A A A A A
Bible Book List

Jobsbók 41-42 Icelandic Bible (ICELAND)

41 Getur þú veitt krókódílinn á öngul, getur þú heft tungu hans með snæri?

Dregur þú seftaug gegnum nasir hans og rekur þú krók gegnum kjálka honum?

Ætli hann beri fram fyrir þig margar auðmjúkar bænir eða mæli til þín blíðum orðum?

Mun hann gjöra við þig sáttmála, svo að þú takir hann að ævinlegum þræli?

Munt þú leika þér að honum eins og litlum fugli og getur þú bundið hann fastan fyrir smámeyjar þínar?

Manga fiskveiðafélagar um hann, skipta þeir honum meðal kaupmanna?

Getur þú fyllt húð hans broddum og haus hans skutlum?

Legg hönd þína á hann _ hugsaðu þér, hvílík viðureign! Þú gjörir það ekki aftur.

Já, von mannsins bregst, hann fellur þegar flatur fyrir sjóninni einni saman.

10 Enginn er svo fífldjarfur, að hann þori að egna hann, _ og hver er þá sá, er þori að ganga fram fyrir mitt auglit?

11 Hver hefir að fyrra bragði gefið mér, svo að ég ætti að endurgjalda? Allt sem undir himninum er, það er mitt!

12 Ég vil ekki þegja um limu hans, né um styrkleik og fegurð vaxtar hans.

13 Hver hefir flett upp skjaldkápu hans að framan, hver fer inn undir tvöfaldan tanngarð hans?

14 Hver hefir opnað hliðin að gini hans? Ógn er kringum tennur hans.

15 Tignarprýði eru skjaldaraðirnar, lokaðar með traustu innsigli.

16 Hver skjöldurinn liggur fast að öðrum, ekkert loft kemst á milli þeirra.

17 Þeir eru fastir hver við annan, eru svo samfelldir, að þeir verða eigi skildir sundur.

18 Þegar hann hnerrar, standa ljósgeislar úr nösum hans, og augu hans eru sem brágeislar morgunroðans.

19 Úr gini hans standa blys, eldneistar ganga fram úr honum.

20 Úr nösum hans stendur eimur, eins og upp úr sjóðandi potti, sem kynt er undir með sefgrasi.

21 Andi hans kveikir í kolum, og logi stendur úr gini hans.

22 Kraftur situr á hálsi hans, og angist stökkur á undan honum.

23 Vöðvar holds hans loða fastir við, eru steyptir á hann og hreyfast ekki.

24 Hjarta hans er hart sem steinn, já, hart sem neðri kvarnarsteinn.

25 Þegar hann stökkur upp, skelfast kapparnir, þeir verða ringlaðir af hræðslu.

26 Ráðist einhver að honum með sverði, þá vinnur það eigi á, eigi heldur lensa, skotspjót eða ör.

27 Hann metur járnið sem strá, eirinn sem maðksmoginn við.

28 Eigi rekur örin hann á flótta, slöngusteinarnir verða hálmur fyrir honum.

29 Kylfur metur hann sem hálmstrá, og að hvin spjótsins hlær hann.

30 Neðan á honum eru oddhvöss brot, hann markar för í aurinn sem för eftir þreskisleða.

31 Hann lætur vella í djúpinu sem í potti, gjörir hafið eins og smyrslaketil.

32 Aftur undan honum er ljósrák, ætla mætti, að sjórinn væri silfurhærur.

33 Enginn er hans maki á jörðu, hans sem skapaður er til þess að kunna ekki að hræðast.

34 Hann lítur niður á allt hátt, hann er konungur yfir öllum drembnum dýrum.

42 Þá svaraði Job Drottni og sagði:

Ég veit, að þú megnar allt, og engu ráði þínu verður varnað fram að ganga.

"Hver er sá, sem myrkvar ráðsályktun Guðs í hyggjuleysi?" Fyrir því hefi ég talað án þess að skilja, um hluti, sem mér voru of undursamlegir og ég þekkti eigi.

"Hlusta þú, ég ætla að tala. Ég mun spyrja þig, og þú skalt fræða mig."

Ég þekkti þig af afspurn, en nú hefir auga mitt litið þig!

Fyrir því tek ég orð mín aftur og iðrast í dufti og ösku.

Eftir að Drottinn hafði mælt þessum orðum til Jobs, sagði Drottinn við Elífas Temaníta: "Reiði mín er upptendruð gegn þér og báðum vinum þínum, því að þér hafið ekki talað rétt um mig eins og þjónn minn Job.

Takið yður því sjö naut og sjö hrúta og farið til þjóns míns Jobs og fórnið brennifórn fyrir yður, og Job þjónn minn skal biðja fyrir yður, því aðeins vegna hans mun ég ekki láta yður gjalda heimsku yðar, með því að þér hafið ekki talað rétt um mig eins og þjónn minn Job."

Þá fóru þeir Elífas Temaníti, Bildad Súíti og Sófar Naamíti og gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið þeim. Og Drottinn lét að bæn Jobs.

10 Og Drottinn sneri við högum Jobs, þá er hann bað fyrir vinum sínum; og hann gaf Job allt sem hann hafði átt, tvöfalt aftur.

11 Þá komu til hans allir bræður hans og allar systur hans og allir þeir, er áður höfðu verið kunningjar hans, og neyttu máltíðar með honum í húsi hans, vottuðu honum samhryggð sína og hugguðu hann út af öllu því böli, sem Drottinn hafði látið yfir hann koma. Og þeir gáfu honum hver einn kesíta og hver einn hring af gulli.

12 En Drottinn blessaði síðari æviár Jobs enn meir en hin fyrri, og hann eignaðist fjórtán þúsund sauða, sex þúsund úlfalda, þúsund sameyki nauta og þúsund ösnur.

13 Hann eignaðist og sjö sonu og þrjár dætur.

14 Og hann nefndi eina Jemímu, aðra Kesíu og hina þriðju Keren Happúk.

15 Og eigi fundust svo fríðar konur í öllu landinu sem dætur Jobs, og faðir þeirra gaf þeim arf með bræðrum þeirra.

16 Og Job lifði eftir þetta hundrað og fjörutíu ár og sá börn sín og barnabörn, fjóra ættliði.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Postulasagan 16:22-40 Icelandic Bible (ICELAND)

22 Múgurinn réðst og gegn þeim, og höfuðsmennirnir létu fletta þá klæðum og skipuðu að húðstrýkja þá.

23 Og er þeir höfðu lostið þá mörg högg, vörpuðu þeir þeim í fangelsi og buðu fangaverðinum að gæta þeirra vandlega.

24 Þegar hann hafði fengið slíka skipun, varpaði hann þeim í innsta fangelsið og felldi stokk á fætur þeim.

25 Um miðnætti báðust þeir Páll og Sílas fyrir og lofsungu Guði, en bandingjarnir hlustuðu á þá.

26 Þá varð skyndilega landskjálfti mikill, svo að grunnur fangelsisins riðaði. Jafnskjótt opnuðust allar dyr, og fjötrarnir féllu af öllum.

27 Fangavörðurinn vaknaði við, og er hann sá fangelsisdyrnar opnar, dró hann sverð sitt og vildi fyrirfara sér, þar eð hann hugði fangana flúna.

28 Þá kallaði Páll hárri raustu: "Gjör þú sjálfum þér ekkert mein, vér erum hér allir!"

29 En hann bað um ljós, stökk inn og féll óttasleginn til fóta Páli og Sílasi.

30 Síðan leiddi hann þá út og sagði: "Herrar mínir, hvað á ég að gjöra til að verða hólpinn?"

31 En þeir sögðu: "Trú þú á Drottin Jesú, og þú munt verða hólpinn og heimili þitt."

32 Og þeir fluttu honum orð Drottins og öllum á heimili hans.

33 Á þessari sömu næturstund tók hann þá með sér og laugaði meiðsli þeirra eftir höggin, og var hann þegar skírður og allt hans fólk.

34 Síðan fór hann með þá upp í hús sitt, bar þeim mat, og var hann og allt heimafólk hans fagnandi yfir því að hafa tekið trú á Guð.

35 Þegar dagur rann, sendu höfuðsmennirnir vandsveina og sögðu: "Lát þú menn þessa lausa."

36 Fangavörðurinn flutti Páli þessi orð: "Höfuðsmennirnir hafa sent boð um, að þið skuluð látnir lausir. Gangið nú út og farið í friði."

37 En Páll sagði við þá: "Þeir hafa opinberlega látið húðstrýkja okkur, rómverska menn, án dóms og laga og varpa í fangelsi, og nú ætla þeir leynilega að hleypa okkur út. Ég held nú síður. Þeir skulu koma sjálfir og leiða okkur út."

38 Vandsveinarnir fluttu höfuðsmönnunum þessi orð. En þeir urðu hræddir, er þeir heyrðu, að þeir væru rómverskir,

39 og komu og friðmæltust við þá, leiddu þá út og báðu þá að fara burt úr borginni.

40 Þegar þeir voru komnir út úr fangelsinu, fóru þeir heim til Lýdíu, fundu bræðurna og hughreystu þá. Síðan héldu þeir af stað.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes