A A A A A
Bible Book List

Esekíel 11-13 Icelandic Bible (ICELAND)

11 Og andinn hóf mig upp og flutti mig að austurhliði musteris Drottins, sem horfir mót austri. Þar stóðu fyrir dyrum hliðsins tuttugu og fimm menn, og á meðal þeirra sá ég Jaasanja Assúrsson og Pelatja Benajason, foringja lýðsins.

Þá sagði hann við mig: "Mannsson, það eru þessir menn, sem hafa illt í huga og ráða mönnum óheilt í þessari borg.

Þeir segja: ,Hafa ekki húsin nýlega verið endurreist? Borgin er potturinn, en vér erum kjötið.`

Spá þú þess vegna móti þeim, spá þú, mannsson!"

Þá kom andi Drottins yfir mig og sagði við mig: "Seg þú: Svo segir Drottinn: Svo segið þér, Ísraelsmenn, og ég þekki hugrenningar yðar.

Marga menn yðar hafið þér drepið í þessari borg og þér hafið fyllt stræti hennar vegnum mönnum.

Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Þeir menn, sem þér hafið lagt að velli í borginni, þeir eru kjötið og borgin er potturinn. En þér munuð fluttir verða burt úr henni.

Við sverðið eruð þér hræddir, og sverðið skal ég láta yfir yður koma, segir Drottinn Guð.

Og ég skal færa yður burt úr borginni og selja yður útlendum mönnum í hendur og framkvæma dóma meðal yðar.

10 Fyrir sverði skuluð þér falla, í Ísraelslandi skal ég dæma yður, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn.

11 Borgin skal ekki verða yður að potti og þér skuluð ekki verða kjöt í henni, í Ísraelslandi skal ég dæma yður.

12 Þá skuluð þér viðurkenna, að ég er Drottinn. En mínum boðorðum hafið þér ekki hlýtt og mína setninga hafið þér ekki haldið, heldur hafið þér breytt eftir setningum heiðnu þjóðanna, sem umhverfis yður eru."

13 Meðan ég spáði þannig, féll Pelatja Benajason dauður niður. Þá féll ég fram á ásjónu mína, kallaði upp hárri röddu og sagði: "Æ, Drottinn Guð, ætlar þú að gjöreyða öllum eftirleifum Ísraels?"

14 Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

15 "Mannsson, um bræður þína, bræður þína, þá menn, er með þér voru herleiddir, og gjörvallan Ísraels lýð, segja Jerúsalembúar: ,Þeir eru langt í burtu frá Drottni, oss er landið gefið til eignar!`

16 Fyrir því skalt þú segja: Svo segir Drottinn Guð: Já, ég hefi rekið þá langt burt til heiðinna þjóða og dreift þeim út um löndin, og ég varð þeim skamma hríð að helgidómi í löndum þeim, sem þeir eru komnir til.

17 Fyrir því skalt þú segja: Svo segir Drottinn Guð: Ég vil safna yður saman frá þjóðunum og stefna yður saman frá löndunum, þangað sem yður var dreift, og gefa yður Ísraelsland.

18 Þangað munu þeir komast og útrýma þaðan öllum viðurstyggðum þess og öllum svívirðingum þess.

19 Og ég mun gefa þeim nýtt hjarta og leggja þeim nýjan anda í brjóst. Ég mun taka steinhjartað úr líkama þeirra og gefa þeim hjarta af holdi,

20 til þess að þeir hlýði boðorðum mínum og varðveiti setninga mína og breyti eftir þeim. Og þá skulu þeir vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð.

21 En þessir _ hjarta þeirra eltir viðurstyggðir þeirra og andstyggðir. Ég skal láta athæfi þeirra koma þeim í koll, segir Drottinn Guð."

22 Nú hófu kerúbarnir vængi sína og hjólin færðust til samtímis þeim, en dýrð Ísraels Guðs var uppi yfir þeim.

23 Og dýrð Drottins hóf sig upp frá borginni og staðnæmdist á fjallinu, sem er fyrir austan borgina.

24 Og andinn hóf mig upp og flutti mig í sýninni, fyrir Guðs anda, til hinna herleiddu í Kaldealandi. Og sýnin, sem ég hafði séð, leið upp frá mér.

25 Því næst flutti ég hinum herleiddu öll orð Drottins, þau er hann hafði birt mér.

12 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, þú býr á meðal þverúðugs lýðs, meðal manna, sem hafa augu til að sjá með, en sjá þó ekki, eyru til að heyra með, en heyra þó ekki, því að þverúðugur lýður eru þeir.

En þú, mannsson, haf til ferðatæki þín og legg af stað um hádag í augsýn þeirra, og þú skalt fara burt þaðan, sem þú nú býr, á annan stað, að þeim ásjáandi, ef vera mætti að augu þeirra lykjust upp, því að þeir eru þverúðugur lýður.

Þú skalt færa út föng þín svo sem önnur ferðatæki um hádag í augsýn þeirra, en sjálfur skalt þú út fara að kveldi að þeim ásjáandi, eins og þegar útlegðarmenn fara burt.

Brjót þú gat á vegginn í augsýn þeirra og gakk þar út um.

Þú skalt bera föng þín á öxlinni í augsýn þeirra, þú skalt fara út í myrkri og hylja ásjónu þína og ekki sjá landið. Því að ég gjöri þig að tákni fyrir Ísraels lýð."

Ég gjörði sem mér var boðið: Ég færði föng mín út svo sem önnur ferðatæki um hádag, og að kveldi braut ég með hendinni gat á vegginn. Ég fór út í myrkri og bar þau á öxlinni í augsýn þeirra.

En morguninn eftir kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

"Þú mannsson, hafa þeir ekki sagt við þig, Ísraelsmenn, hinn þverúðugi lýður: ,Hvað ertu að gjöra?`

10 Seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Þetta guðmæli á við höfðingjann í Jerúsalem og alla Ísraelsmenn, þá sem eru meðal yðar.

11 Seg: Ég er yður tákn. Eins og ég hefi gjört, svo mun með þá farið verða: Þeir munu fara í útlegð, herleiddir verða.

12 Og höfðinginn, sem meðal þeirra er, mun taka föng sín á öxl sér og fara út í myrkri. Hann mun brjóta gat á vegginn til þess að fara þar út um, hann mun hylja ásjónu sína, til þess að hann sjái ekki landið.

13 Og ég mun kasta yfir hann neti mínu, og hann mun veiddur verða í veiðarfæri mín, og ég mun flytja hann til Babýlon, til Kaldealands. Það land skal hann ekki sjá, og þó mun hann þar deyja.

14 Og öllu því, sem umhverfis hann er, fulltingjurum hans og gjörvöllum herflokkum hans, mun ég tvístra í allar áttir og vera á hælum þeim með brugðið sverð.

15 Og þá skulu þeir kannast við, að ég er Drottinn, er ég dreifi þeim meðal heiðnu þjóðanna og tvístra þeim út um löndin.

16 Og ég læt aðeins fáeina menn af þeim komast undan sverðinu, hungrinu og drepsóttinni, til þess að þeir segi frá öllum svívirðingum sínum meðal þjóðanna, sem þeir koma til, og þeir skulu kannast við, að ég er Drottinn."

17 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

18 "Mannsson, et brauð þitt með hræðslu og drekk vatn þitt með skjálfta og angist

19 og seg við landslýðinn: Svo segir Drottinn Guð um þá, sem búa í Jerúsalem í Ísraelslandi! Þeir munu eta brauð sitt með angist og drekka vatn sitt með skelfingu, til þess að land hennar leggist í auðn og verði svipt gæðum sínum, sakir glæps þess, er allir íbúar þess í frammi hafa.

20 Byggðar borgir skulu í eyði leggjast og landið verða að öræfum, og þá skuluð þér kannast við, að ég er Drottinn."

21 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

22 "Mannsson, hvaða orðtak er þetta, sem þér hafið í Ísraelslandi, er þér segið: ,Tíminn dregst, og allar vitranir reynast marklausar`?

23 Seg því við þá: Svo segir Drottinn Guð: Ég mun gjöra enda á þessu orðtaki, og menn munu eigi framar nota það í Ísrael. Seg þeim þar í móti: ,Tíminn er nálægur og allar vitranir rætast.`

24 Því að hér eftir skal engin hégómasýn eða hræsnispádómur stað hafa meðal Ísraelsmanna,

25 því að ég, Drottinn, mun tala það orð, er ég vil tala, og það mun koma fram. Það mun ekki dragast lengur, því að á yðar dögum, þverúðuga kynslóð, mun ég tala orð og framkvæma það" _ segir Drottinn Guð.

26 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

27 "Mannsson, sjá, Ísraelsmenn segja: ,Sýnin, sem hann sér, á sér langan aldur, og hann spáir langt fram í ókomnar tíðir.`

28 Seg því við þá: Svo segir Drottinn Guð: Á engu mínu orði mun framar frestur verða. Því orði, er ég tala, mun framgengt verða _ segir herrann Drottinn."

13 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, spá þú gegn spámönnum Ísraels, þeim er spá, og seg við spámennina, sem spá frá eigin brjósti: Heyrið orð Drottins!

Svo segir Drottinn Guð: Vei hinum heimsku spámönnum, sem fara eftir hugarburði sjálfra sín og því, er þeir hafa ekki séð.

Spámenn þínir, Ísrael, eru sem refir í rústabrotum.

Þér hafið ekki gengið fram í vígskörðin og þér hafið engan virkisgarð hlaðið í kringum Ísraels hús, til þess að standast í stríðinu á degi Drottins.

Þeir sáu hégómasýnir og fóru með lygispádóma, þeir er sögðu: ,Drottinn segir,` þótt Drottinn hefði ekki sent þá, og væntu síðan að orðin mundu rætast.

Eru það ekki hégómasýnir, sem þér hafið séð, og lygispádómar, sem þér hafið farið með og segið þó: ,Drottinn segir,` þótt ég hafi eigi talað?

Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Með því að þér talið hégóma og sjáið lygar, þá skal ég láta yður kenna á því _ segir Drottinn Guð.

Og hönd mín skal vera upp í móti þeim spámönnum, sem sjá hégómasýnir og fara með lygispádóma. Þeir skulu eigi vera í félagi þjóðar minnar og eigi vera ritaðir á skrá Ísraels húss, og inn í Ísraelsland skulu þeir ekki koma, og þannig skuluð þér kannast við, að ég er Drottinn.

10 Fyrir þá sök og vegna þess að þeir hafa leitt lýð minn í villu með því að segja: ,Heill!` þar sem engin heill var, og þegar þeir hlóðu vegg, riðu þeir kalki á hann,

11 þá seg þú kölkurunum, _ því hann skal hrynja: Sjá, ég mun láta koma steypiregn, sem skolar honum burt, haglsteinar skulu niður falla og stormbylur á skella.

12 Þá hrynur veggurinn. Mun þá ekki verða við yður sagt: ,Hvar er nú kalkið, er þér riðuð á vegginn?`

13 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Í heift minni skal ég láta stormbyl á skella, og dynjandi steypiregn skal á koma vegna reiði minnar, og haglsteinar vegna heiftar minnar til algjörðrar tortímingar.

14 Ég skal brjóta niður vegginn, sem þér hafið kalkað, og bylta honum til jarðar, svo að undirstaða hans komi í ljós. Og hann mun hrynja, og þér munuð verða á milli og viðurkenna, að ég er Drottinn.

15 Og ég vil úthella allri reiði minni yfir vegginn og yfir þá, sem riðu kalki á hann, og ég mun segja við yður: Horfinn er veggurinn og horfnir eru þeir, sem riðu hann kalki,

16 spámenn Ísraels, sem spá fyrir Jerúsalem og þykjast sjá heillasýnir henni til handa, þar sem þó engin heill er _ segir Drottinn Guð.

17 En þú, mannsson, snú nú augliti þínu gegn dætrum þjóðar þinnar, þeim er spá eftir eigin hugboði, og spá þú móti þeim

18 og seg: Svo segir Drottinn Guð: Vei þeim, sem sauma bindi fyrir alla úlnliði og búa til skýlur fyrir höfuð manna, hvers vaxtar sem er, til þess að veiða sálir. Hvort ætlið þér að veiða sálir hjá þjóð minni og halda lífinu í sálum yður til handa?

19 Þér vanhelgið mig hjá þjóð minni fyrir nokkra hnefa af byggi og nokkra brauðbita til þess að deyða sálir, sem ekki eiga að deyja, og halda lífinu í sálum, sem ekki eiga að lifa, með því að ljúga að þjóð minni, sem hlustar á lygar.

20 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, ég skal hafa hendur á bindum yðar, þeim er þér veiðið með sálir, og ég skal slíta þau af armleggjum yðar og láta lausar sálir þær, er þér veiðið, sem væru þær fuglar.

21 Og ég skal slíta sundur skýlur yðar og frelsa lýð minn úr yðar höndum, svo að þeir séu ekki lengur veiðifang í yðar höndum, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn.

22 Vegna þess að þér hrellið hjarta hins ráðvanda með lygum, þar sem ég vildi þó eigi hafa hrellt hann, og af því að þér styrkið hendur hins óguðlega, til þess að hann snúi sér ekki frá sinni vondu breytni og forði lífi sínu,

23 þess vegna skuluð þér ekki framar sjá hégómasýnir og ekki framar fara með lygispádóma. Ég vil frelsa lýð minn af yðar höndum, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Hið almenna bréf Jakobs 1 Icelandic Bible (ICELAND)

Jakob, þjónn Guðs og Drottins Jesú Krists, heilsar þeim tólf kynkvíslum í dreifingunni.

Álítið það, bræður mínir, eintómt gleðiefni, er þér ratið í ýmiss konar raunir.

Þér vitið, að trúarstaðfesta yðar vekur þolgæði,

en þolgæðið á að birtast í fullkomnu verki, til þess að þér séuð fullkomnir og algjörir og yður sé í engu ábótavant.

Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast.

En hann biðji í trú, án þess að efast. Sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi.

Sá maður, tvílyndur og reikull á öllum vegum sínum, má eigi ætla,

að hann fái nokkuð hjá Drottni.

Lágt settur bróðir hrósi sér af upphefð sinni,

10 en auðugur af lægingu sinni, því hann mun líða undir lok eins og blóm á engi.

11 Sólin kemur upp með steikjandi hita og brennir grasið, og blóm þess dettur af og fegurð þess verður að engu. Þannig mun og hinn auðugi maður visna upp á vegum sínum.

12 Sæll er sá maður, sem stenst freistingu, því að þegar hann hefur reynst hæfur mun hann öðlast kórónu lífsins, sem Guð hefur heitið þeim er elska hann.

13 Enginn má segja, er hann verður fyrir freistingu: "Guð freistar mín." Guð getur eigi orðið fyrir freistingu af hinu illa, enda freistar hann sjálfur einskis manns.

14 Það er eigin girnd, sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir.

15 Þegar girndin síðan er orðin þunguð, elur hún synd, og þegar syndin er orðin fullþroskuð, fæðir hún dauða.

16 Villist ekki, bræður mínir elskaðir!

17 Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að og kemur niður frá föður ljósanna. Hjá honum er engin umbreyting né skuggar, sem koma og fara.

18 Eftir ráðsályktun sinni fæddi hann oss með orði sannleikans, til þess að vér skyldum vera frumgróði sköpunar hans.

19 Vitið, bræður mínir elskaðir: Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði.

20 Því að reiði manns ávinnur ekki það, sem rétt er fyrir Guði.

21 Leggið því af hvers konar saurugleik og alla vonsku og takið með hógværð á móti hinu gróðursetta orði, er frelsað getur sálir yðar.

22 Verðið gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þér sjálfa yður.

23 Því að ef einhver er heyrandi orðsins og ekki gjörandi, þá er hann líkur manni, er skoðar andlit sitt í spegli.

24 Hann skoðar sjálfan sig, fer burt og gleymir jafnskjótt, hvernig hann var.

25 En sá sem skyggnist inn í hið fullkomna lögmál frelsisins og heldur sér við það og gleymir ekki því, sem hann heyrir, heldur framkvæmir það, hann mun sæll verða í verkum sínum.

26 Sá sem þykist vera guðrækinn, en hefur ekki taumhald á tungu sinni, blekkir sjálfan sig og guðrækni hans er fánýt.

27 Hrein og flekklaus guðrækni fyrir Guði og föður er þetta, að vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingu þeirra og varðveita sjálfan sig óflekkaðan af heiminum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes