A A A A A
Bible Book List

Fyrsta bók Móse 36-38 Icelandic Bible (ICELAND)

36 Þetta er ættartala Esaú, það er Edóms.

Esaú hafði tekið sér konur af dætrum Kanaaníta: Ada, dóttur Hetítans Elons, og Oholíbama, dóttur Ana, sonar Hórítans Síbeons,

og Basmat, dóttur Ísmaels, systur Nebajóts.

Og Ada ól Esaú Elífas, Basmat ól Regúel

og Oholíbama ól Jehús, Jaelam og Kóra. Þessir eru synir Esaú, sem honum fæddust í Kanaanlandi.

Esaú tók konur sínar, sonu sína og dætur og allar sálir í húsi sínu og hjörð sína og kvikfénað og allan þann fjárhlut, sem hann hafði aflað sér í Kanaanlandi, og fór í burtu frá Jakob bróður sínum til Seírlands.

Því að eign þeirra var meiri en svo, að þeir gætu saman verið, og landið, er þeir bjuggu í sem útlendingar, bar þá ekki sökum hjarða þeirra.

Esaú settist að á Seírfjöllum; en Esaú er Edóm.

Þetta er saga Esaú, ættföður Edómíta, á Seírfjöllum.

10 Þetta eru nöfn Esaú sona: Elífas, sonur Ada, konu Esaú; Regúel, sonur Basmat, konu Esaú.

11 Synir Elífas voru: Teman, Ómar, Sefó, Gaetam og Kenas.

12 Timna var hjákona Elífas, sonar Esaú, og hún ól Elífas Amalek. Þetta eru synir Ada, konu Esaú.

13 Þessir eru synir Regúels: Nahat, Sera, Samma og Missa. Þessir voru synir Basmat, konu Esaú.

14 Og þessir voru synir Oholíbama, dóttur Ana, sonar Síbeons, konu Esaú, hún ól Esaú Jehús, Jaelam og Kóra.

15 Þessir eru ætthöfðingjar meðal Esaú sona: Synir Elífas, frumgetins sonar Esaú: Höfðinginn Teman, höfðinginn Ómar, höfðinginn Sefó, höfðinginn Kenas,

16 höfðinginn Kóra, höfðinginn Gaetam, höfðinginn Amalek. Þessir eru þeir höfðingjar, sem komnir eru frá Elífas í Edómlandi, þessir eru synir Ada.

17 Þessir voru synir Regúels, sonar Esaú: Höfðinginn Nahat, höfðinginn Sera, höfðinginn Samma, höfðinginn Missa. Þessir eru þeir höfðingjar, sem komnir eru frá Regúel í Edómlandi, þessir eru synir Basmat, konu Esaú.

18 Þessir eru synir Oholíbama, konu Esaú: Höfðinginn Jehús, höfðinginn Jaelam, höfðinginn Kóra. Þessir eru þeir höfðingjar, sem komnir eru frá Oholíbama, dóttur Ana, konu Esaú.

19 Þessir eru synir Esaú og þessir eru höfðingjar þeirra, það er Edóm.

20 Þessir eru synir Hórítans Seírs, frumbyggjar landsins: Lótan, Sóbal, Síbeon, Ana,

21 Díson, Eser og Dísan. Þessir eru höfðingjar Hórítanna, synir Seírs í Edómlandi.

22 Synir Lótans voru Hórí og Hemam, og systir Lótans var Timna.

23 Þessir eru synir Sóbals: Alvan, Manahat, Ebal, Sefó og Ónam.

24 Þessir eru synir Síbeons: Aja og Ana, það er sá Ana, sem fann laugarnar á öræfunum, er hann gætti asna Síbeons föður síns.

25 Þessi eru börn Ana: Díson og Oholíbama, dóttir Ana.

26 Þessir eru synir Dísons: Hemdan, Esban, Jítran og Keran.

27 Þessir eru synir Esers: Bílhan, Saavan og Akan.

28 Þessir eru synir Dísans: Ús og Aran.

29 Þessir eru höfðingjar Hórítanna: Höfðinginn Lótan, höfðinginn Sóbal, höfðinginn Síbeon, höfðinginn Ana,

30 höfðinginn Díson, höfðinginn Eser, höfðinginn Dísan. Þessir eru höfðingjar Hórítanna eftir höfðingjum þeirra í Seírlandi.

31 Þessir eru þeir konungar, sem ríktu í Edómlandi, áður en konungar ríktu yfir Ísraelsmönnum:

32 Bela, sonur Beórs, var konungur í Edóm, og hét borg hans Dínhaba.

33 Og er Bela dó, tók Jóbab, sonur Sera frá Bosra, ríki eftir hann.

34 Og er Jóbab dó, tók Húsam frá Temanítalandi ríki eftir hann.

35 Og er Húsam dó, tók Hadad, sonur Bedads, ríki eftir hann. Hann vann sigur á Midíanítum á Móabsvöllum, og borg hans hét Avít.

36 Og er Hadad dó, tók Samla frá Masreka ríki eftir hann.

37 Og er Samla dó, tók Sál frá Rehóbót hjá Efrat ríki eftir hann.

38 Og er Sál dó, tók Baal Hanan, sonur Akbórs, ríki eftir hann.

39 Og er Baal Hanan sonur Akbórs dó, tók Hadar ríki eftir hann, og hét borg hans Pagú, en kona hans Mehetabeel, dóttir Matredar, dóttur Me-Sahabs.

40 Þessi eru nöfn höfðingja þeirra, er frá Esaú eru komnir, eftir ættkvíslum þeirra, eftir bústöðum þeirra, eftir nöfnum þeirra: Höfðinginn Timna, höfðinginn Alva, höfðinginn Jetet,

41 höfðinginn Oholíbama, höfðinginn Ela, höfðinginn Pínon,

42 höfðinginn Kenas, höfðinginn Teman, höfðinginn Mibsar,

43 höfðinginn Magdíel, höfðinginn Íram. Þessir eru höfðingjar Edómíta, eftir bústöðum þeirra í landi því, sem þeir höfðu numið. Þessi Esaú er ættfaðir Edómíta.

37 Jakob bjó í landi því, er faðir hans hafði dvalist í sem útlendingur, í Kanaanlandi.

Þetta er ættarsaga Jakobs. Þegar Jósef var seytján ára gamall, gætti hann sauða með bræðrum sínum. En hann var smásveinn hjá þeim sonum Bílu og sonum Silpu, er voru konur föður hans. Og Jósef bar föður sínum illan orðróm um þá.

Ísrael unni Jósef mest allra sona sinna, því að hann hafði átt hann í elli sinni. Og hann lét gjöra honum dragkyrtil.

En er bræður hans sáu, að faðir þeirra elskaði hann meir en alla sonu sína, lögðu þeir hatur á hann og gátu ekki talað við hann vinsamlegt orð.

Jósef dreymdi draum og sagði hann bræðrum sínum. Hötuðu þeir hann þá enn meir.

Og hann sagði við þá: "Heyrið nú draum þennan, sem mig dreymdi:

Sjá, vér vorum að binda kornbundin á akrinum, og mitt kornbundin reisti sig og stóð upprétt, en yðar kornbundin skipuðu sér umhverfis og lutu mínu kornbundini."

Þá sögðu bræður hans við hann: "Munt þú þá verða konungur yfir oss? Munt þú þá drottna yfir oss?" Og þeir hötuðu hann enn meir sakir drauma hans og sakir orða hans.

Enn dreymdi hann annan draum og sagði hann bræðrum sínum og mælti: "Sjá, mig hefir enn dreymt draum: Mér þótti sólin, tunglið og ellefu stjörnur lúta mér."

10 En er hann sagði föður sínum og bræðrum frá þessu, ávítti faðir hans hann og mælti til hans: "Hvaða draumur er þetta, sem þig hefir dreymt? Munum vér eiga að koma, ég og móðir þín og bræður þínir, og lúta til jarðar fyrir þér?"

11 Og bræður hans öfunduðu hann, en faðir hans festi þetta í huga sér.

12 Er bræður hans voru að heiman farnir til þess að halda hjörð föður þeirra á haga í Síkem,

13 mælti Ísrael við Jósef: "Bræður þínir halda hjörðinni á beit í Síkem. Kom þú, ég ætla að senda þig til þeirra." Og hann svaraði honum: "Hér er ég."

14 Og hann sagði við hann: "Far þú og vit þú, hvort bræðrum þínum og hjörðinni líður vel, og láttu mig svo vita það." Og hann sendi hann úr Hebronsdal, og hann kom til Síkem.

15 Þá hitti hann maður nokkur, er hann var að reika á víðavangi. Og maðurinn spurði hann og mælti: "Að hverju leitar þú?"

16 Hann svaraði: "Ég er að leita að bræðrum mínum. Seg mér hvar þeir eru með hjörðina."

17 Og maðurinn sagði: "Þeir eru farnir héðan, því að ég heyrði þá segja: ,Vér skulum fara til Dótan."` Fór Jósef þá eftir bræðrum sínum og fann þá í Dótan.

18 Er þeir sáu hann álengdar, áður en hann var kominn nærri þeim, tóku þeir saman ráð sín að drepa hann.

19 Og þeir sögðu hver við annan: "Sjá, þarna kemur draumamaðurinn.

20 Förum nú til og drepum hann og köstum honum í einhverja gryfjuna og segjum svo, að óargadýr hafi etið hann. Þá skulum vér sjá, hvað úr draumum hans verður."

21 En er Rúben heyrði þetta, vildi hann frelsa hann úr höndum þeirra og mælti: "Ekki skulum vér drepa hann."

22 Og Rúben sagði við þá, til þess að hann gæti frelsað hann úr höndum þeirra og fært hann aftur föður sínum: "Úthellið ekki blóði. Kastið honum í þessa gryfju, sem er hér á eyðimörkinni, en leggið ekki hendur á hann."

23 En er Jósef kom til bræðra sinna, færðu þeir hann úr kyrtli hans, dragkyrtlinum, sem hann var í,

24 tóku hann og köstuðu honum í gryfjuna. En gryfjan var tóm, ekkert vatn var í henni.

25 Settust þeir nú niður að neyta matar. En er þeim varð litið upp, sáu þeir lest Ísmaelíta koma frá Gíleað, og báru úlfaldar þeirra reykelsi, balsam og myrru. Voru þeir á leið með þetta til Egyptalands.

26 Þá mælti Júda við bræður sína: "Hver ávinningur er oss það, að drepa bróður vorn og leyna morðinu?

27 Komið, vér skulum selja hann Ísmaelítum, en ekki leggja hendur á hann, því hann er bróðir vor, hold vort og blóð." Og bræður hans féllust á það.

28 En midíanítískir kaupmenn fóru þar fram hjá, tóku Jósef og drógu hann upp úr gryfjunni. Og þeir seldu Jósef Ísmaelítunum fyrir tuttugu sikla silfurs, en þeir fóru með Jósef til Egyptalands.

29 En er Rúben kom aftur að gryfjunni, þá var Jósef ekki í gryfjunni. Reif hann þá klæði sín.

30 Og hann sneri aftur til bræðra sinna og mælti: "Sveinninn er horfinn, og hvert skal ég nú fara?"

31 Þá tóku þeir kyrtil Jósefs, skáru geithafur og velktu kyrtilinn í blóðinu.

32 Því næst sendu þeir dragkyrtilinn og létu færa hann föður sínum með þeirri orðsending: "Þetta höfum vér fundið. Gæt þú að, hvort það muni vera kyrtill sonar þíns eða ekki."

33 Og hann skoðaði hann og mælti: "Það er kyrtill sonar míns. Óargadýr hefir etið hann. Sannlega er Jósef sundur rifinn."

34 Þá reif Jakob klæði sín og lagði hærusekk um lendar sínar og harmaði son sinn langan tíma.

35 Og allir synir hans og allar dætur hans leituðust við að hugga hann, en hann vildi ekki huggast láta og sagði: "Með harmi mun ég niður stíga til sonar míns til heljar." Og faðir hans grét hann.

36 En Midíanítar seldu hann til Egyptalands, Pótífar hirðmanni Faraós og lífvarðarforingja.

38 Um þessar mundir bar svo við, að Júda fór frá bræðrum sínum og lagði lag sitt við mann nokkurn í Adúllam, sem Híra hét.

Þar sá Júda dóttur kanversks manns, sem Súa hét, og tók hana og hafði samfarir við hana.

Og hún varð þunguð og ól son, og hún nefndi hann Ger.

Og hún varð þunguð í annað sinn og ól son, og hún nefndi hann Ónan.

Og enn ól hún son og nefndi hann Sela. En hún var í Kesíb, er hún ól hann.

Og Júda tók konu til handa Ger, frumgetnum syni sínum. Hún hét Tamar.

En Ger, frumgetinn sonur Júda, var vondur í augum Drottins, svo að Drottinn lét hann deyja.

Þá mælti Júda við Ónan: "Gakk þú inn til konu bróður þíns og gegn þú mágskyldunni við hana, að þú megir afla bróður þínum afkvæmis."

En með því að Ónan vissi, að afkvæmið skyldi eigi verða hans, þá lét hann sæðið spillast á jörðu í hvert sinn er hann gekk inn til konu bróður síns, til þess að hann aflaði eigi bróður sínum afkvæmis.

10 En Drottni mislíkaði það, er hann gjörði, og lét hann einnig deyja.

11 Þá sagði Júda við Tamar tengdadóttur sína: "Ver þú sem ekkja í húsi föður þíns, þangað til Sela sonur minn verður fulltíða." Því að hann hugsaði: "Ella mun hann og deyja, eins og bræður hans." Fór Tamar þá burt og var í húsi föður síns.

12 En er fram liðu stundir, andaðist dóttir Súa, kona Júda. Og er Júda lét af harminum, fór hann upp til Timna, til sauðaklippara sinna, hann og Híra vinur hans frá Adúllam.

13 Var þá Tamar sagt svo frá: "Sjá, tengdafaðir þinn fer upp til Timna að klippa sauði sína."

14 Þá fór hún úr ekkjubúningi sínum, huldi sig blæju og hjúpaði sig og settist við hlið Enaímborgar, sem er við veginn til Timna. Því að hún sá, að Sela var orðinn fulltíða, og hún var þó ekki honum gefin fyrir konu.

15 Júda sá hana og hugði, að hún væri skækja, því að hún hafði hulið andlit sitt.

16 Og hann vék til hennar við veginn og mælti: "Leyf mér að leggjast með þér!" Því að hann vissi ekki, að hún var tengdadóttir hans. Hún svaraði: "Hvað viltu gefa mér til þess, að þú megir leggjast með mér?"

17 Og hann mælti: "Ég skal senda þér hafurkið úr hjörðinni." Hún svaraði: "Fáðu mér þá pant, þangað til þú sendir það."

18 Þá mælti hann: "Hvaða pant skal ég fá þér?" En hún svaraði: "Innsiglishring þinn og festi þína og staf þinn, sem þú hefir í hendinni." Og hann fékk henni þetta og lagðist með henni, og hún varð þunguð af hans völdum.

19 Því næst stóð hún upp, gekk burt og lagði af sér blæjuna og fór aftur í ekkjubúning sinn.

20 Og Júda sendi hafurkiðið með vini sínum frá Adúllam, svo að hann fengi aftur pantinn af hendi konunnar, en hann fann hana ekki.

21 Og hann spurði menn í þeim stað og sagði: "Hvar er portkonan, sem sat við veginn hjá Enaím?" En þeir svöruðu: "Hér hefir engin portkona verið."

22 Fór hann þá aftur til Júda og mælti: "Ég fann hana ekki, enda sögðu menn í þeim stað: ,Hér hefir engin portkona verið."`

23 Þá mælti Júda: "Haldi hún því, sem hún hefir, að vér verðum ekki hafðir að spotti. Sjá, ég sendi þetta kið, en þú hefir ekki fundið hana."

24 Að þrem mánuðum liðnum var Júda sagt: "Tamar tengdadóttir þín hefir drýgt hór, og meira að segja: Hún er þunguð orðin í hórdómi." Þá mælti Júda: "Leiðið hana út, að hún verði brennd."

25 En er hún var út leidd, gjörði hún tengdaföður sínum þessa orðsending: "Af völdum þess manns, sem þetta á, er ég þunguð orðin." Og hún sagði: "Hygg þú að, hver eiga muni innsiglishring þennan, festi og staf."

26 En Júda kannaðist við gripina og mælti: "Hún hefir betri málstað en ég, fyrir þá sök að ég hefi eigi gift hana Sela syni mínum." Og hann kenndi hennar ekki upp frá því.

27 En er hún skyldi verða léttari, sjá, þá voru tvíburar í kviði hennar.

28 Og í fæðingunni rétti annar út höndina. Tók þá ljósmóðirin rauðan þráð og batt um hönd hans og sagði: "Þessi kom fyrr í ljós."

29 En svo fór, að hann kippti aftur að sér hendinni, og þá kom bróðir hans í ljós. Þá mælti hún: "Hví hefir þú brotist svo fram þér til góða?" Og hún nefndi hann Peres.

30 Eftir það fæddist bróðir hans, og var rauði þráðurinn um hönd hans. Og hún nefndi hann Sera.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Matteusarguðspjall 10:21-42 Icelandic Bible (ICELAND)

21 Bróðir mun selja bróður í dauða og faðir barn sitt. Börn munu rísa gegn foreldrum og valda þeim dauða.

22 Og þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns. En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.

23 Þegar þeir ofsækja yður í einni borg, þá flýið í aðra. Sannlega segi ég yður: Þér munuð ekki hafa náð til allra borga Ísraels, áður en Mannssonurinn kemur.

24 Ekki er lærisveinn meistaranum fremri né þjónn herra sínum.

25 Nægja má lærisveini að vera sem meistari hans og þjóni sem herra hans. Fyrst þeir kölluðu húsföðurinn Beelsebúl, hvað kalla þeir þá heimamenn hans?

26 Óttist þá því eigi. Ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert, né leynt, er eigi verður kunnugt.

27 Það sem ég segi yður í myrkri, skuluð þér tala í birtu, og það sem þér heyrið hvíslað í eyra, skuluð þér kunngjöra á þökum uppi.

28 Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða, en fá ekki deytt sálina. Hræðist heldur þann, sem megnar að tortíma bæði sálu og líkama í helvíti.

29 Eru ekki tveir spörvar seldir fyrir smápening? Og ekki fellur einn þeirra til jarðar án vitundar föður yðar.

30 Á yður eru jafnvel höfuðhárin öll talin.

31 Verið því óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar.

32 Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum, mun og ég við kannast fyrir föður mínum á himnum.

33 En þeim sem afneitar mér fyrir mönnum, mun og ég afneita fyrir föður mínum á himnum.

34 Ætlið ekki, að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið, heldur sverð.

35 Ég er kominn að gjöra ,son andvígan föður sínum, dóttur móður sinni og tengdadóttur tengdamóður sinni.

36 Og heimamenn manns verða óvinir hans.`

37 Sá sem ann föður eða móður meir en mér, er mín ekki verður, og sá sem ann syni eða dóttur meir en mér, er mín ekki verður.

38 Hver sem tekur ekki sinn kross og fylgir mér, er mín ekki verður.

39 Sá sem ætlar að finna líf sitt, týnir því, og sá sem týnir lífi sínu mín vegna, finnur það.

40 Sá sem tekur við yður, tekur við mér, og sá sem tekur við mér, tekur við þeim, er sendi mig.

41 Sá sem tekur við spámanni, vegna þess að hann er spámaður, mun fá spámanns laun, og sá sem tekur við réttlátum manni, vegna þess að hann er réttlátur, mun fá laun réttláts manns.

42 Og hver sem gefur einum þessara smælingja svaladrykk vegna þess eins, að hann er lærisveinn, sannlega segi ég yður, hann mun alls ekki missa af launum sínum."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes