Add parallel Print Page Options

34 Drottinn sagði við Móse: "Högg þér tvær töflur af steini, eins og hinar fyrri voru. Mun ég þá rita á töflurnar þau orð, sem stóðu á hinum fyrri töflunum, er þú braust í sundur.

Og ver búinn á morgun og stíg árla upp á Sínaífjall og kom þar til mín uppi á fjallstindinum.

Enginn maður má fara upp þangað með þér, og enginn má heldur láta sjá sig nokkurs staðar á fjallinu. Eigi mega heldur sauðir eða naut vera á beit uppi undir fjallinu."

Þá hjó Móse tvær töflur af steini, eins og hinar fyrri. Og hann reis árla næsta morgun og gekk upp á Sínaífjall eins og Drottinn hafði boðið honum og tók í hönd sér báðar steintöflurnar.

Þá steig Drottinn niður í skýi, en staðnæmdist þar hjá honum og kallaði nafn Drottins.

Drottinn gekk fram hjá honum og kallaði: "Drottinn, Drottinn, miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur,

sem auðsýnir gæsku þúsundum og fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir, en lætur þeirra þó eigi með öllu óhegnt, heldur vitjar misgjörða feðranna á börnum og barnabörnum, já í þriðja og fjórða lið."

Móse féll þá skjótlega til jarðar og tilbað.

Og hann sagði: "Hafi ég, Drottinn, fundið náð í augum þínum, þá fari Drottinn með oss, því að þetta er harðsvíraður lýður. En fyrirgef oss misgjörðir vorar og syndir, og gjör oss að þinni eign."

10 Drottinn sagði: "Sjá, ég gjöri sáttmála. Í augsýn alls þíns fólks vil ég gjöra þau undur, að ekki hafa slík verið gjörð í nokkru landi eða hjá nokkurri þjóð, og skal allt fólkið, sem þú ert hjá, sjá verk Drottins, því að furðulegt er það, sem ég mun við þig gjöra.

11 Gæt þess, sem ég býð þér í dag: Sjá, ég vil stökkva burt undan þér Amorítum, Kanaanítum, Hetítum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum.

12 Varast þú að gjöra nokkurn sáttmála við íbúa lands þess, sem þú kemur til, svo að þeir verði þér ekki að tálsnöru, ef þeir búa á meðal þín,

13 heldur skuluð þér rífa niður ölturu þeirra, brjóta í sundur merkissteina þeirra og höggva niður asérur þeirra.

14 Þú skalt eigi tilbiðja neinn annan guð, því að Drottinn nefnist vandlætari. Vandlátur Guð er hann.

15 Varast að gjöra nokkurn sáttmála við íbúa landsins, því að þeir munu taka fram hjá með guðum sínum og þeir munu færa fórnir guðum sínum, og þér mun verða boðið og þú munt eta af fórnum þeirra.

16 Og þú munt taka dætur þeirra handa sonum þínum, og dætur þeirra munu taka fram hjá með guðum sínum og tæla syni þína til að taka fram hjá með guðum þeirra.

17 Þú skalt eigi gjöra þér steypta guði.

18 Þú skalt halda hátíð hinna ósýrðu brauða. Sjö daga skaltu eta ósýrð brauð, eins og ég hefi boðið þér, á ákveðnum tíma í abíb-mánuði, því að í abíb-mánuði fórst þú út af Egyptalandi.

19 Allt það, sem opnar móðurlíf, er mitt, sömuleiðis allur fénaður þinn, sem karlkyns er, frumburðir nauta og sauða.

20 En frumburði undan ösnum skaltu leysa með lambi. Leysir þú ekki, skaltu brjóta þá úr hálsliðum. Alla frumburði sona þinna skaltu leysa, og enginn skal tómhentur koma fyrir auglit mitt.

21 Sex daga skaltu vinna, en hvílast hinn sjöunda dag, þá skaltu hvílast, hvort heldur er plægingartími eða uppskeru.

22 Þú skalt halda viknahátíðina, hátíð frumgróða hveitiuppskerunnar, og uppskeruhátíðina við árslokin.

23 Þrem sinnum á ári skal allt þitt karlkyn birtast frammi fyrir Drottni Guði, Guði Ísraels.

24 Því að ég mun reka heiðingjana burt frá þér og færa út landamerki þín, og enginn skal áseilast land þitt, þegar þú fer upp til að birtast frammi fyrir Drottni Guði þínum þrem sinnum á ári.

25 Þú skalt ekki fram bera blóð fórnar minnar með sýrðu brauði, og páskahátíðarfórnin má ekki liggja til morguns.

26 Hið fyrsta, frumgróða jarðar þinnar, skaltu færa til húss Drottins Guðs þíns. Þú skalt ekki sjóða kið í mjólk móður sinnar."

27 Drottinn sagði við Móse: "Skrifa þú upp þessi orð, því að samkvæmt þessum orðum hefi ég gjört sáttmála við þig og við Ísrael."

28 Og Móse var þar hjá Drottni fjörutíu daga og fjörutíu nætur og át ekki brauð og drakk ekki vatn. Og hann skrifaði á töflurnar orð sáttmálans, tíu boðorðin.

29 En er Móse gekk ofan af Sínaífjalli, og hann hafði báðar sáttmálstöflurnar í hendi sér, þegar hann gekk ofan af fjallinu, þá vissi Móse ekki að geislar stóðu af andlitshörundi hans, af því að hann hafði talað við Drottin.

30 Og Aron og allir Ísraelsmenn sáu Móse, og sjá: Geislar stóðu af andlitshörundi hans. Þorðu þeir þá ekki að koma nærri honum.

31 En Móse kallaði á þá, og sneru þeir þá aftur til hans, Aron og allir leiðtogar safnaðarins, og talaði Móse við þá.

32 Eftir það gengu allir Ísraelsmenn til hans, og bauð hann þeim að halda allt það, sem Drottinn hafði við hann talað á Sínaífjalli.

33 Er Móse hafði lokið máli sínu við þá, lét hann skýlu fyrir andlit sér.

34 En er Móse gekk fram fyrir Drottin til þess að tala við hann, tók hann skýluna frá, þar til er hann gekk út aftur. Því næst gekk hann út og flutti Ísraelsmönnum það, sem honum var boðið.

35 Sáu Ísraelsmenn þá andlit Móse, hversu geislar stóðu af andlitshörundi hans. Lét Móse þá skýluna aftur fyrir andlit sér, þar til er hann gekk inn til þess að tala við Guð.

35 Móse stefndi saman öllum söfnuði Ísraelsmanna og sagði við þá: "Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið að gjöra:

,Sex daga skal verk vinna, en sjöundi dagurinn skal vera yður helgur hvíldardagur, hátíðarhvíld Drottins. Hver sem verk vinnur á þeim degi, skal líflátinn verða.

Hvergi skuluð þér kveikja upp eld í híbýlum yðar á hvíldardegi."`

Móse talaði til alls safnaðar Ísraelsmanna og mælti: "Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið:

,Færið Drottni gjöf af því, sem þér eigið. Hver sá, er gefa vill af fúsum huga, beri fram gjöf Drottni til handa: gull, silfur og eir;

bláan purpura, rauðan purpura, skarlat, baðmull og geitahár;

rauðlituð hrútskinn, höfrungaskinn og akasíuvið;

olíu til ljósastikunnar, kryddjurtir til smurningarolíu og ilmreykelsis;

sjóamsteina og steina til legginga á hökulinn og brjóstskjöldinn.

10 Og allir hagleiksmenn meðal yðar komi og búi til allt það, sem Drottinn hefir boðið:

11 búðina, tjöldin yfir hana, þak hennar, króka, borð, slár, stólpa og undirstöður,

12 örkina og stengurnar, er henni fylgja, lokið og fortjaldsdúkbreiðuna,

13 borðið og stengurnar, er því fylgja, öll áhöld þess og skoðunarbrauðin,

14 ljósastikuna, áhöld þau og lampa, er henni fylgja, og olíu til ljósastikunnar,

15 reykelsisaltarið og stengurnar, er því fylgja, smurningarolíuna, ilmreykelsið og dúkbreiðuna fyrir dyrnar, fyrir dyr búðarinnar,

16 brennifórnaraltarið og eirgrindina, sem því fylgir, stengur þess og öll áhöld, og kerið með stétt þess,

17 tjöld forgarðsins, stólpa hans með undirstöðum og dúkbreiðuna fyrir hlið forgarðsins,

18 hæla búðarinnar og hæla forgarðsins og þau stög, sem þar til heyra,

19 glitklæðin til embættisgjörðar í helgidóminum, hin helgu klæði Arons prests og prestsþjónustuklæði sona hans."`

20 Því næst gekk allur söfnuður Ísraelsmanna burt frá Móse.

21 Komu þá allir, sem gáfu af fúsum huga og með ljúfu geði, og færðu Drottni gjafir til að gjöra af samfundatjaldið og allt það, sem þurfti til þjónustugjörðarinnar í því og til hinna helgu klæða.

22 Og þeir komu, bæði menn og konur, allir þeir, sem fúsir voru að gefa, og færðu spangir, eyrnagull, hringa, hálsmen og alls konar gullgripi, svo og hver sá, er færa vildi Drottni gull að fórnargjöf.

23 Og hver maður, sem átti í eigu sinni bláan purpura, rauðan purpura, skarlat, baðmull, geitahár, rauðlituð hrútskinn og höfrungaskinn, bar það fram.

24 Og hver sem bar fram silfur og eir að fórnargjöf, færði það Drottni að fórnargjöf, og hver sem átti í eigu sinni akasíuvið til hvers þess smíðis, er gjöra skyldi, bar hann fram.

25 Og allar hagvirkar konur spunnu með höndum sínum og báru fram spuna sinn: bláan purpura, rauðan purpura, skarlat og baðmull.

26 Og allar konur, sem til þess voru fúsar og höfðu kunnáttu til, spunnu geitahár.

27 En foringjarnir færðu sjóamsteina og steina til legginga á hökulinn og brjóstskjöldinn,

28 og kryddjurtir og olíu til ljósastikunnar og til smurningarolíu og ilmreykelsis.

29 Ísraelsmenn færðu Drottni þessar gjafir sjálfviljuglega, hver maður og hver kona, er fúslega vildi láta eitthvað af hendi rakna til alls þess verks, er Drottinn hafði boðið Móse að gjöra.

30 Móse sagði við Ísraelsmenn: "Sjáið, Drottinn hefir kvatt til Besalel Úríson, Húrssonar, af Júda ættkvísl

31 og fyllt hann Guðs anda, bæði vísdómi, skilningi, kunnáttu og hvers konar hagleik,

32 til þess að upphugsa listaverk og smíða úr gulli, silfri og eiri

33 og skera steina til greypingar og til tréskurðar, til þess að vinna að hvers konar hagvirki.

34 Hann hefir og gefið honum þá gáfu að kenna öðrum, bæði honum og Oholíab Akísamakssyni af Dans ættkvísl.

35 Hann hefir fyllt þá hugviti til alls konar útskurðar, listvefnaðar, glitvefnaðar af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og baðmull, og til dúkvefnaðar, svo að þeir geta framið alls konar iðn og upphugsað listaverk.

23 Sama dag komu til hans saddúkear, en þeir neita því, að upprisa sé til, og sögðu við hann:

24 "Meistari, Móse segir: ,Deyi maður barnlaus, þá skal bróðir hans ganga að eiga konu bróður síns og vekja honum niðja.`

25 Hér voru með oss sjö bræður. Sá fyrsti kvæntist og dó. Hann átti engan niðja og eftirlét því bróður sínum konuna.

26 Eins varð um næsta og þriðja og þá alla sjö.

27 Síðast allra dó konan.

28 Kona hvers þeirra sjö verður hún í upprisunni? Allir höfðu þeir átt hana."

29 En Jesús svaraði þeim: "Þér villist, því að þér þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs.

30 Í upprisunni kvænast menn hvorki né giftast. Þeir eru sem englar á himni.

31 En um upprisu dauðra hafið þér ekki lesið það sem Guð segir við yður:

32 ,Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.` Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda."

33 En mannfjöldinn hlýddi á og undraðist mjög kenningu hans.

34 Þegar farísear heyrðu, að hann hafði gjört saddúkea orðlausa, komu þeir saman.

35 Og einn þeirra, sem var lögvitringur, vildi freista hans og spurði:

36 "Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?"

37 Hann svaraði honum: ",Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.`

38 Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.

39 Annað er þessu líkt: ,Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.`

40 Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir."

41 Meðan farísearnir voru saman komnir, spurði Jesús þá:

42 "Hvað virðist yður um Krist? Hvers son er hann?" Þeir svara: "Davíðs."

43 Hann segir: "Hvernig getur þá Davíð, innblásinn andanum, kallað hann drottin? Hann segir:

44 Drottinn sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar, þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni.

45 Fyrst Davíð kallar hann drottin, hvernig getur hann þá verið sonur hans?"

46 Enginn gat svarað honum einu orði, og frá þeim degi þorði enginn að spyrja hann neins framar.

Read full chapter