A A A A A
Bible Book List

Jesaja 65-66 Icelandic Bible (ICELAND)

65 Ég var fús að veita þeim áheyrn, sem eigi spurðu eftir mér, ég gaf þeim kost á að finna mig, sem eigi leituðu mín. Ég sagði: "Hér er ég, hér er ég," við þá þjóð, er eigi ákallaði nafn mitt.

Ég hefi rétt út hendur mínar allan daginn í móti þrjóskum lýð, í móti þeim, sem ganga á illum vegum, eftir eigin hugþótta sínum,

í móti fólki, sem reitir mig stöðuglega til reiði upp í opin augun, sem fórnar í lundunum og brennir reykelsi á tigulsteinunum,

sem lætur fyrirberast í gröfunum og er um nætur í hellunum, etur svínakjöt og hefir viðbjóðslega súpu í ílátum sínum,

sem segir: "Far þú burt, kom ekki nærri mér, ég er þér heilagur!" _ Slíkir menn eru reykur í nösum mér, eldur, sem brennur liðlangan daginn.

Sjá, það stendur skrifað frammi fyrir mér: Ég mun ekki þagna fyrr en ég hefi goldið, já, ég mun gjalda þeim í skaut,

bæði fyrir misgjörðir þeirra og fyrir misgjörðir feðra þeirra _ segir Drottinn. Þeir brenndu reykelsi á fjöllunum og smánuðu mig á hæðunum! Ég vil mæla þeim í skaut laun þeirra.

Svo segir Drottinn: Eins og menn segja, þegar lögur finnst í vínberi: "Ónýt það eigi, því að blessun er í því!" eins vil ég gjöra fyrir sakir þjóna minna, svo að ég tortími þeim ekki öllum.

Ég vil láta afsprengi æxlast út af Jakob og út af Júda erfingja að fjöllum mínum. Mínir útvöldu skulu erfa þau og þjónar mínir búa þar.

10 Saron skal verða að beitilandi fyrir hjarðir og Akordalur að nautastöðli fyrir þá af þjóð minni, sem leita mín.

11 En þér, sem yfirgefið Drottin, sem gleymið mínu heilaga fjalli, sem setjið borð fyrir heilladísina og hellið á kryddvíni fyrir örlaganornina,

12 yður ætla ég undir sverðið, og allir skuluð þér leggjast niður til slátrunar, af því að þér gegnduð ekki, þegar ég kallaði, og heyrðuð ekki, þegar ég talaði, heldur aðhöfðust það, sem illt var í mínum augum, og höfðuð mætur á því, sem mér mislíkaði.

13 Fyrir því segir hinn alvaldi Drottinn svo: Sjá, þjónar mínir munu eta, en yður mun hungra, sjá, þjónar mínir munu drekka, en yður mun þyrsta, sjá, þjónar mínir munu gleðjast, en þér munuð glúpna,

14 sjá, þjónar mínir munu fagna af hjartans gleði, en þér munuð kveina af hjartasorg og æpa af hugarkvöl.

15 Og þér munuð leifa mínum útvöldu nafn yðar sem formæling, en hinn alvaldi Drottinn mun deyða yður. En sína þjóna mun hann nefna öðru nafni.

16 Hver sá er óskar sér blessunar í landinu, hann óski sér blessunar í nafni hins trúfasta Guðs, og hver sem eið vinnur í landinu, hann vinni eið við hinn trúfasta Guð, af því að hinar fyrri þrautir eru þá gleymdar og af því að þær eru huldar fyrir augum mínum.

17 Sjá, ég skapa nýjan himin og nýja jörð, og hins fyrra skal ekki minnst verða, og það skal engum í hug koma.

18 Gleðjist og fagnið ævinlega yfir því, sem ég skapa, því sjá, ég gjöri Jerúsalem að fögnuði og fólkið í henni að gleði.

19 Ég vil fagna yfir Jerúsalem og gleðjast yfir fólki mínu, og eigi skal framar heyrast þar gráthljóð eða kveinstafir.

20 Eigi skal þar framar vera nokkurt ungbarn, er aðeins lifi fáa daga, né nokkurt gamalmenni, sem ekki nái fullum aldri, því að sá er þar ungur maður, sem deyr tíræður, og sá sem ekki nær tíræðisaldri skal álítast einskis verður.

21 Þeir munu reisa hús og búa í þeim, og þeir munu planta víngarða og eta ávöxtu þeirra.

22 Eigi munu þeir reisa og aðrir í búa, eigi munu þeir planta og aðrir eta, því að aldur fólks míns mun vera sem aldur trjánna, og mínir útvöldu skulu sjálfir njóta handaverka sinna.

23 Eigi munu þeir erfiða til ónýtis og eigi börn geta til skammlífis, því að þeir eru kynslóð manna, er Drottinn hefir blessað, og niðjar þeirra verða hjá þeim.

24 Áður en þeir kalla, mun ég svara, og áður en þeir hafa orðinu sleppt, mun ég bænheyra.

25 Úlfur og lamb munu vera saman á beit, og ljónið mun hey eta sem naut, en moldin skal vera fæða höggormsins. Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra _ segir Drottinn.

66 Svo segir Drottinn: Himinninn er hásæti mitt og jörðin er fótskör mín. Hvaða hús munuð þér geta reist mér, og hvar er sá staður, sem verið geti bústaður minn?

Hönd mín hefir gjört allt þetta og þannig er það allt til orðið _ segir Drottinn. Þeir sem ég lít til, eru hinir þjáðu og þeir er hafa sundurmarinn anda og skjálfa fyrir orði mínu.

Sá sem slátrar uxa, er ekki mætari en manndrápari, sá sem fórnar sauð, er ekki mætari en sá sem hengir hund, sá sem færir fórnargjöf, ekki mætari en sá sem ber fram svínablóð, sá sem brennir reykelsi, ekki mætari en sá sem blessar skurðgoð. Eins og þeir hafa valið sína vegu og eins og sál þeirra hefir mætur á hinum viðurstyggilegu goðum þeirra,

eins mun ég láta mér vel líka að hrjá þá og láta yfir þá koma það, er þeir hræðast. Því að enginn gegndi, þegar ég kallaði, og þeir heyrðu ekki, þegar ég talaði, heldur aðhöfðust það, sem illt var í mínum augum, og höfðu mætur á því, sem mér mislíkaði.

Heyrið orð Drottins, þér sem skjálfið fyrir orði hans! Bræður yðar, er hata yður og reka yður burt frá sér fyrir sakir nafns míns, þeir segja: "Gjöri Drottinn sig dýrlegan, svo að vér megum sjá gleði yðar!" En þeir skulu til skammar verða.

Heyr gnýinn frá borginni, heyr óminn frá musterinu! Heyr, Drottinn geldur óvinum sínum fyrir tilverknað þeirra!

Hún fæðir, áður en hún kennir sín, hún er orðin léttari að sveinbarni, áður en hún tekur jóðsóttina.

Hver hefir heyrt slíkt? Hver hefir séð slíka hluti? Er nokkurt land í heiminn borið á einum degi, eða fæðist nokkur þjóð allt í einu? Því að óðara en Síon hefir kennt sóttar, hefir hún alið börn sín.

Skyldi ég láta barnið komast í burðarliðinn og ekki láta það fæðast? _ segir Drottinn. Eða skyldi ég, sem læt barnið fæðast, loka móðurkviðnum? _ segir Guð þinn.

10 Gleðjist með Jerúsalem og fagnið yfir henni, allir þér sem elskið hana! Kætist með henni, allir þér sem nú hryggist yfir henni,

11 svo að þér megið sjúga og saddir verða við hugsvalandi brjóst hennar, svo að þér megið teyga og gæða yður við dýrðargnótt hennar.

12 Því að svo segir Drottinn: Sjá, ég veiti velsæld til hennar eins og fljóti, og auðæfum þjóðanna eins og bakkafullum læk. Þér skuluð liggja á brjóstum hennar og skuluð bornir verða á mjöðminni og yður skal hossað verða á hnjánum.

13 Eins og móðir huggar son sinn, eins mun ég hugga yður. Í Jerúsalem skuluð þér huggaðir verða.

14 Þér munuð sjá það, og hjarta yðar mun fagna og bein yðar blómgast sem grængresi. Hönd Drottins mun kunn verða á þjónum hans, og hann mun láta óvini sína kenna á reiði sinni.

15 Því sjá, Drottinn kemur í eldi, og vagnar hans eru sem vindbylur, til þess að gjalda reiði sína í heift og hótun sína í eldslogum.

16 Því að Drottinn mun dóm heyja með eldi, og með sverði sínu yfir öllu holdi, og þeir munu margir verða, er Drottinn fellir.

17 Þeir sem helga sig og hreinsa sig til þess að fara inn í fórnarlundana, bak við einhvern, sem fyrir miðju er, sem eta svínakjöt, viðurstyggileg skriðdýr og mýs _ þeir skulu allir undir lok líða _ segir Drottinn.

18 En ég þekki athafnir þeirra og hugsanir. Sá tími kemur, að ég mun saman safna öllum þjóðum og tungum, og þær skulu koma og sjá mína dýrð.

19 Og ég mun gjöra tákn á þeim og senda flóttamenn frá þeim til þjóðanna, til Tarsis, Pút og Lúd, sem benda boga, til Túbal og Javan, til hinna fjarlægu eylanda, sem ekki hafa neina fregn af mér og ekki hafa séð dýrð mína, og þeir skulu kunngjöra dýrð mína meðal þjóðanna.

20 Þeir munu flytja alla bræður yðar heim frá öllum þjóðum sem fórnargjöf Drottni til handa, á hestum og á vögnum, í burðarstólum, á múlum og úlföldum, til míns heilaga fjalls, til Jerúsalem _ segir Drottinn _ eins og þegar Ísraelsmenn færa fórnargjafir í hreinum kerum til húss Drottins.

21 Og af þeim mun ég einnig taka presta og levíta _ segir Drottinn.

22 Já, eins og hinn nýi himinn og hin nýja jörð, sem ég skapa, munu standa stöðug fyrir mínu augliti _ segir Drottinn _ eins mun afsprengi yðar og nafn standa stöðugt.

23 Og á mánuði hverjum, tunglkomudaginn, og á viku hverri, hvíldardaginn, skal allt hold koma til þess að falla fram fyrir mér _ segir Drottinn.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Fyrra bréf Páls til Tímót 2 Icelandic Bible (ICELAND)

Fyrst af öllu áminni ég um að bera fram ákall, bænir, fyrirbænir og þakkargjörðir fyrir öllum mönnum,

fyrir konungum og öllum þeim, sem hátt eru settir, til þess að vér fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í allri guðhræðslu og siðprýði.

Þetta er gott og þóknanlegt fyrir frelsara vorum Guði,

sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.

Einn er Guð. Einn er og meðalgangarinn milli Guðs og manna, maðurinn Kristur Jesús,

sem gaf sig sjálfan til lausnargjalds fyrir alla. Það var vitnisburður hans á settum tíma.

Til að boða hann er ég skipaður prédikari og postuli, _ ég tala sannleika, lýg ekki _, kennari heiðingja í trú og sannleika.

Ég vil, að karlmenn biðjist hvarvetna fyrir, með upplyftum heilögum höndum, án reiði og þrætu.

Sömuleiðis vil ég, að konur skrýði sig sæmandi búningi, með blygð og hóglæti, ekki með fléttum og gulli eða perlum og skartklæðum,

10 heldur með góðum verkum, eins og sómir konum, er Guð vilja dýrka.

11 Konan á að læra í kyrrþey, í allri undirgefni.

12 Ekki leyfi ég konu að kenna eða taka sér vald yfir manninum, heldur á hún að vera kyrrlát.

13 Því að Adam var fyrst myndaður, síðan Eva.

14 Adam lét ekki tælast, heldur lét konan tælast og gjörðist brotleg.

15 En hún mun hólpin verða, sakir barnburðarins, ef hún stendur stöðug í trú, kærleika og helgun, samfara hóglæti.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes