Add parallel Print Page Options

39 Jósef var fluttur til Egyptalands, og Pótífar, hirðmaður Faraós og lífvarðarforingi, maður egypskur, keypti hann af Ísmaelítum, sem hann höfðu þangað flutt.

En Drottinn var með Jósef, svo að hann varð maður lángefinn, og hann var í húsi húsbónda síns, hins egypska manns.

Og er húsbóndi hans sá, að Drottinn var með honum og að Drottinn lét honum heppnast allt, sem hann tók sér fyrir hendur,

þá fann Jósef náð í augum hans og þjónaði honum. Og hann setti hann yfir hús sitt og fékk honum í hendur allt, sem hann átti.

Og upp frá þeirri stundu, er hann hafði sett Jósef yfir hús sitt og yfir allt, sem hann átti, blessaði Drottinn hús hins egypska manns sakir Jósefs, og blessun Drottins var yfir öllu, sem hann átti innan húss og utan.

Og hann fól Jósef til umráða allar eigur sínar og var afskiptalaus um allt hjá honum og gekk aðeins að máltíðum. Jósef var vel vaxinn og fríður sýnum.

Og eftir þetta bar svo til, að kona húsbónda hans renndi augum til Jósefs og mælti: "Leggstu með mér!"

En hann færðist undan og sagði við konu húsbónda síns: "Sjá, húsbóndi minn lítur ekki eftir neinu í húsinu hjá mér, og allar eigur sínar hefir hann fengið mér í hendur.

Hann hefir ekki meira vald í þessu húsi en ég, og hann fyrirmunar mér ekkert nema þig, með því að þú ert kona hans. Hvernig skyldi ég þá aðhafast þessa miklu óhæfu og syndga á móti Guði?"

10 Og þó að hún leitaði til við Jósef með þessum orðum dag eftir dag, þá lét hann ekki að vilja hennar að leggjast með henni og hafa samfarir við hana.

11 Þá bar svo til einn dag, er hann gekk inn í húsið til starfa sinna og enginn heimilismanna var þar inni,

12 að hún greip í skikkju hans og mælti: "Leggstu með mér!" En hann lét skikkjuna eftir í hendi hennar og flýði og hljóp út.

13 En er hún sá, að hann hafði látið eftir skikkjuna í hendi hennar og var flúinn út,

14 þá kallaði hún á heimafólk sitt og mælti við það: "Sjáið, hann hefir fært oss hebreskan mann til þess að dára oss. Hann kom inn til mín og vildi hafa lagst með mér, en ég æpti hástöfum.

15 Og er hann heyrði, að ég hrópaði og kallaði, lét hann skikkju sína eftir hjá mér og flýði og hljóp út."

16 Því næst geymdi hún skikkju hans hjá sér þangað til húsbóndi hans kom heim.

17 Sagði hún honum þá sömu söguna og mælti: "Hebreski þrællinn, sem þú hefir til vor haft, kom til mín til þess að dára mig.

18 En þegar ég hrópaði og kallaði, lét hann eftir skikkju sína hjá mér og flýði út."

19 Er húsbóndi hans heyrði orð konu sinnar, er hún talaði við hann svo mælandi: "Þannig hefir þræll þinn hegðað sér við mig," þá varð hann ákaflega reiður.

20 Og húsbóndi Jósefs tók hann og setti hann í myrkvastofu, þar sem bandingjar konungs voru geymdir, og hann sat þar í myrkvastofunni.

21 Drottinn var með Jósef og veitti honum mannahylli og lét hann finna náð í augum forstjóra myrkvastofunnar.

22 Og forstjóri myrkvastofunnar fékk Jósef á vald alla bandingjana, sem voru í myrkvastofunni. Og hvað eina, sem þeir gjörðu þar, gjörðu þeir að hans fyrirlagi.

23 Forstjóri myrkvastofunnar leit ekki eftir neinu, sem var undir hans hendi, því að Drottinn var með honum. Og hvað sem hann gjörði, það lét Drottinn heppnast.

40 Eftir þetta varð sá atburður, að byrlari konungsins í Egyptalandi og bakarinn brutu á móti herra sínum, Egyptalandskonungi.

Og Faraó reiddist báðum hirðmönnum sínum, yfirbyrlaranum og yfirbakaranum,

og lét setja þá í varðhald í húsi lífvarðarforingjans, í myrkvastofuna, þar sem Jósef var í haldi.

Og lífvarðarforinginn setti Jósef til þess að þjóna þeim, og voru þeir nú um hríð í varðhaldi.

Þá dreymdi þá báða draum, byrlara og bakara konungsins í Egyptalandi, sem haldnir voru í myrkvastofunni, sinn drauminn hvorn sömu nóttina, og hafði hvor draumurinn sína þýðingu.

Og er Jósef kom inn til þeirra um morguninn, sá hann að þeir voru óglaðir.

Spurði hann þá hirðmenn Faraós, sem voru með honum í varðhaldi í húsi húsbónda hans, og mælti: "Hvers vegna eruð þið svo daprir í bragði í dag?"

En þeir svöruðu honum: "Okkur hefir dreymt draum, og hér er enginn, sem geti ráðið hann." Þá sagði Jósef við þá: "Er það ekki Guðs að ráða drauma? Segið mér þó."

Þá sagði yfirbyrlarinn Jósef draum sinn og mælti við hann: "Mér þótti í svefninum sem vínviður stæði fyrir framan mig.

10 Á vínviðinum voru þrjár greinar, og jafnskjótt sem hann skaut frjóöngum, spruttu blóm hans út og klasar hans báru fullvaxin vínber.

11 En ég hélt á bikar Faraós í hendinni og tók vínberin og sprengdi þau í bikar Faraós og rétti svo bikarinn að Faraó."

12 Þá sagði Jósef við hann: "Ráðning draumsins er þessi: Þrjár vínviðargreinarnar merkja þrjá daga.

13 Að þrem dögum liðnum mun Faraó hefja höfuð þitt og setja þig aftur inn í embætti þitt. Munt þú þá rétta Faraó bikarinn, eins og áður var venja, er þú varst byrlari hans.

14 En minnstu mín, er þér gengur í vil, og gjör þá miskunn á mér að minnast á mig við Faraó, svo að þú megir frelsa mig úr þessu húsi.

15 Því að mér var með leynd stolið úr landi Hebrea, og eigi hefi ég heldur hér neitt það til saka unnið, að ég yrði settur í þessa dýflissu."

16 En er yfirbakarinn sá, að ráðning hans var góð, sagði hann við Jósef: "Mig dreymdi líka, að ég bæri á höfðinu þrjár karfir með hveitibrauði.

17 Og í efstu körfunni var alls konar sælgætisbrauð handa Faraó, og fuglarnir átu það úr körfunni á höfði mér."

18 Þá svaraði Jósef og mælti: "Ráðning draumsins er þessi: Þrjár karfirnar merkja þrjá daga.

19 Að þrem dögum liðnum mun Faraó hefja höfuð þitt af þér og festa þig á gálga, og fuglarnir munu eta af þér hold þitt."

20 Og það bar til á þriðja degi, á afmælisdegi Faraós, að hann hélt öllum þjónum sínum veislu. Hóf hann þá upp höfuð yfirbyrlarans og höfuð yfirbakarans í viðurvist þjóna sinna.

21 Setti hann yfirbyrlarann aftur í embætti hans, að hann mætti aftur bera Faraó bikarinn,

22 en yfirbakarann lét hann hengja, eins og Jósef hafði ráðið drauminn fyrir þá.

23 En eigi minntist yfirbyrlarinn Jósefs, heldur gleymdi honum.

11 Þá er Jesús hafði mælt svo fyrir við lærisveina sína tólf, hélt hann þaðan að kenna og prédika í borgum þeirra.

Jóhannes heyrði í fangelsinu um verk Krists. Þá sendi hann honum orð með lærisveinum sínum og spurði:

"Ert þú sá, sem koma skal, eða eigum vér að vænta annars?"

Jesús svaraði þeim: "Farið og kunngjörið Jóhannesi það, sem þér heyrið og sjáið:

Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp, og fátækum er flutt fagnaðarerindi.

Og sæll er sá, sem hneykslast ekki á mér."

Þegar þeir voru farnir, tók Jesús að tala til mannfjöldans um Jóhannes: "Hvað fóruð þér að sjá í óbyggðum? Reyr af vindi skekinn?

Hvað fóruð þér að sjá? Prúðbúinn mann? Nei, prúðbúna menn er að finna í sölum konunga.

Til hvers fóruð þér? Að sjá spámann? Já, segi ég yður, og það meira en spámann.

10 Hann er sá, sem um er ritað: Sjá, ég sendi sendiboða minn á undan þér, er greiða mun veg þinn fyrir þér.

11 Sannlega segi ég yður: Enginn er sá af konu fæddur, sem meiri sé en Jóhannes skírari. En hinn minnsti í himnaríki er honum meiri.

12 Frá dögum Jóhannesar skírara og til þessa er ríki himnanna ofríki beitt, og ofríkismenn vilja hremma það.

13 Spámennirnir allir og lögmálið, allt fram að Jóhannesi, sögðu fyrir um þetta.

14 Og ef þér viljið við því taka, þá er hann Elía sá, sem koma skyldi.

15 Hver sem eyru hefur, hann heyri.

16 Við hvað á ég að líkja þessari kynslóð? Lík er hún börnum, sem á torgum sitja og kallast á:

17 ,Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð, og ekki vilduð þér syrgja.`

18 Jóhannes kom, át hvorki né drakk, og menn segja: ,Hann hefur illan anda.`

19 Mannssonurinn kom, át og drakk, og menn segja: ,Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra!` En spekin sannast af verkum sínum."

20 Þá tók hann að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gjört flest kraftaverk sín, fyrir að hafa ekki gjört iðrun.

21 "Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gjörst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gjörðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku.

22 En ég segi ykkur: Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur.

23 Og þú Kapernaum. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gjörst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gjörðust í þér, þá stæði hún enn í dag.

24 En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér."

25 Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: "Ég vegsama þig, faðir, herra himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum, en opinberað það smælingjum.

26 Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.

27 Allt er mér falið af föður mínum, og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.

28 Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.

29 Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.

30 Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt."