A A A A A
Bible Book List

Jobsbók 1-2 Icelandic Bible (ICELAND)

Einu sinni var maður í Ús-landi. Hann hét Job. Hann var maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar.

Hann átti sjö sonu og þrjár dætur,

og aflafé hans var sjö þúsund sauða, þrjú þúsund úlfalda, fimm hundruð sameyki nauta, fimm hundruð ösnur og mjög mörg hjú, og var maður sá meiri öllum austurbyggjum.

Synir hans voru vanir að fara og búa veislu heima hjá sér, hver sinn dag, og þeir buðu systrum sínum þremur að eta og drekka með sér.

En er veisludagar voru liðnir, sendi Job eftir þeim og helgaði þau. Reis hann árla morguns og fórnaði brennifórn fyrir hvert þeirra. Því að Job hugsaði: "Vera má að börn mín hafi syndgað og formælt Guði í hjarta sínu." Svo gjörði Job alla daga.

Nú bar svo til einn dag, að synir Guðs komu til þess að ganga fyrir Drottin, og kom Satan og meðal þeirra.

Mælti þá Drottinn til Satans: "Hvaðan kemur þú?" Satan svaraði Drottni og sagði: "Ég hefi verið að reika um jörðina og arka fram og aftur um hana."

Og Drottinn mælti til Satans: "Veittir þú athygli þjóni mínum Job? því að enginn er hans líki á jörðu, maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar."

Og Satan svaraði Drottni og sagði: "Ætli Job óttist Guð fyrir ekki neitt? Hefir þú ekki lagt skjólgarð um hann og hús hans og allt, sem hann á, hringinn í kring?

10 Handaverk hans hefir þú blessað, og fénaður hans breiðir sig um landið.

11 En rétt þú út hönd þína og snert þú allt, sem hann á, og mun hann þá formæla þér upp í opið geðið."

12 Þá mælti Drottinn til Satans: "Sjá, veri allt, sem hann á, á þínu valdi, en á sjálfan hann mátt þú ekki leggja hönd þína." Gekk Satan þá burt frá augliti Drottins.

13 Nú bar svo til einn dag, er synir hans og dætur átu og drukku vín í húsi elsta bróður síns,

14 að sendimaður kom til Jobs og sagði: "Nautin voru að plægja og ösnurnar voru á beit rétt hjá þeim.

15 Gjörðu þá Sabear athlaup og tóku þau, en sveinana drápu þeir. Ég einn komst undan til að flytja þér tíðindin."

16 En áður en hann hafði lokið máli sínu, kom annar og sagði: "Eldur Guðs féll af himni og kveikti í hjörðinni og sveinunum og eyddi þeim. Ég einn komst undan til að flytja þér tíðindin."

17 En áður en sá hafði lokið máli sínu, kom annar og sagði: "Kaldear fylktu þremur flokkum, gjörðu áhlaup á úlfaldana og tóku þá, en sveinana drápu þeir. Ég einn komst undan til að flytja þér tíðindin."

18 Áður en sá hafði lokið máli sínu, kom annar og sagði: "Synir þínir og dætur átu og drukku vín í húsi elsta bróður síns.

19 Kom þá skyndilega fellibylur austan yfir eyðimörkina og lenti á fjórum hornum hússins, svo að það féll ofan yfir sveinana, og þeir dóu. Ég einn komst undan til að flytja þér tíðindin."

20 Þá stóð Job upp og reif skikkju sína og skar af sér hárið, og féll til jarðar, tilbað

21 og sagði: Nakinn kom ég af móðurskauti og nakinn mun ég aftur þangað fara. Drottinn gaf og Drottinn tók, lofað veri nafn Drottins.

22 Í öllu þessu syndgaði Job ekki, og ekki átaldi hann Guð heimskulega.

Nú bar svo til einn dag, að synir Guðs komu til þess að ganga fyrir Drottin, og kom Satan og meðal þeirra.

Mælti þá Drottinn til Satans: "Hvaðan kemur þú?" Og Satan svaraði Drottni og sagði: "Ég hefi verið að reika um jörðina og arka fram og aftur um hana."

Og Drottinn mælti til Satans: "Veittir þú athygli þjóni mínum Job? því að enginn er hans líki á jörðu, maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar. Og enn þá er hann staðfastur í ráðvendni sinni, og þó hefir þú egnt mig gegn honum til að vinna honum tjón án saka."

Og Satan svaraði Drottni og sagði: "Nær er skinnið en skyrtan, og fyrir líf sitt gefur maðurinn allt sem hann á.

En rétt þú út hönd þína og snert þú bein hans og hold, og þá mun hann formæla þér upp í opið geðið."

Þá mælti Drottinn til Satans: "Sjá, veri hann á þínu valdi, en þyrma skalt þú lífi hans."

Þá gekk Satan burt frá augliti Drottins og sló Job illkynjuðum kaunum frá hvirfli til ilja.

Og Job tók sér leirbrot til að skafa sig með, þar sem hann sat í öskunni.

Þá sagði kona hans við hann: "Heldur þú enn fast við ráðvendni þína? Formæltu Guði og farðu að deyja!"

10 En hann sagði við hana: "Þú talar svo sem heimskar konur tala. Fyrst vér höfum þegið hið góða af Guði, ættum vér þá ekki einnig að taka hinu vonda?" Í öllu þessu syndgaði Job ekki með vörum sínum.

11 Þegar vinir Jobs þrír fréttu, að öll þessi ógæfa væri yfir hann komin, þá komu þeir hver frá sínum stað, þeir Elífas Temaníti, Bildad Súíti og Sófar Naamíti, og töluðu sig saman um að fara og votta honum samhryggð sína og hugga hann.

12 En er þeir hófu upp augu sín álengdar, þekktu þeir hann ekki. Tóku þeir þá að gráta hástöfum, rifu skikkjur sínar og jusu mold yfir höfuð sér hátt í loft upp.

13 Og þannig sátu þeir hjá honum á jörðu sjö daga og sjö nætur, og enginn þeirra yrti á hann, því að þeir sáu, hversu mikil kvöl hans var.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Postulasagan 7:22-43 Icelandic Bible (ICELAND)

22 Móse var fræddur í allri speki Egypta, og hann var máttugur í orðum sínum og verkum.

23 Þegar hann var fertugur að aldri, kom honum í hug að vitja bræðra sinna, Ísraelsmanna.

24 Hann sá einn þeirra verða fyrir ójöfnuði, og rétti hann hlut hans, hefndi þess, sem meingjörðina þoldi, og drap Egyptann.

25 Hann hugði, að bræður hans mundu skilja, að Guð ætlaði að nota hann til að bjarga þeim, en þeir skildu það ekki.

26 Næsta dag kom hann að tveim þeirra, sem slógust. Hann reyndi að stilla til friðar með þeim og sagði: ,Góðir menn, þið eruð bræður, hví eigist þið illt við?`

27 En sá sem beitti náunga sinn órétti, hratt honum frá sér og sagði: ,Hver skipaði þig höfðingja og dómara yfir okkur?

28 Þú munt þó ekki vilja drepa mig, eins og þú drapst Egyptann í gær?`

29 Við þessi orð flýði Móse og settist að sem útlendingur í Midíanslandi. Þar gat hann tvo sonu.

30 Að fjörutíu árum liðnum ,birtist honum engill í eyðimörk Sínaífjalls í logandi þyrnirunna.`

31 Móse undraðist sýnina, gekk nær og vildi hyggja að. Þá hljómaði rödd Drottins:

32 ,Ég er Guð feðra þinna, Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs.` En Móse skelfdist og þorði ekki að hyggja frekar að.

33 En Drottinn sagði við hann: ,Leys af þér skó þína, því að staðurinn, sem þú stendur á, er heilög jörð.

34 Ég hef sannlega séð áþján lýðs míns á Egyptalandi og heyrt andvörp þeirra og er ofan kominn að frelsa þá. Kom nú, ég vil senda þig til Egyptalands.`

35 Þennan Móse, er þeir afneituðu með því að segja: ,Hver skipaði þig höfðingja og dómara?` hann sendi Guð sem höfðingja og lausnara með fulltingi engilsins, er honum birtist í þyrnirunnanum.

36 Það var Móse, sem leiddi þá út og gjörði undur og tákn á Egyptalandi, í Rauðahafinu og á eyðimörkinni í fjörutíu ár.

37 Þessi er sá Móse, sem sagði við Ísraelsmenn: ,Spámann eins og mig mun Guð upp vekja yður, einn af bræðrum yðar.`

38 Hann er sá, sem var í söfnuðinum í eyðimörkinni, með englinum, er við hann talaði á Sínaífjalli, og með feðrum vorum. Hann tók á móti lifandi orðum að gefa oss.

39 Eigi vildu feður vorir hlýðnast honum, heldur hrundu honum frá sér og þráðu í hjörtum sínum Egyptaland.

40 Þeir sögðu við Aron: ,Gjör oss guði, er fyrir oss fari, því að ekki vitum vér, hvað orðið er af Móse þeim, sem leiddi oss brott af Egyptalandi.`

41 Og á þeim dögum smíðuðu þeir kálf, færðu skurðgoðinu fórn og kættust af verki handa sinna.

42 En Guð sneri sér frá þeim og lét þeim eftir að dýrka her himinsins, eins og ritað er í spámannabókinni: Hvort færðuð þér mér, Ísraels ætt, sláturdýr og fórnir árin fjörutíu í eyðimörkinni?

43 Nei, þér báruð búð Móloks og stjörnu guðsins Refans, myndirnar, sem þér smíðuðuð til þess að tilbiðja þær. Ég mun herleiða yður austur fyrir Babýlon.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes