A A A A A
Bible Book List

Nehemíabók 7-9 Icelandic Bible (ICELAND)

Þegar nú múrinn var byggður, setti ég hurðirnar í, og hliðvörðunum og söngvurunum og levítunum var falið eftirlitið.

Og ég skipaði Hananí bróður minn og Hananja, yfirmann vígisins, yfir Jerúsalem, því að hann var svo áreiðanlegur maður og guðhræddur, að fáir voru hans líkar.

Og ég sagði við þá: "Ekki skal ljúka upp hliðum Jerúsalem fyrr en sól er komin hátt á loft, og áður en verðirnir fara burt, skal hurðunum lokað og slár settar fyrir. Og það skal setja verði af Jerúsalembúum, hvern á sína varðstöð, og það hvern gegnt húsi sínu."

Borgin var víðáttumikil og stór, en fátt fólk í henni og engin nýbyggð hús.

Þá blés Guð minn mér því í brjóst að safna saman tignarmönnunum, yfirmönnunum og lýðnum, til þess að láta taka manntal eftir ættum. Og ég fann ættarskrá þeirra, er fyrst höfðu farið heim, og þar fann ég ritað:

Þessir eru þeir úr skattlandinu, er heim fóru úr herleiðingarútlegðinni, þeir er Nebúkadnesar Babelkonungur hafði herleitt og nú sneru aftur til Jerúsalem og Júda, hver til sinnar borgar,

þeir sem komu með Serúbabel, Jósúa, Nehemía, Asarja, Raamja, Nahamaní, Mordekai, Bilsan, Misperet, Bigvaí, Nehúm og Baana. Talan á mönnum Ísraelslýðs var:

Niðjar Parós: 2.172.

Niðjar Sefatja: 372.

10 Niðjar Ara: 652.

11 Niðjar Pahat Móabs, sem sé niðjar Jesúa og Jóabs: 2.818.

12 Niðjar Elams: 1.254.

13 Niðjar Sattú: 845.

14 Niðjar Sakkaí: 760.

15 Niðjar Binnúí: 648.

16 Niðjar Bebaí: 628.

17 Niðjar Asgads: 2.322.

18 Niðjar Adóníkams: 667.

19 Niðjar Bigvaí: 2.067.

20 Niðjar Adíns: 655.

21 Niðjar Aters, frá Hiskía: 98.

22 Niðjar Hasúms: 328.

23 Niðjar Besaí: 324.

24 Niðjar Harífs: 112.

25 Ættaðir frá Gíbeon: 95.

26 Ættaðir frá Betlehem og Netófa: 188.

27 Menn frá Anatót: 128.

28 Menn frá Bet Asmavet: 42.

29 Menn frá Kirjat Jearím, Kefíra og Beerót: 743.

30 Menn frá Rama og Geba: 621.

31 Menn frá Mikmas: 122.

32 Menn frá Betel og Aí: 123.

33 Menn frá Nebó: 52.

34 Niðjar Elams hins annars: 1.254.

35 Niðjar Haríms: 320.

36 Ættaðir frá Jeríkó: 345.

37 Ættaðir frá Lód, Hadíd og Ónó: 721.

38 Ættaðir frá Senaa: 3.930.

39 Prestarnir: Niðjar Jedaja, af ætt Jesúa: 973.

40 Niðjar Immers: 1.052.

41 Niðjar Pashúrs: 1.247.

42 Niðjar Haríms: 1.017.

43 Levítarnir: Niðjar Jesúa og Kadmíels, af niðjum Hódeja: 74.

44 Söngvararnir: Niðjar Asafs: 148.

45 Hliðverðirnir: Niðjar Sallúms, niðjar Aters, niðjar Talmóns, niðjar Akúbs, niðjar Hatíta, niðjar Sóbaí: 138.

46 Musterisþjónarnir: Niðjar Síha, niðjar Hasúfa, niðjar Tabbaóts,

47 niðjar Kerós, niðjar Sía, niðjar Padóns,

48 niðjar Lebana, niðjar Hagaba, niðjar Salmaí,

49 niðjar Hanans, niðjar Giddels, niðjar Gahars,

50 niðjar Reaja, niðjar Resíns, niðjar Nekóda,

51 niðjar Gassams, niðjar Ússa, niðjar Pasea,

52 niðjar Besaí, niðjar Meúníta, niðjar Nefísíta,

53 niðjar Bakbúks, niðjar Hakúfa, niðjar Harhúrs,

54 niðjar Baselíts, niðjar Mehída, niðjar Harsa,

55 niðjar Barkós, niðjar Sísera, niðjar Tema,

56 niðjar Nesía, niðjar Hatífa.

57 Niðjar þræla Salómons: Niðjar Sótaí, niðjar Sóferets, niðjar Perída,

58 niðjar Jaala, niðjar Darkóns, niðjar Giddels,

59 niðjar Sefatja, niðjar Hattils, niðjar Pókeret Hassebaíms, niðjar Amóns.

60 Allir musterisþjónarnir og niðjar þræla Salómons voru 392.

61 Og þessir eru þeir, sem fóru heim frá Tel Mela, Tel Harsa, Kerúb, Addón og Immer, en kunnu eigi að greina ætt sína og uppruna, hvort þeir væru komnir af Ísrael:

62 niðjar Delaja, niðjar Tobía, niðjar Nekóda: 642.

63 Og af prestunum: niðjar Hobaja, niðjar Hakkós, niðjar Barsillaí, er gengið hafði að eiga eina af dætrum Barsillaí Gíleaðíta og nefndur hafði verið nafni þeirra.

64 Þessir leituðu að ættartölum sínum, en þær fundust ekki. Var þeim því hrundið frá prestdómi.

65 Og landstjórinn sagði þeim, að þeir mættu ekki eta af hinu háheilaga, þar til er kæmi fram prestur, er kynni að fara með úrím og túmmím.

66 Allur söfnuðurinn var til samans 42.360,

67 auk þræla þeirra og ambátta, er voru 7.337. Þeir höfðu 245 söngvara og söngkonur.

68 Hestar þeirra voru 736, múlar 245,

69 úlfaldar 435, asnar 6.720.

70 Og nokkur hluti ætthöfðingjanna gaf til byggingarinnar. Landstjórinn gaf í sjóðinn: í gulli 1.000 daríka, 50 fórnarskálar og 530 prestserki.

71 Og sumir ætthöfðingjanna gáfu í byggingarsjóðinn: í gulli 20.000 daríka og í silfri 2.200 mínur.

72 Og það, sem hitt fólkið gaf, var: í gulli 20.000 daríkar og í silfri 2.000 mínur og 67 prestserkir.

73 Þannig tóku prestarnir og levítarnir og hliðverðirnir og söngvararnir og nokkrir af lýðnum og musterisþjónarnir og allur Ísrael sér bólfestu í borgum sínum. En er sjöundi mánuðurinn kom, voru Ísraelsmenn í borgum sínum.

Allur lýðurinn safnaðist saman eins og einn maður á torginu fyrir framan Vatnshliðið. Og þeir báðu Esra fræðimann að sækja lögmálsbók Móse, er Drottinn hafði sett Ísrael.

Þá kom Esra prestur með lögmálið fram fyrir söfnuðinn, bæði karla og konur og alla þá, er vit höfðu á að taka eftir, á fyrsta degi hins sjöunda mánaðar.

Og hann las upp úr því á torginu, sem er fyrir framan Vatnshliðið, frá birtingu til hádegis, í viðurvist karla og kvenna og þeirra barna, er vit höfðu á, og eyru alls lýðsins hlýddu á lögmálsbókina.

Esra fræðimaður stóð á háum trépalli, er menn höfðu gjört til þessa, og hjá honum stóðu Mattitja, Sema, Anaja, Úría, Hilkía og Maaseja, honum til hægri hliðar, og honum til vinstri hliðar Pedaja, Mísael, Malkía, Hasúm, Hasbaddana, Sakaría og Mesúllam.

Og Esra lauk upp bókinni í augsýn alls fólksins, því að hann stóð hærra en allur lýðurinn, og þegar hann lauk henni upp, stóð allur lýðurinn upp.

Og Esra lofaði Drottin, hinn mikla Guð, og allur lýðurinn svaraði: "Amen! amen!" og fórnuðu þeir um leið upp höndunum og beygðu sig og féllu fram á ásjónur sínar til jarðar fyrir Drottni.

Og levítarnir Jesúa, Baní, Serebja, Jamín, Akkúb, Sabtaí, Hódía, Maaseja, Kelíta, Asarja, Jósabad, Hanan og Pelaja skýrðu lögmálið fyrir lýðnum, en fólkið var kyrrt á sínum stað.

Þeir lásu skýrt upp úr bókinni, lögmáli Guðs, og útskýrðu það, svo að menn skildu hið upplesna.

Og Nehemía _ það er landstjórinn _ og Esra prestur, fræðimaðurinn, og levítarnir, sem fræddu lýðinn, sögðu við gjörvallan lýðinn: "Þessi dagur er helgaður Drottni, Guði yðar. Sýtið eigi né grátið!" Því að allur lýðurinn grét, þegar þeir heyrðu orð lögmálsins.

10 Og Esra sagði við þá: "Farið og etið feitan mat og drekkið sæt vín og sendið þeim skammta, sem ekkert er tilreitt fyrir, því að þessi dagur er helgaður Drottni vorum. Verið því eigi hryggir, því að gleði Drottins er hlífiskjöldur yðar."

11 Og levítarnir sefuðu allan lýðinn með því að segja: "Verið hljóðir, því að þessi dagur er heilagur. Verið því eigi hryggir."

12 Þá fór allt fólkið til þess að eta og drekka og senda skammta og halda mikla gleðihátíð, því að þeir höfðu skilið þau orð, er menn höfðu kunngjört þeim.

13 Daginn eftir söfnuðust ætthöfðingjar alls lýðsins, prestarnir og levítarnir saman hjá Esra fræðimanni til þess að gefa gaum að orðum lögmálsins.

14 Þá fundu þeir ritað í lögmálinu, er Drottinn hafði sett þeim fyrir Móse, að Ísraelsmenn skyldu búa í laufskálum á hátíðinni í sjöunda mánuðinum,

15 og að þeir ættu að kunngjöra og láta boð út ganga í öllum borgum sínum og í Jerúsalem á þessa leið: "Farið upp í fjöll og komið með greinar af olíuviði og greinar af villi-olíuviði og greinar af mýrtusviði og greinar af pálmaviði og greinar af þéttlaufguðum trjám, til þess að gjöra af laufskála, eins og skrifað er."

16 Og fólkið fór og sótti greinar, og þeir gjörðu sér laufskála hver á sínu húsþaki og í forgörðum sínum og í forgörðum Guðs húss og á torginu fyrir framan Vatnshliðið og á torginu fyrir framan Efraímhliðið.

17 Og allur söfnuðurinn, þeir er aftur voru heim komnir úr herleiðingunni, byggðu laufskála og bjuggu í laufskálunum. Því að Ísraelsmenn höfðu eigi gjört það síðan á dögum Jósúa Núnssonar allt til þessa dags, og varð þar því mjög mikil gleði.

18 Og það var lesið upp úr lögmálsbók Guðs á degi hverjum, frá fyrsta degi til hins síðasta dags. Og þeir héldu hátíð í sjö daga, og áttunda daginn var hátíðasamkoma, eins og fyrirskipað var.

Á tuttugasta og fjórða degi þessa mánaðar söfnuðust Ísraelsmenn saman og föstuðu og klæddust hærusekk og jusu mold yfir höfuð sér.

Og niðjar Ísraels skildu sig frá öllum útlendingum, og þeir gengu fram og játuðu syndir sínar og misgjörðir feðra sinna.

Og þeir stóðu upp þar sem þeir voru, og menn lásu upp úr lögmálsbók Drottins, Guðs þeirra, fjórða hluta dagsins, og annan fjórða hluta dagsins játuðu þeir syndir sínar og féllu fram fyrir Drottni, Guði sínum.

Á levíta-pallinum stóðu þeir Jesúa, Baní, Kadmíel, Sebanja, Búnní, Serebja, Banní og Kenaní og hrópuðu með hárri röddu til Drottins, Guðs þeirra.

Og levítarnir Jesúa, Kadmíel, Baní, Hasabneja, Serebja, Hódía, Sebanja, Petahja sögðu: "Standið upp og vegsamið Drottin, Guð yðar, frá eilífð til eilífðar! Menn vegsami þitt dýrlega nafn, sem hafið er yfir alla vegsaman og lofgjörð!

Þú, Drottinn, þú einn ert Drottinn! Þú hefir skapað himininn, himnanna himna og allan þeirra her, jörðina og allt, sem á henni er, hafið og allt, sem í því er, og þú gefur því öllu líf, og himinsins her hneigir þér.

Það ert þú, Drottinn Guð, sem kjörið hefir Abram og leitt hann út frá Úr í Kaldeu og gefið honum nafnið Abraham.

Og með því að þú reyndir hann að trúmennsku gagnvart þér, þá gjörðir þú sáttmála við hann um að gefa niðjum hans land Kanaaníta, Hetíta, Amóríta, Peresíta, Jebúsíta og Gírgasíta. Og þú efndir orð þín, því að þú ert réttlátur.

Og er þú sást eymd feðra vorra í Egyptalandi og heyrðir neyðaróp þeirra við Rauðahafið,

10 þá gjörðir þú tákn og undur á Faraó og á öllum þjónum hans og á öllum lýð í landi hans, því að þú vissir að þeir höfðu sýnt þeim ofstopa. Og þannig afrekaðir þú þér mikið nafn fram á þennan dag.

11 Og þú klaufst hafið fyrir þeim, svo að þeir gengu á þurru mitt í gegnum hafið. En þeim, sem eltu þá, steyptir þú í sjávardjúpið eins og steini, í ströng vötn.

12 Og þú leiddir þá í skýstólpa um daga og í eldstólpa um nætur, til þess að lýsa þeim á veginum, sem þeir áttu að fara.

13 Og þú steigst niður á Sínaífjall og talaðir við þá af himnum og gafst þeim sanngjörn ákvæði, réttlát lög og góða setninga og boðorð.

14 Og þú gjörðir þeim kunnugan hinn heilaga hvíldardag þinn, og boðorð, setninga og lögmál settir þú þeim fyrir þjón þinn Móse.

15 Og þú gafst þeim brauð af himni við hungri þeirra og leiddir vatn af hellunni handa þeim við þorsta þeirra, og þú bauðst þeim að koma til þess að taka landið til eignar, sem þú hafðir svarið að gefa þeim.

16 En feður vorir urðu ofstopafullir og þverskölluðust og hlýddu ekki boðorðum þínum.

17 Þeir vildu ekki hlýða og minntust ekki dásemdarverka þinna, þeirra er þú hafðir á þeim gjört, en gjörðust harðsvíraðir og völdu sér í þverúð sinni fyrirliða til að snúa aftur til ánauðar sinnar. En þú ert Guð, sem fús er á að fyrirgefa, náðugur og miskunnsamur, þolinmóður og elskuríkur, og yfirgafst þá ekki.

18 Jafnvel þá, er þeir gjörðu sér steyptan kálf og sögðu: ,Þetta er guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi,` og frömdu miklar guðlastanir,

19 þá yfirgafst þú þá ekki á eyðimörkinni vegna þinnar miklu miskunnar. Skýstólpinn veik ekki frá þeim um daga, til þess að leiða þá á veginum, né eldstólpinn um nætur, til þess að lýsa þeim á veginum, sem þeir áttu að fara.

20 Og þú gafst þeim þinn góða anda til þess að fræða þá, og þú hélst ekki manna þínu frá munni þeirra og gafst þeim vatn við þorsta þeirra.

21 Fjörutíu ár ólst þú önn fyrir þeim á eyðimörkinni, svo að þá skorti ekkert. Föt þeirra slitnuðu ekki og fætur þeirra þrútnuðu ekki.

22 Og þú gafst þeim konungsríki og þjóðir og skiptir þeim til ystu takmarka, og þeir lögðu undir sig land Síhons og land konungsins í Hesbon og land Ógs, konungs í Basan.

23 Og þú gjörðir niðja þeirra svo marga sem stjörnur á himni og leiddir þá inn í það land, er þú hafðir heitið feðrum þeirra, að þeir skyldu komast inn í til þess að taka það til eignar.

24 Og niðjarnir komust þangað og tóku landið til eignar, og þú lagðir íbúa landsins, Kanaanítana, undir þá og gafst þá á þeirra vald, bæði konunga þeirra og íbúa landsins, svo að þeir gætu með þá farið eftir geðþótta sínum.

25 Og þeir unnu víggirtar borgir og feitt land og tóku til eignar hús, full af öllum góðum hlutum, úthöggna brunna, víngarða og olífugarða og ógrynni af aldintrjám. Og þeir átu og urðu saddir og feitir og lifðu í sællífi fyrir þína miklu gæsku.

26 En þeir gjörðust þverbrotnir og gjörðu uppreisn gegn þér og vörpuðu lögmáli þínu að baki sér, og spámenn þína, þá er áminntu þá til þess að snúa þeim aftur til þín, þá drápu þeir og frömdu miklar guðlastanir.

27 Þá gafst þú þá í hendur óvina þeirra, og þeir þjáðu þá. En þegar þeir voru í nauðum staddir, hrópuðu þeir til þín, og þú heyrðir þá af himnum og gafst þeim frelsara af mikilli miskunn þinni, er frelsuðu þá úr höndum óvina þeirra.

28 En er þeir höfðu fengið hvíld, tóku þeir aftur að gjöra það sem illt var fyrir augliti þínu. Þá ofurseldir þú þá óvinum þeirra, svo að þeir drottnuðu yfir þeim. Þá hrópuðu þeir aftur til þín, og þú heyrðir þá af himnum og bjargaðir þeim af miskunn þinni mörgum sinnum.

29 Og þú áminntir þá til þess að snúa þeim aftur til lögmáls þíns. En þeir voru hrokafullir og hlýddu ekki boðorðum þínum og syndguðu gegn skipunum þínum, þeim er hver sá skal af lifa, er breytir eftir þeim. Þeir þverskölluðust, gjörðust harðsvíraðir og hlýddu ekki.

30 Og þú umbarst þá í mörg ár og áminntir þá með anda þínum fyrir spámenn þína, en þeir heyrðu ekki. Þá ofurseldir þú þá á vald heiðinna þjóða,

31 en sökum þinnar miklu miskunnar gjörðir þú eigi alveg út af við þá og yfirgafst þá eigi, því að þú ert náðugur og miskunnsamur Guð.

32 Og nú, Guð vor, þú mikli, voldugi og ógurlegi Guð, þú sem heldur sáttmálann og miskunnsemina, lát þér eigi litlar þykja allar þær þrautir, er vér höfum orðið að sæta: konungar vorir, höfðingjar vorir, prestar vorir, spámenn vorir, feður vorir og gjörvallur lýður þinn, frá því á dögum Assýríukonunga og fram á þennan dag.

33 En þú ert réttlátur í öllu því, sem yfir oss hefir komið, því að þú hefir auðsýnt trúfesti, en vér höfum breytt óguðlega.

34 Konungar vorir, höfðingjar vorir, prestar vorir og feður vorir hafa ekki heldur haldið lögmál þitt né hlýtt skipunum þínum og aðvörunum, er þú hefir aðvarað þá með.

35 Og þótt þeir byggju í sínu eigin konungsríki og við mikla velsæld, er þú veittir þeim, og í víðlendu og frjósömu landi, er þú gafst þeim, þá þjónuðu þeir þér ekki og létu eigi af illskubreytni sinni.

36 Sjá, nú erum vér þrælar, og landið, sem þú gafst feðrum vorum, til þess að þeir nytu ávaxta þess og gæða, _ sjá, í því erum vér þrælar.

37 Það veitir konungunum sinn mikla ávöxt, þeim er þú settir yfir oss vegna synda vorra. Þeir drottna yfir líkömum vorum og fénaði eftir eigin hugþótta, og vér erum í miklum nauðum."

38 Sakir alls þessa gjörðum vér fasta skuldbindingu og skrifuðum undir hana. Og á hinu innsiglaða skjali stóðu nöfn höfðingja vorra, levíta og presta.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Postulasagan 3 Icelandic Bible (ICELAND)

Pétur og Jóhannes gengu upp í helgidóminn til síðdegisbæna.

Þá var þangað borinn maður, lami frá móðurlífi, er dag hvern var settur við þær dyr helgidómsins, sem nefndar eru Fögrudyr, til að beiðast ölmusu hjá þeim, er inn gengu í helgidóminn.

Er hann sá þá Pétur og Jóhannes á leið inn í helgidóminn, baðst hann ölmusu.

Þeir horfðu fast á hann, og Pétur sagði: "Lít þú á okkur."

Hann starði á þá í von um að fá eitthvað hjá þeim.

Pétur sagði: "Silfur og gull á ég ekki, en það sem ég hef, það gef ég þér: Í nafni Jesú Krists frá Nasaret, statt upp og gakk!"

Og hann tók í hægri hönd honum og reisti hann upp. Jafnskjótt urðu fætur hans og ökklar styrkir,

hann spratt upp, stóð í fætur og tók að ganga. Hann fór inn með þeim í helgidóminn, gekk um og stökk og lofaði Guð.

Allt fólkið sá hann ganga um og lofa Guð.

10 Þeir þekktu, að hann var sá er hafði setið fyrir Fögrudyrum helgidómsins til að beiðast ölmusu. Urðu þeir furðu lostnir og frá sér numdir af því, sem fram við hann hafði komið.

11 Hann hélt sér að Pétri og Jóhannesi, og þá flykktist allt fólkið furðu lostið til þeirra í súlnagöngin, sem kennd eru við Salómon.

12 Þegar Pétur sá það, ávarpaði hann fólkið: "Ísraelsmenn, hví furðar yður á þessu eða hví starið þér á okkur, eins og við hefðum af eigin mætti eða guðrækni komið því til leiðar, að þessi maður gengur?

13 Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs, Guð feðra vorra hefur dýrlegan gjört þjón sinn, Jesú, sem þér framselduð og afneituðuð frammi fyrir Pílatusi, er hann hafði ályktað að láta hann lausan.

14 Þér afneituðuð hinum heilaga og réttláta, en beiddust að manndrápari yrði gefinn yður.

15 Þér líflétuð höfðingja lífsins, en Guð uppvakti hann frá dauðum, og að því erum vér vottar.

16 Trúin á nafn Jesú gjörði þennan mann, sem þér sjáið og þekkið, styrkan. Nafnið hans og trúin, sem hann gefur, veitti honum þennan albata fyrir augum yðar allra.

17 Nú veit ég, bræður, að þér gjörðuð það af vanþekkingu, sem og höfðingjar yðar.

18 En Guð lét þannig rætast það, sem hann hafði boðað fyrirfram fyrir munn allra spámannanna, að Kristur hans skyldi líða.

19 Gjörið því iðrun og snúið yður, að syndir yðar verði afmáðar.

20 Þá munu koma endurlífgunartímar frá augliti Drottins, og hann mun senda Krist, sem yður er fyrirhugaður, sem er Jesús.

21 Hann á að vera í himninum allt til þess tíma, þegar Guð endurreisir alla hluti, eins og hann hefur sagt fyrir munn sinna heilögu spámanna frá alda öðli.

22 Móse sagði: ,Spámann mun Drottinn, Guð yðar, uppvekja yður af bræðrum yðar eins og mig. Á hann skuluð þér hlýða í öllu, er hann talar til yðar.

23 Og sérhver sá, sem hlýðir ekki á þennan spámann, skal upprættur verða úr lýðnum.`

24 Allir spámennirnir, Samúel og þeir sem á eftir komu, allir þeir sem talað hafa, boðuðu og þessa daga.

25 Þér eruð börn spámannanna og eigið hlut í sáttmálanum, sem Guð gjörði við feður yðar, er hann sagði við Abraham: ,Af þínu afkvæmi skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta.`

26 Guð hefur reist upp þjón sinn og sent hann yður fyrst til að blessa yður og snúa hverjum yðar frá vondri breytni sinni."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes