A A A A A
Bible Book List

Jeremía 15-17 Icelandic Bible (ICELAND)

15 Þá sagði Drottinn við mig: Þó að Móse og Samúel gengju fram fyrir mig, mundi sál mín ekki hneigjast að þessum lýð framar. Rek þá frá augliti mínu, svo að þeir fari burt.

Og ef þeir segja við þig: "Hvert eigum vér að fara?" þá seg við þá: Svo segir Drottinn: Til drepsóttar sá, sem drepsótt er ætlaður, til sverðs sá, sem sverði er ætlaður, til hungurs sá, sem hungri er ætlaður, til herleiðingar sá, sem til herleiðingar er ætlaður.

Ég býð ferns konar kyni út í móti þeim _ segir Drottinn _: Sverðinu til þess að myrða þá, hundunum til þess að draga þá burt, fuglum himinsins og dýrum jarðarinnar til þess að eta þá og eyða þeim.

Ég gjöri þá að grýlu fyrir öll konungsríki jarðar, sökum Manasse Hiskíasonar, Júdakonungs, fyrir það sem hann aðhafðist í Jerúsalem.

Hver mun kenna í brjósti um þig, Jerúsalem, og hver mun sýna þér hluttekning og hver mun koma við til þess að spyrja um, hvernig þér líði?

Það ert þú, sem hefir útskúfað mér _ segir Drottinn. Þú hörfaðir frá. Fyrir því rétti ég höndina út á móti þér og eyddi þig, ég er orðinn þreyttur á að miskunna.

Fyrir því sáldraði ég þeim með varpkvísl við borgarhlið landsins, gjörði menn barnlausa, eyddi þjóð mína, frá sínum vondu vegum sneru þeir ekki aftur.

Ekkjur þeirra urðu fleiri en sandkorn á sjávarströnd. Ég leiddi yfir mæður unglinga þeirra eyðanda um hábjartan dag, lét skyndilega yfir þær koma angist og skelfing.

Sjö barna móðirin mornaði og þornaði, hún gaf upp öndina. Sól hennar gekk undir áður dagur var á enda, hún varð til smánar og fyrirvarð sig. Og það, sem eftir er af þeim, ofursel ég sverðinu, þá er þeir flýja fyrir óvinum sínum _ segir Drottinn.

10 Vei mér, móðir mín, að þú skyldir fæða mig, mig sem allir menn í landinu deila og þrátta við. Ekkert hefi ég öðrum lánað og ekkert hafa aðrir lánað mér, og þó formæla þeir mér allir.

11 Drottinn sagði: Vissulega mun ég frelsa þig, ég mun vissulega láta óvininn grátbæna þig, þegar óhamingjuna og neyðina ber að höndum.

12 Verður járn brotið sundur, járn að norðan, og eir?

13 Eigur þínar og fjársjóðu ofursel ég að herfangi, ekki fyrir verð, heldur fyrir allar syndir þínar, og það fyrir þær syndir, er þú hefir drýgt í öllum héruðum þínum.

14 Og ég læt þig þjóna óvinum þínum í landi, sem þú þekkir ekki, því að reiði mín er eldur brennandi, gegn yður logar hann.

15 Þú veist það, Drottinn, minnstu mín og vitjaðu mín og hefn mín á ofsóknurum mínum. Hríf mig ekki burt í þolinmæði þinni við þá, mundu það, að ég þoli smán þín vegna.

16 Kæmu orð frá þér, gleypti ég við þeim, og orð þín voru mér unun og fögnuður hjarta míns, því að ég er nefndur eftir nafni þínu, Drottinn, Guð allsherjar.

17 Ég sat ekki í hóp hlæjandi manna til þess að skemmta mér. Gripinn af þinni hendi sat ég einsamall, af því að þú fylltir mig helgri reiði.

18 Hví er kvöl mín orðin ævarandi og sár mitt svo illkynjað, að það verður ekki grætt? Þú ert mér sem svikull lækur, eins og vatn, sem ekki er unnt að reiða sig á.

19 Þessu svaraði Drottinn svo: Ef þú lætur af þessu víli þínu, mun ég aftur láta þig ganga fram fyrir mig. Og ef þú framleiðir aðeins dýrmæta hluti, en enga lélega, þá skalt þú aftur vera mér munnur. Þeir skulu snúa við til þín, en þú skalt ekki snúa við til þeirra.

20 Og ég gjöri þig gagnvart þessum lýð að rammbyggðum eirvegg, og þótt þeir berjist við þig, skulu þeir eigi fá yfirstigið þig, því að ég er með þér til þess að hjálpa þér og frelsa þig _ segir Drottinn.

21 Ég frelsa þig undan valdi vondra manna og losa þig úr höndum ofbeldismanna.

16 Orð Drottins kom til mín:

Þú skalt ekki taka þér konu, og þú skalt enga sonu né dætur eignast á þessum stað.

Því að svo segir Drottinn um þá sonu og dætur, sem fæðast á þessum stað, og um mæðurnar, sem börnin ala, og um feðurna, sem geta þau í þessu landi:

Af banvænum sjúkdómum munu þau deyja, menn munu eigi harma þau né jarða, þau munu verða að áburði á akrinum. Fyrir sverði og hungri skulu þau farast, og líkamir þeirra munu verða fuglum himinsins og dýrum jarðarinnar að æti.

Já, svo segir Drottinn: Þú skalt ekki ganga í sorgarhúsið og eigi fara til þess að harma, né heldur sýna þeim hluttekning, því að ég hefi tekið minn frið frá þessum lýð _ segir Drottinn _ náðina og miskunnsemina,

og stórir og smáir skulu deyja í þessu landi. Þeir verða ekki jarðaðir, og ekki munu menn harma þá né þeirra vegna rista á sig skinnsprettur né gjöra sér skalla.

Og ekki munu menn brjóta sorgarbrauð þeirra vegna, til huggunar eftir látinn mann, né láta þá drekka huggunarbikar vegna föður síns og móður sinnar.

Eigi skalt þú heldur ganga í veisluhús, til þess að setjast með þeim til að eta og drekka.

Því að svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Sjá, ég mun láta öll ánægju- og gleðihljóð, öll fagnaðarlæti brúðguma og brúðar hverfa burt úr þessum stað fyrir augum yðar og á yðar dögum.

10 Þegar þú nú kunngjörir þessum lýð öll þessi orð og menn segja við þig: "Hvers vegna hefir Drottinn hótað oss allri þessari miklu ógæfu, og hver er misgjörð vor og hver er synd vor, sem vér höfum drýgt gegn Drottni, Guði vorum?"

11 þá seg við þá: "Vegna þess að feður yðar yfirgáfu mig _ segir Drottinn _ og eltu aðra guði og þjónuðu þeim og féllu fram fyrir þeim, en mig yfirgáfu þeir og héldu ekki lögmál mitt.

12 Og þér breytið enn verr en feður yðar, þar sem þér farið hver og einn eftir þverúð síns vonda hjarta og hlýðið mér ekki.

13 Fyrir því vil ég varpa yður burt úr þessu landi til þess lands, sem þér hafið ekki þekkt, hvorki þér né feður yðar, og þar skuluð þér þjóna öðrum guðum dag og nótt, þar eð ég sýni yður enga miskunn."

14 Sjá, fyrir því munu þeir dagar koma _ segir Drottinn _ að ekki mun framar sagt verða: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er leiddi Ísraelsmenn út af Egyptalandi,"

15 heldur: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er leiddi Ísraelsmenn út úr landinu norður frá og úr öllum þeim löndum, þangað sem hann hafði rekið þá." Og ég mun flytja þá aftur til lands þeirra, sem ég gaf feðrum þeirra.

16 Sjá, ég mun senda út marga fiskimenn _ segir Drottinn _ og þeir munu fiska þá, og eftir það mun ég senda marga veiðimenn, og þeir munu veiða þá á hverju fjalli, á hverri hæð og í bergskorunum.

17 Því að augu mín horfa á alla þeirra vegu, þeir eru ekki huldir fyrir mér og misgjörð þeirra er eigi falin fyrir augum mér.

18 En fyrst vil ég gjalda þeim tvöfalt misgjörð þeirra og synd, af því að þeir hafa vanhelgað land mitt með hræi viðurstyggða sinna og fyllt óðal mitt andstyggðum sínum.

19 Drottinn, styrkur minn, vígi mitt og hæli mitt á neyðardegi, til þín munu þjóðir koma frá endimörkum jarðar og segja: Lygar einar hafa feður vorir hlotið að eign, fánýta guði, og enginn þeirra er að neinu gagni.

20 Getur maðurinn gjört sér guði? Slíkt eru engir guðir!

21 Fyrir því vil ég í þetta sinn kenna þeim. Ég vil láta þá kannast við kraft minn og styrkleika, og þeir skulu viðurkenna, að nafn mitt er Drottinn.

17 Synd Júda er rituð með járnstíl. Með demantsoddi er hún rist á spjöld hjartna þeirra og á altarishorn þeirra

þeim til áminningar. Ölturu þeirra og fórnarsúlur standa hjá grænu trjánum, á háu hæðunum,

í fjöllunum á hálendinu. Eigur þínar, alla fjársjóðu þína ofursel ég að herfangi vegna syndar, sem drýgð hefir verið í öllum héruðum þínum.

Þá munt þú verða að sleppa hendinni af óðali þínu, því er ég gaf þér, og ég mun láta þig þjóna óvinum þínum í landi, sem þú þekkir ekki, því að reiði mín er eldur brennandi, sem loga mun eilíflega.

Svo segir Drottinn: Bölvaður er sá maður, sem reiðir sig á menn og gjörir hold að styrkleik sínum, en hjarta hans víkur frá Drottni.

Hann er eins og einirunnur á saltsléttunni og hann lifir ekki það, að neitt gott komi. Hann býr á skrælnuðum stöðum í eyðimörkinni, á óbyggilegu saltlendi.

Blessaður er sá maður, sem reiðir sig á Drottin og lætur Drottin vera athvarf sitt.

Hann er sem tré, sem gróðursett er við vatn og teygir rætur sínar út að læknum, _ sem hræðist ekki, þótt hitinn komi, og er með sígrænu laufi, sem jafnvel í þurrka-ári er áhyggjulaust og lætur ekki af að bera ávöxt.

Svikult er hjartað fremur öllu öðru, og spillt er það. Hver þekkir það?

10 Ég, Drottinn, er sá, sem rannsaka hjartað, prófa nýrun, og það til þess að gjalda sérhverjum eftir breytni hans, eftir ávexti verka hans.

11 Sá, sem aflar auðs og eigi með réttu, er eins og akurhæna, sem liggur á eggjum, er hún eigi hefir orpið. Á miðri ævinni verður hann að yfirgefa auðinn og við ævilokin stendur hann sem heimskingi.

12 Hásæti dýrðarinnar, hátt upp hafið frá upphafi, er staður helgidóms vors.

13 Þú von Ísraels _ Drottinn! Allir þeir, sem yfirgefa þig, skulu til skammar verða. Já, þeir sem vikið hafa frá mér, verða skrifaðir í duftið, því að þeir hafa yfirgefið lind hins lifandi vatns, Drottin.

14 Lækna mig, Drottinn, að ég megi heill verða; hjálpa mér, svo að mér verði hjálpað, því að þú ert minn lofstír.

15 Sjá, þeir segja við mig: "Hvar er orð Drottins? Rætist það þá!"

16 Ég hefi ekki skotið mér undan því að vera hirðir eftir þinni bendingu, og óheilladagsins hefi ég ekki óskað _ það veist þú! Það, sem fram gengið hefir af vörum mínum, liggur bert fyrir augliti þínu.

17 Vertu mér ekki skelfing, þú athvarf mitt á ógæfunnar degi!

18 Lát ofsóknarmenn mína verða til skammar, en lát mig ekki verða til skammar. Lát þá skelfast, en lát mig ekki skelfast. Lát ógæfudag koma yfir þá og sundurmola þá tvöfaldri sundurmolan!

19 Svo mælti Drottinn við mig: Far og nem staðar í þjóðhliðinu, sem Júdakonungar ganga inn og út um, og í öllum hliðum Jerúsalem,

20 og seg við þá: Heyrið orð Drottins, þér Júdakonungar og allir Júdamenn og allir Jerúsalembúar, þér sem gangið inn um hlið þessi!

21 Svo segir Drottinn: Gætið yðar _ líf yðar liggur við _ og berið eigi byrðar á hvíldardegi, svo að þér komið með þær inn um hlið Jerúsalem.

22 Berið og engar byrðar út úr húsum yðar á hvíldardegi og vinnið ekkert verk, svo að þér haldið hvíldardaginn heilagan, eins og ég hefi boðið feðrum yðar.

23 En þeir hlýddu ekki og lögðu ekki við eyrun, heldur voru harðsvíraðir, svo að þeir hlýddu ekki, né þýddust aga.

24 En ef þér nú hlýðið mér _ segir Drottinn _ svo að þér komið ekki með neinar byrðar inn í hlið þessarar borgar á hvíldardegi, heldur haldið hvíldardaginn heilagan, svo að þér vinnið ekkert verk á honum,

25 þá munu fara inn um hlið þessarar borgar konungar, sem sitja í hásæti Davíðs, akandi í vögnum og ríðandi hestum, þeir og höfðingjar þeirra, Júdamenn og Jerúsalembúar, og borg þessi mun eilíflega byggð verða.

26 Og menn munu koma úr Júdaborgum og úr umhverfi Jerúsalem og úr Benjamínslandi og af láglendinu og úr fjöllunum og úr Suðurlandinu, þeir er færa brennifórn og sláturfórn og matfórn og reykelsi og þeir er færa þakkarfórn í musteri Drottins.

27 En ef þér hlýðið mér eigi, að halda helgan hvíldardaginn og bera enga byrði og ganga eigi inn um hlið Jerúsalem á hvíldardegi, þá mun ég leggja eld í hlið hennar, sem eyða mun höllum Jerúsalem og eigi slökktur verða.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Síðara bréf Páls til Tímó 2 Icelandic Bible (ICELAND)

Styrkst þú þá, sonur minn, í náðinni, sem fæst fyrir Krist Jesú.

Og það sem þú heyrðir mig tala í margra votta viðurvist, það skalt þú fá í hendur trúum mönnum, sem líka munu færir um að kenna öðrum.

Þú skalt og að þínu leyti illt þola, eins og góður hermaður Krists Jesú.

Enginn hermaður bendlar sig við atvinnustörf. Þá þóknast hann ekki þeim, sem hefur tekið hann á mála.

Og sá sem keppir í íþróttum fær ekki sigursveiginn, nema hann keppi löglega.

Bóndinn, sem erfiðar, á fyrstur að fá sinn hlut af ávöxtunum.

Tak eftir því, sem ég segi. Drottinn mun gefa þér skilning á öllu.

Minnst þú Jesú Krists, hans sem risinn er upp frá dauðum, af kyni Davíðs, eins og boðað er í fagnaðarerindi mínu.

Fyrir það líð ég illt og það jafnvel að vera í fjötrum eins og illvirki. En orð Guðs verður ekki fjötrað.

10 Fyrir því þoli ég allt sakir hinna útvöldu, til þess að þeir einnig hljóti hjálpræðið, í Kristi Jesú með eilífri dýrð.

11 Það orð er satt: Ef vér höfum dáið með honum, þá munum vér og lifa með honum.

12 Ef vér stöndum stöðugir, þá munum vér og með honum ríkja. Ef vér afneitum honum, þá mun hann og afneita oss.

13 Þótt vér séum ótrúir, þá verður hann samt trúr, því að ekki getur hann afneitað sjálfum sér.

14 Minn á þetta og heit á þá fyrir augliti Guðs að eiga ekki í orðastælum til einskis gagns, áheyrendum til falls.

15 Legg kapp á að reynast hæfur fyrir Guði sem verkamaður, er ekki þarf að skammast sín og fer rétt með orð sannleikans.

16 Forðast þú hinar vanheilögu hégómaræður, því að þeim, er leggja stund á þær, skilar lengra áfram í guðleysi,

17 og lærdómur þeirra etur um sig eins og helbruni. Í hópi þeirra eru þeir Hýmeneus og Fíletus.

18 Þeir hinir sömu hafa villst frá sannleikanum, þar sem þeir segja upprisuna þegar um garð gengna og umhverfa trú sumra manna.

19 En Guðs styrki grundvöllur stendur. Hann hefur þetta innsigli: "Drottinn þekkir sína" og "hver sá, sem nefnir nafn Drottins, haldi sér frá ranglæti."

20 Á stóru heimili eru ekki einungis gullker og silfurker, heldur og tréker og leirker. Sum eru til viðhafnar, önnur til óþriflegri nota.

21 Sá sem fær sig hreinan gjört af slíku, mun verða ker til viðhafnar, helgað og hagfellt húsbóndanum, hæfilegt til sérhvers góðs verks.

22 Flý þú æskunnar girndir, en stunda réttlæti, trú, kærleika og frið við þá, sem ákalla Drottin af hreinu hjarta.

23 En hafna þú heimskulegum og óskynsamlegum þrætum. Þú veist, að þær leiða af sér ófrið.

24 Þjónn Drottins á ekki að eiga í ófriði, heldur á hann að vera ljúfur við alla, góður fræðari, þolinn í þrautum,

25 hógvær er hann agar þá, sem skipast í móti. Guð kynni að gefa þeim sinnaskipti, sem leiddi þá til þekkingar á sannleikanum,

26 þá gætu þeir endurvitkast og losnað úr snöru djöfulsins, sem hefur veitt þá til að gjöra hans vilja.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes