A A A A A
Bible Book List

Þriðja bók Móse 17-18 Icelandic Bible (ICELAND)

17 Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Tala þú við Aron og sonu hans og alla Ísraelsmenn og seg við þá: Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið og sagt:

Hver sá af húsi Ísraels, sem slátrar nautgrip eða sauðkind eða geitsauð í herbúðunum, eða slátrar því fyrir utan herbúðirnar,

og leiðir það ekki að dyrum samfundatjaldsins til þess að færa Drottni það að fórnargjöf fyrir framan búð Drottins, sá maður skal vera blóðsekur. Hann hefir úthellt blóði, og sá maður skal upprættur verða úr þjóð sinni,

til þess að Ísraelsmenn færi sláturfórnir sínar, er þeir eru vanir að fórna á bersvæði, _ að þeir færi þær prestinum að dyrum samfundatjaldsins Drottni til handa og fórni þeim í heillafórnir Drottni til handa.

Prestur skal stökkva blóðinu á altari Drottins við dyr samfundatjaldsins og brenna mörinn til þægilegs ilms fyrir Drottin.

Og þeir skulu eigi framar færa fórnir skógartröllunum, er þeir nú taka fram hjá með. Þetta skal vera þeim ævarandi lögmál frá kyni til kyns.

Og þú skalt segja við þá: Hver sá af húsi Ísraels eða af útlendum mönnum, er búa meðal þeirra, sem fórnar brennifórn eða sláturfórn

og færir hana ekki að dyrum samfundatjaldsins til þess að fórna Drottni henni, sá maður skal upprættur verða úr þjóð sinni.

10 Hver sá af húsi Ísraels og af útlendum mönnum, er búa meðal þeirra, sem neytir nokkurs blóðs, _ gegn þeim manni, sem neytir blóðs, vil ég snúa augliti mínu og uppræta hann úr þjóð sinni.

11 Því að líf líkamans er í blóðinu, og ég hefi gefið yður það á altarið, til þess að með því sé friðþægt fyrir yður, því að blóðið friðþægir með lífinu.

12 Fyrir því hefi ég sagt við Ísraelsmenn: ,Enginn maður meðal yðar skal blóðs neyta, né heldur skal nokkur útlendingur, er býr meðal yðar, neyta blóðs.`

13 Og hver sá Ísraelsmanna og þeirra manna útlendra, er meðal yðar búa, sem veiðir villidýr eða fugl ætan, hann skal hella niður blóðinu og hylja það moldu.

14 Því að svo er um líf alls holds, að saman fer blóð og líf, og fyrir því hefi ég sagt við Ísraelsmenn: ,Þér skuluð ekki neyta blóðs úr nokkru holdi, því að líf sérhvers holds, það er blóð þess. Hver sá, er þess neytir, skal upprættur verða.`

15 Og hver sá, er etur sjálfdauða skepnu eða dýrrifna, hvort heldur er innborinn maður eða útlendur, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds. Þá er hann hreinn.

16 En þvoi hann þau ekki og laugi ekki hold sitt, þá bakar hann sér sekt."

18 Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Tala þú við Ísraelsmenn og seg við þá: Ég er Drottinn, Guð yðar.

Þér skuluð ekki gjöra að háttum Egyptalands, þar sem þér bjugguð, og þér skuluð ekki gjöra að háttum Kanaanlands, er ég mun leiða yður inn í, né heldur skuluð þér breyta eftir setningum þeirra.

Lög mín skuluð þér halda og setningar mínar skuluð þér varðveita, svo að þér breytið eftir þeim. Ég er Drottinn, Guð yðar.

Þér skuluð því varðveita setningar mínar og lög. Sá sem breytir eftir þeim skal lifa fyrir þau. Ég er Drottinn.

Enginn yðar skal koma nærri nokkru nánu skyldmenni til þess að bera blygðan þeirra. Ég er Drottinn.

Þú skalt eigi bera blygðan föður þíns og blygðan móður þinnar. Hún er móðir þín, þú skalt eigi bera blygðan hennar.

Þú skalt eigi bera blygðan konu föður þíns, það er blygðan föður þíns.

Blygðan systur þinnar, dóttur föður þíns eða dóttur móður þinnar, hvort heldur hún er fædd heima eða utan heimilis, _ blygðan þeirra skalt þú eigi bera.

10 Blygðan sonardóttur þinnar eða dótturdóttur, blygðan þeirra skalt þú eigi bera, því að það er þín blygðan.

11 Blygðan dóttur konu föður þíns, afkvæmis föður þíns _ hún er systir þín _, blygðan hennar skalt þú eigi bera.

12 Eigi skalt þú bera blygðan föðursystur þinnar, hún er náið skyldmenni föður þíns.

13 Eigi skalt þú bera blygðan móðursystur þinnar, því að hún er náið skyldmenni móður þinnar.

14 Eigi skalt þú bera blygðan föðurbróður þíns, eigi koma nærri konu hans, því að hún er sifkona þín.

15 Eigi skalt þú bera blygðan tengdadóttur þinnar. Hún er kona sonar þíns, eigi skalt þú bera blygðan hennar.

16 Eigi skalt þú bera blygðan konu bróður þíns. Það er blygðan bróður þíns.

17 Eigi skalt þú bera blygðan konu og dóttur hennar. Sonardóttur hennar eða dótturdóttur skalt þú eigi taka til þess að bera blygðan þeirra. Þær eru náin skyldmenni; það er óhæfa.

18 Né heldur skalt þú taka konu auk systur hennar, henni til eljurígs, með því að bera blygðan hennar auk hinnar, meðan hún er á lífi.

19 Eigi skalt þú koma nærri konu til að bera blygðan hennar, þá er hún er óhrein af klæðaföllum.

20 Þú skalt og eigi hafa holdlegt samræði við konu náunga þíns, svo að þú saurgist af.

21 Eigi skalt þú gefa nokkurt afkvæmi þitt til þess, að það sé helgað Mólok, svo að þú vanhelgir eigi nafn Guðs þíns. Ég er Drottinn.

22 Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð.

23 Þú skalt ekki eiga samlag við nokkra skepnu, svo að þú saurgist af. Né heldur skal kona standa fyrir skepnu til samræðis við hana. Það er svívirðing.

24 Saurgið yður ekki með nokkru þvílíku, því að með öllu þessu hafa heiðingjarnir saurgað sig, sem ég mun reka á burt undan yður.

25 Og landið saurgaðist, og fyrir því vitjaði ég misgjörðar þess á því, og landið spjó íbúum sínum.

26 Varðveitið því setningar mínar og lög og fremjið enga af þessum viðurstyggðum, hvorki innborinn maður né útlendingur, er býr meðal yðar, _

27 því að allar þessar viðurstyggðir hafa landsbúar, er fyrir yður voru, framið, og landið saurgaðist _,

28 svo að landið spúi yður ekki, er þér saurgið það, eins og það spjó þeirri þjóð, er fyrir yður var.

29 Því að hver sá, er fremur einhverja af þessum viðurstyggðum, þær sálir, sem það gjöra, skulu upprættar verða úr þjóð sinni.

30 Varðveitið því boðorð mín, svo að þér fylgið eigi neinum af þeim andstyggilegu venjum, er hafðar voru í frammi fyrir yðar tíð, og saurgið yður ekki með því. Ég er Drottinn, Guð yðar."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Matteusarguðspjall 27:27-50 Icelandic Bible (ICELAND)

27 Hermenn landshöfðingjans fóru nú með hann inn í höllina og söfnuðu um hann allri hersveitinni.

28 Þeir afklæddu hann og færðu hann í skarlatsrauða kápu,

29 fléttuðu þyrnikórónu og settu á höfuð honum, en reyrsprota í hægri hönd hans. Síðan féllu þeir á kné fyrir honum og höfðu hann að háði og sögðu: "Heill þú, konungur Gyðinga!"

30 Og þeir hræktu á hann, tóku reyrsprotann og slógu hann í höfuðið.

31 Þegar þeir höfðu spottað hann, færðu þeir hann úr kápunni og í hans eigin klæði. Þá leiddu þeir hann út til að krossfesta hann.

32 Á leiðinni hittu þeir mann frá Kýrene, er Símon hét. Hann neyddu þeir til að bera kross Jesú.

33 Og er þeir komu til þess staðar, er heitir Golgata, það þýðir hauskúpustaður,

34 gáfu þeir honum vín að drekka, galli blandað. Hann bragðaði það, en vildi ekki drekka.

35 Þá krossfestu þeir hann. Og þeir köstuðu hlutum um klæði hans og skiptu með sér,

36 sátu þar svo og gættu hans.

37 Yfir höfði hans festu þeir sakargift hans svo skráða: ÞESSI ER JESÚS, KONUNGUR GYÐINGA.

38 Þá voru krossfestir með honum tveir ræningjar, annar til hægri, hinn til vinstri.

39 Þeir, sem fram hjá gengu, hæddu hann, skóku höfuð sín

40 og sögðu: "Þú sem brýtur niður musterið og reisir það á þrem dögum. Bjarga nú sjálfum þér, ef þú ert sonur Guðs, og stíg niður af krossinum!"

41 Eins gjörðu æðstu prestarnir gys að honum og fræðimennirnir og öldungarnir og sögðu:

42 "Öðrum bjargaði hann, sjálfum sér getur hann ekki bjargað. Hann er konungur Ísraels, stígi hann nú niður af krossinum, þá skulum vér trúa á hann.

43 Hann treystir Guði. Nú ætti Guð að frelsa hann, ef hann hefur mætur á honum. Eða sagði hann ekki: ,Ég er sonur Guðs`?"

44 Einnig ræningjarnir, sem með honum voru krossfestir, smánuðu hann á sama hátt.

45 En frá hádegi varð myrkur um allt land til nóns.

46 Og um nón kallaði Jesús hárri röddu: "Elí, Elí, lama sabaktaní!" Það þýðir: "Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?"

47 Nokkrir þeirra, er þar stóðu, heyrðu þetta og sögðu: "Hann kallar á Elía!"

48 Jafnskjótt hljóp einn þeirra til, tók njarðarvött og fyllti ediki, stakk á reyrstaf og gaf honum að drekka.

49 Hinir sögðu: "Sjáum til, hvort Elía kemur að bjarga honum."

50 En Jesús hrópaði aftur hárri röddu og gaf upp andann.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes