Guðs upptendraðist af því, að hann fór, og engill Drottins stóð í götunni fyrir honum. En hann reið ösnu sinni, og tveir sveinar hans voru með honum.

23 Og er asnan sá engil Drottins standa í götunni með brugðið sverð í hendi, sneri hún af götunni og fór út á grundina, en Bíleam barði ösnuna til þess að koma henni aftur á götuna.

24 Þá gekk engill Drottins í öngvegið milli víngarðanna, og var grjótgarður á báðar hliðar.

25 Og er asnan sá engil Drottins, þrengdi hún sér upp að garðinum og varð fótur Bíleams í milli. Barði hann hana þá aftur.

26 Þá gekk engill Drottins enn fram fyrir og nam staðar í einstigi, þar sem ekki varð vikið til hægri né vinstri.

27 Og er asnan sá engil Drottins, lagðist hún undir Bíleam. Þá reiddist Bíleam og barði hana með staf sínum.

28 Drottinn lauk þá upp munni ösnunnar, og hún sagði við Bíleam: "Hvað hefi ég gjört þér, er þú hefir nú barið mig þrisvar?"

29 En Bíleam sagði við ösnuna: "Af því að þú hefir dregið dár að mér. Væri svo vel, að ég hefði sverð í hendi, mundi ég óðara drepa þig."

30 Þá sagði asnan við Bíleam: "Er ég eigi asna þín, er þú hefir riðið alla þína ævi fram á þennan dag? Hefi ég nokkurn tíma verið vön að gjöra þér þetta?" En hann sagði: "Nei."

31 Þá lauk Drottinn upp augum Bíleams, svo að hann sá engil Drottins standa í götunni með brugðið sverð í hendi, og hann laut honum og féll fram á ásjónu sína.

32 En engill Drottins sagði við hann: "Hví hefir þú nú barið ösnu þína þrisvar sinnum? Sjá, það er ég, sem kominn er til að standa fyrir þér, því að þessi för er háskaleg í mínum augum.

33 Asnan sá mig og vék þrisvar úr vegi fyrir mér. Hefði hún ekki vikið fyrir mér, mundi ég nú þegar hafa deytt þig, en hana mundi ég hafa látið lífi halda."

34 Þá sagði Bíleam við engil Drottins: "Ég hefi syndgað, því að ég vissi ekki að þú stóðst fyrir mér á veginum. Vil ég því snúa aftur, ef þér mislíkar."

35 En engill Drottins sagði við Bíleam: "Far þú með mönnunum, en ekki mátt þú tala annað en það, sem ég mun segja þér." Bíleam fór þá með höfðingjum Balaks.

36 Er Balak frétti að Bíleam kæmi, fór hann út í móti honum til Ír-Móab, sem liggur á landamærunum við Arnon, á ystu landamærunum.

37 Og Balak sagði við Bíleam: "Sendi ég ekki menn til þín til þess að sækja þig? Hví komst þú þá ekki til mín? Mun ég eigi þess megnugur að veita þér sæmd fyrir?"

38 En Bíleam sagði við Balak: "Sjá, ég er nú kominn til þín. En mun ég fá mælt nokkuð? Þau orð, sem Guð leggur mér í munn, þau mun ég mæla."

39 Bíleam fór þá með Balak, og þeir komu til Kirjat Kúsót.

40 Og Balak fórnaði nautum og sauðum og sendi Bíleam og höfðingjum þeim, sem með honum voru.

41 Um morguninn eftir tók Balak Bíleam með sér og fór með hann upp til fórnarhæðar Baals, en þaðan sá hann ysta hluta herbúða Ísraels.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Markúsarguðspjall 7:1-13 Icelandic Bible (ICELAND)

Nú safnast að honum farísear og nokkrir fræðimenn, komnir frá Jerúsalem.

Þeir sáu, að sumir lærisveina hans neyttu matar með vanhelgum, það er óþvegnum höndum.

En farísear, og reyndar Gyðingar allir, eta ekki nema þeir taki áður handlaugar, og fylgja þeir svo erfðavenju forfeðra sinna.

Og ekki neyta þeir matar, þegar þeir koma frá torgi, nema þeir hreinsi sig áður. Margt annað hafa þeir gengist undir að rækja, svo sem að hreinsa bikara, könnur og eirkatla.

Farísearnir og fræðimennirnir spyrja hann: "Hvers vegna fylgja lærisveinar þínir ekki erfðavenju forfeðranna, heldur neyta matar með vanhelgum höndum?"

Jesús svarar þeim: "Sannspár var Jesaja um yður hræsnara, þar sem ritað er: Þessi lýður heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér.

Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar.

Þér hafnið boðum Guðs, en haldið erfikenning manna."

Enn sagði hann við þá: "Listavel gjörið þér að engu boð Guðs, svo þér getið rækt erfikenning yðar.

10 Móse sagði: ,Heiðra föður þinn og móður þína.` og ,Hver sem formælir föður eða móður, skal dauða deyja.`

11 En þér segið: Ef maður segir við föður sinn eða móður: ,Það, sem þér hefði getað orðið til styrktar frá mér, er korban,` það er musterisfé,

12 þá leyfið þér honum ekki framar að gjöra neitt fyrir föður sinn eða móður.

13 Þannig látið þér erfikenning yðar, sem þér fylgið fram, ógilda orð Guðs. Og margt annað gjörið þér þessu líkt."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes