Add parallel Print Page Options

12 Efraím hefir umkringt mig með lygi og Ísraels hús með svikum, og Júda er enn reikull gagnvart Guði og gagnvart Hinum heilaga, sem aldrei breytist.

Efraím sækist eftir vindi og eltir austangoluna. Á hverjum degi hrúga þeir upp lygum og ofbeldisverkum. Þeir gjöra sáttmála við Assýríu, og olífuolía er flutt til Egyptalands.

Drottinn mun ganga í dóm við Júda og hegna Jakob eftir breytni hans, endurgjalda honum eftir verkum hans.

Í móðurkviði lék hann á bróður sinn, og sem fulltíða maður glímdi hann við Guð.

Hann glímdi við engil og bar hærri hlut, hann grét og bað hann líknar. Hann fann hann í Betel og þar talaði hann við hann.

Drottinn, Guð allsherjar, Drottinn er nafn hans.

En þú skalt hverfa aftur með hjálp Guðs þíns. Ástunda miskunnsemi og réttlæti og vona stöðugt á Guð þinn.

Kanaan _ röng vog er í hendi hans, hann er gjarn á að hafa af öðrum með svikum.

Og Efraím segir: "Ég er auðugur orðinn, hefi aflað mér fjár. Við allan gróða minn geta menn ekki fundið neina misgjörð, er sé synd."

10 Ég, Drottinn, er Guð þinn frá því á Egyptalandi, enn get ég látið þig búa í tjöldum eins og á hátíðardögunum.

11 Ég hefi talað til spámannanna, og ég hefi látið þá sjá margar sýnir og talað í líkingum fyrir munn spámannanna.

12 Ef Gíleað er óguðlegt, þá skulu þeir að engu verða. Af því að þeir fórnuðu nautum í Gilgal, þá skulu og ölturu þeirra verða eins og steinhrúgur hjá plógförum á akri.

13 Þegar Jakob flýði til Aramlands, þá gjörðist Ísrael þjónn vegna konu, og vegna konu gætti hann hjarðar.

14 Fyrir spámann leiddi Drottinn Ísrael af Egyptalandi, og fyrir spámann varðveittist hann.

15 Efraím hefir valdið sárri gremju, fyrir því mun Drottinn hans láta blóðskuld hans yfir hann koma og gjalda honum svívirðing hans.

13 Þegar Efraím talaði, sló ótta á menn. Hann var höfðingi í Ísrael. En hann varð sekur fyrir Baalsdýrkunina og dó.

Og nú halda þeir áfram að syndga, þeir hafa gjört sér steypt líkneski úr silfri sínu, goðalíkneski eftir hugviti sínu, verk hagleiksmanna er það allt saman. Og slíkt ávarpa þeir. Fórnandi menn kyssa kálfa.

Fyrir því skulu þeir verða eins og ský að morgni dags og sem dögg, er snemma hverfur, eins og sáðir, sem þyrlast burt af láfanum, og sem reykur út um ljóra.

En ég, Drottinn, er Guð þinn frá því á Egyptalandi. Annan guð en mig þekkir þú ekki og enginn frelsari er til nema ég.

Það var ég, sem hélt þér til haga í eyðimörkinni, í landi þurrkanna.

En því meira haglendi sem þeir fengu, því saddari átu þeir sig. En er þeir voru saddir orðnir, metnaðist hjarta þeirra. Þess vegna gleymdu þeir mér.

Fyrir því er ég þeim eins og ljón, ligg í leyni við veginn eins og pardusdýr,

ræðst á þá eins og birna, sem rænd er húnum sínum, sundurríf brjóst þeirra. Þar skulu ung ljón eta þá, villidýrin slíta þá sundur.

Það verður þér að tjóni, Ísrael, að þú ert á móti mér, hjálpara þínum.

10 Hvar er nú konungur þinn, að hann frelsi þig, og allir höfðingjar þínir, að þeir rétti hluta þinn? _ þeir er þú sagðir um: "Gef mér konung og höfðingja!"

11 Ég gef þér konung í reiði minni og tek hann aftur í bræði minni.

12 Misgjörð Efraíms er saman bundin, synd hans vel geymd.

13 Kvalir jóðsjúkrar konu koma yfir hann, en hann er óvitur sonur. Þótt stundin sé komin, kemur hann ekki fram í burðarliðinn.

14 Ætti ég að frelsa þá frá Heljar valdi, leysa þá frá dauða? Hvar eru drepsóttir þínar, dauði? Hvar er sýki þín, Hel? Augu mín þekkja enga meðaumkun.

15 Því þótt hann beri ávöxt meðal bræðranna, þá kemur þó austanvindurinn, stormur Drottins, sem rís í eyðimörkinni, svo að brunnar hans þorna og lindir hans þrjóta. Hann mun ræna fjársjóð hans öllum dýrmætum gersemum.

14 Samaría fær að gjalda þess, að hún hefir sett sig upp á móti Guði sínum. Fyrir sverði skulu þeir falla, ungbörnum þeirra skal slegið verða niður við og þungaðar konur þeirra ristar verða á kvið.

Snú þú við, Ísrael, til Drottins, Guðs þíns, því að þú steyptist fyrir misgjörð þína.

Takið orð með yður og hverfið aftur til Drottins. Segið við hann: "Fyrirgef með öllu misgjörð vora og ver góður, og vér skulum greiða þér ávöxt vara vorra.

Assýría skal eigi framar hjálpa oss, vér viljum eigi ríða stríðshestum og eigi framar segja ,Guð vor` við verk handa vorra. Því að hjá þér hlýtur hinn munaðarlausi líkn!"

Ég vil lækna fráhvarf þeirra, elska þá af frjálsum vilja, því að reiði mín hefir snúið sér frá þeim.

Ég vil verða Ísrael sem döggin, hann skal blómgast sem lilja og skjóta rótum sem Líbanonsskógur.

Frjóangar hans skulu breiðast út og toppskrúðið verða sem á olíutré og ilmur hans verða sem Líbanonsilmur.

Þeir sem búa í skugga hans, skulu aftur rækta korn og blómgast eins og vínviður. Þeir skulu verða eins nafntogaðir og vínið frá Líbanon.

Hvað á Efraím framar saman við skurðgoðin að sælda? Ég hefi bænheyrt hann, ég lít til hans. Ég er sem laufgrænt kýprestré. Það mun í ljós koma, að ávextir þínir eru frá mér komnir.

Eftir þetta sá ég sýn: Opnar dyr á himninum og raustin hin fyrri, er ég heyrði sem lúður gylli, talaði við mig og sagði: "Stíg upp hingað, og ég mun sýna þér það, sem verða á eftir þetta."

Jafnskjótt var ég hrifinn í anda. Og sjá: Hásæti stóð á himni og einhver sat í hásætinu.

Sá, er þar sat, sýndist líkur jaspissteini og sardissteini og regnbogi var kringum hásætið á að sjá sem smaragður.

Umhverfis hásætið voru tuttugu og fjögur hásæti, og í þeim hásætum sá ég sitja tuttugu og fjóra öldunga, skrýdda hvítum klæðum og á höfðum þeirra gullkórónur.

Út frá hásætinu gengu eldingar, dunur og þrumur, og sjö eldblys brunnu frammi fyrir hásætinu. Það eru þeir sjö andar Guðs.

Og frammi fyrir hásætinu var sem glerhaf, líkt kristalli. Fyrir miðju hásætinu og umhverfis hásætið voru fjórar verur alsettar augum í bak og fyrir.

Fyrsta veran var lík ljóni, önnur veran lík uxa, þriðja veran hafði ásjónu sem maður og fjórða veran var lík fljúgandi erni.

Verurnar fjórar höfðu hver um sig sex vængi og voru alsettar augum, allt um kring og að innanverðu. Og eigi láta þær af, dag og nótt, að segja: Heilagur, heilagur, heilagur, Drottinn Guð, hinn alvaldi, hann sem var og er og kemur.

Og þegar verurnar gjalda honum, sem í hásætinu situr, dýrð og heiður og þökk, honum sem lifir um aldir alda,

10 þá falla öldungarnir tuttugu og fjórir niður frammi fyrir honum, sem í hásætinu situr, og tilbiðja hann, sem lifir um aldir alda, og varpa kórónum sínum niður fyrir hásætinu og segja:

11 Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.