A A A A A
Bible Book List

Esekíel 32-34 Icelandic Bible (ICELAND)

32 Á tólfta árinu, fyrsta dag hins tólfta mánaðar, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, hef upp harmljóð yfir Faraó, Egyptalandskonungi, og seg við hann: Þú ungljón meðal þjóðanna, það er úti um þig! Og þó varst þú eins og krókódíll í sjónum, gusaðir með nösum þínum, gruggaðir upp vatnið með fótum þínum og rótaðir upp bylgjum þess.

Svo segir Drottinn Guð: Ég vil breiða net mitt yfir þig í söfnuði margra þjóða, til þess að þeir dragi þig upp í neti mínu.

Og ég skal varpa þér upp á land, fleygja þér út á bersvæði, og ég skal láta alla fugla himinsins sitja á þér og seðja dýr allrar jarðarinnar á þér.

Og ég skal færa hold þitt út á fjöllin og fylla dalina hræi þínu.

Og ég skal vökva landið með útrennsli þínu, af blóði þínu á fjöllunum, og árfarvegirnir skulu verða fullir af þér.

Þegar þú slokknar út, skal ég byrgja himininn og myrkva stjörnur hans. Sólina skal ég hylja í skýjum, og tunglið skal ekki láta ljós sitt skína.

Öll ljós á himninum skal ég láta verða myrk þín vegna og færa dimmu yfir land þitt, _ segir Drottinn Guð.

Og ég mun hrella hjörtu margra þjóða, er ég leiði hertekna menn þína út á meðal þjóðanna, til landa, sem þú þekkir ekki.

10 Og ég mun gjöra margar þjóðir felmtsfullar út af þér, og hryllingur mun fara um konunga þeirra þín vegna, þegar ég sveifla sverði mínu frammi fyrir þeim, og þeir skulu skjálfa án afláts af hræðslu um líf sitt, daginn sem þú fellur.

11 Svo segir Drottinn Guð: Sverð Babelkonungs skal koma yfir þig.

12 Ég skal láta glæsilið þitt falla fyrir kappa sverðum. Það eru allt saman hinar grimmustu þjóðir. Þeir skulu eyða skrauti Egyptalands, og allt viðhafnarprjál þess skal að engu gjört.

13 Og ég skal gjöreyða öllum skepnum þess og hrífa þær burt frá hinum miklu vötnum. Enginn mannsfótur skal framar grugga þau, né heldur skulu klaufir nokkurrar skepnu grugga þau.

14 Þá skal ég láta vötn þeirra setjast og leiða ár þeirra burt eins og olíu, _ segir Drottinn Guð _

15 þegar ég gjöri Egyptaland að auðn og það er eytt orðið og svipt gnægtum sínum, er ég lýst alla þá, sem í því búa, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn."

16 Þetta eru harmljóð og skulu menn syngja þau. Dætur þjóðanna skulu syngja þau, þær skulu syngja þau yfir Egyptalandi og yfir öllu glæsiliði þess, _ segir Drottinn Guð!

17 Á tólfta árinu, hinn fimmtánda dag mánaðarins, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

18 "Mannsson, kveina þú og dætur þjóðanna yfir glæsiliði Egyptalands. Tignarmenn munu sökkva niður í undirheima til þeirra, sem niður eru stignir í gröfina.

19 Af hverjum ber þú að yndisleik? Stíg ofan og leggst til hvíldar meðal hinna óumskornu.

20 Þeir munu falla meðal vopnbitinna manna. Egyptaland er sverðinu ofurselt, menn hrífa það burt og allt þess skraut.

21 Þá munu hinar hraustu hetjur hrópa til Faraós í Helju, til hans og liðveislumanna hans: Niður stignir eru hinir vopnbitnu.

22 Þarna er Assýría og allur liðsafnaður hennar, og eru grafir þeirra umhverfis, _ allt saman vegnir menn, er fallið hafa fyrir sverði, _

23 grafir þeirra eru innst inni í grafhellinum. Og sveit hennar er umhverfis gröf hennar, allt saman vegnir menn, er fallið hafa fyrir sverði og eitt sinn létu standa ógn af sér á landi lifandi manna.

24 Þarna er Elam, og allt glæsilið hans liggur umhverfis gröf hans. Þeir eru allir saman vegnir menn, er fallið hafa fyrir sverði, er farið hafa óumskornir ofan í undirheima og eitt sinn létu standa ógn af sér á landi lifandi manna. Og nú bera þeir vanvirðu sína með þeim, sem niður stignir eru í gröfina.

25 Mitt á meðal veginna manna bjuggu þeir honum hvílurúm, ásamt öllu glæsiliði hans, og eru grafir þeirra umhverfis hann, allt saman óumskornir menn, er lagðir hafa verið sverði, _ því að eitt sinn stóð ógn af þeim á landi lifandi manna. Og nú bera þeir vanvirðu sína með þeim, sem niður stignir eru í gröfina. Meðal veginna manna voru þeir lagðir.

26 Þarna er Mesek, Túbal og allur mannfjöldi þeirra, og eru grafir þeirra umhverfis hann, allt saman óumskornir menn, sverði lagðir, er eitt sinn létu ógn af sér standa á landi lifandi manna.

27 Þeir liggja ekki hjá hetjunum, þeim er féllu í fyrndinni, þeim er fóru til Heljar í hervopnum sínum, hverra sverð voru lögð undir höfuð þeirra og skildir þeirra lágu ofan á beinum þeirra, því að ótti stóð af hetjunum á landi lifandi manna.

28 Þú skalt og sundur molaður verða meðal óumskorinna og liggja hjá sverðbitnum mönnum.

29 Þar er Edóm, konungar hans og allir höfðingjar, sem þrátt fyrir hreysti sína voru lagðir hjá vopnbitnum mönnum. Þeir liggja hjá óumskornum mönnum og hjá þeim, sem niður eru stignir í gröfina.

30 Þar eru stórhöfðingjar norðursins allir saman og allir Sídoningar, er niður stigu helsærðir. Þrátt fyrir óttann, sem stóð af hreysti þeirra, eru þeir orðnir til skammar. Óumskornir liggja þeir hjá vopnbitnum mönnum og bera vanvirðu sína með þeim, er niður stignir eru í gröfina.

31 Faraó mun sjá þá og huggast yfir öllu glæsiliði sínu. Vopnbitinn er Faraó og allur hans her, _ segir Drottinn Guð.

32 Hann lét eitt sinn standa ógn af sér á landi lifandi manna, þess vegna skal hann lagður verða meðal óumskorinna, hjá vopnbitnum mönnum, Faraó og allt hans glæsilið, _ segir Drottinn Guð."

33 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, tala þú til samlanda þinna og seg við þá: Þegar ég læt sverð koma yfir eitthvert land, og landsmenn taka mann úr sínum hóp og gjöra hann að varðmanni sínum,

og hann sér sverðið koma yfir landið og blæs í lúðurinn og gjörir fólkið vart við, _

ef þá sá, er heyrir lúðurþytinn, vill ekki vara sig, og sverðið kemur og sviptir honum í burt, þá mun blóð hans vera á höfði honum sjálfum.

Hann heyrði lúðurþytinn, en varaði sig þó ekki; blóð hans hvíli á honum. En hinn hefir gjört viðvart og frelsað líf sitt.

En sjái varðmaðurinn sverðið koma, og blæs þó ekki í lúðurinn, svo að fólki er ekki gjört vart við, og sverðið kemur og sviptir einhverjum af þeim burt, þá verður þeim hinum sama burt svipt fyrir sjálfs hans misgjörð, en blóðs hans vil ég krefja af hendi varðmannsins.

Þig, mannsson, hefi ég skipað varðmann fyrir Ísraels hús, til þess að þú varir þá við fyrir mína hönd, er þú heyrir orð af munni mínum.

Þegar ég segi við hinn óguðlega: ,Þú hinn óguðlegi skalt deyja!` og þú segir ekkert til þess að vara hinn óguðlega við breytni hans, þá skal að vísu hinn óguðlegi deyja fyrir misgjörð sína, en blóðs hans vil ég krefja af þinni hendi.

En hafir þú varað hinn óguðlega við breytni hans, að hann skuli láta af henni, en hann lætur samt ekki af breytni sinni, þá skal hann deyja fyrir misgjörð sína, en þú hefir frelsað líf þitt.

10 Mannsson, seg þú við Ísraelsmenn: Þér hafið kveðið svo að orði: ,Afbrot vor og syndir vorar hvíla á oss, og þeirra vegna veslumst vér upp, og hvernig ættum vér þá að geta haldið lífi?`

11 Seg við þá: Svo sannarlega sem ég lifi, _ segir Drottinn Guð _ hefi ég ekki þóknun á dauða hins óguðlega, heldur að hinn óguðlegi hverfi frá breytni sinni og haldi lífi. Snúið yður, snúið yður frá yðar vondu breytni! Hví viljið þér deyja, Ísraelsmenn?

12 En þú, mannsson, seg við samlanda þína: Ráðvendni hins ráðvanda skal ekki frelsa hann á þeim degi, er hann misgjörir, og guðleysi hins óguðlega skal ekki fella hann á þeim degi, er hann hverfur frá guðleysi sínu, og hinn ráðvandi skal ekki heldur fá lífi haldið fyrir ráðvendni sína á þeim degi, er hann syndgar.

13 Þegar ég segi við hinn ráðvanda: ,Þú skalt vissulega lífi halda!` og hann reiðir sig á ráðvendni sína og fremur glæp, þá skulu ráðvendniverk hans eigi til álita koma, heldur skal hann deyja fyrir glæpinn, sem hann hefir drýgt.

14 Og þegar ég segi við hinn óguðlega: ,Þú skalt vissulega deyja!` og hann lætur af synd sinni og iðkar rétt og réttlæti,

15 skilar aftur veði, endurgreiðir það, er hann hefir rænt, breytir eftir þeim boðorðum, er leiða til lífsins, svo að hann fremur engan glæp, þá skal hann lífi halda og ekki deyja.

16 Allar þær syndir, er hann hefir áður drýgt, skulu honum ekki tilreiknaðar verða. Hann hefir iðkað rétt og réttlæti, hann skal lífi halda!

17 Og samt segja samlandar þínir: ,Atferli Drottins er ekki rétt!` Og það er þó atferli þeirra, sem ekki er rétt.

18 Ef ráðvandur maður hverfur frá ráðvendni sinni og fremur glæp, þá skal hann deyja fyrir það.

19 Og ef óguðlegur maður hverfur frá guðleysi sínu og iðkar rétt og réttlæti, þá skal hann lífi halda fyrir það.

20 Og samt segið þér: ,Atferli Drottins er ekki rétt!` Sérhvern yðar mun ég dæma eftir breytni hans, þér Ísraelsmenn!"

21 Á tólfta árinu eftir að vér vorum herleiddir, fimmta dag hins tíunda mánaðar kom til mín flóttamaður frá Jerúsalem með þau tíðindi: "Borgin er unnin!"

22 En hönd Drottins hafði komið yfir mig kveldið áður en flóttamaðurinn kom, og Guð hafði lokið upp munni mínum áður en hinn kom til mín um morguninn. Munnur minn var upp lokinn, og ég þagði eigi lengur.

23 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

24 "Mannsson, þeir sem búa í þessum borgarrústum í Ísraelslandi segja: ,Abraham var ekki nema einn og þó fékk hann landið til eignar, en vér erum margir, oss var landið gefið til eignar.`

25 Seg því við þá: Svo segir Drottinn Guð: Þér etið fórnarkjöt á fjöllunum og hefjið augu yðar til skurðgoðanna og úthellið blóði, og þér viljið eiga landið!

26 Þér reiðið yður á sverð yðar, þér hafið svívirðing í frammi, þér smánið hver annars konu, og þér viljið eiga landið!

27 Þú skalt mæla þannig til þeirra: Svo segir Drottinn Guð: Svo sannarlega sem ég lifi, þeir sem hafast við í rústunum, skulu falla fyrir sverði, þá sem eru úti á bersvæði, gef ég villidýrunum að fæðslu, og þeir sem hafast við í klettavígjum og hellum, skulu deyja af drepsótt.

28 Og ég skal gjöra landið að auðn og öræfum, og úti er um þess dýrlega skraut, og Ísraels fjöll skulu í eyði liggja, svo að enginn fer þar um.

29 Og þeir munu viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar ég gjöri landið að auðn og öræfum vegna allra þeirra svívirðinga, er þeir hafa framið.

30 Mannsson, samlandar þínir tala sín á milli um þig hjá veggjunum og við húsdyrnar, og segja hver við annan: ,Komið og heyrið, hvaða orð kemur frá Drottni!`

31 Og þeir koma til þín í hópum og sitja frammi fyrir þér, en þegar þeir hafa heyrt orð þín, þá breyta þeir ekki eftir þeim. Því að lygi er í munni þeirra, en hjarta þeirra eltir fégróðann.

32 Og sjá, þú ert þeim eins og ástarkvæði, eins og sá, er hefir fagra söngrödd og vel leikur á strengina: Þeir hlusta á orð þín, en breyta ekki eftir þeim.

33 En þegar það kemur fram, og það kemur vissulega fram, þá munu þeir viðurkenna, að spámaður var meðal þeirra."

34 Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, spá þú um Ísraels hirða, spá þú og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Vei hirðum Ísraels, er héldu sjálfum sér til haga. Eiga ekki hirðarnir að halda sauðunum til haga?

Mjólkurinnar neyttuð þér, klædduð yður af ullinni, slátruðuð alifénu, en sauðunum hafið þér eigi haldið til haga.

Þér komuð ekki þrótti í veiku skepnurnar og læknuðuð ekki hið sjúka, bunduð ekki um hið limlesta, sóttuð ekki það, er hrakist hafði, og leituðuð ekki hins týnda, heldur drottnuðuð þér yfir þeim með hörku og grimmd.

Og fyrir því tvístruðust þeir, af því að enginn var hirðirinn, og urðu öllum dýrum merkurinnar að bráð.

Sauðir mínir ráfuðu um öll fjöll og allar háar hæðir, sauðir mínir voru tvístraðir um allt landið, og enginn skeytti um þá og enginn leitaði þeirra.

Heyrið því orð Drottins, þér hirðar!

Svo sannarlega sem ég lifi, _ segir Drottinn Guð: Vissulega, af því að sauðir mínir urðu að herfangi og af því að sauðir mínir urðu öllum dýrum merkurinnar að bráð, með því að enginn var hirðirinn og með því að hirðar mínir skeyttu eigi um sauði mína, _ því að hirðarnir héldu sjálfum sér til haga, en sauðum mínum héldu þeir ekki til haga _

fyrir því heyrið orð Drottins, þér hirðar!

10 Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég skal finna hirðana og ég skal krefja sauða minna af hendi þeirra og gjöra enda á fjárgæslu þeirra. Og hirðarnir skulu ekki lengur halda sjálfum sér til haga, heldur skal ég hrífa sauði mína úr munni þeirra, svo að þeir verði þeim eigi framar að bráð.

11 Svo segir Drottinn Guð: Hér er ég sjálfur og mun leita sauða minna og annast þá.

12 Eins og hirðir annast hjörð sína þann dag, sem hann er á meðal hinna tvístruðu sauða sinna, þannig mun ég annast sauði mína og heimta þá úr öllum þeim stöðum, þangað sem þeir hröktust í þokunni og dimmviðrinu.

13 Og ég mun sækja þá til þjóðanna og saman safna þeim úr löndunum og leiða þá inn í land þeirra og halda þeim til haga á Ísraels fjöllum, í dölunum og á öllum byggðum bólum í landinu.

14 Ég mun halda þeim í góðu haglendi, og beitiland þeirra mun vera á háfjöllum Ísraels. Þar munu þeir liggja í góðu beitilandi og ganga í feitu haglendi á Ísraels fjöllum.

15 Ég mun sjálfur halda sauðum mínum til haga og sjálfur bæla þá, segir Drottinn Guð.

16 Ég mun leita að hinu týnda og sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og koma þrótti í hið veika, en varðveita hið feita og sterka. Ég mun halda þeim til haga, eins og vera ber.

17 En þér, sauðir mínir, _ svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég dæmi milli kindar og kindar, milli hrúta og hafra.

18 Nægir yður ekki að ganga í hinu besta haglendi, nema þér fótum troðið það, sem eftir er af haglendi yðar? Nægir yður ekki að drekka tæra vatnið, nema þér gruggið upp það, sem eftir er, með fótum yðar?

19 Og svo verða sauðir mínir að bíta það, sem þér hafið troðið með fótum yðar, og drekka það, sem þér hafið gruggað upp með fótum yðar.

20 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, hér er ég sjálfur og dæmi milli hinnar feitu og hinnar mögru kindar.

21 Af því að þér hrunduð öllum veiku skepnunum með síðum og öxlum og stönguðuð þær með hornum yðar, uns þér fenguð hrakið þær út,

22 þá vil ég nú hjálpa sauðum mínum, svo að þeir verði eigi framar að herfangi, og ég mun dæma milli kindar og kindar.

23 Og ég mun skipa yfir þá einkahirði, hann mun halda þeim til haga, þjón minn Davíð. Hann mun halda þeim til haga og hann mun vera þeim hirðir.

24 Og ég Drottinn, mun vera Guð þeirra, og þjónn minn Davíð mun vera höfðingi meðal þeirra. Ég, Drottinn, hefi talað það.

25 Og ég mun gjöra friðarsáttmála við þá og reka öll illdýri úr landinu, svo að þeir skulu óhultir búa mega í eyðimörkinni og sofa í skógunum.

26 Og ég mun gjöra þá og landið umhverfis hæð mína að blessun, og ég mun láta steypiregnið niður falla á sínum tíma, það skulu verða blessunarskúrir.

27 Og tré merkurinnar munu bera sinn ávöxt, og jörðin mun bera sinn gróða, og þeir munu búa óhultir á sinni jörð og viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar ég sundurbrýt oktré þeirra og frelsa þá undan valdi þeirra, er þá hafa þrælkað.

28 Og þeir skulu ekki framar verða þjóðunum að herfangi, né heldur skulu villidýrin rífa þá í sig, en þeir skulu búa óhultir og enginn skelfa þá.

29 Og ég mun láta til verða handa þeim vel ræktaðan gróðurreit og alls engir munu framar farast af hungri í landinu, og þeir skulu ekki framar liggja undir ámæli þjóðanna.

30 Og þeir skulu viðurkenna, að ég, Drottinn, Guð þeirra, er með þeim, og að þeir, Ísraelsmenn, eru mín þjóð, _ segir Drottinn Guð.

31 En þér eruð mínir sauðir. Mín gæsluhjörð eruð þér. Ég er yðar Guð, _ segir Drottinn Guð."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes