A A A A A
Bible Book List

Önnur bók Móse 9-11 Icelandic Bible (ICELAND)

Því næst sagði Drottinn við Móse: "Gakk fyrir Faraó og seg við hann: ,Svo segir Drottinn, Guð Hebrea: Gef fólki mínu fararleyfi, að þeir megi þjóna mér.

En synjir þú þeim fararleyfis, og haldir þú þeim enn lengur,

sjá, þá skal hönd Drottins koma yfir kvikfénað þinn, sem er í haganum, yfir hesta og asna og úlfalda, nautpening og sauðfé, með harla þungum faraldri.

Og Drottinn mun gjöra þann mun á kvikfénaði Ísraelsmanna og kvikfénaði Egypta, að engin skepna skal deyja af öllu því, sem Ísraelsmenn eiga."`

Og Drottinn tók til ákveðinn tíma og sagði: "Á morgun mun Drottinn láta þetta fram fara í landinu."

Og Drottinn lét þetta fram fara að næsta morgni. Dó þá allur kvikfénaður Egypta, en engin skepna dó af fénaði Ísraelsmanna.

Þá sendi Faraó menn, og sjá: Engin skepna hafði farist af fénaði Ísraelsmanna. En hjarta Faraós var ósveigjanlegt, og hann gaf fólkinu eigi fararleyfi.

Því næst sagði Drottinn við Móse og Aron: "Takið handfylli ykkar af ösku úr ofninum, og skal Móse dreifa henni í loft upp að Faraó ásjáandi.

Skal hún þá verða að dufti um allt Egyptaland, en af því skal koma bólga, sem brýst út í kýli, bæði á mönnum og fénaði um allt Egyptaland."

10 Þeir tóku þá ösku úr ofninum og gengu fyrir Faraó. Dreifði þá Móse öskunni í loft upp, og kom þá á menn og fénað bólga, sem braust út í kýli.

11 En spásagnamennirnir gátu ekki komið á fund Móse sökum bólgunnar, því að bólga kom á spásagnamennina, eins og á alla Egypta.

12 En Drottinn herti hjarta Faraós, og hann hlýddi þeim ekki, eins og Drottinn hafði sagt Móse.

13 Þá mælti Drottinn við Móse: "Rís upp árla á morgun, gakk fyrir Faraó og seg við hann: ,Svo segir Drottinn, Guð Hebrea: Gef fólki mínu fararleyfi, að þeir megi þjóna mér.

14 Því að í þetta sinn ætla ég að senda allar plágur mínar yfir þig sjálfan, yfir þjóna þína og yfir fólk þitt, svo að þú vitir, að enginn er minn líki á allri jörðinni.

15 Því að ég hefði þegar getað rétt út hönd mína og slegið þig og fólk þitt með drepsótt, svo að þú yrðir afmáður af jörðinni.

16 En þess vegna hefi ég þig standa látið, til þess að ég sýndi þér mátt minn og til þess að nafn mitt yrði kunngjört um alla veröld.

17 Þú stendur enn í móti fólki mínu með því að vilja ekki gefa þeim fararleyfi.

18 Sjá, á morgun í þetta mund vil ég láta dynja yfir svo stórfellt hagl, að aldrei hefir slíkt komið á Egyptalandi, síðan landið varð til og allt til þessa dags.

19 Fyrir því send nú og tak sem skjótast inn fénað þinn og allt það, er þú átt úti. Allir menn og skepnur, sem úti verða staddar og ekki eru í hús inn látnar og fyrir haglinu verða, munu deyja."`

20 Sérhver af þjónum Faraós, sem óttaðist orð Drottins, hýsti inni hjú sín og fénað.

21 En þeir, sem ekki gáfu gaum að orðum Drottins, létu hjú sín og fénað vera úti.

22 Þá sagði Drottinn við Móse: "Rétt hönd þína til himins og þá skal hagl drífa yfir allt Egyptaland, yfir menn og skepnur, og yfir allan jarðargróða í Egyptalandi."

23 Þá lyfti Móse staf sínum til himins, og Drottinn lét þegar koma reiðarþrumur og hagl. Og eldingum laust á jörð niður, og Drottinn lét hagl dynja yfir Egyptaland.

24 Og haglið dundi og eldingunum laust í sífellu niður innan um haglið, er var svo geysistórt, að slíkt hafði ekki komið á öllu Egyptalandi síðan það byggðist.

25 Og haglið laust til bana allt það, sem úti var í öllu Egyptalandi, bæði menn og skepnur, og haglið lamdi allan jarðargróða og braut hvert tré merkurinnar.

26 Aðeins í Gósenlandi, þar sem Ísraelsmenn bjuggu, kom ekkert hagl.

27 Þá sendi Faraó og lét kalla þá Móse og Aron og sagði við þá: "Að þessu sinni hefi ég syndgað. Drottinn er réttlátur, en ég og mitt fólk höfum á röngu að standa.

28 Biðjið til Drottins. Nóg er komið af reiðarþrumum og hagli. Vil ég þá gefa yður fararleyfi, og skuluð þér ekki bíða lengur."

29 Móse svaraði honum: "Jafnskjótt sem ég er kominn út úr borginni, skal ég fórna höndum til Drottins, og mun þá reiðarþrumunum linna og hagl ekki framar koma, svo að þú vitir, að jörðin tilheyrir Drottni.

30 Og veit ég þó, að þú og þjónar þínir óttast ekki enn Drottin Guð."

31 Hör og bygg var niður slegið, því að öx voru komin á byggið og knappar á hörinn.

32 En hveiti og speldi var ekki niður slegið, því að þau koma seint upp.

33 Því næst gekk Móse burt frá Faraó og út úr borginni og fórnaði höndum til Drottins. Linnti þá reiðarþrumunum og haglinu, og regn streymdi ekki lengur niður á jörðina.

34 En er Faraó sá, að regninu, haglinu og reiðarþrumunum linnti, hélt hann áfram að syndga og herti hjarta sitt, hann og þjónar hans.

35 Og hjarta Faraós harðnaði, og hann gaf Ísraelsmönnum eigi fararleyfi, eins og Drottinn hafði sagt fyrir munn Móse.

10 Því næst sagði Drottinn við Móse: "Gakk inn fyrir Faraó, því að ég hefi hert hjarta hans og hjörtu þjóna hans til þess að ég fremji þessi tákn mín meðal þeirra

og til þess að þú getir sagt börnum þínum og barnabörnum frá því, hvernig ég hefi farið með Egypta, og frá þeim táknum, sem ég hefi á þeim gjört, svo að þér vitið, að ég er Drottinn."

Síðan gengu þeir Móse og Aron inn fyrir Faraó og sögðu við hann: "Svo segir Drottinn, Guð Hebrea: ,Hve lengi vilt þú færast undan að auðmýkja þig fyrir mér?

Gef fólki mínu fararleyfi, að þeir megi þjóna mér, því að færist þú undan að leyfa fólki mínu að fara, þá skal ég á morgun láta engisprettur færast inn yfir landamæri þín.

Og þær skulu hylja yfirborð landsins, svo að ekki skal sjást til jarðar. Skulu þær upp eta leifarnar, sem bjargað var og þér eigið eftir óskemmdar af haglinu, og naga öll tré yðar, sem spretta á mörkinni.

Þær skulu fylla hús þín og hús allra þjóna þinna og hús allra Egypta, og hafa hvorki feður þínir né feður feðra þinna séð slíkt, frá því þeir fæddust í heiminn og allt til þessa dags."` Síðan sneri hann sér við og gekk út frá Faraó.

Þá sögðu þjónar Faraós við hann: "Hversu lengi á þessi maður að verða oss að meini? Gef mönnunum fararleyfi, að þeir megi þjóna Drottni Guði sínum! Veistu ekki enn, að Egyptaland er í eyði lagt?"

Þá voru þeir Móse og Aron sóttir aftur til Faraós og sagði hann við þá: "Farið og þjónið Drottni Guði yðar! En hverjir eru það, sem ætla að fara?"

Móse svaraði: "Vér ætlum að fara með börn vor og gamalmenni. Með sonu vora og dætur, sauðfé vort og nautgripi ætlum vér að fara, því að vér eigum að halda Drottni hátíð."

10 En hann sagði við þá: "Svo framt sé Drottinn með yður, sem ég gef yður og börnum yðar fararleyfi! Sannlega hafið þér illt í huga.

11 Eigi skal svo vera. Farið þér karlmennirnir og þjónið Drottni, því að um það hafið þér beðið." Síðan voru þeir reknir út frá Faraó.

12 Þá mælti Drottinn við Móse: "Rétt út hönd þína yfir Egyptaland, svo að engisprettur komi yfir landið og upp eti allan jarðargróða, allt það, sem haglið eftir skildi."

13 Þá rétti Móse út staf sinn yfir Egyptaland. Og Drottinn lét austanvind blása inn yfir landið allan þann dag og alla nóttina, en með morgninum kom austanvindurinn með engispretturnar.

14 Engispretturnar komu yfir allt Egyptaland, og mesti aragrúi af þeim kom niður í öllum héruðum landsins. Hafði aldrei áður verið slíkur urmull af engisprettum, og mun ekki hér eftir verða.

15 Þær huldu allt landið, svo að hvergi sá til jarðar, og þær átu allt gras jarðarinnar og allan ávöxt trjánna, sem haglið hafði eftir skilið, svo að í öllu Egyptalandi varð ekkert grænt eftir, hvorki á trjánum né á jurtum merkurinnar.

16 Þá gjörði Faraó í skyndi boð eftir Móse og Aroni og sagði: "Ég hefi syndgað á móti Drottni Guði yðar, og á móti yður.

17 En fyrirgefið mér synd mína aðeins í þetta sinn og biðjið Drottin, Guð yðar, að hann fyrir hvern mun létti þessari voðaplágu af mér."

18 Síðan gekk hann út frá Faraó og bað til Drottins.

19 Þá sneri Drottinn veðrinu í mjög hvassan vestanvind, sem tók engispretturnar og fleygði þeim í Rauðahafið, svo að ekki var eftir ein engispretta nokkurs staðar í Egyptalandi.

20 En Drottinn herti hjarta Faraós, svo að hann leyfði ekki Ísraelsmönnum burt að fara.

21 Því næst sagði Drottinn við Móse: "Rétt hönd þína til himins, og skal þá koma þreifandi myrkur yfir allt Egyptaland."

22 Móse rétti þá hönd sína til himins, og varð þá niðamyrkur í öllu Egyptalandi í þrjá daga.

23 Enginn sá annan, og enginn hreyfði sig, þaðan sem hann var staddur, í þrjá daga, en bjart var hjá öllum Ísraelsmönnum, í híbýlum þeirra.

24 Þá lét Faraó kalla Móse og sagði: "Farið og þjónið Drottni, látið aðeins sauðfénað yðar og nautgripi eftir verða. Börn yðar mega einnig fara með yður."

25 En Móse svaraði: "Þú verður einnig að fá oss dýr til sláturfórnar og brennifórnar, að vér megum fórnir færa Drottni Guði vorum.

26 Kvikfé vort skal og fara með oss, ekki skal ein klauf eftir verða, því að af því verðum vér að taka til þess að þjóna Drottni Guði vorum. En eigi vitum vér, hverju vér skulum fórnfæra Drottni, fyrr en vér komum þangað."

27 En Drottinn herti hjarta Faraós og hann vildi ekki gefa þeim fararleyfi.

28 Og Faraó sagði við hann: "Haf þig á burt frá mér og varast að koma oftar fyrir mín augu, því að á þeim degi, sem þú kemur í augsýn mér, skaltu deyja."

29 Móse svaraði: "Rétt segir þú. Ég skal aldrei framar koma þér fyrir augu."

11 Þá sagði Drottinn við Móse: "Ég vil enn láta eina plágu koma yfir Faraó og Egyptaland. Eftir það mun hann leyfa yður að fara héðan. Þegar hann gefur yður fullt fararleyfi, þá mun hann jafnvel reka yður burt héðan.

Seg nú í áheyrn fólksins, að hver maður skuli biðja granna sinn og hver kona grannkonu sína um silfurgripi og gullgripi."

Drottinn lét fólkið öðlast hylli Egypta, enda var Móse mjög mikils virtur maður í Egyptalandi, bæði af þjónum Faraós og lýðnum.

Þá sagði Móse: "Svo segir Drottinn: ,Um miðnætti vil ég ganga mitt í gegnum Egyptaland,

og þá skulu allir frumburðir í Egyptalandi deyja, frá frumgetnum syni Faraós, sem situr í hásæti sínu, til frumgetnings ambáttarinnar, sem stendur við kvörnina, og allir frumburðir fénaðarins.

Þá skal verða svo mikið harmakvein um allt Egyptaland, að jafnmikið hefir ekki verið og mun aldrei verða.

En eigi skal svo mikið sem rakki gelta að nokkrum Ísraelsmanna, hvorki að mönnum né skepnum, svo að þér vitið, að Drottinn gjörir greinarmun á Ísraelsmönnum og Egyptum.

Þá skulu allir þessir þjónar þínir koma til mín, falla til jarðar fyrir mér og segja: Far þú á burt og allt það fólk, sem þér fylgir, _ og eftir það mun ég á burt fara."` Síðan gekk hann út frá Faraó og var hinn reiðasti.

En Drottinn sagði við Móse: "Faraó mun ekki láta að orðum yðar, svo að stórmerki mín verði mörg í Egyptalandi."

10 En þeir Móse og Aron gjörðu öll þessi stórmerki fyrir Faraó. En Drottinn herti hjarta Faraós, og ekki leyfði hann Ísraelsmönnum að fara burt úr landi sínu.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Matteusarguðspjall 15:21-39 Icelandic Bible (ICELAND)

21 Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar.

22 Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: "Miskunna þú mér, herra, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda."

23 En hann svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: "Láttu hana fara, hún eltir oss með hrópum."

24 Hann mælti: "Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt."

25 Konan kom, laut honum og sagði: "Herra, hjálpa þú mér!"

26 Hann svaraði: "Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana."

27 Hún sagði: "Satt er það, herra, þó eta hundarnir mola þá, sem falla af borðum húsbænda þeirra."

28 Þá mælti Jesús við hana: "Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt." Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.

29 Þaðan fór Jesús og kom að Galíleuvatni. Og hann gekk upp á fjall og settist þar.

30 Menn komu til hans hópum saman og höfðu með sér halta menn og blinda, fatlaða, mállausa og marga aðra og lögðu þá fyrir fætur hans, og hann læknaði þá.

31 Fólkið undraðist, þegar það sá mállausa mæla, fatlaða heila, halta ganga og blinda sjá. Og þeir lofuðu Guð Ísraels.

32 Jesús kallaði til sín lærisveina sína og sagði: "Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Þeir hafa nú hjá mér verið þrjá daga og hafa ekkert til matar. Ég vil ekki láta þá fara fastandi frá mér, þeir gætu örmagnast á leiðinni."

33 Lærisveinarnir sögðu: "Hvar fáum vér nóg brauð til að metta allt þetta fólk hér í óbyggðum?"

34 Jesús spyr: "Hve mörg brauð hafið þér?" Þeir svara: "Sjö, og fáeina smáfiska."

35 Þá bauð hann fólkinu að setjast á jörðina,

36 tók brauðin sjö og fiskana, gjörði þakkir og braut þau og gaf lærisveinunum, en lærisveinarnir fólkinu.

37 Allir neyttu og urðu mettir. Síðan tóku þeir saman leifarnar, sjö körfur fullar.

38 En þeir, sem neytt höfðu, voru fjórar þúsundir karlmanna auk kvenna og barna.

39 Síðan lét hann fólkið fara, sté í bátinn og kom í Magadanbyggðir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes