Add parallel Print Page Options

13 Og Abram fór frá Egyptalandi með konu sína og allt, sem hann átti, og Lot fór með honum, til Suðurlandsins.

Abram var stórauðugur að kvikfé, silfri og gulli.

Og hann flutti sig smátt og smátt sunnan að allt til Betel, til þess staðar, er tjald hans hafði áður verið, milli Betel og Aí,

til þess staðar, þar sem hann áður hafði reist altarið. Og Abram ákallaði þar nafn Drottins.

Lot, sem fór með Abram, átti og sauði, naut og tjöld.

Og landið bar þá ekki, svo að þeir gætu saman verið, því að eign þeirra var mikil, og þeir gátu ekki saman verið.

Og sundurþykkja reis milli fjárhirða Abrams og fjárhirða Lots. _ En Kanaanítar og Peresítar bjuggu þá í landinu.

Þá mælti Abram við Lot: "Engin misklíð sé milli mín og þín og milli minna og þinna fjárhirða, því að við erum frændur.

Liggur ekki allt landið opið fyrir þér? Skil þig heldur við mig. Viljir þú fara til vinstri handar, þá fer ég til hægri; og viljir þú fara til hægri handar, þá fer ég til vinstri."

10 Þá hóf Lot upp augu sín og sá, að allt Jórdansléttlendið, allt til Sóar, var vatnsríkt land, eins og aldingarður Drottins, eins og Egyptaland. (Þetta var áður en Drottinn eyddi Sódómu og Gómorru.)

11 Og Lot kaus sér allt Jórdansléttlendið, og Lot flutti sig austur á við, og þannig skildu þeir.

12 Abram bjó í Kanaanlandi, en Lot bjó í borgunum á sléttlendinu og færði tjöld sín allt til Sódómu.

13 En mennirnir í Sódómu voru vondir og stórsyndarar fyrir Drottni.

14 Drottinn sagði við Abram, eftir að Lot hafði skilið við hann: "Hef þú upp augu þín, og litast um frá þeim stað, sem þú ert á, til norðurs, suðurs, austurs og vesturs.

15 Því að allt landið, sem þú sér, mun ég gefa þér og niðjum þínum ævinlega.

16 Og ég mun gjöra niðja þína sem duft jarðar, svo að geti nokkur talið duft jarðarinnar, þá skulu einnig niðjar þínir verða taldir.

17 Tak þig nú upp og far þú um landið þvert og endilangt, því að þér mun ég gefa það."

18 Og Abram færði sig með tjöld sín og kom og settist að í Mamrelundi, sem er í Hebron, og reisti Drottni þar altari.

14 Þegar Amrafel var konungur í Sínear, Aríok konungur í Ellasar, Kedorlaómer konungur í Elam og Tídeal konungur í Gojím, bar það til,

að þeir herjuðu á Bera, konung í Sódómu, á Birsa, konung í Gómorru, á Síneab, konung í Adma, á Semeber, konung í Sebóím, og konunginn í Bela (það er Sóar).

Allir þessir hittust á Siddímsvöllum. (Þar er nú Saltisjór.)

Í tólf ár höfðu þeir verið lýðskyldir Kedorlaómer, en á hinu þrettánda ári höfðu þeir gjört uppreisn.

Og á fjórtánda ári kom Kedorlaómer og þeir konungar, sem með honum voru, og sigruðu Refaítana í Astarot Karnaím, Súsítana í Ham, Emítana á Kírjataímsvöllum

og Hórítana á fjalli þeirra Seír allt til El-Paran, sem er við eyðimörkina.

Síðan sneru þeir við og komu til En-Mispat (það er Kades), og fóru herskildi yfir land Amalekíta og sömuleiðis Amoríta, sem bjuggu í Hasason Tamar.

Þá lögðu þeir af stað, konungurinn í Sódómu, konungurinn í Gómorru, konungurinn í Adma, konungurinn í Sebóím og konungurinn í Bela (það er Sóar), og þeir fylktu liði sínu móti þeim á Síddímsvöllum,

móti Kedorlaómer, konungi í Elam, Tídeal, konungi í Gojím, Amrafel, konungi í Sínear, og Aríok, konungi í Ellasar, fjórir konungar móti fimm.

10 En á Siddímsvöllum var hver jarðbiksgröfin við aðra. Og konungarnir í Sódómu og Gómorru lögðu á flótta og féllu ofan í þær, en þeir, sem af komust, flýðu til fjalla.

11 Þá tóku hinir alla fjárhluti, sem voru í Sódómu og Gómorru, og öll matvæli og fóru burt.

12 Þeir tóku og Lot, bróðurson Abrams, og fjárhluti hans og fóru burt, en hann átti heima í Sódómu.

13 Þá kom maður af flóttanum og sagði Hebreanum Abram tíðindin, en hann bjó þá í lundi Amorítans Mamre, bróður Eskols og Aners, og þeir voru bandamenn Abrams.

14 En er Abram frétti, að frændi hans var hertekinn, bjó hann í skyndi þrjú hundruð og átján reynda menn sína, fædda í húsi hans, og elti þá allt til Dan.

15 Skipti hann liði sínu í flokka og réðst á þá á náttarþeli, hann og menn hans, og sigraði þá og rak flóttann allt til Hóba, sem er fyrir norðan Damaskus.

16 Sneri hann því næst heimleiðis með alla fjárhlutina og bróðurson sinn Lot, og fjárhluti hans hafði hann einnig heim með sér, sömuleiðis konurnar og fólkið.

17 En er hann hafði unnið sigur á Kedorlaómer konungi og þeim konungum, sem með honum voru, og hélt heimleiðis, fór konungurinn í Sódómu til fundar við hann í Savedal. (Þar heitir nú Kóngsdalur.)

18 Og Melkísedek konungur í Salem kom með brauð og vín, en hann var prestur Hins Hæsta Guðs.

19 Og hann blessaði Abram og sagði: "Blessaður sé Abram af Hinum Hæsta Guði, skapara himins og jarðar!

20 Og lofaður sé Hinn Hæsti Guð, sem gaf óvini þína þér í hendur!" Og Abram gaf honum tíund af öllu.

21 Konungurinn í Sódómu sagði við Abram: "Gef mér mennina, en tak þú fjárhlutina."

22 Þá mælti Abram við konunginn í Sódómu: "Ég upplyfti höndum mínum til Drottins, Hins Hæsta Guðs, skapara himins og jarðar:

23 Ég tek hvorki þráð né skóþveng, né nokkuð af öllu sem þér tilheyrir, svo að þú skulir ekki segja: ,Ég hefi gjört Abram ríkan.`

24 Ekkert handa mér! Aðeins það, sem sveinarnir hafa neytt, og hlut þeirra manna, sem með mér fóru, Aners, Eskols og Mamre. Þeir mega taka sinn hlut."

15 Eftir þessa atburði kom orð Drottins til Abrams í sýn: "Óttast þú ekki, Abram, ég er þinn skjöldur, laun þín munu mjög mikil verða."

Og Abram mælti: "Drottinn Guð, hvað ætlar þú að gefa mér? Ég fer héðan barnlaus, og Elíeser frá Damaskus verður erfingi húss míns."

Og Abram mælti: "Sjá, mér hefir þú ekkert afkvæmi gefið, og húskarl minn mun erfa mig."

Og sjá, orð Drottins kom til hans: "Ekki skal hann erfa þig, heldur sá, sem af þér mun getinn verða, hann mun erfa þig."

Og hann leiddi hann út og mælti: "Lít þú upp til himins og tel þú stjörnurnar, ef þú getur talið þær." Og hann sagði við hann: "Svo margir skulu niðjar þínir verða."

Og Abram trúði Drottni, og hann reiknaði honum það til réttlætis.

Þá sagði hann við hann: "Ég er Drottinn, sem leiddi þig út frá Úr í Kaldeu til þess að gefa þér þetta land til eignar."

Og Abram mælti: "Drottinn Guð, hvað skal ég hafa til marks um, að ég muni eignast það?"

Og hann mælti við hann: "Fær mér þrevetra kvígu, þrevetra geit, þrevetran hrút, turtildúfu og unga dúfu."

10 Og hann færði honum öll þessi dýr og hlutaði þau sundur í miðju og lagði hvern hlutinn gegnt öðrum. En fuglana hlutaði hann ekki sundur.

11 Og hræfuglar flugu að ætinu, en Abram fældi þá burt.

12 Er sól var að renna, leið þungur svefnhöfgi á Abram, og sjá: felmti og miklu myrkri sló yfir hann.

13 Þá sagði hann við Abram: "Vit það fyrir víst, að niðjar þínir munu lifa sem útlendingar í landi, sem þeir eiga ekki, og þeir munu þjóna þeim, og þeir þjá þá í fjögur hundruð ár.

14 En þá þjóð, sem þeir munu þjóna, mun ég dæma, og síðar munu þeir þaðan fara með mikinn fjárhlut.

15 En þú skalt fara í friði til feðra þinna, þú skalt verða jarðaður í góðri elli.

16 Hinn fjórði ættliður þeirra mun koma hingað aftur, því að enn hafa Amorítar eigi fyllt mæli synda sinna."

17 En er sól var runnin og myrkt var orðið, kom reykur sem úr ofni og eldslogi, er leið fram á milli þessara fórnarstykkja.

18 Á þeim degi gjörði Drottinn sáttmála við Abram og mælti: "Þínu afkvæmi gef ég þetta land, frá Egyptalandsánni til árinnar miklu, árinnar Efrat:

19 land Keníta, Kenissíta, Kadmóníta,

20 Hetíta, Peresíta, Refaíta,

21 Amoríta, Kanaaníta, Gírgasíta og Jebúsíta."

Þegar hann sá mannfjöldann, gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann, og lærisveinar hans komu til hans.

Þá lauk hann upp munni sínum, kenndi þeim og sagði:

"Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er himnaríki.

Sælir eru sorgbitnir, því að þeir munu huggaðir verða.

Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa.

Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða.

Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða.

Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá.

Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.

10 Sælir eru þeir, sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir, því að þeirra er himnaríki.

11 Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna.

12 Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina, sem voru á undan yður.

13 Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.

14 Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist.

15 Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker, heldur á ljósastiku, og þá lýsir það öllum í húsinu.

16 Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum.

17 Ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla.

18 Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram.

19 Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki, en sá, sem heldur þau og kennir, mun mikill kallast í himnaríki.

20 Ég segi yður: Ef réttlæti yðar ber ekki af réttlæti fræðimanna og farísea, komist þér aldrei í himnaríki.

21 Þér hafið heyrt, að sagt var við forfeðurna: ,Þú skalt ekki morð fremja. Sá sem morð fremur, skal svara til saka fyrir dómi.`

22 En ég segi yður: Hver sem reiðist bróður sínum, skal svara til saka fyrir dómi. Sá sem hrakyrðir bróður sinn skal svara til saka fyrir ráðinu og hver sem svívirðir hann, hefur unnið til eldsvítis.

23 Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar, að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér,

24 þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína.

25 Vertu skjótur til sátta við andstæðing þinn, meðan þú ert enn á vegi með honum, til þess að hann selji þig ekki dómaranum í hendur og dómarinn þjóninum og þér verði varpað í fangelsi.

26 Sannlega segi ég þér: Eigi munt þú komast út þaðan, fyrr en þú hefur borgað síðasta eyri.

Read full chapter