Add parallel Print Page Options

Ó að höfuð mitt væri vatn og augu mín táralind, þá skyldi ég gráta daga og nætur þá, er fallið hafa af þjóð minni.

Ó að ég hefði sæluhús í eyðimörkinni, þá skyldi ég yfirgefa þjóð mína og fara burt frá þeim, því að allir eru þeir hórdómsmenn, flokkur svikara.

Þeir spenna tungu sína eins og boga sinn, með lygi, en eigi með sannleika, hafa þeir náð völdum í landinu, því að frá einni vonskunni ganga þeir til annarrar, en mig þekkja þeir ekki _ segir Drottinn.

Varið yður hver á öðrum og treystið engum bróður, því að sérhver bróðir beitir undirferli og sérhver vinur gengur með róg.

Þeir blekkja hver annan og sannleika tala þeir ekki. Þeir venja tungu sína á að tala lygi, kosta kapps um að gjöra rangt.

Þú býr mitt á meðal svikara. Vegna svika vilja þeir ekki þekkja mig _ segir Drottinn.

Fyrir því segir Drottinn allsherjar svo: Sjá, ég vil hreinsa þá og reyna þá, því að hvernig ætti ég að fara öðruvísi að andspænis illsku þjóðar minnar?

Tunga þeirra er deyðandi ör, svik tala þeir, með munninum tala þeir vingjarnlega við náunga sinn, en í hjarta sínu sitja þeir á svikráðum við hann.

Ætti ég ekki að hegna slíkum mönnum _ segir Drottinn _ eða hefna mín á annarri eins þjóð og þessari?

10 Á fjöllunum vil ég hefja grát og harmakvein, og sorgarljóð á beitilöndunum í öræfunum, því að þau eru sviðin, svo að enginn fer þar um framar og menn heyra eigi framar baul hjarðanna. Bæði fuglar himinsins og villidýrin eru flúin, farin.

11 Og ég vil gjöra Jerúsalem að grjóthrúgum, að sjakalabæli, og Júdaborgir vil ég gjöra að auðn, þar sem enginn býr.

12 Hver er svo vitur maður, að hann skilji þetta? Hver er sá, er munnur Drottins hafi talað við, að hann megi kunngjöra hvers vegna landið er gjöreytt, sviðið eins og eyðimörk, sem enginn fer um?

13 En Drottinn sagði: Af því að þeir hafa yfirgefið lögmál mitt, sem ég setti þeim, og ekki hlýtt minni raustu og ekki farið eftir henni,

14 heldur farið eftir þverúð hjarta síns og elt Baalana, er feður þeirra höfðu kennt þeim að dýrka,

15 þess vegna _ svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð _ vil ég gefa þeim, þessum lýð, malurt að eta og eiturvatn að drekka,

16 og tvístra þeim meðal þjóða, sem hvorki þeir né feður þeirra hafa þekkt, og senda sverðið á eftir þeim, þar til er ég hefi gjöreytt þeim.

17 Takið eftir og kallið til harmkonur, að þær komi, og sendið til hinna vitru kvenna, að þær komi

18 og hraði sér að hefja harmakvein yfir oss, til þess að augu vor fljóti í tárum og vatnið streymi af hvörmunum.

19 Hátt harmakvein heyrist frá Síon: Hversu erum vér eyðilagðir, mjög til skammar orðnir, því að vér höfum orðið að yfirgefa landið, af því að þeir hafa brotið niður bústaði vora.

20 Já, heyrið, þér konur, orð Drottins, og eyra yðar nemi orð hans munns. Kennið dætrum yðar harmljóð og hver annarri sorgarkvæði!

21 Því að dauðinn er stiginn upp í glugga vora, kominn inn í hallir vorar, hann hrífur börnin af götunum, unglingana af torgunum.

22 Og líkin af mönnunum liggja eins og hlöss á velli og eins og kornbundin að baki kornskurðarmanninum, sem enginn tekur saman.

23 Svo segir Drottinn: Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni og hinn sterki hrósi sér ekki af styrkleika sínum og hinn auðugi hrósi sér ekki af auði sínum.

24 Hver sá er vill hrósa sér, hrósi sér af því, að hann sé hygginn og þekki mig, að það er ég, Drottinn, sem auðsýni miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni, því að á slíku hefi ég velþóknun _ segir Drottinn.

25 Sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _, að ég mun hegna öllum umskornum, sem þó eru óumskornir:

26 Egyptalandi, Júda, Edóm, Ammónítum, Móab og öllum, sem skera hár sitt við vangann, þeim er búa í eyðimörkinni, _ því að allir heiðingjar eru óumskornir og allt Ísraels hús er óumskorið á hjarta.

10 Heyrið orðið, sem Drottinn talar til yðar, Ísraels hús!

Svo segir Drottinn: Venjið yður ekki á sið heiðingjanna og hræðist ekki himintáknin, þótt heiðingjarnir hræðist þau.

Siðir þjóðanna eru hégómi. Menn höggva tré í skógi, og trésmiðurinn lagar það til með öxinni,

hann prýðir það silfri og gulli, hann festir það með nöglum og hömrum, svo að það riði ekki.

Skurðgoðin eru eins og hræða í melónugarði og geta ekki talað, bera verður þau, því að gengið geta þau ekki. Óttist þau því ekki, því að þau geta ekki gjört mein, en þau eru ekki heldur þess umkomin að gjöra gott.

Enginn er þinn líki, Drottinn! Mikill ert þú og mikið er nafn þitt sakir máttar þíns.

Hver skyldi eigi óttast þig, konungur þjóðanna? Já, þú ert þess maklegur, því að meðal allra spekinga þjóðanna og í öllu ríki þeirra er enginn þinn líki.

Allir saman eru þeir óskynsamir og fávísir, þeir þiggja fræðslu hinna fánýtu guða, sem eru úr tré.

Silfurplötur eru fluttar frá Tarsis, og gull frá Úfas, þeir eru verk trésmiðsins og gullsmiðsins. Klæðnaður þeirra er gjörður af bláum og rauðum purpura, verk hagleiksmanna eru þeir allir.

10 En Drottinn er sannur Guð. Hann er lifandi Guð og eilífur konungur. Fyrir reiði hans nötrar jörðin, og þjóðirnar fá eigi þolað gremi hans.

11 Þannig skuluð þér mæla til þeirra: Þeir guðir, sem ekki hafa skapað himin og jörð, munu hverfa af jörðinni og undan himninum.

12 Hann sem gjört hefir jörðina með krafti sínum, skapað heiminn af speki sinni og þanið út himininn af hyggjuviti sínu,

13 þegar hann þrumar, svarar vatnagnýr í himninum, og hann lætur ský upp stíga frá endimörkum jarðar. Hann gjörir leiftur til þess að búa rás regninu og hleypir vindinum út úr forðabúrum hans.

14 Sérhver maður stendur undrandi og skilur þetta ekki, sérhver gullsmiður hlýtur að skammast sín fyrir líkneski sitt, því að hin steyptu líkneski hans eru tál og í þeim er enginn andi.

15 Hégómi eru þau, háðungar-smíði. Þegar hegningartími þeirra kemur er úti um þau.

16 En sá Guð, sem er hlutdeild Jakobs, er ekki þeim líkur, heldur er hann skapari alls, og Ísrael er hans eignarkynkvísl. Drottinn allsherjar er nafn hans.

17 Tak böggul þinn upp af jörðinni, þú sem situr umsetin.

18 Því að svo segir Drottinn: Sjá, ég mun burt snara íbúum landsins í þetta sinn og þrengja að þeim til þess að þeir fái að kenna á því.

19 Vei mér vegna sárs míns, áverki minn er ólæknandi. Og þó hugsaði ég: Ef þetta er öll þjáningin, þá ber ég hana!

20 Tjald mitt er eyðilagt, öll tjaldstög mín slitin, synir mínir eru frá mér farnir og eru ekki framar til. Enginn er sá til, er reisi aftur tjald mitt og festi aftur upp tjalddúka mína.

21 Já, óskynsamir voru hirðarnir og Drottins leituðu þeir ekki. Fyrir því lánaðist þeim ekkert, og allri hjörð þeirra var tvístrað.

22 Heyr! Hávaði! Sjá, það færist nær, ógurlegt hark úr landinu norður frá til þess að gjöra Júdaborgir að auðn, að sjakalabæli.

23 Ég veit, Drottinn, að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.

24 Refsa oss, Drottinn, en þó í hófi, ekki í reiði þinni, til þess að þú gjörir ekki út af við oss.

25 Úthell heift þinni yfir heiðnu þjóðirnar, sem ekki þekkja þig, og yfir þær kynkvíslir, sem ekki ákalla nafn þitt, því að þær hafa etið Jakob, já, þær hafa etið hann og svelgt hann upp, og beitiland hans hafa þær eytt.

11 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni:

Heyrið orð þessa sáttmála. Tala þú til Júdamanna og Jerúsalembúa

og seg við þá: Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Bölvaður sé sá maður, sem ekki hlýðir á orð þessa sáttmála,

er ég bauð feðrum yðar að halda, þá er ég leiddi þá burt af Egyptalandi, út úr járnbræðsluofninum og sagði: "Hlýðið skipunum mínum og breytið eftir þeim, með öllu svo sem ég býð yður. Þá skuluð þér vera mín þjóð og ég skal vera yðar Guð,

til þess að ég fái haldið þann eið, er ég sór feðrum yðar, að gefa þeim land, sem flýtur í mjólk og hunangi, landið, sem þér eigið enn í dag." Og ég svaraði og sagði: Veri það svo, Drottinn!

Þá sagði Drottinn við mig: Boða þú öll þessi orð í Júdaborgum og á Jerúsalemstrætum og seg: Hlýðið á orð þessa sáttmála og breytið eftir þeim.

Því að alvarlega hefi ég varað feður yðar við, þegar ég leiddi þá út af Egyptalandi og allt fram á þennan dag, iðulega og alvarlega, og sagt: "Hlýðið skipun minni!"

En þeir hlýddu ekki og lögðu ekki við eyrun, heldur fóru hver og einn eftir þverúð síns vonda hjarta, og fyrir því lét ég fram á þeim koma öll orð þessa sáttmála, er ég hafði boðið þeim að halda, en þeir héldu ekki.

Þá sagði Drottinn við mig: "Það er samsæri milli Júdamanna og Jerúsalembúa.

10 Þeir eru horfnir aftur til misgjörða forfeðra sinna, sem eigi vildu hlýða orðum mínum, og þeir elta aðra guði, til þess að þjóna þeim. Ísraels hús og Júda hús hafa rofið minn sáttmála, þann er ég gjörði við feður þeirra.

11 Fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég leiði yfir þá ógæfu, er þeir ekki skulu fá undan komist, og er þeir þá hrópa til mín, mun ég ekki heyra þá.

12 En fari Júdaborgir og Jerúsalembúar og hrópi til þeirra guða, er þeir færa reykelsisfórnir, þá munu þeir vissulega heldur ekki hjálpa þeim á ógæfutíma þeirra.

13 Því að guðir þínir, Júda, eru orðnir eins margir og borgir þínar, og þér hafið reist eins mörg ölturu, til þess að fórna Baal á reykelsisfórnum, eins og stræti eru í Jerúsalem.

14 En þú skalt ekki biðja fyrir þessum lýð og ekki hefja þeirra vegna grátbeiðni né fyrirbón, því að ég mun alls eigi heyra, þegar þeir kalla til mín á ógæfutíma þeirra."

15 Hvert erindi á mín ástkæra í hús mitt? Atferli hennar er lymskufullt. Munu bænahróp og heilagt fórnarkjöt nema illsku þína burt frá þér, svo að þú síðan megir fagna?

16 Fagurgrænt olíutré, prýtt dýrlegum ávöxtum, nefndi Drottinn þig eitt sinn, en í hvínandi ofviðri kveikir hann eld kringum það, og greinar þess brotna.

17 Drottinn allsherjar, sem gróðursetti þig, hefir hótað þér illu vegna illsku Ísraels húss og Júda húss, er þeir frömdu til þess að egna mig til reiði, þá er þeir færðu Baal reykelsisfórnir.

18 Drottinn gjörði mér það kunnugt og ég fékk að vita og sjá gjörðir þeirra.

19 Ég var sjálfur eins og vanið lamb, sem leitt er til slátrunar, og vissi ekki, að þeir voru að brugga ráð gegn mér: "Vér skulum eyða tréð í blóma þess og uppræta hann af landi lifenda, svo að nafns hans verði ekki minnst framar!"

20 En, Drottinn allsherjar, þú er réttlátlega dæmir og rannsakar nýrun og hjartað, lát mig sjá hefnd þína á þeim, því að þér fel ég málefni mitt!

21 Fyrir því segir Drottinn svo um Anatótmenn, þá er sitja um líf þitt og segja: "Þú skalt ekki spá í nafni Drottins, ella skalt þú deyja fyrir hendi vorri."

22 Fyrir því mælir Drottinn allsherjar svo: Sjá, ég mun refsa þeim. Æskumennirnir skulu falla fyrir sverði, synir þeirra og dætur skulu deyja af hungri.

23 Og leifar munu þeim engar eftir verða, því að ég leiði óhamingju yfir Anatótmenn, árið sem þeim verður refsað.

Allir þeir, sem eru ánauðugir þrælar, skulu sýna húsbændum sínum allan skyldugan heiður, til þess að ekki verði lastmælt nafni Guðs og kenningunni.

En þeir, sem trúaða húsbændur eiga, skulu ekki lítilsvirða þá, vegna þess að þeir eru bræður, heldur þjóni þeim því betur sem þeir eru trúaðir og elskaðir og kappkosta að gjöra góðverk. Kenn þú þetta og áminn um það.

Ef einhver fer með annarlegar kenningar og fylgir ekki hinum heilnæmu orðum Drottins vors Jesú Krists og því, sem guðrækni vor kennir, þá hefur hann ofmetnast og veit ekki neitt.

Hann er sótttekinn af þrætum og orðastælum. Af þessu fæðist öfund, deilur, lastmæli, vondar hugsanir,

þjark og þras hugspilltra manna, sem eru sneyddir sannleikanum, en skoða guðhræðsluna sem gróðaveg.

Já, guðhræðslan samfara nægjusemi er mikill gróðavegur.

Því að ekkert höfum vér inn í heiminn flutt og ekki getum vér heldur flutt neitt út þaðan.

Ef vér höfum fæði og klæði, þá látum oss það nægja.

En þeir, sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru og alls kyns óviturlegar og skaðlegar fýsnir, er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun.

10 Fégirndin er rót alls þess, sem illt er. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.

11 En þú, Guðs maður, forðast þú þetta, en stunda réttlæti, guðhræðslu, trú, kærleika, stöðuglyndi og hógværð.

12 Berstu trúarinnar góðu baráttu, höndla þú eilífa lífið, sem þú varst kallaður til og þú játaðist með góðu játningunni í viðurvist margra votta.

13 Ég býð þér fyrir augliti Guðs, sem veitir öllu líf, og fyrir augliti Krists Jesú, er gjörði góðu játninguna frammi fyrir Pontíusi Pílatusi:

14 Gæt þú boðorðsins lýtalaust, óaðfinnanlega allt til endurkomu Drottins vors Jesú Krists,

15 sem hinn blessaði og eini alvaldur mun á sínum tíma birtast láta, konungur konunganna og Drottinn drottnanna.

16 Hann einn hefur ódauðleika, hann býr í ljósi, sem enginn fær til komist, hann sem enginn maður leit né litið getur. Honum sé heiður og eilífur máttur. Amen.

17 Bjóð ríkismönnum þessarar aldar að hreykja sér ekki né treysta fallvöltum auði, heldur Guði, sem lætur oss allt ríkulega í té til nautnar.

18 Bjóð þeim að gjöra gott, vera ríkir af góðum verkum, örlátir, fúsir að miðla öðrum,

19 með því safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna, og munu geta höndlað hið sanna líf.

20 Þú Tímóteus, varðveit það, sem þér er trúað fyrir, og forðast hinar vanheilögu hégómaræður og mótsagnir hinnar rangnefndu þekkingar,