Add parallel Print Page Options

17 Andi minn er bugaður, dagar mínir þrotnir, gröfin bíður mín.

Vissulega eru þeir enn að gjöra gys að mér! Auga mitt verður að horfa upp á móðganir þeirra!

Set veð, gakk í ábyrgð fyrir mig hjá þér, Guð, hver mun annars taka í hönd mér?

Því að hjörtum þeirra hefir þú varnað vits, fyrir því munt þú ekki láta þá sigri hrósa.

Hver sem með svikum framselur vini sína að herfangi, _ augu barna hans munu daprast.

Hann hefir gjört mig að orðskviði meðal manna, og ég verð að láta hrækja í andlit mitt.

Fyrir því dapraðist auga mitt af harmi, og limir mínir eru allir orðnir sem skuggi.

Réttvísir menn skelfast yfir því, og hinn saklausi fárast yfir hinum óguðlega.

En hinn réttláti heldur fast við sína leið, og sá sem hefir hreinar hendur, verður enn styrkari.

10 En komið þér allir hingað aftur, og ég mun ekki finna neinn vitran mann meðal yðar.

11 Dagar mínir eru liðnir, fyrirætlanir mínar sundurtættar, _ hin dýrasta eign hjarta míns.

12 Nóttina gjöra þeir að degi, ljósið á að vera nær mér en myrkrið.

13 Þegar ég vonast eftir að dánarheimar verði híbýli mitt, bý mér hvílu í myrkrinu,

14 þegar ég kalla gröfina "föður minn", ormana "móður mína og systur" _

15 hvar er þá von mín, já, von mín _ hver eygir hana?

16 Að slagbröndum Heljar stígur hún niður, þá er ég um leið fæ hvíld í moldu.

18 Þá svaraði Bildad frá Súa og sagði:

Hversu lengi ætlið þér að halda áfram þessu orðaskaki? Látið yður segjast, og því næst skulum vér talast við.

Hvers vegna erum vér metnir sem skepnur, orðnir heimskir í yðar augum?

Þú, sem tætir sjálfan þig sundur í reiði þinni, _ á jörðin þín vegna að fara í auðn og bjargið að færast úr stað sínum?

Ljós hins óguðlega slokknar, og logi elds hans skín ekki.

Ljósið myrkvast í tjaldi hans, og það slokknar á lampanum yfir honum.

Hans öflugu skref verða stutt, og ráðagjörð sjálfs hans steypir honum,

því að hann rekst í netið með fætur sína, og hann gengur í möskvunum.

Möskvi festist um hæl hans, lykkjan herðist að honum.

10 Snaran liggur falin á jörðinni, og gildran liggur fyrir honum á stígnum.

11 Skelfingar hræða hann allt um kring og hrekja hann áfram, hvar sem hann gengur.

12 Ógæfu hans tekur að svengja, og glötunin bíður búin eftir falli hans.

13 Hún tærir húð hans, og frumburður dauðans etur limu hans.

14 Hann er hrifinn burt úr tjaldi sínu, er hann treysti á, og það lætur hann ganga til konungs skelfinganna.

15 Í tjaldi hans býr það, sem eigi er hans, brennisteini er stráð yfir bústað hans.

16 Að neðan þorna rætur hans, að ofan visna greinar hans.

17 Minning hans hverfur af jörðunni, og nafn hans er ekki nefnt á völlunum.

18 Menn hrinda honum frá ljósinu út í myrkrið og reka hann burt af jarðríki.

19 Hann mun hvorki eiga börn né buru meðal þjóðar sinnar, og enginn, sem undan hefir komist, er í híbýlum hans.

20 Yfir skapadægri hans skelfast eftirkomendurnir, og hrylling grípur þá, er fyrr voru uppi.

21 Já, svo fer um bústaði hins rangláta og svo um samastað þess manns, sem eigi þekkir Guð.

19 Þá svaraði Job og sagði:

Hversu lengi ætlið þér að angra sál mína og mylja mig sundur með orðum?

Þér hafið þegar smánað mig tíu sinnum, þér skammist yðar ekki fyrir að misþyrma mér.

Og hafi mér í raun og veru orðið á, þá varðar það mig einan.

Ef þér í raun og veru ætlið að hrokast upp yfir mig, þá sannið mér svívirðing mína.

Kannist þó við, að Guð hafi hallað rétti mínum og umkringt mig með neti sínu.

Sjá, ég kalla: Ofbeldi! og fæ ekkert svar, ég kalla á hjálp, en engan rétt er að fá.

Guð hefir girt fyrir veg minn, svo að ég kemst ekki áfram, og stigu mína hylur hann myrkri.

Heiðri mínum hefir hann afklætt mig og tekið kórónuna af höfði mér.

10 Hann brýtur mig niður á allar hliðar, svo að ég fari burt, og slítur upp von mína eins og tré.

11 Hann lætur reiði sína bálast gegn mér og telur mig óvin sinn.

12 Skarar hans koma allir saman og leggja braut sína gegn mér og setja herbúðir sínar kringum tjald mitt.

13 Bræður mína hefir hann gjört mér fráhverfa, og vinir mínir vilja eigi framar við mér líta.

14 Skyldmenni mín láta ekki sjá sig, og kunningjar mínir hafa gleymt mér.

15 Skjólstæðingar húss míns og þernur mínar álíta mig aðkomumann, og ég er orðinn útlendingur í augum þeirra.

16 Kalli ég á þjón minn, svarar hann ekki, ég verð að sárbæna hann með munni mínum.

17 Andi minn er konu minni framandlegur, og bræður mínir forðast mig.

18 Jafnvel börnin fyrirlíta mig, standi ég upp, spotta þau mig.

19 Alla mína alúðarvini stuggar við mér, og þeir sem ég elskaði, hafa snúist á móti mér.

20 Bein mín límast við hörund mitt og hold, og ég hefi sloppið með tannholdið eitt.

21 Aumkið mig, aumkið mig, vinir mínir, því að hönd Guðs hefir lostið mig.

22 Hví ofsækið þér mig eins og Guð og verðið eigi saddir á holdi mínu?

23 Ó að orð mín væru skrifuð upp, ó að þau væru skráð í bók

24 með járnstíl og blýi, að eilífu höggvin í klett!

25 Ég veit, að lausnari minn lifir, og hann mun síðastur ganga fram á foldu.

26 Og eftir að þessi húð mín er sundurtætt og allt hold er af mér, mun ég líta Guð.

27 Ég mun líta hann mér til góðs, já, augu mín sjá hann, og það eigi sem andstæðing, _ hjartað brennur af þrá í brjósti mér!

28 Þegar þér segið: "Vér skulum ofsækja hann, rót ógæfunnar er hjá honum sjálfum að finna!"

29 þá hræðist ógn sverðsins, því að sverðið er refsing syndar. Þá munuð þér komast að raun um, að til er dómur.

10 Maður nokkur var í Sesareu, Kornelíus að nafni, hundraðshöfðingi í ítölsku hersveitinni.

Hann var trúmaður og dýrkaði Guð og heimafólk hans allt. Gaf hann lýðnum miklar ölmusur og var jafnan á bæn til Guðs.

Dag einn um nón sá hann berlega í sýn engil Guðs koma inn til sín, er sagði við hann: "Kornelíus!"

Hann starði á hann, varð óttasleginn og sagði: "Hvað er það, herra?" Engillinn svaraði: "Bænir þínar og ölmusur eru stignar upp til Guðs, og hann minnist þeirra.

Send þú nú menn til Joppe og lát sækja Símon nokkurn, er kallast Pétur.

Hann gistir hjá Símoni nokkrum sútara, sem á hús við sjóinn."

Þegar engillinn, sem talaði við hann, var farinn, kallaði hann á tvo heimamenn sína og guðrækinn hermann, einn þeirra, er honum voru handgengnir,

sagði þeim frá öllu og sendi þá til Joppe.

Daginn eftir, er þeir voru á leiðinni og nálguðust bæinn, gekk Pétur upp á húsþakið um hádegi til að biðjast fyrir.

10 Kenndi hann þá hungurs og vildi matast. En meðan verið var að matreiða, varð hann frá sér numinn,

11 sá himininn opinn og hlut nokkurn koma niður, líkan stórum dúki. Var hann látinn síga til jarðar á fjórum skautum.

12 Þar voru á alls kyns ferfætt dýr, skriðdýr jarðar, svo og fuglar himins.

13 Og honum barst rödd: "Slátra nú, Pétur, og et!"

14 Pétur sagði: "Nei, Drottinn, engan veginn, aldrei hef ég etið neitt vanheilagt né óhreint."

15 Aftur barst honum rödd: "Eigi skalt þú kalla það vanheilagt, sem Guð hefur lýst hreint!"

16 Þetta gjörðist þrem sinnum, og jafnskjótt var hluturinn upp numinn til himins.

17 Meðan Pétur var að reyna að ráða í, hvað þessi sýn ætti að merkja, höfðu sendimenn Kornelíusar spurt uppi hús Símonar. Nú stóðu þeir fyrir dyrum úti

18 og kölluðu: "Er Símon sá, er nefnist Pétur, gestur hér?"

19 Pétur var enn að hugsa um sýnina, þegar andinn sagði við hann: "Menn eru að leita þín.

20 Flýt þér nú ofan og far hiklaust með þeim, því að ég hef sent þá."

21 Pétur gekk þá niður til mannanna og sagði: "Ég er sá sem þér leitið að. Hvers vegna eruð þér komnir hér?"

22 Þeir sögðu: "Kornelíus hundraðshöfðingi, réttlátur maður og guðhræddur og orðsæll af allri Gyðinga þjóð, fékk bendingu frá heilögum engli að senda eftir þér og fá þig heim til sín og heyra, hvað þú hefðir að flytja."

23 Þá bauð hann þeim inn og lét þá gista. Daginn eftir tók hann sig upp og fór með þeim og nokkrir bræður frá Joppe með honum.

Read full chapter