A A A A A
Bible Book List

Lúkasarguðspjall 23 Icelandic Bible (ICELAND)

23 Þá stóð upp allur skarinn og færði hann fyrir Pílatus.

Þeir tóku að ákæra hann og sögðu: "Vér höfum komist að raun um, að þessi maður leiðir þjóð vora afvega, hann bannar að gjalda keisaranum skatt og segist sjálfur vera Kristur, konungur."

Pílatus spurði hann þá: "Ert þú konungur Gyðinga?" Jesús svaraði: "Þú segir það."

Pílatus sagði við æðstu prestana og fólkið: "Enga sök finn ég hjá þessum manni."

En þeir urðu því ákafari og sögðu: "Hann æsir upp lýðinn með því, sem hann kennir í allri Júdeu, hann byrjaði í Galíleu og er nú kominn hingað."

Þegar Pílatus heyrði þetta, spurði hann, hvort maðurinn væri Galílei.

Og er hann varð þess vís, að hann var úr umdæmi Heródesar, sendi hann hann til Heródesar, er þá var og í Jerúsalem á þeim dögum.

En Heródes varð næsta glaður, er hann sá Jesú, því hann hafði lengi langað að sjá hann, þar eð hann hafði heyrt frá honum sagt. Vænti hann nú að sjá hann gjöra eitthvert tákn.

Hann spurði Jesú á marga vegu, en hann svaraði honum engu.

10 Æðstu prestarnir og fræðimennirnir stóðu þar og ákærðu hann harðlega.

11 En Heródes óvirti hann og spottaði ásamt hermönnum sínum, lagði yfir hann skínandi klæði og sendi hann aftur til Pílatusar.

12 Á þeim degi urðu þeir Heródes og Pílatus vinir, en áður var fjandskapur með þeim.

13 Pílatus kallaði nú saman æðstu prestana, höfðingjana og fólkið

14 og mælti við þá: "Þér hafið fært mér þennan mann og sagt hann leiða fólkið afvega. Nú hef ég yfirheyrt manninn í yðar viðurvist, en enga þá sök fundið hjá honum, er þér ákærið hann um.

15 Ekki heldur Heródes, því hann sendi hann aftur til vor. Ljóst er, að hann hefur ekkert það drýgt, er dauða sé vert.

16 Ætla ég því að hirta hann og láta lausan." [

17 En skylt var honum að gefa þeim lausan einn bandingja á hverri hátíð.]

18 En þeir æptu allir: "Burt með hann, gef oss Barabbas lausan!"

19 En honum hafði verið varpað í fangelsi fyrir upphlaup nokkurt, sem varð í borginni, og manndráp.

20 Pílatus talaði enn til þeirra og vildi láta Jesú lausan.

21 En þeir æptu á móti: "Krossfestu, krossfestu hann!"

22 Í þriðja sinn sagði Pílatus við þá: "Hvað illt hefur þá þessi maður gjört? Enga dauðasök hef ég fundið hjá honum. Ætla ég því að hirta hann og láta hann lausan."

23 En þeir sóttu á með ópi miklu og heimtuðu, að hann yrði krossfestur. Og hróp þeirra tóku yfir.

24 Þá ákvað Pílatus, að kröfu þeirra skyldi fullnægt.

25 Hann gaf lausan þann, er þeir báðu um og varpað hafði verið í fangelsi fyrir upphlaup og manndráp, en Jesú framseldi hann, að þeir færu með hann sem þeir vildu.

26 Þegar þeir leiddu hann út, tóku þeir Símon nokkurn frá Kýrene, er kom utan úr sveit, og lögðu krossinn á hann, að hann bæri hann eftir Jesú.

27 En honum fylgdi mikill fjöldi fólks og kvenna, er hörmuðu hann og grétu.

28 Jesús sneri sér að þeim og mælti: "Jerúsalemsdætur, grátið ekki yfir mér, en grátið yfir sjálfum yður og börnum yðar.

29 Því þeir dagar koma, er menn munu segja: Sælar eru óbyrjur og þau móðurlíf, er aldrei fæddu, og þau brjóst, sem engan nærðu.

30 Þá munu menn segja við fjöllin: Hrynjið yfir oss! og við hálsana: Hyljið oss!

31 Því að sé þetta gjört við hið græna tréð, hvað mun þá verða um hið visna?"

32 Með honum voru og færðir til lífláts aðrir tveir, sem voru illvirkjar.

33 Og er þeir komu til þess staðar, sem heitir Hauskúpa, krossfestu þeir hann þar og illvirkjana, annan til hægri handar, hinn til vinstri.

34 Þá sagði Jesús: "Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra." En þeir köstuðu hlutum um klæði hans og skiptu með sér.

35 Fólkið stóð og horfði á, og höfðingjarnir gjörðu gys að honum og sögðu: "Öðrum bjargaði hann, bjargi hann nú sjálfum sér, ef hann er Kristur Guðs, hinn útvaldi."

36 Eins hæddu hann hermennirnir, komu og báru honum edik

37 og sögðu: "Ef þú ert konungur Gyðinga, þá bjargaðu sjálfum þér."

38 Yfirskrift var yfir honum: ÞESSI ER KONUNGUR GYÐINGA.

39 Annar þeirra illvirkja, sem upp voru festir, hæddi hann og sagði: "Ert þú ekki Kristur? Bjargaðu sjálfum þér og okkur!"

40 En hinn ávítaði hann og sagði: "Hræðist þú ekki einu sinni Guð, og ert þó undir sama dómi?

41 Við erum það með réttu og fáum makleg gjöld fyrir gjörðir okkar, en þessi hefur ekkert illt aðhafst."

42 Þá sagði hann: "Jesús, minnst þú mín, þegar þú kemur í ríki þitt!"

43 Og Jesús sagði við hann: "Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís."

44 Og nú var nær hádegi og myrkur varð um allt land til nóns,

45 því sólin missti birtu sinnar. En fortjald musterisins rifnaði sundur í miðju.

46 Þá kallaði Jesús hárri röddu: "Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn!" Og er hann hafði þetta mælt, gaf hann upp andann.

47 Þegar hundraðshöfðinginn sá það, er við bar, vegsamaði hann Guð og sagði: "Sannarlega var þessi maður réttlátur."

48 Og fólkið allt, sem komið hafði saman að horfa á, sá nú, hvað gjörðist, og barði sér á brjóst og hvarf frá.

49 En vinir hans allir sem og konurnar, er fylgdu honum frá Galíleu, stóðu álengdar og horfðu á þetta.

50 Maður er nefndur Jósef. Hann var ráðsherra, góður maður og réttvís

51 og hafði ekki samþykkt ráð þeirra né athæfi. Hann var frá Arímaþeu, borg í Júdeu, og vænti Guðs ríkis.

52 Hann gekk til Pílatusar og bað hann um líkama Jesú,

53 tók hann síðan ofan, sveipaði línklæði og lagði í gröf, höggna í klett, og hafði þar enginn verið áður lagður.

54 Það var aðfangadagur og hvíldardagurinn fór í hönd.

55 Konur þær, er komið höfðu með Jesú frá Galíleu, fylgdu eftir og sáu gröfina og hvernig líkami hans var lagður.

56 Þær sneru aftur og bjuggu ilmjurtir og smyrsl. Hvíldardaginn héldu þær kyrru fyrir samkvæmt boðorðinu.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Jóhannesarguðspjall 18-19 Icelandic Bible (ICELAND)

18 Þetta talaði Jesús, hóf augu sín til himins og sagði: "Faðir, stundin er komin. Gjör son þinn dýrlegan, til þess að sonurinn gjöri þig dýrlegan.

Þú gafst honum vald yfir öllum mönnum, að hann gefi eilíft líf öllum þeim, sem þú hefur gefið honum.

En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.

Ég hef gjört þig dýrlegan á jörðu með því að fullkomna það verk, sem þú fékkst mér að vinna.

Faðir, gjör mig nú dýrlegan hjá þér með þeirri dýrð, sem ég hafði hjá þér, áður en heimur var til.

Ég hef opinberað nafn þitt þeim mönnum, sem þú gafst mér úr heiminum. Þeir voru þínir, og þú gafst mér þá, og þeir hafa varðveitt þitt orð.

Þeir vita nú, að allt, sem þú hefur gefið mér, er frá þér,

því ég hef flutt þeim þau orð, sem þú gafst mér. Þeir tóku við þeim og vita með sanni, að ég er frá þér út genginn, og trúa því, að þú hafir sent mig.

Ég bið fyrir þeim. Ég bið ekki fyrir heiminum, heldur fyrir þeim sem þú hefur gefið mér, því að þeir eru þínir,

10 og allt mitt er þitt og þitt er mitt. Í þeim er ég dýrlegur orðinn.

11 Ég er ekki lengur í heiminum. Þeir eru í heiminum, en ég kem til þín. Heilagi faðir, varðveit þá í þínu nafni, því nafni, sem þú hefur gefið mér, svo að þeir verði eitt eins og við.

12 Meðan ég var hjá þeim, varðveitti ég þá í nafni þínu, sem þú hefur gefið mér, og gætti þeirra, og enginn þeirra glataðist nema sonur glötunarinnar, svo að ritningin rættist.

13 Nú kem ég til þín. Þetta tala ég í heiminum, til þess að þeir eigi í sjálfum sér fögnuð minn fullkominn.

14 Ég hef gefið þeim orð þitt, og heimurinn hataði þá, af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.

15 Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa.

16 Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.

17 Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur.

18 Ég hef sent þá í heiminn, eins og þú sendir mig í heiminn.

19 Ég helga mig fyrir þá, svo að þeir séu einnig helgaðir í sannleika.

20 Ég bið ekki einungis fyrir þessum, heldur og fyrir þeim, sem á mig trúa fyrir orð þeirra,

21 að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur, til þess að heimurinn trúi, að þú hefur sent mig.

22 Og ég hef gefið þeim þá dýrð, sem þú gafst mér, svo að þeir séu eitt, eins og við erum eitt,

23 ég í þeim og þú í mér, svo að þeir verði fullkomlega eitt, til þess að heimurinn viti, að þú hefur sent mig og að þú hefur elskað þá, eins og þú hefur elskað mig.

24 Faðir, ég vil að þeir, sem þú gafst mér, séu hjá mér, þar sem ég er, svo að þeir sjái dýrð mína, sem þú hefur gefið mér, af því að þú elskaðir mig fyrir grundvöllun heims.

25 Réttláti faðir, heimurinn þekkir þig ekki, en ég þekki þig, og þessir vita, að þú sendir mig.

26 Ég hef kunngjört þeim nafn þitt og mun kunngjöra, svo að kærleikur þinn, sem þú hefur auðsýnt mér, sé í þeim og ég sé í þeim."

19 Þegar Jesús hafði þetta mælt, fór hann út með lærisveinum sínum og yfir um lækinn Kedron. Þar var grasgarður, sem Jesús gekk inn í og lærisveinar hans.

Júdas, sem sveik hann, þekkti líka þennan stað, því Jesús og lærisveinar hans höfðu oft komið þar saman.

Júdas tók með sér flokk hermanna og verði frá æðstu prestum og faríseum. Þeir koma þar með blysum, lömpum og vopnum.

Jesús vissi allt, sem yfir hann mundi koma, gekk fram og sagði við þá: "Að hverjum leitið þér?"

Þeir svöruðu honum: "Að Jesú frá Nasaret." Hann segir við þá: "Ég er hann." En Júdas, sem sveik hann, stóð líka hjá þeim.

Þegar Jesús sagði við þá: "Ég er hann," hopuðu þeir á hæl og féllu til jarðar.

Þá spurði hann þá aftur: "Að hverjum leitið þér?" Þeir svöruðu: "Að Jesú frá Nasaret."

Jesús mælti: "Ég sagði yður, að ég væri hann. Ef þér leitið mín, þá lofið þessum að fara."

Þannig rættist orð hans, er hann hafði mælt: "Engum glataði ég af þeim, sem þú gafst mér."

10 Símon Pétur hafði sverð, brá því og hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum hægra eyrað. Þjónninn hét Malkus.

11 Þá sagði Jesús við Pétur: "Sting sverðinu í slíðrin. Á ég ekki að drekka kaleikinn, sem faðirinn hefur fengið mér?"

12 Hermennirnir, foringinn og varðmenn Gyðinga tóku nú Jesú höndum og bundu hann

13 og færðu hann fyrst til Annasar. Hann var tengdafaðir Kaífasar, sem var æðsti prestur það ár.

14 En Kaífas var sá sem gefið hafði Gyðingum það ráð, að betra væri, að einn maður dæi fyrir lýðinn.

15 Símon Pétur fylgdi Jesú og annar lærisveinn. Sá lærisveinn var kunnugur æðsta prestinum og fór með Jesú inn í hallargarð æðsta prestsins.

16 En Pétur stóð utan dyra. Hinn lærisveinninn, sem var kunnugur æðsta prestinum, kom út aftur, talaði við þernuna, sem dyra gætti, og fór inn með Pétur.

17 Þernan við dyrnar sagði þá við Pétur: "Ert þú ekki líka einn af lærisveinum þessa manns?" Hann sagði: "Ekki er ég það."

18 Þjónarnir og varðmennirnir höfðu kveikt kolaeld, því kalt var, og stóðu við hann og vermdu sig. Pétur stóð hjá þeim og ornaði sér.

19 Nú spurði æðsti presturinn Jesú um lærisveina hans og kenningu hans.

20 Jesús svaraði honum: "Ég hef talað opinskátt í áheyrn heimsins. Ég hef ætíð kennt í samkundunni og í helgidóminum, þar sem allir Gyðingar safnast saman, en í leynum hef ég ekkert talað.

21 Hví spyr þú mig? Spyrðu þá, sem heyrt hafa, hvað ég hef við þá talað. Þeir vita hvað ég hef sagt."

22 Þegar Jesús sagði þetta, rak einn varðmaður, sem þar stóð, honum löðrung og sagði: "Svarar þú æðsta prestinum svona?"

23 Jesús svaraði honum: "Hafi ég illa mælt, þá sanna þú, að svo hafi verið, en hafi ég rétt að mæla, hví slær þú mig?"

24 Þá sendi Annas hann bundinn til Kaífasar æðsta prests.

25 En Símon Pétur stóð og vermdi sig. Hann var þá spurður: "Ert þú ekki líka einn af lærisveinum hans?" Hann neitaði því og sagði: "Ekki er ég það."

26 Þá sagði einn af þjónum æðsta prestsins, frændi þess, sem Pétur sneið af eyrað: "Sá ég þig ekki í grasgarðinum með honum?"

27 Aftur neitaði Pétur, og um leið gól hani.

28 Nú var Jesús fluttur frá Kaífasi til hallar landshöfðingjans. Það var snemma morguns. Gyðingar fóru ekki sjálfir inn í höllina, svo að þeir saurguðust ekki, heldur mættu neyta páskamáltíðar.

29 Pílatus kom út til þeirra og sagði: "Hvaða ákæru berið þér fram gegn þessum manni?"

30 Þeir svöruðu: "Ef þetta væri ekki illvirki, hefðum vér ekki selt hann þér í hendur."

31 Pílatus segir við þá: "Takið þér hann, og dæmið hann eftir yðar lögum." Gyðingar svöruðu: "Oss leyfist ekki að taka neinn af lífi."

32 Þannig rættist orð Jesú, þegar hann gaf til kynna, með hvaða hætti hann átti að deyja.

33 Pílatus gekk þá aftur inn í höllina, kallaði Jesú fyrir sig og sagði við hann: "Ert þú konungur Gyðinga?"

34 Jesús svaraði: "Mælir þú þetta af sjálfum þér, eða hafa aðrir sagt þér frá mér?"

35 Pílatus svaraði: "Er ég þá Gyðingur? Þjóð þín og æðstu prestarnir hafa selt þig mér í hendur. Hvað hefur þú gjört?"

36 Jesús svaraði: "Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi, hefðu þjónar mínir barist, svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan."

37 Þá segir Pílatus við hann: "Þú ert þá konungur?" Jesús svaraði: "Rétt segir þú. Ég er konungur. Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni. Hver sem er af sannleikanum, heyrir mína rödd."

38 Pílatus segir við hann: "Hvað er sannleikur?" Að svo mæltu gekk hann aftur út til Gyðinga og sagði við þá: "Ég finn enga sök hjá honum.

39 Þér eruð vanir því, að ég gefi yður einn mann lausan á páskunum. Viljið þér nú, að ég gefi yður lausan konung Gyðinga?"

40 Þeir hrópuðu á móti: "Ekki hann, heldur Barabbas." En Barabbas var ræningi.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes