Add parallel Print Page Options

Kalla þú bara! Ætli nokkur svari þér? og til hvers af hinum heilögu viltu snúa þér?

Því að gremjan drepur heimskingjann, og öfundin deyðir einfeldninginn.

Ég hefi að vísu séð heimskingjann festa djúpar rætur, en varð þó skyndilega að formæla bústað hans.

Börn hans eru fjarlæg hjálpinni, þau eru troðin niður í hliðinu, og enginn bjargar.

Uppskeru hans etur hinn hungraði, já, jafnvel inn í þyrna sækir hann hana, og hinir þyrstu þrá eigur hans.

Því að óhamingjan vex ekki upp úr moldinni, og mæðan sprettur ekki upp úr jarðveginum.

Nei, maðurinn fæðist til mæðu, eins og neistarnir fljúga upp í loftið.

En ég mundi snúa mér til hins Almáttka og bera málefni mitt upp fyrir Guði,

honum, sem gjörir mikla hluti og órannsakanlega, dásemdarverk, sem eigi verða talin,

10 sem gefur regn á jörðina og sendir vatn yfir vellina

11 til þess að hefja hina lítilmótlegu hátt upp, og til þess að hinir sorgbitnu öðlist mikla sælu;

12 honum, sem gjörir að engu áform hinna lævísu, svo að hendur þeirra koma engu varanlegu til leiðar,

13 sem veiðir vitringana í slægð þeirra, svo að ráð hinna slungnu kollsteypast.

14 Á daginn reka þeir sig á myrkur, og sem um nótt þreifa þeir fyrir sér um hádegið.

15 Þannig frelsar hann munaðarleysingjann úr gini þeirra og fátæklinginn undan valdi hins sterka.

16 Þannig er von fyrir hinn vesala, og illskan lokar munni sínum.

17 Sjá, sæll er sá maður, er Guð hirtir, lítilsvirð því eigi ögun hins Almáttka.

18 Því að hann særir, en bindur og um, hann slær, og hendur hans græða.

19 Úr sex nauðum frelsar hann þig, og í hinni sjöundu snertir þig ekkert illt.

20 Í hallærinu frelsar hann þig frá dauða og í orustunni undan valdi sverðsins.

21 Fyrir svipu tungunnar ert þú falinn og þarft ekkert að óttast, er eyðingin kemur.

22 Að eyðing og hungri getur þú hlegið, og villidýrin þarft þú ekki að óttast.

23 Því að þú ert í bandalagi við steina akurlendisins, og dýr merkurinnar eru í sátt við þig.

24 Og þú munt komast að raun um, að tjald þitt er heilt, þú kannar bústað þinn og saknar einskis.

25 Og þú munt komast að raun um, að niðjar þínir eru margir og afsprengi þitt sem gras á jörðu.

26 Í hárri elli munt þú ganga inn í gröfina, eins og kornbundinið er látið í hlöðuna á sínum tíma.

27 Sjá, þetta höfum vér útgrundað, þannig er það. Heyr þú það og set það vel á þig!

Þá svaraði Job og sagði:

Ó að gremja mín væri vegin og ógæfa mín lögð á vogarskálar!

Hún er þyngri en sandur hafsins, fyrir því hefi ég eigi taumhald á tungu minni.

Því að örvar hins Almáttka sitja fastar í mér, og andi minn drekkur í sig eitur þeirra. Ógnir Guðs steðja að mér.

Rymur skógarasninn yfir grængresinu, eða öskrar nautið yfir fóðri sínu?

Verður hið bragðlausa etið saltlaust, eða er gott bragð að hvítunni í egginu?

Matur minn fær mér ógleði, mig velgir við að snerta hann.

Ó að ósk mín uppfylltist, og Guð léti von mína rætast!

Ég vildi að Guði þóknaðist að merja mig sundur, rétta út höndina og skera lífsþráð minn sundur!

10 Þá væri það þó enn huggun mín _ og ég skyldi hoppa af gleði í vægðarlausri kvölinni _ að ég hefi aldrei afneitað orðum hins Heilaga.

11 Hver er kraftur minn, að ég skyldi þreyja, og hver verða endalok mín, að ég skyldi vera þolinmóður?

12 Er þá kraftur minn kletta kraftur, eða er líkami minn af eiri?

13 Er ég ekki með öllu hjálparvana og öll frelsun frá mér hrakin?

14 Hrelldur maður á heimting á meðaumkun hjá vini sínum, enda þótt hann hætti að óttast hinn Almáttka.

15 Bræður mínir brugðust eins og lækur, eins og farvegur lækja, sem flóa yfir,

16 sem gruggugir eru af ís og snjórinn hverfur ofan í.

17 Jafnskjótt og þeir bakast af sólinni, þorna þeir upp, þegar hitnar, hverfa þeir burt af stað sínum.

18 Kaupmannalestirnar beygja af leið sinni, halda upp í eyðimörkina og farast.

19 Kaupmannalestir frá Tema skyggndust eftir þeim, ferðamannahópar frá Saba reiddu sig á þá.

20 Þeir urðu sér til skammar fyrir vonina, þeir komu þangað og urðu sneyptir.

21 Þannig eruð þér nú orðnir fyrir mér, þér sáuð skelfing og skelfdust.

22 Hefi ég sagt: "Færið mér eitthvað og borgið af eigum yðar fyrir mig,

23 frelsið mig úr höndum óvinarins og leysið mig undan valdi kúgarans"?

24 Fræðið mig, og ég skal þegja, og sýnið mér, í hverju mér hefir á orðið.

25 Hversu áhrifamikil eru einlægninnar orð, en hvað sanna átölur yðar?

26 Hafið þér í hyggju að ásaka orð? Ummæli örvilnaðs manns hverfa út í vindinn.

27 Þér munduð jafnvel hluta um föðurleysingjann og selja vin yðar.

28 Og nú _ ó að yður mætti þóknast að líta á mig, ég mun vissulega ekki ljúga upp í opið geðið á yður.

29 Snúið við, fremjið eigi ranglæti, já, snúið við, enn þá hefi ég rétt fyrir mér.

30 Er ranglæti á minni tungu, eða ætli gómur minn greini ekki hvað illt er?

Er ekki líf mannsins á jörðinni herþjónusta og dagar hans sem dagar daglaunamanns?

Eins og þræll, sem þráir forsælu, og eins og daglaunamaður, sem bíður eftir kaupi sínu,

svo hafa mér hlotnast mæðumánuðir og kvalanætur orðið hlutskipti mitt.

Þegar ég leggst til hvíldar, hugsa ég: "Nær mun ég rísa á fætur?" Og kveldið er langt, og ég fæ mig fullsaddan á að bylta mér uns aftur eldir.

Líkami minn er þakinn ormum og moldarskánum, húð mín skorpnar og rifnar upp aftur.

Dagar mínir eru hraðfleygari en vefjarskyttan, og þeir hverfa án vonar.

Minnstu þess, Guð, að líf mitt er andgustur! Aldrei framar mun auga mitt gæfu líta.

Það auga, sem nú sér mig, mun eigi líta mig framar, augu þín leita mín, en ég er horfinn.

Eins og skýið eyðist og hverfur, svo kemur og sá eigi aftur, er niður stígur til Heljar.

10 Hann hverfur aldrei aftur til húss síns, og heimili hans þekkir hann eigi framar.

11 Ég ætla þá ekki heldur að hafa taum á tungu minni, ég ætla að tala í hugarangist minni, ég ætla að kveina í sálarkvöl minni.

12 Er ég haf eða sjóskrímsl, svo að þú þurfir að setja vörð yfir mig?

13 Þegar ég hugsa með sjálfum mér: "Rúmið mitt skal hugga mig, hvílan mín létta mér hörmung mína"

14 þá hræðir þú mig með draumum og skelfir mig með sýnum,

15 svo að ég kýs heldur að kafna, heldur að deyja en að vera slík beinagrind.

16 Ég er leiður á þessu _ ekki lifi ég eilíflega _, slepptu mér, því að dagar mínir eru andartak.

17 Hvað er maðurinn, að þú metir hann svo mikils og að þú snúir huga þínum til hans?

18 að þú heimsækir hann á hverjum morgni og reynir hann á hverri stundu?

19 Hvenær ætlar þú loks að líta af mér, loks að sleppa mér, meðan ég renni niður munnvatninu?

20 Hafi ég syndgað _ hvað get ég gert þér, þú vörður manna? Hvers vegna hefir þú mig þér að skotspæni, svo að ég er sjálfum mér byrði?

21 Og hví fyrirgefur þú mér eigi synd mína og nemur burt sekt mína? Því að nú leggst ég til hvíldar í moldu, og leitir þú mín, þá er ég eigi framar til.