A A A A A
Bible Book List

Þriðja bók Móse 13 Icelandic Bible (ICELAND)

13 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:

"Nú tekur einhver þrota, hrúður eða gljádíla í skinnið á hörundi sínu og verður að líkþrárskellu í skinninu á hörundi hans. Þá skal leiða hann fyrir Aron prest eða einhvern af prestunum, sonum hans.

Og prestur skal líta á skelluna í skinninu á hörundinu, og hafi hárin í skellunni gjörst hvít og beri skelluna dýpra en skinnið á hörundi hans, þá er það líkþrárskella. Og prestur skal líta á hann og dæma hann óhreinan.

En sé hvítur gljádíli í skinninu á hörundi hans og beri ekki dýpra en skinnið og hafi hárin í honum ekki gjörst hvít, þá skal prestur byrgja inni sjö daga þann, er skelluna hefir tekið.

Og prestur skal líta á hann á sjöunda degi, og sjái hann að jafnmikið ber á skellunni og hafi skellan ekki færst út í skinninu, þá skal prestur byrgja hann enn inni sjö daga.

Og prestur skal enn líta á hann á sjöunda degi, og sjái hann þá, að skellan hefir dökknað, og hafi skellan ekki færst út í skinninu, skal prestur dæma hann hreinan. Þá er það hrúður, og hann skal þvo klæði sín og er þá hreinn.

En færist hrúðrið út í skinninu eftir að hann sýndi sig prestinum til þess að verða dæmdur hreinn, þá skal hann aftur sýna sig prestinum.

Og prestur skal líta á, og sjái hann, að hrúðrið hefir færst út í skinninu, þá skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrá.

Nú tekur einhver líkþrárskellu, og skal leiða hann fyrir prest.

10 Og prestur skal líta á, og sjái hann, að hvítur þroti er í skinninu og hefir gjört hárin hvít, og lifandi kvika er í þrotanum,

11 þá er það gömul líkþrá í skinninu á hörundi hans, og skal prestur dæma hann óhreinan. Hann skal eigi byrgja hann inni, því að hann er óhreinn.

12 En brjótist líkþráin út um skinnið og hylji líkþráin allt skinnið frá hvirfli til ilja á þeim, er skellurnar hefir tekið, hvar sem prestur rennir augum til,

13 þá skal prestur líta á, og sjái hann, að líkþráin hefir hulið allt hörund hans, þá skal hann dæma hreinan þann, er skellurnar hefir tekið. Hann hefir þá allur gjörst hvítur og er þá hreinn.

14 En þegar er ber á kviku holdi á honum, skal hann vera óhreinn.

15 Og prestur skal líta á kvika holdið og dæma hann óhreinan. Kvika holdið er óhreint. Þá er það líkþrá.

16 En hverfi kvika holdið og gjörist hvítt, þá skal hann ganga fyrir prest.

17 Og prestur skal líta á hann, og sjái hann að skellurnar hafa gjörst hvítar, þá skal prestur dæma hreinan þann, er skellurnar hefir tekið. Þá er hann hreinn.

18 Nú kemur kýli í hörundið, út í skinnið, og grær,

19 og kemur í stað kýlisins hvítur þroti eða gljádíli ljósrauður, þá skal hann sýna sig presti.

20 Og prestur skal líta á, og sjái hann, að dílann ber lægra en skinnið og hárin í honum hafa gjörst hvít, skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrársótt, sem brotist hefir út í kýlinu.

21 En ef prestur lítur á hann og sér, að engin hvít hár eru í honum og hann er ekki lægri en skinnið og hefir dökknað, þá skal prestur byrgja hann inni sjö daga.

22 En færist hann út í skinninu, skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrársótt.

23 En ef gljádílinn stendur í stað og færist eigi út, þá er það kýlis-ör, og prestur skal dæma hann hreinan.

24 En ef brunasár kemur á hörundið og brunakvikan verður að gljádíla ljósrauðum eða hvítum,

25 þá skal prestur líta á hann. Og sjái hann, að hárin í gljádílanum hafa gjörst hvít og ber hann dýpra en skinnið, þá er það líkþrá, sem hefir brotist út í brunanum, og skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrársótt.

26 En ef prestur lítur á hann og sér, að engin hvít hár eru í gljádílanum og hann er ekki lægri en skinnið og hefir dökknað, þá skal prestur byrgja hann inni sjö daga.

27 Og prestur skal líta á hann á sjöunda degi. Hafi hann þá færst út í skinninu, skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrársótt.

28 En ef gljádílinn stendur í stað og hefir eigi færst út í skinninu, en dökknað, þá er það brunaþroti, og skal prestur dæma hann hreinan, því að þá er það bruna-ör.

29 Nú tekur karl eða kona skellu í höfuðið eða skeggið.

30 Þá skal prestur líta á skelluna, og sjái hann, að hana ber dýpra en skinnið og gulleit visin hár eru í henni, þá skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það skurfa, það er líkþrá í höfði eða skeggi.

31 Og er prestur lítur á skurfuskelluna og sér, að hana ber ekki dýpra en skinnið og engin svört hár eru í henni, þá skal prestur byrgja inni sjö daga þann, er skurfuskelluna hefir tekið.

32 Og prestur skal líta á skelluna á sjöunda degi, og sjái hann, að skurfan hefir eigi færst út og engin gulleit hár eru í henni og skurfuna ber eigi dýpra en skinnið,

33 þá skal hann raka sig, en skurfuna skal hann ekki raka, og prestur skal enn byrgja inni sjö daga þann, er skurfuna hefir tekið.

34 Og prestur skal líta á skurfuna á sjöunda degi, og sjái hann, að skurfan hefir eigi færst út í skinninu og hana ber ekki dýpra en skinnið, þá skal prestur dæma hann hreinan. Og hann skal þvo klæði sín og er þá hreinn.

35 En ef skurfan færist út í skinninu eftir að hann hefir verið dæmdur hreinn,

36 þá skal prestur líta á hann. Og sjái hann, að skurfan hefir færst út í skinninu, þá skal prestur ekki leita að gulleitu hárunum. Þá er hann óhreinn.

37 En ef jafnmikið ber á skurfunni og svört hár hafa sprottið í henni, þá er skurfan gróin. Hann er þá hreinn, og prestur skal dæma hann hreinan.

38 Nú tekur karl eða kona gljádíla, hvíta gljádíla í skinnið á hörundi sínu,

39 þá skal prestur líta á. Og sjái hann, að gljádílarnir í skinninu á hörundi þeirra eru dumb-hvítir, þá er það hringormur, sem hefir brotist út í skinninu. Þá er hann hreinn.

40 Nú verður einhver sköllóttur ofan á höfðinu, þá er hann hvirfilskalli og er hreinn.

41 Og ef hann verður sköllóttur framan á höfðinu, þá er hann ennisskalli og er hreinn.

42 En sé ljósrauð skella í hvirfilskallanum eða ennisskallanum, þá er það líkþrá, er út brýst í hvirfilskalla hans eða ennisskalla.

43 Prestur skal þá líta á hann, og sjái hann að skelluþrotinn í hvirfilskalla hans eða ennisskalla er ljósrauður, á að sjá sem líkþrá í skinninu á hörundinu,

44 þá er hann maður líkþrár og er óhreinn. Prestur skal sannlega dæma hann óhreinan. Líkþrársóttin er í höfði honum.

45 Líkþrár maður, er sóttina hefir, _ klæði hans skulu vera rifin og hár hans flakandi, og hann skal hylja kamp sinn og hrópa: ,Óhreinn, óhreinn!`

46 Alla þá stund, er hann hefir sóttina, skal hann óhreinn vera. Hann er óhreinn. Hann skal búa sér. Bústaður hans skal vera fyrir utan herbúðirnar.

47 Nú kemur líkþrárskella á fat, hvort heldur er ullarfat eða línfat,

48 eða vefnað eða prjónles af líni eða ullu, eða skinn eða eitthvað það, sem af skinni er gjört,

49 og sé skellan grænleit eða rauðleit á fatinu eða skinninu eða vefnaðinum eða prjónlesinu eða nokkrum hlut af skinni gjörvum, þá er það líkþrárskella, og skal sýna það prestinum.

50 Og prestur skal líta á skelluna og byrgja inni sjö daga það, er skellan er á.

51 Og hann skal líta á skelluna á sjöunda degi. Hafi skellan færst út á fatinu eða vefnaðinum eða prjónlesinu eða skinninu, til hverra nota sem skinnið er haft, þá er skellan skæð líkþrá. Þá er það óhreint.

52 Og skal brenna fatið eða vefnaðinn eða prjónlesið, hvort það er heldur af ullu eða líni, eða hvern hlut af skinni gjörvan, er skellan er á, því að það er skæð líkþrá. Það skal í eldi brenna.

53 En ef prestur lítur á og sér, að skellan hefir eigi færst út í fatinu eða vefnaðinum eða prjónlesinu eða á einhverjum hlut af skinni gjörvum,

54 þá skal prestur bjóða að þvo það, sem skellan er á, og hann skal enn byrgja það inni sjö daga.

55 Og prestur skal líta á, eftir að það, sem skellan er á, er þvegið, og sjái hann, að skellan hefir eigi breytt lit og skellan hefir eigi færst út, þá er það óhreint. Þú skalt brenna það í eldi, þá er það áta, hvort það er heldur á úthverfunni eða rétthverfunni.

56 En ef prestur lítur á og sér, að skellan hefir dökknað, eftir að hún var þvegin, þá skal hann rífa hana af fatinu eða skinninu eða vefnaðinum eða prjónlesinu.

57 En komi hún enn í ljós á fatinu eða vefnaðinum eða prjónlesinu eða á nokkrum hlut af skinni gjörvum, þá er það líkþrá, sem er að brjótast út. Þú skalt brenna í eldi það, er skellan er á.

58 En það fat eða vefnaður eða prjónles, eða sérhver hlutur af skinni gjör, sem skellan gengur af, ef þvegið er, það skal þvo annað sinn, og er þá hreint."

59 Þessi eru ákvæðin um líkþrársótt í ullarfati eða línfati eða vefnaði eða prjónlesi eða nokkrum hlut af skinni gjörvum, er það skal dæma hreint eða óhreint.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Matteusarguðspjall 26:26-50 Icelandic Bible (ICELAND)

26 Þá er þeir mötuðust, tók Jesús brauð, þakkaði Guði, braut það og gaf lærisveinunum og sagði: "Takið og etið, þetta er líkami minn."

27 Og hann tók kaleik, gjörði þakkir, gaf þeim og sagði: "Drekkið allir hér af.

28 Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda.

29 Ég segi yður: Héðan í frá mun ég eigi drekka af þessum vínviðar ávexti til þess dags, er ég drekk hann nýjan með yður í ríki föður míns."

30 Þegar þeir höfðu sungið lofsönginn, fóru þeir til Olíufjallsins.

31 Þá segir Jesús við þá: "Á þessari nóttu munuð þér allir hneykslast á mér, því að ritað er: ,Ég mun slá hirðinn, og sauðir hjarðarinnar munu tvístrast.`

32 En eftir að ég er upp risinn, mun ég fara á undan yður til Galíleu."

33 Þá segir Pétur: "Þótt allir hneykslist á þér, skal ég aldrei hneykslast."

34 Jesús sagði við hann: "Sannlega segi ég þér: Á þessari nóttu, áður en hani galar, muntu þrisvar afneita mér."

35 Pétur svarar: "Þótt ég ætti að deyja með þér, þá mun ég aldrei afneita þér." Eins töluðu allir lærisveinarnir.

36 Þá kemur Jesús með þeim til staðar, er heitir Getsemane, og hann segir við lærisveinana: "Setjist hér, meðan ég fer og biðst fyrir þarna."

37 Hann tók með sér þá Pétur og báða sonu Sebedeusar. Og nú setti að honum hryggð og angist.

38 Hann segir við þá: "Sál mín er hrygg allt til dauða. Bíðið hér og vakið með mér."

39 Þá gekk hann lítið eitt áfram, féll fram á ásjónu sína, baðst fyrir og sagði: "Faðir minn, ef verða má, þá fari þessi kaleikur fram hjá mér. Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt."

40 Hann kemur aftur til lærisveinanna og finnur þá sofandi. Þá sagði hann við Pétur: "Þér gátuð þá ekki vakað með mér eina stund?

41 Vakið og biðjið, að þér fallið ekki í freistni. Andinn er reiðubúinn, en holdið veikt."

42 Aftur vék hann brott annað sinn og bað: "Faðir minn, ef eigi verður hjá því komist, að ég drekki þennan kaleik, þá verði þinn vilji."

43 Þegar hann kom aftur, fann hann þá enn sofandi, því drungi var á augum þeirra.

44 Þá fór hann enn frá þeim og baðst fyrir þriðja sinn með sömu orðum og fyrr.

45 Og hann kom til lærisveinanna og sagði við þá: "Sofið þér enn og hvílist? Sjá, stundin er komin og Mannssonurinn er framseldur í hendur syndugra manna.

46 Standið upp, förum! Í nánd er sá, er mig svíkur."

47 Meðan hann var enn að tala, kom Júdas, einn þeirra tólf, og með honum mikill flokkur frá æðstu prestunum og öldungum lýðsins, og höfðu þeir sverð og barefli.

48 Svikarinn hafði sagt þeim þetta til marks: "Sá sem ég kyssi, hann er það. Takið hann höndum."

49 Hann gekk beint að Jesú og sagði: "Heill, rabbí!" og kyssti hann.

50 Jesús sagði við hann: "Vinur, hví ertu hér?" Þá komu hinir, lögðu hendur á Jesú og tóku hann.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes