A A A A A
Bible Book List

Jobsbók 32-33 Icelandic Bible (ICELAND)

32 Og þessir þrír menn hættu að svara Job, því að hann þóttist vera réttlátur.

Þá upptendraðist reiði Elíhú Barakelssonar Búsíta af Rams kynstofni. Upptendraðist reiði hans gegn Job, af því að hann taldi sig hafa á réttu að standa gagnvart Guði.

Reiði hans upptendraðist og gegn vinum hans þremur, fyrir það að þeir fundu engin andsvör til þess að sanna Job, að hann hefði á röngu að standa.

En Elíhú hafði beðið með að mæla til Jobs, því að hinir voru eldri en hann.

En er Elíhú sá, að mennirnir þrír gátu engu svarað, upptendraðist reiði hans.

Þá tók Elíhú Barakelsson Búsíti til máls og sagði: Ég er ungur að aldri, en þér eruð öldungar, þess vegna fyrirvarð ég mig og kom mér eigi að því að kunngjöra yður það, sem ég veit.

Ég hugsaði: Aldurinn tali, og árafjöldinn kunngjöri speki!

En _ það er andinn í manninum og andblástur hins Almáttka, sem gjörir þá vitra.

Elstu mennirnir eru ekki ávallt vitrastir, og öldungarnir skynja eigi, hvað réttast er.

10 Fyrir því segi ég: Hlýð á mig, nú ætla einnig ég að kunngjöra það, sem ég veit.

11 Sjá, ég beið eftir ræðum yðar, hlustaði á röksemdir yðar, uns þér fynduð orðin, sem við ættu.

12 Og að yður gaf ég gaum, en sjá, enginn sannfærði Job, enginn yðar hrakti orð hans.

13 Segið ekki: "Vér höfum hitt fyrir speki, Guð einn fær sigrað hann, en enginn maður!"

14 Gegn mér hefir hann ekki sett fram neinar sannanir, og með yðar orðum ætla ég ekki að svara honum.

15 Þeir eru skelkaðir, svara eigi framar, þeir standa uppi orðlausir.

16 Og ætti ég að bíða, þar sem þeir þegja, þar sem þeir standa og svara eigi framar?

17 Ég vil og svara af minni hálfu, ég vil og kunngjöra það, sem ég veit.

18 Því að ég er fullur af orðum, andinn í brjósti mínu knýr mig.

19 Sjá, brjóst mitt er sem vín, er ekki fær útrás, ætlar að rifna, eins og nýfylltir belgir.

20 Ég ætla að tala til þess að létta á mér, ætla að opna varir mínar og svara.

21 Ég ætla ekki að draga taum neins, og ég ætla engan að skjalla.

22 Því að ég kann ekki að skjalla, ella kynni skapari minn bráðlega að kippa mér burt.

33 En heyr þú, Job, ræðu mína, og hlýð þú á öll orð mín.

Sjá, ég opna munn minn, og tunga mín talar í gómi mínum.

Orð mín eru hjartans hreinskilni, og það sem varir mínar vita, mæla þær í einlægni.

Andi Guðs hefir skapað mig, og andblástur hins Almáttka gefur mér líf.

Ef þú getur, þá svara þú mér, bú þig út í móti mér og gakk fram.

Sjá, ég stend eins og þú gagnvart Guði, ég er og myndaður af leiri.

Sjá, hræðsla við mig þarf eigi að skelfa þig og þungi minn eigi þrýsta þér niður.

En þú hefir sagt í eyru mér, og ég heyrði hljóm orðanna:

"Hreinn er ég, laus við afbrot, saklaus er ég, og hjá mér er engin misgjörð.

10 En Guð reynir að finna tilefni til fjandskapar við mig og ætlar að ég sé óvinur hans.

11 Hann setur fætur mína í stokk og aðgætir alla vegu mína."

12 Sjá, í þessu hefir þú rangt fyrir þér, svara ég þér, því að Guð er meiri en maður.

13 Hví hefir þú þráttað við hann, að hann svaraði engu öllum orðum þínum?

14 Því að vissulega talar Guð einu sinni, já, tvisvar, en menn gefa því ekki gaum.

15 Í draumi, í nætursýn, þá er þungur svefnhöfgi er fallinn yfir mennina, í blundi á hvílubeði,

16 opnar hann eyru mannanna og innsiglar viðvörunina til þeirra

17 til þess að fá manninn til þess að láta af gjörðum sínum og forða manninum við drambsemi.

18 Hann hlífir sálu hans við gröfinni og lífi hans frá því að farast fyrir skotvopni.

19 Maðurinn er og agaður með kvölum á sæng sinni, og stríðið geisar stöðuglega í beinum hans.

20 Þá vekur lífshvötin óbeit hjá honum á brauðinu og sál hans á uppáhaldsfæðunni.

21 Hold hans eyðist og verður óásjálegt, og beinin, sem sáust ekki áður, verða ber,

22 svo að sál hans nálgast gröfina og líf hans engla dauðans.

23 En ef þar er hjá honum árnaðarengill, talsmaður, einn af þúsund til þess að boða manninum skyldu hans,

24 og miskunni hann sig yfir hann og segi: "Endurleys hann og lát hann eigi stíga niður í gröfina, ég hefi fundið lausnargjaldið,"

25 þá svellur hold hans af æskuþrótti, hann snýr aftur til æskudaga sinna.

26 Hann biður til Guðs, og Guð miskunnar honum, lætur hann líta auglit sitt með fögnuði og veitir manninum aftur réttlæti hans.

27 Hann syngur frammi fyrir mönnum og segir: "Ég hafði syndgað og gjört hið beina bogið, og þó var mér ekki goldið líku líkt.

28 Guð hefir leyst sálu mína frá því að fara ofan í gröfina, og líf mitt gleður sig við ljósið."

29 Sjá, allt þetta gjörir Guð tvisvar eða þrisvar við manninn

30 til þess að hrífa sál hans frá gröfinni, til þess að lífsins ljós megi leika um hann.

31 Hlýð á, Job, heyr þú mig, ver þú hljóður og lát mig tala.

32 Hafir þú eitthvað að segja, þá svara mér, tala þú, því að gjarnan vildi ég, að þú reyndist réttlátur.

33 Ef svo er eigi þá heyr þú mig, ver hljóður, að ég megi kenna þér speki.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Postulasagan 14 Icelandic Bible (ICELAND)

14 Í Íkóníum gengu þeir á sama hátt inn í samkundu Gyðinga og töluðu þannig, að mikill fjöldi Gyðinga og Grikkja tók trú.

En vantrúa Gyðingar vöktu æsing með heiðingjum og illan hug gegn bræðrunum.

Dvöldust þeir þar alllangan tíma og töluðu djarflega í trausti til Drottins, sem staðfesti orð náðar sinnar með því að láta tákn og undur gerast fyrir hendur þeirra.

Skiptust nú borgarbúar í tvo flokka, og voru sumir með Gyðingum, aðrir með postulunum.

Heiðingjar og Gyðingar gjörðu ásamt yfirvöldum sínum samblástur um að misþyrma þeim og grýta þá.

Þeir komust að þessu og flýðu til borganna Lýstru og Derbe í Lýkaóníu og héraðsins umhverfis.

Þar héldu þeir áfram að flytja fagnaðarerindið.

Í Lýstru var maður nokkur máttvana í fótum, lami frá móðurlífi, og hafði aldrei getað gengið.

Maður þessi heyrði á mál Páls, en Páll horfði á hann og sá, að hann hafði trú til þess að verða heill,

10 og sagði hárri raustu: "Rís upp og stattu í fæturna!" Hann spratt upp og tók að ganga.

11 Múgurinn sá, hvað Páll hafði gjört, og tók að hrópa á lýkaónsku: "Guðirnir eru í manna líki stignir niður til vor."

12 Kölluðu þeir Barnabas Seif, en Pál Hermes, því að hann hafði orð fyrir þeim.

13 En prestur í hofi Seifs utan borgar kom með naut og kransa að borgarhliðunum og vildi færa fórnir ásamt fólkinu.

14 Þegar postularnir, Barnabas og Páll, heyrðu þetta, rifu þeir klæði sín, stukku inn í mannþröngina og hrópuðu:

15 "Menn, hví gjörið þér þetta? Menn erum vér sem þér, yðar líkar, og flytjum yður þau fagnaðarboð, að þér skuluð hverfa frá þessum fánýtu goðum til lifanda Guðs, sem skapaði himin, jörð og haf og allt, sem í þeim er.

16 Hann hefur um liðnar aldir leyft, að sérhver þjóð gengi sína vegu.

17 En þó hefur hann vitnað um sjálfan sig með velgjörðum sínum. Hann hefur gefið yður regn af himni og uppskerutíðir. Hann hefur veitt yður fæðu og fyllt hjörtu yðar gleði."

18 Með þessum orðum fengu þeir með naumindum fólkið ofan af því að færa þeim fórnir.

19 Þá komu Gyðingar frá Antíokkíu og Íkóníum. Töldu þeir fólkið á sitt mál, og menn grýttu Pál, drógu hann út úr borginni og hugðu hann dáinn.

20 En lærisveinarnir slógu hring um hann, og reis hann þá upp og gekk inn í borgina. Daginn eftir fór hann þaðan með Barnabasi til Derbe.

21 Þegar þeir höfðu boðað fagnaðarerindið í þeirri borg og gjört marga að lærisveinum, sneru þeir aftur til Lýstru, Íkóníum og Antíokkíu,

22 styrktu lærisveinana og hvöttu þá til að vera staðfastir í trúnni. Þeir sögðu: "Vér verðum að ganga inn í Guðs ríki gegnum margar þrengingar."

23 Þeir völdu þeim öldunga í hverjum söfnuði, fólu þá síðan með föstum og bænahaldi Drottni, sem þeir höfðu fest trú á.

24 Þá fóru þeir um Pisidíu og komu til Pamfýlíu.

25 Þeir fluttu orðið í Perge, fóru til Attalíu

26 og sigldu þaðan til Antíokkíu, en þar höfðu þeir verið faldir náð Guðs til þess verks, sem þeir höfðu nú fullnað.

27 Þegar þeir voru þangað komnir, stefndu þeir saman söfnuðinum og greindu frá, hversu mikið Guð hafði látið þá gjöra og að hann hefði upp lokið dyrum trúarinnar fyrir heiðingjum.

28 Dvöldust þeir nú alllengi hjá lærisveinunum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes