Add parallel Print Page Options

13 Spádómur um Babýlon, er vitraðist Jesaja Amozsyni.

Reisið merki á skóglausri hæð! Kallið hárri röddu til þeirra! Bendið þeim með hendinni, að þeir fari inn um hlið harðstjóranna!

Ég er sá, sem boðið hefi út vígðum liðsmönnum mínum og kallað á kappa mína til að framkvæma reiðidóm minn, þessa hreyknu og hróðugu menn mína.

Heyr þysinn á fjöllunum, eins og af mannmergð, heyr gnýinn af hinum samansöfnuðu þjóðum. Drottinn allsherjar er að kanna liðið.

Þeir koma frá fjarlægu landi, frá himins enda, Drottinn með verkfæri reiði sinnar, til þess að leggja í eyði gjörvalla jörðina.

Kveinið, því að dagur Drottins er nálægur; hann kemur sem eyðing frá hinum Almáttka.

Þess vegna verða allar hendur lémagna og sérhvert mannshjarta bráðnar.

Þeir skelfast, harmkvæli og þrautir gagntaka þá, þeir hafa hríðir eins og jóðsjúk kona. Angistarfullir stara þeir hver á annan, andlit þeirra eru sem eldslogi.

Sjá, dagur Drottins kemur, grimmilegur, með heift og brennandi reiði, til að gjöra jörðina að auðn og afmá syndarana af henni.

10 Stjörnur himinsins og stjörnumerkin láta eigi ljós sitt skína, sólin er myrk í uppgöngu sinni og tunglið ber eigi birtu sína.

11 Ég vil hegna jarðríki fyrir illsku þess og hinum óguðlegu fyrir misgjörðir þeirra, ég vil niðurkefja ofdramb hinna ríkilátu og lægja hroka ofbeldismannanna.

12 Ég vil láta menn verða sjaldgæfari en skíragull og mannfólkið torgætara en Ófír-gull.

13 Þess vegna vil ég hrista himininn, og jörðin skal hrærast úr stöðvum sínum fyrir heift Drottins allsherjar og á degi hans brennandi reiði.

14 Eins og fældar skógargeitur og eins og smalalaus hjörð skulu þeir hverfa aftur, hver til sinnar þjóðar, og flýja hver heim í sitt land.

15 Hver sem fundinn verður, mun lagður verða í gegn, og hver sem gripinn verður, mun fyrir sverði falla.

16 Ungbörn þeirra munu knosuð verða fyrir augum þeirra, hús þeirra verða rænd og konur þeirra smánaðar.

17 Sjá, ég æsi upp Medíumenn gegn þeim. Þeir meta einskis silfrið og þá langar ekki í gullið.

18 Bogar þeirra rota unga menn til dauða. Þeir þyrma ekki lífsafkvæmum, og líta ekki miskunnaraugum til ungbarna.

19 Svo skal fara fyrir Babýlon, þessari prýði konungsríkjanna og drembidjásni Kaldea, sem þá er Guð umturnaði Sódómu og Gómorru.

20 Hún skal aldrei framar af mönnum byggð vera, kynslóð eftir kynslóð skal þar enginn búa. Enginn Arabi skal slá þar tjöldum sínum og engir hjarðmenn bæla þar fénað sinn.

21 Urðarkettir skulu liggja þar og húsin fyllast af uglum. Strútsfuglar skulu halda þar til og skógartröll stökkva þar um.

22 Sjakalar skulu kallast á í höllunum og úlfar í bílífis-sölunum. Tími hennar nálægist og dagar hennar munu eigi undan dragast.

14 Drottinn mun miskunna Jakob og enn útvelja Ísrael. Hann mun gefa þeim bólfestu í landi þeirra, og útlendir menn munu sameinast þeim og gjöra félagsskap við Jakobs hús.

Og þjóðirnar munu taka þá og flytja þá til átthaga þeirra, en Ísraelsniðjar munu eignast þær að þrælum og ambáttum í landi Drottins. Þeir munu hertaka hertakendur sína og drottna yfir kúgurum sínum.

Þegar Drottinn veitir þér hvíld af þrautum þínum og ónæði og af hinni hörðu ánauð, sem á þig var lögð,

þá muntu kyrja upp háðkvæði þetta um konunginn í Babýlon og segja: Hversu hljóður er harðstjórinn nú orðinn, hve hljótt í kvalastaðnum!

Drottinn hefir sundurbrotið staf hinna óguðlegu, sprota yfirdrottnaranna,

sem laust þjóðflokkana í bræði högg á högg ofan, og kúgaði þjóðirnar í reiði með vægðarlausri kúgan.

Öll jörðin nýtur nú hvíldar og friðar, fagnaðarópin kveða við.

Jafnvel kýprestrén gleðjast yfir þér og sedrustrén á Líbanon: "Fyrst þú ert lagstur lágt, mun enginn upp stíga til þess að fella oss."

Hjá Helju niðri er allt í uppnámi þín vegna til þess að taka á móti þér. Vegna þín rekur hún hina dauðu á fætur, alla foringja jarðarinnar. Af hásætum sínum lætur hún upp standa alla þjóðkonunga.

10 Þeir taka allir til máls og segja við þig: "Þú ert þá einnig orðinn máttvana sem vér, orðinn jafningi vor!

11 Ofmetnaðar-skrauti þínu er niður varpað til Heljar, hreimnum harpna þinna! Ormar eru breiddir undir þig, og ábreiðan þín eru maðkar."

12 Hversu ertu hröpuð af himni, þú árborna morgunstjarna! Hversu ert þú að velli lagður, undirokari þjóðanna!

13 Þú, sem sagðir í hjarta þínu: "Ég vil upp stíga til himins! Ofar stjörnum Guðs vil ég reisa veldistól minn! Á þingfjalli guðanna vil ég setjast að, yst í norðri.

14 Ég vil upp stíga ofar skýjaborgum, gjörast líkur Hinum hæsta!"

15 Já, til Heljar var þér niður varpað, í neðstu fylgsni grafarinnar.

16 Þeim sem sjá þig, verður starsýnt á þig, þeir virða þig fyrir sér: "Er þetta maðurinn, sem skók jörðina og skelfdi konungsríkin,

17 gjörði jarðkringluna að eyðimörk, eyddi borgir hennar og gaf eigi bandingjum sínum heimfararleyfi?"

18 Allir konungar þjóðanna liggja virðulega grafnir, hver í sínu húsi,

19 en þér er fleygt út, langt frá gröf þinni, eins og auvirðilegum kvisti. Þú ert þakinn dauðra manna búkum, þeirra er lagðir voru sverði, eins og fótum troðið hræ.

20 Við þá, sem stíga niður í steinlagðar grafir, hefir þú eigi samneyti, því að land þitt hefir þú eytt, myrt þjóð þína. Eigi skal nefnt verða að eilífu afsprengi illvirkjanna.

21 Búið nú sonum hans rauðan serk sakir misgjörða feðra þeirra. Eigi skulu þeir fá risið á legg og lagt undir sig jörðina né fyllt jarðkringluna rústum!

22 Ég vil rísa upp í gegn þeim, segir Drottinn allsherjar, og afmá nafn og leifar Babýlonsborgar, ætt og afkomendur _ segir Drottinn.

23 Ég vil gefa hana stjörnuhegrum til eignar og láta hana verða að vatnsmýri. Ég vil sópa henni burt með sópi eyðingarinnar, segir Drottinn allsherjar.

24 Drottinn allsherjar hefir svarið og sagt: Sannlega, það, sem ég hefi fyrirhugað, skal verða og það, sem ég hefi ályktað, skal framgang fá.

25 Ég mun sundurmola Assýríu í landi mínu og fótum troða hana á fjöllum mínum. Skal þá ok hennar af þeim tekið og byrði hennar tekin af herðum þeirra.

26 Þetta er sú ráðstöfun, sem áformuð er um alla jörðina, og þetta er sú hönd, sem út er rétt gegn öllum þjóðum.

27 Drottinn allsherjar hefir ályktað þetta; hver má ónýta það? Það er hans hönd, sem út er rétt. Hver má kippa henni aftur?

28 Þessi spádómur var birtur árið, sem Akas konungur andaðist.

29 Gleðst þú eigi, gjörvöll Filistea, af því að stafurinn, sem sló þig, er í sundur brotinn, því að út af rót höggormsins mun naðra koma og ávöxtur hennar verða flugdreki.

30 Hinir allralítilmótlegustu skulu hafa viðurværi, og hinir fátæku hvílast óhultir, en rót þína vil ég með hungri deyða, og leifarnar af þér munu drepnar verða.

31 Kveina, þú hlið! Hljóða þú, borg! Gnötra þú, gjörvöll Filistea! því að mökkur kemur úr norðurátt, í fylkingum hans dregst enginn aftur úr.

32 Og hverju skal þá svara sendimönnum hinnar heiðnu þjóðar? Að Drottinn hafi grundvallað Síon, og að hinir þjáðu meðal þjóðar hans leiti sér hælis í henni.

15 Spádómur um Móab. Já, á náttarþeli verður Ar í Móab unnin og gjöreydd! Já, á náttarþeli verður Kír í Móab unnin og gjöreydd!

Íbúar Díbon stíga upp á hæðirnar til að gráta. Móab kveinar á Nebó og í Medeba. Hvert höfuð er sköllótt, allt skegg af rakað.

Á strætunum eru þeir gyrtir hærusekk. Uppi á þökunum og á torgunum kveina þeir allir, fljótandi í tárum.

Íbúar Hesbon og Eleale hljóða svo hátt, að það heyrist til Jahas. Þess vegna æpa hermennirnir í Móab, þeim er horfinn hugur.

Hjarta mitt kveinar yfir Móab, flóttamenn þeirra flýja til Sóar, til Eglat Selisía. Grátandi ganga þeir upp stíginn hjá Lúkít. Á veginum til Hórónaím hefja þeir neyðarkvein tortímingarinnar.

Nimrímvötn eru orðin að öræfum, því að grasið skrælnar, jurtirnar eyðast, allt grængresi hverfur.

Fyrir því bera þeir það, sem þeir hafa dregið saman, og það, sem þeir hafa geymt, yfir Pílviðará.

Neyðarkveinið gengur yfir gjörvallt Móabsland. Hljóðin berast allt til Eglaím, hljóðin berast allt til Beer Elím.

Vötn Dímonar eru full af blóði. Já, enn vil ég leggja meira á Dímon: Ljón fyrir þá, sem undan komast frá Móab, og fyrir þá, sem eftir verða í landinu.

16 Sendið landshöfðingjanum sauðaskattinn úr klettagjánum gegnum eyðimörkina til fjalls Síondóttur.

Eins og flöktandi fuglar, eins og ungar, fældir úr hreiðri, skulu Móabsdætur verða við vöðin á Arnon.

"Legg nú ráð, veit hjálp, gjör skugga þinn um hábjartan dag sem nótt. Fel hina burtreknu, seg ekki til flóttamannanna.

Ljá hinum burtreknu úr Móab dvöl hjá þér. Ver þeim verndarskjól fyrir eyðandanum. Þegar kúgarinn er horfinn burt, eyðingunni linnir og undirokararnir eru farnir úr landinu,

þá mun veldisstóll reistur verða með miskunnsemi og á honum sitja með trúfesti í tjaldi Davíðs dómari, sem leitar réttinda og temur sér réttlæti."

Vér höfum heyrt drambsemi Móabs _ hann er mjög hrokafullur _ ofmetnað hans, drambsemi og ofsa, og hin marklausu stóryrði hans.

Þess vegna kveina nú Móabítar yfir Móab, allir kveina þeir. Yfir rúsínukökum Kír Hareset munu þeir andvarpa harla hnuggnir.

Því að akurlönd Hesbon eru fölnuð og víntré Síbma. Vín þeirra varpaði höfðingjum þjóðanna til jarðar. Vínviðarteinungarnir náðu til Jaser, villtust út um eyðimörkina. Greinar þeirra breiddu sig út, fóru yfir hafið.

Fyrir því græt ég með Jaser yfir víntrjám Síbma. Ég vökva þig með tárum mínum, Hesbon og Eleale! því að fagnaðarópum óvinanna laust yfir sumargróða þinn og vínberjatekju.

10 Fögnuður og kæti eru horfin úr aldingörðunum, og í víngörðunum heyrast engir gleðisöngvar né fagnaðarhljóð. Troðslumenn troða ekki vínber í vínþröngunum, ég hefi látið fagnaðaróp þeirra þagna.

11 Fyrir því titrar hjarta mitt sem gígjustrengur sökum Móabs og brjóst mitt sökum Kír Hares.

12 Og þó að Móab sýni sig á blóthæðinni og streitist við og fari inn í helgidóm sinn til að biðjast fyrir, þá mun hann samt engu til leiðar koma.

13 Þetta er það orð, sem Drottinn talaði um Móab fyrrum.

14 En nú talar Drottinn á þessa leið: Áður en þrjú ár eru liðin, slík sem ár kaupamanna eru talin, skal vegsemd Móabs með öllum hinum mikla mannfjölda fyrirlitin verða, en leifar munu eftir verða, lítilfenglegar, eigi teljandi.

17 Spádómur um Damaskus. Sjá, Damaskus skal verða afmáð og ekki vera borg framar, hún skal verða að rústum.

Borgir Aróer skulu verða yfirgefnar, hjörðum skulu þær verða til beitar, þar skulu þær liggja og enginn styggja þær.

Varnarvirki Efraíms líður undir lok og konungdómurinn hverfur frá Damaskus. Fyrir leifum Sýrlands skal fara eins og fyrir vegsemd Ísraelsmanna _ segir Drottinn allsherjar.

Á þeim degi mun vegsemd Jakobs verða lítilfengleg og fitan á holdi hans rýrna.

Þá mun fara líkt og þegar kornskurðarmaður safnar kornstöngum og armleggur hans afsníður öxin, og eins og þegar öx eru tínd í Refaím-dal.

Eftirtíningur skal eftir verða af þeim, eins og þegar olíuviður er skekinn, tvö eða þrjú ber efst í laufinu, fjögur eða fimm á greinum aldintrésins _ segir Drottinn, Ísraels Guð.

Á þeim degi mun maðurinn mæna til skapara síns og augu hans líta til Hins heilaga í Ísrael.

Eigi mun hann þá mæna á ölturun, handaverk sín, né líta til þess, er fingur hans hafa gjört, hvorki til aséranna né sólsúlnanna.

Á þeim degi munu hinar víggirtu borgir hans verða sem yfirgefnir staðir Amoríta og Hevíta, er þeir fyrirlétu, þá er þeir hrukku undan Ísraelsmönnum, og landið skal verða að auðn,

10 því að þú hefir gleymt Guði hjálpræðis þíns og eigi minnst þess hellubjargsins, sem er hæli þitt. Vegna þess að þú plantar yndislega garða og setur þar niður útlenda gróðurkvistu,

11 ræktar garð þinn á daginn og lætur á morgnana útsæði þitt blómgast, skal uppskeran bregðast á degi hins banvæna sárs og hinna ólæknandi kvala.

12 Heyr gný margra þjóða _ þær gnýja sem gnýr hafsins. Heyr dyn þjóðflokkanna _ þeir dynja eins og dynur mikilla vatnsfalla.

13 Þjóðflokkarnir dynja eins og dynur margra vatnsfalla. En Drottinn hastar á þá, og þá flýja þeir langt burt. Þeir tvístrast eins og sáðir á hólum fyrir vindi, eins og rykmökkur fyrir stormi.

14 Að kveldi er þar skelfing, áður en morgnar eru þeir allir á burt. Þetta er hlutskipti þeirra, er oss ræna, og örlög þeirra, er frá oss rupla.