A A A A A
Bible Book List

Jósúabók 10-12 Icelandic Bible (ICELAND)

10 Er Adónísedek, konungur í Jerúsalem, frétti að Jósúa hefði unnið Aí og gjöreytt hana, að hann hefði farið með Aí og konung hennar eins og hann fór með Jeríkó og konung hennar, og að Gíbeonbúar hefðu gjört frið við Ísrael og byggju meðal þeirra,

þá urðu þeir mjög hræddir, því að Gíbeon var stór borg, engu minni en konungaborgirnar, og hún var stærri en Aí og allir borgarbúar hreystimenn.

Sendi Adónísedek, konungur í Jerúsalem, þá til Hóhams, konungs í Hebron, til Pírams, konungs í Jarmút, til Jafía, konungs í Lakís, og til Debírs, konungs í Eglon, og lét segja þeim:

"Komið til móts við mig og veitið mér fulltingi, að vér megum vinna Gíbeon, því að hún hefir gjört frið við Jósúa og Ísraelsmenn."

Þá söfnuðust saman fimm konungar Amoríta og fóru þangað með öllu liði sínu: konungurinn í Jerúsalem, konungurinn í Hebron, konungurinn í Jarmút, konungurinn í Lakís og konungurinn í Eglon. Settust þeir um Gíbeon og tóku að herja á hana.

Gíbeonmenn sendu þá til Jósúa í herbúðirnar í Gilgal, og létu segja honum: "Slá ekki hendi þinni af þjónum þínum. Kom sem skjótast oss til hjálpar og veit oss fulltingi, því að allir konungar Amoríta, þeirra er búa í fjalllendinu, hafa safnast saman í móti oss."

Þá fór Jósúa frá Gilgal með allt lið sitt og alla kappa sína.

Drottinn sagði við Jósúa: "Þú skalt ekki hræðast þá, því að ég mun gefa þá í þínar hendur. Enginn þeirra mun fá staðist fyrir þér."

Jósúa kom nú að þeim óvörum, því að hann hélt áfram ferðinni alla nóttina frá Gilgal.

10 Og Drottinn gjörði þá felmtsfulla fyrir Ísrael og biðu þeir mikinn ósigur við Gíbeon, en hinir eltu þá í áttina til stígsins, er liggur upp að Bet Hóron, og felldu menn á flóttanum allt til Aseka og Makeda.

11 En er þeir flýðu fyrir Ísrael og voru á leið niður frá Bet Hóron, þá lét Drottinn stóra steina falla yfir þá af himni alla leið til Aseka, svo að þeir dóu. Voru þeir fleiri, er féllu fyrir haglsteinunum, en þeir, er Ísraelsmenn drápu með sverðseggjum.

12 Þá talaði Jósúa við Drottin, þann dag er Drottinn gaf Amoríta á vald Ísraelsmönnum, og hann mælti í áheyrn Ísraels: Sól statt þú kyrr í Gíbeon, og þú, tungl, í Ajalondal!

13 Og sólin stóð kyrr, og tunglið staðnaði, uns lýðurinn hafði hefnt sín á óvinum sínum. Svo er skrifað í Bók hinna réttlátu. Þá staðnaði sólin á miðjum himni og hraðaði sér eigi að ganga undir nær því heilan dag.

14 Og enginn dagur hefir þessum degi líkur verið, hvorki fyrr né síðar, að Drottinn skyldi láta að orðum manns, því að Drottinn barðist fyrir Ísrael.

15 Jósúa fór þá aftur til herbúðanna í Gilgal og allur Ísrael með honum.

16 Konungarnir fimm, er fyrr var getið, flýðu og leyndust í hellinum hjá Makeda.

17 Þá var Jósúa sagt svo frá: "Konungarnir fimm eru fundnir. Þeir leynast í hellinum hjá Makeda."

18 Þá sagði Jósúa: "Veltið stórum steinum fyrir hellismunnann og setjið menn við hann til að gæta þeirra.

19 En sjálfir skuluð þér eigi staðar nema. Veitið óvinum yðar eftirför, vinnið á þeim, sem aftastir fara, og látið þá ekki komast inn í borgir sínar, því að Drottinn, Guð yðar, hefir gefið þá yður á vald."

20 Er Jósúa og Ísraelsmenn höfðu unnið mikinn sigur á þeim, svo að þeir voru frá með öllu (en þeir af þeim, er undan höfðu komist, höfðu farið inn í víggirtu borgirnar),

21 þá sneri allt liðið aftur til Jósúa í herbúðirnar við Makeda heilu og höldnu. Þorði enginn framar orð að mæla gegn Ísraelsmönnum.

22 Þá sagði Jósúa: "Opnið hellismunnann og leiðið þessa fimm konunga út til mín úr hellinum."

23 Þeir gjörðu svo og leiddu þessa fimm konunga til hans úr hellinum: konunginn í Jerúsalem, konunginn í Hebron, konunginn í Jarmút, konunginn í Lakís og konunginn í Eglon.

24 Og er þeir höfðu leitt konunga þessa út til Jósúa, þá kallaði Jósúa saman alla menn í Ísrael og sagði við fyrirliða hermannanna, þá er með honum höfðu farið: "Komið hingað og stígið fæti á háls konungum þessum!" Þeir gengu þá fram og stigu fæti á háls þeim.

25 Þá sagði Jósúa við þá: "Óttist ekki og látið ekki hugfallast, verið hughraustir og öruggir, því að svo mun Drottinn fara með alla óvini yðar, er þér berjist við."

26 Eftir það lét Jósúa drepa þá, og er hann hafði líflátið þá, lét hann hengja þá á fimm tré, og þeir héngu á trjánum allt til kvelds.

27 En er komið var undir sólarlag, bauð Jósúa að taka þá ofan af trjánum. Þá köstuðu þeir þeim í hellinn, sem þeir höfðu leynst í, og báru síðan stóra steina fyrir hellismunnann, og eru þeir þar enn í dag.

28 Þennan sama dag vann Jósúa Makeda og tók hana herskildi, og hann bannfærði konung hennar, svo og borgina og alla þá menn, sem í henni voru. Lét hann engan komast undan, og með konunginn í Makeda fór hann eins og hann hafði farið með konunginn í Jeríkó.

29 Síðan fór Jósúa og allur Ísrael með honum frá Makeda til Líbna og herjaði á Líbna.

30 Og Drottinn gaf einnig hana í hendur Ísrael, svo og konung hennar, og hann tók hana herskildi og drap alla þá menn, er í henni voru. Lét hann þar engan komast undan, og hann fór með konung hennar eins og hann hafði farið með konunginn í Jeríkó.

31 Því næst fór Jósúa og allur Ísrael með honum frá Líbna til Lakís og settist um hana og herjaði á hana.

32 Og Drottinn gaf Lakís í hendur Ísrael, og hann vann hana á öðrum degi og tók hana herskildi og drap alla menn, sem í henni voru, öldungis eins og hann hafði farið með Líbna.

33 Þá fór Hóram, konungur í Geser, til liðs við Lakís, en Jósúa felldi hann og lið hans, svo að enginn þeirra komst undan.

34 Því næst fór Jósúa og allur Ísrael með honum frá Lakís til Eglon, og þeir settust um hana og herjuðu á hana.

35 Og þeir unnu hana samdægurs og tóku hana herskildi, og alla menn, er í henni voru, bannfærði hann þennan sama dag, öldungis eins og hann hafði farið með Lakís.

36 Þá fór Jósúa og allur Ísrael með honum frá Eglon til Hebron, og þeir herjuðu á hana.

37 Og þeir unnu hana og tóku hana herskildi; og þeir felldu konung hennar og alla íbúana í borgunum þar umhverfis og alla menn, sem í henni voru, svo að enginn komst undan, öldungis eins og hann hafði farið með Eglon, og hann bannfærði borgina og alla menn, er í henni voru.

38 Þá sneri Jósúa og allur Ísrael með honum aftur til Debír og herjaði á hana.

39 Náði hann henni og konungi hennar og öllum borgunum þar umhverfis á sitt vald; felldu þeir þá með sverðseggjum og bannfærðu alla menn, er í henni voru, svo að enginn komst undan. Eins og hann hafði farið með Hebron, svo fór hann og með Debír og konung hennar, og eins og hann hafði farið með Líbna og konung hennar.

40 Þannig braut Jósúa undir sig landið allt: fjalllendið, suðurlandið, láglendið og hlíðarnar _, og hann felldi alla konunga þeirra, svo að enginn komst undan, og bannfærði allt, sem lífsanda dró, eins og Drottinn, Ísraels Guð, hafði boðið honum.

41 Og Jósúa lagði undir sig land allt frá Kades Barnea til Gasa og allt Gósenland til Gíbeon.

42 Og alla þessa konunga og land þeirra vann Jósúa í einu, því að Drottinn, Ísraels Guð, barðist fyrir Ísrael.

43 Sneri nú Jósúa og allur Ísrael með honum aftur til herbúðanna í Gilgal.

11 Þegar Jabín, konungur í Hasór, spurði þessi tíðindi, gjörði hann orð Jóbab, konungi í Madón, svo og konunginum í Simron og konunginum í Aksaf

og konungunum, sem fyrir norðan bjuggu, í fjalllendinu, á sléttlendinu fyrir sunnan Kínneret, á láglendinu og á Dórhæðum úti við hafið,

Kanaanítum, bæði fyrir austan og vestan, Amorítum, Hetítum, Peresítum, Jebúsítum í fjalllendinu og Hevítum neðan undir Hermon í Mispalandi.

Héldu þeir af stað með allan sinn her; var það mannfjöldi svo mikill sem sandur á sjávarströnd. Höfðu þeir fjölda hesta og vagna.

Allir þessir konungar áttu með sér stefnu, fóru síðan og settu herbúðir sínar allir samt hjá Merómvötnum og bjuggust að eiga orustu við Ísrael.

Þá sagði Drottinn við Jósúa: "Ekki skalt þú hræðast þá, því að á morgun í þetta mund mun ég láta þá alla liggja fallna frammi fyrir Ísrael. Þú skalt skera sundur hásinarnar á hestum þeirra og brenna vagna þeirra í eldi."

Og Jósúa kom að þeim óvörum hjá Merómvötnum með allan sinn her, og gjörðu þeir áhlaup á þá.

Og Drottinn gaf þá í hendur Ísrael, og þeir unnu sigur á þeim og eltu þá allt til Sídon hinnar miklu og til Misrefót Majím og allt austur í Mispedal, og þeir felldu þá, svo að enginn af þeim komst undan.

Og Jósúa fór með þá, eins og Drottinn hafði sagt honum: Hann skar sundur hásinarnar á hestum þeirra og brenndi vagna þeirra í eldi.

10 Þá sneri Jósúa aftur og vann Hasór og felldi konung hennar með sverði, en Hasór var fyrrum höfuðborg allra þessara konungsríkja.

11 Og þeir felldu alla menn, er í henni voru, með sverðseggjum, með því að þeir bannfærðu þá. Var engin lifandi sála eftir skilin, og Hasór brenndi hann í eldi.

12 Jósúa náði á sitt vald öllum borgum þessara konunga, svo og konungunum sjálfum, og hann felldi þá með sverðseggjum, með því að hann bannfærði þá, eins og Móse, þjónn Drottins, hafði boðið.

13 Þó lögðu Ísraelsmenn ekki eld í neinar þær borgir, sem stóðu uppi á hæðum, nema Hasór eina; hana brenndi Jósúa.

14 En öllu herfangi úr borgum þessum rændu Ísraelsmenn sér til handa, svo og fénaðinum, en menn alla felldu þeir með sverðseggjum, uns þeir höfðu gjöreytt þeim. Létu þeir enga lifandi sálu eftir.

15 Eins og Drottinn hafði boðið Móse, þjóni sínum, svo hafði Móse boðið Jósúa, og svo gjörði Jósúa. Hann lét ekkert ógjört af því, sem Drottinn hafði boðið Móse.

16 Þannig lagði Jósúa undir sig allt þetta land: fjalllendið, allt suðurlandið, allt Gósenland, láglendið, sléttlendið, svo og Ísraelsfjöll og láglendið, sem að þeim liggur,

17 frá Skallabergi, sem liggur upp til Seír, til Baal Gað í Líbanonsdal undir Hermonfjalli. Og öllum konungum þeirra náði hann á sitt vald, vann sigur á þeim og lét drepa þá.

18 Um langa hríð átti Jósúa í orustum við konunga þessa.

19 Engin var sú borg, er friðsamlega gengi Ísraelsmönnum á vald, nema Hevítar, þeir er bjuggu í Gíbeon. Allt unnu þeir með hernaði.

20 Því að það var frá Drottni komið, að hann stælti hjörtu þeirra til að fara í móti Ísrael til bardaga, til þess að þeir yrðu vægðarlaust bannfærðir og gjöreyddir, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

21 Í það mund fór og Jósúa og eyddi Anakítum úr fjalllendinu við Hebron, úr Debír, úr Anab og úr öllum Júdafjöllum og úr öllum Ísraelsfjöllum. Jósúa bannfærði þá, ásamt borgum þeirra.

22 Engir Anakítar urðu eftir í landi Ísraelsmanna, aðeins í Gasa, Gat og Asdód urðu nokkrir eftir.

23 Jósúa vann allt landið, öldungis eins og Drottinn hafði boðið Móse, og Jósúa gaf það Ísraelsmönnum til eignar, hverri ættkvísl sinn hluta. Eftir það létti ófriði af landinu.

12 Þessir eru konungar landsins, þeir er Ísraelsmenn unnu sigur á og tóku lönd af hinumegin Jórdanar, austanmegin, frá Arnoná til Hermonfjalls og allt sléttlendið austanmegin:

Síhon, Amorítakonungur, sem bjó í Hesbon og réð landi frá Aróer, sem liggur á bakka Arnonár, og dalnum miðjum og hálfu Gíleað að Jabboká, sem er á landamærum Ammóníta,

og sléttlendinu að Genesaretvatni að austanverðu og að vatninu á sléttlendinu, Saltasjó, að austanverðu, suður undir Bet Jesímót, og til suðurs að Pisgahlíðum.

Sömuleiðis land Ógs, konungs í Basan, sem var einn þeirra Refaíta, er eftir voru, og bjó í Astarót og Edreí

og réð yfir Hermonfjöllum, Salka og öllu Basan, að landamærum Gesúra og Maakatíta, og yfir hálfu Gíleað, að landamærum Síhons, konungs í Hesbon.

Móse, þjónn Drottins, og Ísraelsmenn höfðu unnið sigur á þeim, og Móse, þjónn Drottins, hafði gefið Rúbenítum, Gaðítum og hálfri ættkvísl Manasse landið til eignar.

Þessir eru konungar landsins, þeir er Jósúa og Ísraelsmenn unnu sigur á fyrir vestan Jórdan, frá Baal Gað í Líbanonsdal til Skallabergs, sem liggur upp til Seír, _ en landið gaf Jósúa ættkvíslum Ísraels til eignar eftir skiptingu þeirra _,

í fjalllendinu, á láglendinu, á sléttlendinu, í fjallahlíðunum, í eyðimörkinni og í suðurlandinu, _ land Hetíta, Amoríta, Kanaaníta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta:

Konungurinn í Jeríkó einn, konungurinn í Aí, sem er hjá Betel, einn,

10 konungurinn í Jerúsalem einn, konungurinn í Hebron einn,

11 konungurinn í Jarmút einn, konungurinn í Lakís einn,

12 konungurinn í Eglon einn, konungurinn í Geser einn,

13 konungurinn í Debír einn, konungurinn í Geder einn,

14 konungurinn í Horma einn, konungurinn í Arad einn,

15 konungurinn í Líbna einn, konungurinn í Adúllam einn,

16 konungurinn í Makeda einn, konungurinn í Betel einn,

17 konungurinn í Tappúa einn, konungurinn í Hefer einn,

18 konungurinn í Afek einn, konungurinn í Saron einn,

19 konungurinn í Madón einn, konungurinn í Hasór einn,

20 konungurinn í Simrón Meróm einn, konungurinn í Aksaf einn,

21 konungurinn í Taanak einn, konungurinn í Megíddó einn,

22 konungurinn í Kedes einn, konungurinn í Jokneam hjá Karmel einn,

23 konungurinn í Dór í Dórshæðum einn, konungur heiðingjanna í Gilgal einn,

24 konungurinn í Tirsa einn, _ alls þrjátíu og einn konungur.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Lúkasarguðspjall 1:39-56 Icelandic Bible (ICELAND)

39 En á þeim dögum tók María sig upp og fór með flýti til borgar nokkurrar í fjallbyggðum Júda.

40 Hún kom inn í hús Sakaría og heilsaði Elísabetu.

41 Þá varð það, þegar Elísabet heyrði kveðju Maríu, að barnið tók viðbragð í lífi hennar, og Elísabet fylltist heilögum anda

42 og hrópaði hárri röddu: "Blessuð ert þú meðal kvenna og blessaður ávöxtur lífs þíns.

43 Hvaðan kemur mér þetta, að móðir Drottins míns kemur til mín?

44 Þegar kveðja þín hljómaði í eyrum mér, tók barnið viðbragð af gleði í lífi mínu.

45 Sæl er hún, sem trúði því, að rætast mundi það, sem sagt var við hana frá Drottni."

46 Og María sagði: Önd mín miklar Drottin,

47 og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.

48 Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar, héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.

49 Því að mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört, og heilagt er nafn hans.

50 Miskunn hans við þá, er óttast hann, varir frá kyni til kyns.

51 Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.

52 Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja,

53 hungraða hefur hann fyllt gæðum, en látið ríka tómhenta frá sér fara.

54 Hann hefur minnst miskunnar sinnar og tekið að sér Ísrael, þjón sinn,

55 eins og hann talaði til feðra vorra, við Abraham og niðja hans ævinlega.

56 En María dvaldist hjá henni hér um bil þrjá mánuði og sneri síðan heim til sín.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes