A A A A A
Bible Book List

Jobsbók 6-9 Icelandic Bible (ICELAND)

Þá svaraði Job og sagði:

Ó að gremja mín væri vegin og ógæfa mín lögð á vogarskálar!

Hún er þyngri en sandur hafsins, fyrir því hefi ég eigi taumhald á tungu minni.

Því að örvar hins Almáttka sitja fastar í mér, og andi minn drekkur í sig eitur þeirra. Ógnir Guðs steðja að mér.

Rymur skógarasninn yfir grængresinu, eða öskrar nautið yfir fóðri sínu?

Verður hið bragðlausa etið saltlaust, eða er gott bragð að hvítunni í egginu?

Matur minn fær mér ógleði, mig velgir við að snerta hann.

Ó að ósk mín uppfylltist, og Guð léti von mína rætast!

Ég vildi að Guði þóknaðist að merja mig sundur, rétta út höndina og skera lífsþráð minn sundur!

10 Þá væri það þó enn huggun mín _ og ég skyldi hoppa af gleði í vægðarlausri kvölinni _ að ég hefi aldrei afneitað orðum hins Heilaga.

11 Hver er kraftur minn, að ég skyldi þreyja, og hver verða endalok mín, að ég skyldi vera þolinmóður?

12 Er þá kraftur minn kletta kraftur, eða er líkami minn af eiri?

13 Er ég ekki með öllu hjálparvana og öll frelsun frá mér hrakin?

14 Hrelldur maður á heimting á meðaumkun hjá vini sínum, enda þótt hann hætti að óttast hinn Almáttka.

15 Bræður mínir brugðust eins og lækur, eins og farvegur lækja, sem flóa yfir,

16 sem gruggugir eru af ís og snjórinn hverfur ofan í.

17 Jafnskjótt og þeir bakast af sólinni, þorna þeir upp, þegar hitnar, hverfa þeir burt af stað sínum.

18 Kaupmannalestirnar beygja af leið sinni, halda upp í eyðimörkina og farast.

19 Kaupmannalestir frá Tema skyggndust eftir þeim, ferðamannahópar frá Saba reiddu sig á þá.

20 Þeir urðu sér til skammar fyrir vonina, þeir komu þangað og urðu sneyptir.

21 Þannig eruð þér nú orðnir fyrir mér, þér sáuð skelfing og skelfdust.

22 Hefi ég sagt: "Færið mér eitthvað og borgið af eigum yðar fyrir mig,

23 frelsið mig úr höndum óvinarins og leysið mig undan valdi kúgarans"?

24 Fræðið mig, og ég skal þegja, og sýnið mér, í hverju mér hefir á orðið.

25 Hversu áhrifamikil eru einlægninnar orð, en hvað sanna átölur yðar?

26 Hafið þér í hyggju að ásaka orð? Ummæli örvilnaðs manns hverfa út í vindinn.

27 Þér munduð jafnvel hluta um föðurleysingjann og selja vin yðar.

28 Og nú _ ó að yður mætti þóknast að líta á mig, ég mun vissulega ekki ljúga upp í opið geðið á yður.

29 Snúið við, fremjið eigi ranglæti, já, snúið við, enn þá hefi ég rétt fyrir mér.

30 Er ranglæti á minni tungu, eða ætli gómur minn greini ekki hvað illt er?

Er ekki líf mannsins á jörðinni herþjónusta og dagar hans sem dagar daglaunamanns?

Eins og þræll, sem þráir forsælu, og eins og daglaunamaður, sem bíður eftir kaupi sínu,

svo hafa mér hlotnast mæðumánuðir og kvalanætur orðið hlutskipti mitt.

Þegar ég leggst til hvíldar, hugsa ég: "Nær mun ég rísa á fætur?" Og kveldið er langt, og ég fæ mig fullsaddan á að bylta mér uns aftur eldir.

Líkami minn er þakinn ormum og moldarskánum, húð mín skorpnar og rifnar upp aftur.

Dagar mínir eru hraðfleygari en vefjarskyttan, og þeir hverfa án vonar.

Minnstu þess, Guð, að líf mitt er andgustur! Aldrei framar mun auga mitt gæfu líta.

Það auga, sem nú sér mig, mun eigi líta mig framar, augu þín leita mín, en ég er horfinn.

Eins og skýið eyðist og hverfur, svo kemur og sá eigi aftur, er niður stígur til Heljar.

10 Hann hverfur aldrei aftur til húss síns, og heimili hans þekkir hann eigi framar.

11 Ég ætla þá ekki heldur að hafa taum á tungu minni, ég ætla að tala í hugarangist minni, ég ætla að kveina í sálarkvöl minni.

12 Er ég haf eða sjóskrímsl, svo að þú þurfir að setja vörð yfir mig?

13 Þegar ég hugsa með sjálfum mér: "Rúmið mitt skal hugga mig, hvílan mín létta mér hörmung mína"

14 þá hræðir þú mig með draumum og skelfir mig með sýnum,

15 svo að ég kýs heldur að kafna, heldur að deyja en að vera slík beinagrind.

16 Ég er leiður á þessu _ ekki lifi ég eilíflega _, slepptu mér, því að dagar mínir eru andartak.

17 Hvað er maðurinn, að þú metir hann svo mikils og að þú snúir huga þínum til hans?

18 að þú heimsækir hann á hverjum morgni og reynir hann á hverri stundu?

19 Hvenær ætlar þú loks að líta af mér, loks að sleppa mér, meðan ég renni niður munnvatninu?

20 Hafi ég syndgað _ hvað get ég gert þér, þú vörður manna? Hvers vegna hefir þú mig þér að skotspæni, svo að ég er sjálfum mér byrði?

21 Og hví fyrirgefur þú mér eigi synd mína og nemur burt sekt mína? Því að nú leggst ég til hvíldar í moldu, og leitir þú mín, þá er ég eigi framar til.

Þá svaraði Bildad frá Súa og sagði:

Hversu lengi ætlar þú slíkt að mæla og orðin í munni þínum að vera hvass vindur?

Hallar þá Guð réttinum, eða hallar hinn Almáttki réttlætinu?

Hafi börn þín syndgað móti honum, þá hefir hann selt þau misgjörð þeirra á vald.

En ef þú leitar Guðs og biður hinn Almáttka miskunnar _

ef þú ert hreinn og einlægur _ já, þá mun hann þegar vakna til að sinna þér og endurreisa bústað þíns réttlætis.

Þá mun þinn fyrri hagur virðast lítilfjörlegur, en framtíðarhagur þinn vaxa stórum.

Spyr þú hina fyrri kynslóð og gef þú gaum að reynslu feðranna.

Vér erum síðan í gær og vitum ekkert, því að skuggi eru dagar vorir á jörðunni.

10 En þeir munu fræða þig, segja þér það og bera fram orð úr sjóði hjarta síns:

11 "Sprettur pappírssefið þar sem engin mýri er? vex störin nema í vatni?

12 Enn stendur hún í blóma og verður eigi slegin, en hún skrælnar fyrr en nokkurt annað gras."

13 Svo fer fyrir hverjum þeim, sem gleymir Guði, og von hins guðlausa verður að engu.

14 Athvarf hans brestur sundur, og köngullóarvefur er það, sem hann treystir.

15 Hann styðst við hús sitt, en það stendur ekki, hann heldur sér fast í það, en það stenst ekki.

16 Hann er safarík skríðandi flétta í sólskini, sem teygir jarðstöngla sína um garðinn

17 og vefur rótum sínum um grjóthrúgur og læsir sig milli steinanna.

18 En ef hann er upprættur frá stað sínum, þá afneitar staðurinn honum og segir: "Ég hefi aldrei séð þig!"

19 Sjá, þetta er öll gleði hans, og aðrir spretta í staðinn upp úr moldinni.

20 Sjá, Guð hafnar ekki hinum ráðvanda og heldur ekki í hönd illgjörðamanna.

21 Enn mun hann fylla munn þinn hlátri og varir þínar fagnaðarópi.

22 Þeir sem hata þig, munu skömminni klæðast, og tjald hinna óguðlegu mun horfið vera.

Þá svaraði Job og sagði:

Vissulega, ég veit að það er svo, og hvernig ætti maðurinn að hafa rétt fyrir sér gagnvart Guði?

Þóknist honum að deila við hann, getur hann ekki svarað einni spurningu af þúsund.

Hann er vitur í hjarta og máttkur að afli _ hver þrjóskaðist gegn honum og sakaði eigi? _

Hann sem flytur fjöll, svo að þau vita ekki af, hann sem kollvarpar þeim í reiði sinni,

hann sem hrærir jörðina úr stað, svo að stoðir hennar leika á reiðiskjálfi,

hann sem býður sólinni, og hún rennur ekki upp, og setur innsigli fyrir stjörnurnar,

hann sem þenur út himininn aleinn, og gengur á háöldum sjávarins,

hann sem skóp Vagnstirnið og Óríon, Sjöstjörnuna og forðabúr sunnanvindsins,

10 hann sem gjörir mikla hluti og órannsakanlega og dásemdarverk, er eigi verða talin,

11 sjá, hann gengur fram hjá mér, en ég sé hann ekki, hann strýkst fram hjá, en ég verð hans ekki var.

12 Þegar hann þrífur til, hver vill þá aftra honum, hver vill segja við hann: "Hvað gjörir þú?"

13 Guð heldur ekki aftur reiði sinni, bandamenn hafdrekans beygðu sig undir hann.

14 Hversu miklu síður mundi ég þá geta svarað honum, geta valið orð mín gagnvart honum,

15 ég sem ekki mætti svara, þótt ég hefði rétt fyrir mér, heldur verð að beiðast miskunnar af dómara mínum.

16 Þótt ég kallaði og hann svaraði mér, þá mundi ég ekki trúa, að hann hlustaði á mig.

17 Miklu fremur mundi hann hvæsa á mig í stormviðri og margfalda sár mín án saka,

18 aldrei leyfa mér að draga andann, heldur metta mig beiskri kvöl.

19 Sé um kraft að ræða, er mátturinn hans, sé um rétt að ræða, hver vill þá stefna honum?

20 Þótt ég hefði rétt fyrir mér, þá mundi munnur minn sakfella mig, þótt ég væri saklaus, mundi hann koma á mig sektinni.

21 Saklaus er ég, ég hirði ekkert um líf mitt, ég virði að vettugi tilveru mína!

22 Mér stendur á sama um það. Fyrir því segi ég: hann tortímir jafnt saklausum sem óguðlegum.

23 Þegar svipan deyðir snögglega, þá gjörir hann gys að örvænting hinna saklausu.

24 Jörðin er gefin í vald hinna óguðlegu, hann byrgir fyrir andlitið á dómendum hennar. Sé það ekki hann _ hver þá?

25 Dagar mínir voru skjótari en hraðboði, liðu svo hjá, að þeir litu enga hamingju.

26 Þeir brunuðu áfram eins og reyrbátar, eins og örn, sem steypir sér niður á æti.

27 Ef ég segi: Ég ætla að gleyma volæði mínu, ég ætla að breyta andlitssvip mínum og vera kátur, _

28 þá hryllir mig við öllum þjáningum mínum, því ég veit þú sýknar mig ekki.

29 Ég á nú að vera sekur, hví skyldi ég þá vera að mæðast til ónýtis?

30 Þótt ég þvægi mér úr snjó og hreinsaði hendur mínar í lút,

31 þá mundir þú dýfa mér ofan í forarvilpu, svo að klæðum mínum byði við mér.

32 Guð er ekki maður eins og ég, að ég geti svarað honum, að við getum gengið saman fyrir réttinn.

33 Enginn er sá, er úr skeri okkar í milli, er lagt geti hönd sína á okkur báða.

34 Hann taki vönd sinn frá mér og láti ekki skelfing sína hræða mig,

35 þá vil ég tala og eigi óttast hann, því að svo er mér eigi farið hið innra.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes