Add parallel Print Page Options

Þegar maður rekur frá sér konu sína, og hún fer frá honum og giftist öðrum manni, getur hann þá horfið til hennar aftur? Mundi landið ekki vanhelgast af því? En þú hefir drýgt hór með mörgum friðlum og ættir þó að snúa aftur til mín! _ segir Drottinn.

Renn augum þínum upp á skóglausu hæðirnar og gæt að: Hvar hefir þú eigi hórast? Við vegina situr þú um friðla eins og Arabi í eyðimörkinni og vanhelgar landið með lauslæti þínu og vonsku þinni.

Og þótt skúrunum væri haldið aftur og ekkert vorregn kæmi, þá varst þú með hórusvip, þú vildir ekki skammast þín.

En nú kallar þú til mín: "Faðir minn! Þú ert unnusti æsku minnar!"

Þú hugsar: "Mun hann verða reiður eilíflega, alltaf erfa það?" Sjá, þannig talar þú, en fremur illt og getur fengið það af þér.

Drottinn sagði við mig á dögum Jósía konungs: Hefir þú séð, hvað hin fráhverfa Ísrael hefir aðhafst? Hún fór upp á hverja háa hæð og inn undir hvert grænt tré og hóraðist þar.

Ég hugsaði raunar: Eftir að hún hefir aðhafst allt þetta, mun hún snúa aftur til mín. En hún sneri ekki aftur. Það sá hin ótrúa systir hennar, Júda,

og þótt hún sæi, að einmitt vegna þess, að hin fráhverfa Ísrael hafði drýgt hór, hafði ég rekið hana burt og gefið henni skilnaðarskrá, þá óttaðist ekki hin ótrúa systir hennar, Júda, heldur fór og drýgði líka hór,

og með hinu léttúðarfulla lauslæti sínu vanhelgaði hún landið og drýgði hór með steini og trédrumbi.

10 En þrátt fyrir allt þetta hefir hin ótrúa systir hennar, Júda, eigi snúið sér til mín af öllu hjarta, heldur með hræsni _ segir Drottinn.

11 Drottinn sagði við mig: Hin fráhverfa Ísrael er saklaus í samanburði við hina ótrúu Júda.

12 Far þú og kalla þessi orð í norðurátt og seg: Hverf aftur, þú hin fráhverfa Ísrael _ segir Drottinn _, ég vil ekki lengur líta reiðulega til þín, því að ég er miskunnsamur _ segir Drottinn _, ég er ekki eilíflega reiður.

13 Kannastu aðeins við ávirðing þína, að þú hefir rofið trúnað við Drottin, Guð þinn, og hlaupið ýmsar leiðir til þess að gefa þig á vald útlendum guðum undir hverju grænu tré, en minni raust hafið þér ekki hlýtt _ segir Drottinn.

14 Hverfið aftur, þér fráhorfnu synir _ segir Drottinn _, því að ég er herra yðar. Og ég vil taka yður, einn úr hverri borg og tvo af hverjum kynstofni, og flytja yður til Síonar,

15 og ég vil gefa yður hirða eftir mínu hjarta, og þeir munu gæta yðar með greind og hyggindum.

16 Á þeim dögum, þegar yður fjölgar og þér verðið frjósamir í landinu _ segir Drottinn _, þá munu menn eigi framar segja: "Sáttmálsörk Drottins!" Hún mun engum í hug koma, og þeir munu ekki minnast hennar né sakna hennar, né heldur munu menn framar búa aðra til.

17 Þá munu menn kalla Jerúsalem "hásæti Drottins" og allar þjóðir munu safnast þangað vegna nafns Drottins og eigi framar fara eftir þrjósku síns vonda hjarta.

18 Á þeim dögum mun Júda hús ganga til Ísraels húss, og þeir munu halda saman úr landinu norður frá inn í landið, sem ég gaf feðrum yðar til eignar.

19 Ég hafði hugsað: Hversu hátt vil ég setja þig meðal barnanna og gefa þér unaðslegt land, hina dýrlegustu arfleifð meðal allra þjóða! Og enn fremur hugsaði ég: Þér skuluð nefna mig föður og eigi láta af að fylgja mér.

20 En eins og kona verður ótrú elskhuga sínum, eins urðuð þér ótrúir mér, Ísraels hús _ segir Drottinn.

21 Hljóð heyrist á skóglausu hæðunum: grátbiðjandi kvein Ísraelsmanna, af því að þeir hafa breytt illa og gleymt Drottni Guði sínum.

22 "Hverfið aftur, þér fráhorfnu synir, ég vil lækna fráhvarfssyndir yðar!" "Hér erum vér, vér komum til þín, því að þú ert Drottinn Guð vor."

23 Vissulega er hávaðinn á hæðunum svikull. Vissulega er hjálp Ísraels hjá Drottni, Guði vorum.

24 Falsguðinn hefir eytt afla feðra vorra allt frá æsku vorri, sauðum þeirra og nautum, sonum þeirra og dætrum.

25 Vér skulum leggjast niður í smán vorri, og skömm vor hylji oss, því að á móti Drottni Guði vorum höfum vér syndgað, bæði vér og feður vorir, frá æsku vorri og allt fram á þennan dag, og höfum eigi hlýtt raustu Drottins Guðs vors.

Þegar þú hverfur aftur, Ísrael _ segir Drottinn _ skalt þú hverfa aftur til mín. Ef þú flytur viðurstyggðir þínar burt frá augliti mínu og ert ekki framar á sveimi

og vinnur eiðinn "svo sannarlega sem Drottinn lifir" í sannleika, réttvísi og einlægni, munu þjóðir óska sér hans blessunar og hrósa sér af honum.

Já, svo segir Drottinn við Júdamenn og við Jerúsalem: Takið nýtt land til yrkingar og sáið ekki ofan í þyrna!

Umskerið yður fyrir Drottni og takið burt yfirhúð hjarta yðar, þér Júdamenn og Jerúsalembúar, svo að heiftarreiði mín brjótist ekki út, eins og eldur, og brenni svo, að eigi verði slökkt, sakir vonskuverka yðar.

Kunngjörið í Júda og boðið í Jerúsalem og segið: Þeytið lúður í landinu! Kallið fullum rómi og segið: Safnist saman, og förum inn í víggirtu borgirnar!

Reisið upp hermerki í áttina til Síonar, flýið undan, standið eigi við! Því að ég kem með ógæfu úr norðri og mikla eyðing.

Ljón er risið upp úr runni sínum, þjóða-eyðir lagður af stað, farinn að heiman til þess að gjöra land þitt að auðn, borgir þínar verða gjöreyddar, mannlausar.

Gyrðið yður því hærusekk, harmið og kveinið, því að hin brennandi reiði Drottins hefir ekki snúið sér frá oss.

En á þeim degi _ segir Drottinn _ munu konungurinn og höfðingjarnir standa ráðalausir, prestarnir verða agndofa og spámennirnir skelfast.

10 Þá mælti ég: "Æ, herra Drottinn! Vissulega hefir þú illa svikið þessa þjóð og Jerúsalem, þá er þú sagðir: ,Yður mun heill hlotnast!` þar sem sverðið gengur nú mjög nærri þeim."

11 Þá mun sagt verða um þessa þjóð og um Jerúsalem: Glóandi vindur af skóglausum hæðum í eyðimörkinni kemur gegn þjóð minni, hvorki verður sáldrað né hreinsað!

12 Ákafur vindur kemur í móti mér, en nú vil ég einnig kveða upp dóma gegn þeim.

13 Sjá, eins og ský þýtur hann áfram, og vagnar hans eru eins og vindbylur, hestar hans eru fljótari en ernir. Vei oss, það er úti um oss!

14 Þvo illskuna af hjarta þínu, Jerúsalem, til þess að þú frelsist. Hversu lengi eiga þínar syndsamlegu hugsanir að búa í brjósti þér?

15 Því heyr, menn segja tíðindi frá Dan og boða ógæfu frá Efraímfjöllum.

16 Segið þjóðunum frá því, kallið á þær gegn Jerúsalem! Umsátursmenn koma úr fjarlægu landi og hefja óp gegn Júdaborgum.

17 Eins og akurverðir sitja þeir hringinn í kringum hana, af því að hún hefir þrjóskast í gegn mér _ segir Drottinn.

18 Atferli þitt og gjörðir þínar hafa bakað þér þetta, þetta hefir þú fyrir illsku þína. Já, beiskt er það, það gengur mjög nærri þér.

19 Iður mín, iður mín! Ég engist sundur og saman! Ó, veggir hjarta míns! Hjartað berst ákaft í brjósti mér, ég get ekki þagað! Því að önd mín heyrir lúðurhljóminn, bardagaópið.

20 Hrun á hrun ofan er boðað, já allt landið er eytt. Skyndilega eru tjöld mín eydd, tjalddúkar mínir tættir sundur allt í einu.

21 Hversu lengi á ég að sjá gunnfána, hversu lengi á ég að heyra lúðurhljóm?

22 Já, fíflsk er þjóð mín, mig þekkja þeir ekki. Heimskir synir eru þeir, og vanhyggnir eru þeir. Vitmenn eru þeir illt að fremja, en gott að gjöra kunna þeir ekki.

23 Ég leit jörðina, og sjá, hún var auð og tóm; ég horfði til himins, og ljós hans var slokknað.

24 Ég leit á fjöllin, og sjá, þau nötruðu, og allar hæðirnar, þær bifuðust.

25 Ég litaðist um, og sjá, þar var enginn maður, og allir fuglar himinsins voru flúnir.

26 Ég litaðist um, og sjá, aldingarðurinn var orðinn að eyðimörk og allar borgir hans gjöreyddar af völdum Drottins, af völdum hans brennandi reiði.

27 Svo segir Drottinn: Auðn skal allt landið verða, en aleyðing á því vil ég ekki gjöra.

28 Vegna þessa syrgir jörðin og himinninn uppi er dimmur, af því að ég hefi sagt það, og mig iðrar þess eigi, hefi ákveðið það og hætti ekki við það.

29 Fyrir harki riddaranna og bogmannanna er hver borg á flótta. Menn skríða inn í runna og stíga upp á kletta. Allar borgir eru yfirgefnar og enginn maður býr framar í þeim.

30 En þú, eyðingunni ofurseld, hvað ætlar þú að gjöra? Þótt þú klæðist skarlati, þótt þú skreytir þig með gullskarti, þótt þú smyrjir augu þín blýlit _, til einskis gjörir þú þig fagra. Friðlarnir hafna þér, þeir sitja um líf þitt.

31 Já, hljóð heyri ég, eins og í jóðsjúkri konu, angistaróp, eins og í konu, sem er að ala fyrsta barnið, óp dótturinnar Síonar, sem stendur á öndinni af kvölum og breiðir út hendurnar: "Ó, vei mér, því að örmagna hnígur sál mín fyrir morðingjum."

Gangið fram og aftur um stræti Jerúsalem, litist um og rannsakið og leitið á torgunum, hvort þér finnið nokkurn mann, hvort þar sé nokkur, sem gjörir það sem rétt er og leitast við að sýna trúmennsku, og mun ég fyrirgefa henni.

Og þótt þeir segi: "svo sannarlega sem Drottinn lifir," sverja þeir engu að síður meinsæri.

En, Drottinn, líta ekki augu þín á trúfesti? Þú laust þá, en þeir kenndu ekkert til, þú eyddir þeim, en þeir vildu ekki taka aga. Þeir gjörðu andlit sín harðari en stein, þeir vildu ekki snúa við.

En ég hugsaði: "Það eru aðeins hinir lítilmótlegu, sem breyta heimskulega, af því að þeir þekkja ekki veg Drottins, réttindi Guðs síns.

Ég ætla að fara til stórmennanna og tala við þá, því að þeir þekkja veg Drottins, réttindi Guðs síns." En einmitt þeir höfðu allir saman brotið sundur okið og slitið af sér böndin.

Fyrir því drepur þá ljón úr skóginum, fyrir því eyðir þeim úlfurinn, sem hefst við á heiðunum. Pardusdýrið situr um borgir þeirra, svo að hver sá, er út úr þeim fer, verður rifinn sundur, því að afbrot þeirra eru mörg, fráhvarfssyndir þeirra miklar.

Hví skyldi ég fyrirgefa þér? Börn þín hafa yfirgefið mig og svarið við þá, sem ekki eru guðir, og þótt ég mettaði þá, tóku þeir fram hjá og þyrptust að hóruhúsinu.

Eins og sællegir stóðhestar hlaupa þeir til og frá og hvía hver að annars konu.

Ætti ég ekki að hegna slíkum mönnum? _ segir Drottinn _, eða hefna mín á annarri eins þjóð og þessari?

10 Stígið upp á víngarðshjalla þjóðar minnar og rífið niður, en gjörið þó ekki aleyðing, takið burt vínviðargreinar hennar, því að þær heyra ekki Drottni.

11 Því að Ísraels hús og Júda hús hafa breytt mjög sviksamlega gegn mér _ segir Drottinn.

12 Þeir hafa afneitað Drottni og sagt: "Það er ekki hann, og engin ógæfa mun yfir oss koma, sverð og hungur munum vér ekki sjá.

13 Spámennirnir munu verða að vindi, því að orð Guðs býr ekki í þeim."

14 Fyrir því mælir Drottinn, Guð allsherjar, svo: Af því að þeir hafa mælt slíkum orðum, fer svo fyrir þeim sjálfum! Ég gjöri orð mín í munni þínum að eldi og þessa þjóð að eldiviði, til þess að hann eyði henni.

15 Sjá, ég læt þjóð koma yfir yður úr fjarlægu landi, Ísraels hús _ segir Drottinn. Það er óbilug þjóð, það er afar gömul þjóð, tungu þeirrar þjóðar þekkir þú ekki, og skilur ekki, hvað hún segir.

16 Örvamælir hennar er sem opin gröf, allir eru þeir kappar.

17 Hún mun eta uppskeru þína og neyslukorn þitt, þeir munu eta sonu þína og dætur. Hún mun eta sauði þína og naut, hún mun eta víntré þín og fíkjutré, hún mun brjóta niður með sverði hinar víggirtu borgir þínar, er þú reiðir þig á.

18 En á þeim dögum _ segir Drottinn _ mun ég samt ekki gjöra aleyðing á yður.

19 En ef þér þá segið: "Fyrir hvað gjörir Drottinn, Guð vor, oss allt þetta?" þá skalt þú segja við þá: "Eins og þér hafið yfirgefið mig og þjónað öðrum guðum í yðar landi, svo skuluð þér verða annarra þrælar í landi, sem ekki er yðar land."

20 Kunngjörið það í húsi Jakobs og boðið það í Júda:

21 Heyr þetta, þú heimski og skilningslausi lýður, þér sem hafið augu, en sjáið ekki, þér sem hafið eyru, en heyrið ekki!

22 Mig viljið þér ekki óttast _ segir Drottinn _ eða skjálfa fyrir mínu augliti? fyrir mér, sem hefi sett hafinu fjörusandinn að takmarki, ævarandi girðingu, sem það kemst ekki yfir. Og þótt öldur þess komi æðandi, þá vinna þær ekki á, og þótt þær gnýi, þá komast þær ekki yfir hana.

23 En lýður þessi er þverúðarfullur og þrjóskur í hjarta. Þeir hafa vikið af leið og horfið burt,

24 en sögðu ekki í hjarta sínu: "Óttumst Drottin, Guð vorn, sem gefur regnið, haustregnið og vorregnið, í réttan tíma og viðheldur handa oss ákveðnum uppskeruvikum."

25 Misgjörðir yðar hafa fært allt þetta úr skorðum, og syndir yðar hafa hrundið blessuninni burt frá yður.

26 Meðal lýðs míns eru óguðlegir menn. Þeir liggja í fyrirsát, eins og þegar fuglarar húka, þeir leggja snörur til þess að veiða menn.

27 Eins og fuglabúr fullt af fuglum, svo eru hús þeirra full af svikum; á þann hátt eru þeir orðnir miklir og auðugir.

28 Þeir eru orðnir feitir, það stirnir á þá. Þeir eru og fleytifullir af illskutali, málefni munaðarleysingjans taka þeir ekki að sér til þess að bera það fram til sigurs, og þeir reka ekki réttar fátæklinganna.

29 Ætti ég ekki að hegna slíkum mönnum? _ segir Drottinn _ eða hefna mín á annarri eins þjóð og þessari?

30 Óttalegt og hryllilegt er það, sem við ber í landinu!

31 Spámennirnir kenna lygar og prestarnir drottna eftir tilsögn þeirra, og þjóð minni þykir fara vel á því. En hvað ætlið þér að gjöra, þegar að skuldadögunum kemur?

Andinn segir berlega, að á síðari tímum muni sumir ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda.

Þessu valda hræsnisfullir lygarar, sem eru brennimerktir á samvisku sinni.

Það eru þeir, sem meina hjúskap og bjóða mönnum að halda sér frá þeirri fæðu, er Guð hefur skapað til þess að við henni sé tekið með þakkargjörð af trúuðum mönnum, er þekkja sannleikann.

Allt sem Guð hefur skapað er gott, og engu ber frá sér að kasta, sé það þegið með þakkargjörð.

Það helgast af orði Guðs og bæn.

Með því að brýna þetta fyrir bræðrunum, munt þú verða góður þjónn Krists Jesú, nærður af orði trúarinnar og góðu kenningarinnar, sem þú hefur fylgt.

En hafna þú vanheilögum kerlingaævintýrum, og æf sjálfan þig í guðhræðslu.

Líkamleg æfing er nytsamleg í sumu, en guðhræðslan er til allra hluta nytsamleg og hefur fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda.

Það orð er satt og í alla staði þess vert, að við því sé tekið.

10 Þess vegna leggjum vér á oss erfiði og þreytum stríð, því að vér höfum fest von vora á lifanda Guði, sem er frelsari allra manna, einkum trúaðra.

11 Bjóð þú þetta og kenn það.

12 Lát engan líta smáum augum á æsku þína, en ver fyrirmynd trúaðra, í orði, í hegðun, í kærleika, í trú, í hreinleika.

13 Ver þú, þangað til ég kem, kostgæfinn að lesa úr Ritningunni, áminna og kenna.

14 Vanræktu ekki náðargjöfina þína, sem var gefin þér að tilvísan spámanna og með handayfirlagningu öldunganna.

15 Stunda þetta, ver allur í þessu, til þess að framför þín sé öllum augljós.

16 Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni. Ver stöðugur við þetta. Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.