A A A A A
Bible Book List

Esrabók 9-10 Icelandic Bible (ICELAND)

Þegar þessu var lokið, komu höfðingjarnir til mín og sögðu: "Ísraelslýður og prestarnir og levítarnir hafa ekki haldið sér frá hinum heiðnu íbúum landsins, sem skylt hefði verið vegna viðurstyggða þeirra, frá Kanaanítum, Hetítum, Peresítum, Jebúsítum, Ammónítum, Móabítum, Egyptum og Amórítum,

því að þeir hafa tekið sér og sonum sínum konur af dætrum þeirra, og þannig hefir hinn heilagi ættstofn haft mök við hina heiðnu íbúa landsins, og hafa höfðingjarnir og yfirmennirnir gengið á undan í þessu tryggðrofi."

Þegar ég heyrði þetta, reif ég kyrtil minn og yfirhöfn mína, reytti hár mitt og skegg og sat agndofa.

Þá söfnuðust til mín allir þeir, er óttuðust orð Ísraels Guðs, út af tryggðrofi hinna hernumdu, en ég sat agndofa allt til kveldfórnar.

En er að kveldfórninni var komið, stóð ég upp frá föstu minni og reif um leið enn að nýju kyrtil minn og yfirhöfn mína. Síðan féll ég á kné, fórnaði höndum til Drottins, Guðs míns,

og sagði: "Guð minn, ég fyrirverð mig og blygðast mín að hefja auglit mitt til þín, ó minn Guð! Því að misgjörðir vorar eru vaxnar oss yfir höfuð og sekt vor orðin svo mikil, að hún nær til himins.

Allt frá dögum feðra vorra fram á þennan dag höfum vér verið í mikilli sekt, og vegna misgjörða vorra höfum vér verið ofurseldir, konungar vorir og prestar vorir, í hendur konunga heiðinna landa, undir sverðin, til herleiðingar, til ráns og til háðungar, eins og enn í dag á sér stað.

En nú höfum vér um örskamma stund hlotið miskunn frá Drottni, Guði vorum, með því að hann lét oss eftir verða leifar, er af komust, og veitti oss bólfestu á sínum heilaga stað, til þess að Guð vor léti gleðina skína úr augum vorum og veitti oss ofurlítinn nýjan lífsþrótt í ánauð vorri.

Því að ánauðugir erum vér. Þó hefir Guð vor eigi yfirgefið oss í ánauð vorri, heldur hagað því svo, að vér fundum náð fyrir augliti Persakonunga, svo að þeir veittu oss nýjan lífsþrótt til að koma upp musteri Guðs vors og reisa það úr rústum og útvega oss umgirtan bústað í Júda og Jerúsalem.

10 Og hvað eigum vér nú að segja, Guð vor, eftir allt þetta? Því að vér höfum yfirgefið boðorð þín,

11 sem þú hefir fyrir oss lagt fyrir munn þjóna þinna, spámannanna, er þú sagðir: ,Landið, er þér haldið inn í til þess að taka það til eignar, er óhreint land vegna saurugleika hinna heiðnu landsbúa, vegna viðurstyggða þeirra, er þeir í saurgun sinni hafa fyllt það með landshornanna milli.

12 Fyrir því skuluð þér hvorki gefa dætur yðar sonum þeirra né taka dætur þeirra sonum yðar að konum, og um aldur og ævi skuluð þér ekki leitast við að efla farsæld þeirra og velgengni, til þess að þér eflist og fáið að njóta landsins gæða og megið láta börnum yðar það eftir í arf um aldur og ævi.`

13 Og eftir allt það, sem yfir oss er komið vegna vondra verka vorra og vorrar miklu sektar _ því að þú, Guð vor, hefir vægt oss og ekki hegnt oss, svo sem vér áttum skilið fyrir misgjörð vora, og veitt oss slíkar leifar _

14 ættum vér þá enn að nýju að brjóta boðorð þín og mægjast við þær þjóðir, sem aðhafast slíkar svívirðingar? Mundir þú eigi reiðast oss, þar til er vér værum gjöreyddir, svo að engar leifar væru eftir né nokkrir þeir, er undan hefðu komist?

15 Drottinn, Ísraels Guð, þú ert réttlátur! Vér erum eftir skildir sem leifar, er undan hafa komist, svo sem sjá má þann dag í dag. Sjá, vér stöndum frammi fyrir þér í sekt vorri, því að það er eigi unnt að standast fyrir þér vegna þessa."

10 Meðan Esra baðst þannig fyrir og bar fram játning sína grátandi og knéfallandi frammi fyrir musteri Guðs, safnaðist til hans mjög mikill skari Ísraelsmanna, karlar og konur og börn, því að fólkið grét hástöfum.

Þá tók Sekanja Jehíelsson, af niðjum Elams, til máls og sagði við Esra: "Vér höfum brotið á móti Guði vorum, þar sem vér höfum gengið að eiga útlendar konur af hinum heiðnu íbúum landsins. Þó er ekki öll von úti fyrir Ísrael í þessu efni.

Fyrir því skulum vér nú gjöra sáttmála við Guð vorn um að reka burt allar þessar konur og börn þau, er af þeim eru fædd, eftir ráðum herra míns og þeirra manna, er óttast boðorð Guðs vors, og það skal verða farið eftir lögmálinu.

Rís upp, því að mál þetta hvílir á þér, og vér munum styðja þig. Hertu nú upp hugann og framkvæmdu þetta."

Þá reis Esra upp og lét presta- og levítahöfðingjana og allan Ísrael vinna eið að því, að þeir skyldu hegða sér eftir þessu, og unnu þeir eiðinn.

Og Esra reis upp og gekk burt þaðan er hann hafði verið, fyrir framan musteri Guðs, og inn í herbergi Jóhanans Eljasíbssonar. Þar var hann um nóttina og neytti hvorki brauðs né drakk vatn, því að hann var hryggur yfir tryggðrofi hinna herleiddu.

Og menn létu boð út ganga um Júda og Jerúsalem til allra þeirra, er heim voru komnir úr herleiðingunni, að safnast saman í Jerúsalem.

Og hver sá, er eigi kæmi innan þriggja daga, samkvæmt ráðstöfun höfðingjanna og öldunganna _ allar eigur hans skyldu banni helgaðar og hann sjálfur rekinn úr söfnuði hinna herleiddu.

Þá söfnuðust allir Júdamenn og Benjamíns saman í Jerúsalem á þriðja degi, það var í níunda mánuðinum, á tuttugasta degi mánaðarins. Og allt fólkið sat á auða svæðinu fram undan musteri Guðs, skjálfandi út af þessu og af því að stórrigning var.

10 Þá stóð Esra prestur upp og mælti til þeirra: "Þér hafið rofið tryggðir, með því að ganga að eiga útlendar konur, til þess að auka á sekt Ísraels.

11 Gjörið því játningu frammi fyrir Drottni, Guði feðra yðar, og gjörið hans vilja og skiljið yður frá hinum heiðnu íbúum landsins og frá hinum útlendu konum."

12 Og allur söfnuðurinn svaraði og sagði með hárri röddu: "Svo sem þú hefir sagt, þannig er oss skylt að breyta.

13 En fólkið er margt og rigningatími, svo að vér getum ekki staðið úti. Þetta er og meira en eins eða tveggja daga verk, því að vér höfum margfaldlega brotið í þessu efni.

14 Gangi því höfðingjar vorir fram fyrir allan söfnuðinn, og allir þeir í borgum vorum, er gengið hafa að eiga útlendar konur, skulu koma hver á tilteknum tíma, og með þeim öldungar hverrar borgar og dómarar hennar, þar til er þeir hafa snúið hinni brennandi reiði Guðs vors frá oss að því er mál þetta snertir."

15 Þeir Jónatan Asahelsson og Jahseja Tikvason einir mótmæltu þessu, og Mesúllam og Sabtaí levíti studdu þá.

16 Þeir, sem heim voru komnir úr herleiðingunni, gjörðu svo, og Esra prestur valdi sér menn, ætthöfðingja hinna einstöku ætta, og þá alla með nafni, og settust þeir á ráðstefnu hinn fyrsta dag hins tíunda mánaðar til þess að rannsaka málið.

17 Og þeir höfðu að öllu leyti útkljáð mál þeirra manna, er gengið höfðu að eiga útlendar konur, fyrir fyrsta dag hins fyrsta mánaðar.

18 Af niðjum prestanna fundust þessir, er gengið höfðu að eiga útlendar konur: Af niðjum Jósúa Jósadakssonar og bræðrum hans: Maaseja, Elíeser, Jaríb og Gedalja.

19 Lofuðu þeir með handsali að reka frá sér konur sínar og að fórna hrút vegna sektar sinnar.

20 Af niðjum Immers: Hananí og Sebadía.

21 Af afkomendum Haríms: Maaseja, Elía, Semaja, Jehíel og Úsía.

22 Af niðjum Pashúrs: Eljóenaí, Maaseja, Ísmael, Netaneel, Jósabad og Elasa.

23 Af levítunum: Jósabad, Símeí og Kelaja _ það er Kelíta, Petahja, Júda og Elíeser.

24 Af söngvurunum: Eljasíb. Af hliðvörðunum: Sallúm, Telem og Úrí.

25 Af Ísrael: Af niðjum Parós: Ramja, Jisía, Malkía, Míjamín, Eleasar, Malkía og Benaja.

26 Af niðjum Elams: Mattanja, Sakaría, Jehíel, Abdí, Jeremót og Elía.

27 Af niðjum Sattú: Eljóenaí, Eljasíb, Mattanja, Jeremót, Sabad og Asísa.

28 Af niðjum Bebaí: Jóhanan, Hananja, Sabbaí og Atlaí.

29 Af niðjum Baní: Mesúllam, Mallúk og Adaja, Jasúb, Seal, Jeramót.

30 Af niðjum Pahat Móabs: Adna, Kelal, Benaja, Maaseja, Mattanja, Besaleel, Binnúí og Manasse.

31 Niðjar Haríms: Elíeser, Jisía, Malkía, Semaja, Símeon,

32 Benjamín, Mallúk, Semarja.

33 Af niðjum Hasúms: Matnaí, Mattatta, Sabad, Elífelet, Jeremaí, Manasse, Símeí.

34 Af niðjum Baní: Maadaí, Amram, Úel,

35 Benaja, Bedja, Kelúhí,

36 Vanja, Meremót, Eljasíb,

37 Mattanja, Matnaí, Jaasaí,

38 Baní, Binnúí, Símeí,

39 Selemja, Natan, Adaja,

40 Maknadbaí, Sasaí, Saraí,

41 Asareel, Selemja, Semarja,

42 Sallúm, Amarja, Jósef.

43 Af niðjum Nebós: Jeíel, Mattija, Sabad, Sebína, Jaddaí, Jóel, Benaja.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Postulasagan 1 Icelandic Bible (ICELAND)

Fyrri sögu mína, Þeófílus, samdi ég um allt, sem Jesús gjörði og kenndi frá upphafi,

allt til þess dags, er hann gaf postulunum, sem hann hafði valið, fyrirmæli sín fyrir heilagan anda og varð upp numinn.

Þeim birti hann sig lifandi eftir písl sína með mörgum órækum kennimerkjum, lét þá sjá sig í fjörutíu daga og talaði um Guðs ríki.

Er hann var með þeim, bauð hann þeim að fara ekki burt úr Jerúsalem, heldur bíða eftir fyrirheiti föðurins, "sem þér," sagði hann, "hafið heyrt mig tala um.

Því að Jóhannes skírði með vatni, en þér skuluð skírðir verða með heilögum anda, nú innan fárra daga."

Meðan þeir voru saman, spurðu þeir hann: "Herra, ætlar þú á þessum tíma að endurreisa ríkið handa Ísrael?"

Hann svaraði: "Ekki er það yðar að vita tíma eða tíðir, sem faðirinn setti af sjálfs sín valdi.

En þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar."

Þegar hann hafði þetta mælt, varð hann upp numinn að þeim ásjáandi, og ský huldi hann sjónum þeirra.

10 Er þeir störðu til himins á eftir honum, þegar hann hvarf, þá stóðu hjá þeim allt í einu tveir menn í hvítum klæðum

11 og sögðu: "Galíleumenn, hví standið þér og horfið til himins? Þessi Jesús, sem varð upp numinn frá yður til himins, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til himins."

12 Þá sneru þeir aftur til Jerúsalem frá Olíufjallinu, sem svo er nefnt og er í nánd við Jerúsalem, hvíldardagsleið þaðan.

13 Er þeir komu þangað, fóru þeir upp í loftstofuna, þar sem þeir dvöldust: Pétur og Jóhannes, Jakob og Andrés, Filippus, Tómas, Bartólómeus, Matteus, Jakob Alfeusson, Símon vandlætari og Júdas Jakobsson.

14 Allir þessir voru með einum huga stöðugir í bæninni ásamt konunum. María, móðir Jesú, var líka með þeim og bræður hans.

15 Á þessum dögum stóð Pétur upp meðal bræðranna. Þar var saman kominn flokkur manna, um eitt hundrað og tuttugu að tölu. Hann mælti:

16 "Bræður, rætast hlaut ritning sú, er heilagur andi sagði fyrir munn Davíðs um Júdas, sem vísaði leið þeim, er tóku Jesú höndum.

17 Hann var í vorum hópi, og honum var falin sama þjónusta.

18 Hann keypti reit fyrir laun ódæðis síns, steyptist á höfuðið og brast sundur í miðju, svo að iðrin öll féllu út.

19 Þetta varð kunnugt öllum Jerúsalembúum, og er reitur sá kallaður á tungu þeirra Akeldamak, það er Blóðreitur.

20 Ritað er í Sálmunum: Bústaður hans skal í eyði verða, enginn skal í honum búa, og: Annar taki embætti hans.

21 Einhver þeirra manna, sem með oss voru alla tíð, meðan Drottinn Jesús gekk inn og út vor á meðal,

22 allt frá skírn Jóhannesar til þess dags, er hann varð upp numinn frá oss, verður nú að gjörast vottur upprisu hans ásamt oss."

23 Og þeir tóku tvo til, Jósef, kallaðan Barsabbas, öðru nafni Jústus, og Mattías,

24 báðust fyrir og sögðu: "Drottinn, þú sem þekkir hjörtu allra. Sýn þú, hvorn þessara þú hefur valið

25 til að taka þessa þjónustu og postuladóm, sem Júdas vék frá til að fara til síns eigin staðar."

26 Þeir hlutuðu um þá, og kom upp hlutur Mattíasar. Var hann tekinn í tölu postulanna með þeim ellefu.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes