A A A A A
Bible Book List

Nehemíabók 1-5 Icelandic Bible (ICELAND)

Frásögn Nehemía Hakalíasonar. Í kislevmánuði tuttugasta árið, þá er ég var í borginni Súsa,

kom Hananí, einn af bræðrum mínum, ásamt nokkrum mönnum frá Júda. Spurði ég þá um Gyðinga, þá er undan komust, þá er eftir voru af hinum herleiddu, og um Jerúsalem.

Og þeir svöruðu mér: "Leifarnar _ þeir er eftir eru af hinum herleiddu þar í skattlandinu, eru mjög illa staddir og í fyrirlitningu, með því að múrar Jerúsalem eru niður brotnir og borgarhliðin í eldi brennd."

Þegar ég heyrði þessi tíðindi, þá settist ég niður og grét og harmaði dögum saman, og ég fastaði og var á bæn til Guðs himnanna.

Og ég sagði: "Æ, Drottinn, Guð himnanna, þú mikli og ógurlegi Guð, sem heldur sáttmálann og miskunnsemina við þá, sem elska hann og varðveita boðorð hans.

Lát eyra þitt vera gaumgæfið og augu þín opin, til þess að þú heyrir bæn þjóns þíns, þá er ég nú bið frammi fyrir þér bæði daga og nætur sakir Ísraelsmanna, þjóna þinna, með því að ég játa syndir Ísraelsmanna, er þeir hafa drýgt móti þér. Ég og ættfólk mitt höfum og syndgað.

Vér höfum breytt illa gagnvart þér og ekki varðveitt boðorðin, lögin og ákvæðin, er þú lagðir fyrir Móse, þjón þinn.

Minnstu orðsins, er þú bauðst Móse, þjóni þínum, segjandi: ,Ef þér bregðið trúnaði, mun ég tvístra yður meðal þjóðanna.

En þegar þér hverfið aftur til mín og varðveitið boðorð mín og breytið eftir þeim _ þótt yðar brottreknu væru yst við skaut himinsins, þá mun ég saman safna þeim þaðan og leiða þá til þess staðar, er ég hefi valið til þess að láta nafn mitt búa þar.`

10 Því að þínir þjónar eru þeir og þinn lýður, er þú frelsaðir með miklum mætti þínum og með sterkri hendi þinni.

11 Æ, herra, lát eyra þitt vera gaumgæfið að bæn þjóns þíns og bæn þjóna þinna, er fúslega óttast nafn þitt. Farsæl þjón þinn í dag og lát hann finna meðaumkun hjá manni þessum." Ég var þá byrlari hjá konungi.

Í nísanmánuði á tuttugasta ríkisári Artahsasta konungs, þá er vín stóð fyrir framan konung, tók ég vínið og rétti að honum, án þess að láta á því bera við hann, hve illa lá á mér.

En konungur sagði við mig: "Hví ert þú svo dapur í bragði, þar sem þú ert þó ekki sjúkur? Það hlýtur að liggja illa á þér." Þá varð ég ákaflega hræddur.

Og ég sagði við konung: "Konungurinn lifi eilíflega! Hví skyldi ég ekki vera dapur í bragði, þar sem borgin, er geymir grafir forfeðra minna, er í eyði lögð og hlið hennar í eldi brennd?"

Þá sagði konungur við mig: "Hvers beiðist þú þá?" Þá gjörði ég bæn mína til Guðs himnanna;

síðan mælti ég til konungs: "Ef konungi þóknast svo og ef þú telur þjón þinn til þess færan, þá send mig til Júda, til borgar þeirrar, er geymir grafir forfeðra minna, til þess að ég endurreisi hana."

Konungur mælti til mín _ en drottning sat við hlið honum: "Hversu lengi mun ferð þín standa yfir, og hvenær kemur þú aftur?" Og konungi þóknaðist að senda mig, og ég tiltók ákveðinn tíma við hann.

Og ég sagði við konung: "Ef konunginum þóknast svo, þá lát fá mér bréf til landstjóranna í héraðinu hinumegin Fljóts, til þess að þeir leyfi mér að fara um lönd sín, þar til er ég kem til Júda,

og bréf til Asafs, skógarvarðar konungsins, til þess að hann láti mig fá við til þess að gjöra af bjálka í hlið kastalans, er heyrir til musterisins, og til borgarmúranna og til hússins, er ég mun fara í." Og konungur veitti mér það, með því að hönd Guðs míns hvíldi náðarsamlega yfir mér.

Og er ég kom til landstjóranna í héraðinu hinumegin Fljóts, þá fékk ég þeim bréf konungs. Konungur sendi og með mér höfuðsmenn og riddara.

10 En er Sanballat Hóroníti og Tobía þjónn, Ammónítinn, spurðu það, gramdist þeim það mikillega, að kominn skyldi vera maður til að annast hagsmuni Ísraelsmanna.

11 Og ég kom til Jerúsalem, og er ég hafði verið þar þrjá daga,

12 fór ég á fætur um nótt og fáeinir menn með mér, án þess að hafa sagt nokkrum manni frá því, er Guð minn blés mér í brjóst að gjöra fyrir Jerúsalem, og án þess að nokkur skepna væri með mér, nema skepnan, sem ég reið.

13 Og ég fór út um Dalshliðið um nóttina og í áttina til Drekalindar og Mykjuhliðs, og ég skoðaði múra Jerúsalem, hversu þeir voru rifnir niður og hlið hennar í eldi brennd.

14 Síðan hélt ég áfram til Lindarhliðs og Konungstjarnar. Þá var skepnunni ekki lengur fært að komast áfram undir mér.

15 Gekk ég þá upp í dalinn um nóttina og skoðaði múrinn. Síðan kom ég aftur inn um Dalshliðið og sneri heim.

16 En yfirmennirnir vissu ekki, hvert ég hafði farið né hvað ég ætlaði að gjöra, með því að ég hafði enn ekki neitt sagt Gyðingum né prestunum né tignarmönnunum né yfirmönnunum né öðrum þeim, er að verkinu unnu.

17 Og ég sagði nú við þá: "Þér sjáið, hversu illa vér erum staddir, þar sem Jerúsalem er í eyði lögð og hlið hennar í eldi brennd. Komið, vér skulum endurreisa múra Jerúsalem, svo að vér verðum ekki lengur hafðir að spotti."

18 Og ég sagði þeim, hversu náðarsamlega hönd Guðs míns hefði hvílt yfir mér, svo og orð konungs, þau er hann talaði til mín. Þá sögðu þeir: "Vér viljum fara til og byggja!" Og þeir styrktu hendur sínar til hins góða verksins.

19 En er Sanballat Hóroníti og Tobía þjónn, Ammónítinn, og Gesem Arabi spurðu þetta, gjörðu þeir gys að oss, sýndu oss fyrirlitningu og sögðu: "Hvað er þetta, sem þér hafið fyrir stafni? Ætlið þér að gjöra uppreisn móti konunginum?"

20 En ég svaraði þeim og sagði við þá: "Guð himnanna, hann mun láta oss takast þetta, en vér þjónar hans munum fara til og byggja. En þér eigið enga hlutdeild né rétt né minning í Jerúsalem."

Þá tóku þeir sig til, Eljasíb æðsti prestur og bræður hans, prestarnir, og reistu Sauðahliðið _ vígðu þeir það og settu hurðirnar í það _ og allt að Hammeaturni _ hann vígðu þeir _ allt að Hananelturni.

Næstir honum byggðu Jeríkómenn, og næstur þeim byggði Sakkúr Imríson.

Fiskhliðið byggðu Senaamenn. Þeir gjörðu þar dyraumbúnað og settu hurðirnar í það, lokurnar og slagbrandana.

Næstur þeim hlóð upp Meremót Úríason, Hakkóssonar. Næstur honum hlóð upp Mesúllam Berekíason, Mesesabeelssonar. Næstur honum hlóð upp Sadók Baanason.

Næstir honum hlóðu upp Tekóamenn, en göfugmenni þeirra beygðu ekki háls sinn undir þjónustu herra síns.

Við gamla hliðið gjörðu þeir Jójada Paseason og Mesúllam Besódíason. Þeir gjörðu þar dyraumbúnað og settu hurðirnar í það, lokurnar og slagbrandana.

Næstir þeim hlóðu upp Melatja Gíbeoníti og Jadón Merónótíti og meðal þeirra menn frá Gíbeon og Mispa, sem lutu hástól landstjórans í héraðinu hinumegin Fljóts.

Næstur þeim hlóð upp Ússíel Harhajason og með honum gullsmiðirnir. Næstur honum hlóð upp Hananja, einn af smyrslasölunum. Og þeir steinlögðu Jerúsalem allt að breiða múrnum.

Næstur honum hlóð upp Refaja Húrsson, höfðingi yfir hálfu héraðinu kringum Jerúsalem.

10 Næstur honum hlóð upp Jedaja Harúmafsson, og það gegnt húsi sínu. Næstur honum hlóð upp Hattús Hasabnejason.

11 Annan part hlóðu upp þeir Malkía Harímsson og Hasúb Pahat Móabsson, svo og baksturofnsturninn.

12 Næstur þeim hlóð upp Sallúm Hallóhesson, höfðingi yfir hinum helming héraðsins kringum Jerúsalem _ hann og dætur hans.

13 Við Dalshliðið gjörði Hanún og Sanóabúar _ þeir byggðu það og settu hurðirnar í það, lokurnar og slagbrandana _ og þúsund álnir af múrnum, allt að Mykjuhliðinu.

14 Við Mykjuhliðið gjörði Malkía Rekabsson, höfðingi yfir Bet Keremhéraði _ hann byggði það og setti hurðirnar í það, lokurnar og slagbrandana.

15 Við Lindarhliðið gjörði Sallún Kol Hóseson, höfðingi yfir Mispahéraði _ hann byggði það, gjörði þak á það, setti hurðirnar í það, lokurnar og slagbrandana _, enn fremur múrinn hjá vatnsveitutjörninni að Kóngsgarðinum og allt að tröppunum, er liggja niður frá Davíðsborg.

16 Næstur á eftir honum hlóð upp Nehemía Asbúksson, höfðingi yfir hálfu Bet Súrhéraði, þar til komið var gegnt gröfum Davíðs og að tilbúnu tjörninni og kappahúsinu.

17 Næstir á eftir honum hlóðu upp levítarnir, og var Rehúm Baníson fyrir þeim. Næstur þeim hlóð upp Hasabja, höfðingi yfir hálfu Kegíluhéraði, fyrir sitt hérað.

18 Næstir á eftir honum hlóðu upp bræður þeirra og fyrir þeim Bavvaí Henadadsson, höfðingi yfir hinum helming Kegíluhéraðs.

19 Næstur þeim hlóð upp Eser Jesúason, höfðingi yfir Mispa, annan part, gegnt þar sem gengið er upp í vopnabúrið á horninu.

20 Næstur á eftir honum, upp fjallið, hlóð upp Barúk Sabbaíson, annan part, frá horninu að dyrunum á húsi Eljasíbs æðsta prests.

21 Næstur á eftir honum hlóð upp Meremót Úríason, Hakkóssonar, annan part, frá dyrunum á húsi Eljasíbs að endanum á húsi Eljasíbs.

22 Næstir á eftir honum hlóðu upp prestarnir, menn þar úr grenndinni.

23 Næstir á eftir þeim hlóðu upp þeir Benjamín og Hassúb, gegnt húsi sínu. Næstur á eftir þeim hlóð upp Asarja Maasejason, Ananjasonar, hjá húsi sínu.

24 Næstur á eftir honum hlóð upp Binnúí Henadadsson, annan part, frá húsi Asarja að horninu, þar að sem múrinn beygir við.

25 Palal Úsaíson gegnt horninu og efri turninum, sem gengur út úr höll konungs og heyrir til varðgarðsins. Næstur á eftir honum Pedaja Parósson.

26 En musterisþjónarnir bjuggu í Ófel, austur á móts við Vatnshliðið og turninn, er þar gengur fram.

27 Næstir á eftir honum hlóðu upp Tekóamenn, annan part, gegnt stóra turninum, er þar gekk fram, allt að Ófelmúrnum.

28 Fyrir ofan Hrossahliðið hlóðu prestarnir upp hver gegnt húsi sínu.

29 Næstur á eftir þeim hlóð upp Sadók Immersson gegnt húsi sínu. Næstur á eftir honum hlóð upp Semaja Sekanjason, vörður Austurhliðsins.

30 Næstir á eftir honum hlóðu upp þeir Hananja Selemjason og Hanún, sjötti sonur Salafs, annan part. Næstur á eftir þeim hlóð upp Mesúllam Berekíason, gegnt klefa sínum.

31 Næstur á eftir honum hlóð upp Malkía, einn af gullsmiðunum, allt að húsi musterisþjónanna, og kaupmennirnir gegnt Mífkaðhliðinu og allt að hornsvölunum.

32 Og milli hornsvalanna og Sauðahliðsins hlóðu gullsmiðirnir og kaupmennirnir.

Þá er Sanballat heyrði, að vér værum að endurreisa múrinn, varð hann reiður og gramdist honum það mjög. Og hann gjörði gys að Gyðingum

og talaði í áheyrn bræðra sinna og herliðs Samaríu og mælti: "Hvað hafa Gyðingarnir fyrir stafni, þeir vesalingar? Skyldu þeir hætta við það aftur? Munu þeir fórna? Ætli þeir ljúki við það í dag? Munu þeir gjöra steinana í rústahaugunum lifandi, þar sem þeir þó eru brunnir?"

Og Tobía Ammóníti stóð hjá honum og mælti: "Hvað sem þeir nú eru að byggja _ ef refur stigi á það, þá mundi steinveggur þeirra hrynja undan honum!"

Heyr, Guð vor, hversu vér erum smánaðir! Lát háð þeirra koma þeim sjálfum í koll og framsel þá til ráns hernumda í öðru landi.

Hyl eigi misgjörð þeirra, og synd þeirra afmáist aldrei fyrir augliti þínu, því að þeir hafa egnt þig til reiði í augsýn þeirra, sem eru að byggja.

En vér héldum áfram að byggja múrinn og allur múrinn varð fullgjör upp að miðju, og hafði lýðurinn áhuga á verkinu.

En er Sanballat og Tobía og Arabar og Ammónítar og Asdódmenn heyrðu, að farið væri að gjöra við múra Jerúsalem, að skörðin væru tekin að fyllast, urðu þeir mjög reiðir.

Og þeir tóku sig allir saman um að koma og herja á Jerúsalem og gjöra þar spell.

En vér gjörðum bæn vora til Guðs vors og settum vörð gegn þeim bæði dag og nótt af ótta fyrir þeim.

10 En Gyðingar sögðu: "Burðarmennirnir gefast upp og rústirnar eru miklar og þá getum vér ekki byggt múrinn."

11 En mótstöðumenn vorir hugsuðu: "Þeir skulu ekkert vita og einskis varir verða, fyrr en vér ráðumst á þá og brytjum þá niður og gjörum enda á verkinu."

12 En er Gyðingar þeir, sem bjuggu í grennd við þá, komu og sögðu við oss sjálfsagt tíu sinnum, úr öllum áttum: "Þér verðið að koma til vor!"

13 þá lét ég staðar nema á lægstu stöðunum bak við múrinn, á sólbrunnu stöðunum, þar lét ég lýðinn nema staðar eftir ættum, með sverðum sínum, lensum og bogum.

14 Og ég litaðist um, reis upp og sagði við tignarmennina og yfirmennina og hitt fólkið: "Eigi skuluð þér óttast þá. En minnist Drottins, hins mikla og ógurlega, og berjist fyrir bræður yðar, sonu yðar, dætur yðar, konur yðar og hús yðar."

15 En er óvinir vorir heyrðu, að vér værum orðnir þess vísir og að Guð hefði ónýtt ráðagjörð þeirra, þá gátum vér allir snúið aftur að múrnum, hver til sinnar vinnu.

16 En frá þeim degi vann aðeins helmingur sveina minna að verkinu. Hinn helmingur þeirra hélt á lensunum, skjöldunum, bogunum og pönsurunum, en foringjarnir stóðu bak við alla Júdamenn, þá er voru að byggja upp múrinn.

17 En burðarmennirnir voru búnir til bardaga. Með annarri hendinni unnu þeir að verkinu, en með hinni héldu þeir á skotspjótinu.

18 Og þeir sem hlóðu voru allir gyrtir sverði um lendar sér og hlóðu þannig, en lúðursveinninn stóð hjá mér.

19 Og ég sagði við tignarmennina og yfirmennina og aðra af lýðnum: "Verkið er stórt og umfangsmikið, og vér erum tvístraðir á múrnum, langt í burtu hver frá öðrum.

20 Þar sem þér heyrið lúðurhljóminn, þangað skuluð þér safnast til vor. Guð vor mun berjast fyrir oss."

21 Þannig unnum vér að verkinu, en helmingur þeirra hélt á lensunum, frá því er morgunroðinn færðist upp á himininn og þar til er stjörnurnar komu fram.

22 Þá sagði ég og við lýðinn: "Allir skulu vera í Jerúsalem á næturnar, ásamt sveinum sínum, til þess að þeir séu vörður fyrir oss á nóttunni, en vinni að verkinu á daginn."

23 En ég og bræður mínir og sveinar mínir og varðmennirnir, er fylgdu mér, vér fórum aldrei af klæðum, og sérhver hafði skotspjót sitt við hægri hlið sér.

En það varð mikið kvein meðal lýðsins og meðal kvenna þeirra yfir bræðrum þeirra, Gyðingunum.

Sumir sögðu: "Sonu vora og dætur verðum vér að veðsetja. Vér verðum að fá korn, svo að vér megum eta og lífi halda."

Og aðrir sögðu: "Akra vora, víngarða og hús verðum vér að veðsetja. Vér verðum að fá korn í hallærinu!"

Og enn aðrir sögðu: "Vér höfum tekið fé að láni upp á akra vora og víngarða í konungsskattinn.

Og þótt hold vort sé eins og hold bræðra vorra, börn vor eins og börn þeirra, þá verðum vér nú að gjöra sonu vora og dætur að ánauðugum þrælum, og sumar af dætrum vorum eru þegar orðnar ánauðugar, og vér getum ekkert við því gjört, þar eð akrar vorir og víngarðar eru á annarra valdi."

Þá varð ég mjög reiður, er ég heyrði kvein þeirra og þessi ummæli.

Og ég hugleiddi þetta með sjálfum mér og taldi á tignarmennina og yfirmennina og sagði við þá: "Þér beitið okri hver við annan!" Og ég stefndi mikið þing í móti þeim

og sagði við þá: "Vér höfum keypt lausa bræður vora, Gyðingana, sem seldir voru heiðingjunum, svo oft sem oss var unnt, en þér ætlið jafnvel að selja bræður yðar, svo að þeir verði seldir oss." Þá þögðu þeir og gátu engu svarað.

Og ég sagði: "Það er ekki fallegt, sem þér eruð að gjöra. Ættuð þér ekki heldur að ganga í ótta Guðs vors vegna smánaryrða heiðingjanna, óvina vorra?

10 Bæði ég og bræður mínir og sveinar mínir höfum líka lánað þeim silfur og korn. Vér skulum því láta þessa skuldakröfu niður falla.

11 Gjörið það fyrir mig að skila þeim aftur þegar í dag ökrum þeirra og víngörðum þeirra og olífugörðum þeirra og húsum þeirra, og látið niður falla skuldakröfuna um silfrið og kornið, um vínberjalöginn og olíuna, er þér hafið lánað þeim."

12 Þá sögðu þeir: "Vér viljum skila því aftur og einskis krefjast af þeim. Vér viljum gjöra sem þú segir." Þá kallaði ég á prestana og lét þá vinna eið að því, að þeir skyldu fara eftir þessu.

13 Ég hristi og skikkjubarm minn og sagði: "Þannig hristi Guð sérhvern þann, er eigi heldur þetta loforð, burt úr húsi hans og frá eign hans, og þannig verði hann gjörhristur og tæmdur." Og allur þingheimur sagði: "Svo skal vera!" Og þeir vegsömuðu Drottin. Og lýðurinn breytti samkvæmt þessu.

14 Frá þeim degi, er hann setti mig til að vera landstjóri þeirra, í Júda _ frá tuttugasta ríkisári Artahsasta konungs til þrítugasta og annars ríkisárs hans, tólf ár _ naut ég heldur ekki, né bræður mínir, landstjóra-borðeyrisins.

15 En hinir fyrri landstjórar, þeir er á undan mér voru, höfðu kúgað lýðinn og tekið af þeim fjörutíu sikla silfurs á dag fyrir brauði og víni. Auk þess höfðu sveinar þeirra drottnað yfir lýðnum. En ekki breytti ég þannig, því að ég óttaðist Guð.

16 Ég vann og að byggingu þessa múrs, og höfðum vér þó ekki keypt neinn akur, og allir sveinar mínir voru þar saman safnaðir að byggingunni.

17 En Gyðingar og yfirmennirnir, hundrað og fimmtíu að tölu, svo og þeir er komu til mín frá þjóðunum, er bjuggu umhverfis oss, átu við mitt borð.

18 Og það sem matreitt var á hverjum degi _ eitt naut, sex úrvals-kindur og fuglar _, það var matreitt á minn kostnað, og tíunda hvern dag nægtir af alls konar víni. En þrátt fyrir þetta krafðist ég ekki landstjóra-borðeyris, því að lýður þessi var í mikilli ánauð.

19 Virstu, Guð minn, að muna mér til góðs allt það, sem ég hefi gjört fyrir þennan lýð.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes