Add parallel Print Page Options

16 Því næst héldu þeir af stað frá Elím, og allur söfnuður Ísraelsmanna kom til Sín-eyðimerkur, sem liggur milli Elím og Sínaí, á fimmtánda degi hins annars mánaðar eftir burtför þeirra úr Egyptalandi.

Þá möglaði allur söfnuður Ísraelsmanna gegn Móse og Aroni í eyðimörkinni.

Og Ísraelsmenn sögðu við þá: "Betur að vér hefðum dáið fyrir hendi Drottins í Egyptalandi, er vér sátum við kjötkatlana og átum oss sadda af brauði, því að þið hafið farið með oss út á þessa eyðimörk til þess að láta allan þennan mannfjölda deyja af hungri."

Þá sagði Drottinn við Móse: "Sjá, ég vil láta rigna brauði af himni handa yður, og skal fólkið fara út og safna hvern dag svo miklu sem þarf þann daginn, svo að ég reyni það, hvort það vill breyta eftir mínu lögmáli eða ekki.

Og er þeir þá á hinum sjötta degi tilreiða það, sem þeir koma heim með, skal það vera tvöfalt við það, sem þeir annars safna daglega."

Þá sögðu Móse og Aron við alla Ísraelsmenn: "Í kveld skuluð þér viðurkenna, að Drottinn hefir leitt yður út af Egyptalandi.

Og á morgun skuluð þér sjá dýrð Drottins, með því að hann hefir heyrt möglanir yðar gegn Drottni. Því að hvað erum við, að þér möglið gegn okkur?"

Og Móse sagði: "Þetta verður, þegar Drottinn gefur yður að kveldi kjöt að eta og brauð til saðnings að morgni, því að Drottinn hefir heyrt möglanir yðar, sem þér beinið gegn honum. Því að hvað erum við? Þér möglið ekki gegn okkur, heldur gegn Drottni."

Og Móse sagði við Aron: "Seg við allan söfnuð Ísraelsmanna: ,Gangið nær í augsýn Drottins, því að hann hefir heyrt möglanir yðar."`

10 Og er Aron talaði þetta til alls safnaðar Ísraelsmanna, sneru þeir sér í móti eyðimörkinni, og sjá, dýrð Drottins birtist í skýinu.

11 Drottinn talaði við Móse og sagði:

12 "Ég hefi heyrt möglanir Ísraelsmanna. Tala til þeirra og seg: ,Um sólsetur skuluð þér kjöt eta, og að morgni skuluð þér fá saðning yðar af brauði, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn, Guð yðar."`

13 Um kveldið bar svo við, að lynghæns komu og huldu búðirnar, en um morguninn var döggmóða umhverfis búðirnar.

14 En er upp létti döggmóðunni, lá eitthvað þunnt, smákornótt yfir eyðimörkinni, þunnt eins og héla á jörðu.

15 Þegar Ísraelsmenn sáu þetta, sögðu þeir hver við annan: "Hvað er þetta?" Því að þeir vissu ekki, hvað það var. Þá sagði Móse við þá: "Þetta er brauðið, sem Drottinn gefur yður til fæðu.

16 En þessi er skipun Drottins: ,Safnið því, eftir því sem hver þarf að eta. Þér skuluð taka einn gómer á mann eftir fólksfjölda yðar, hver handa þeim, sem hann hefir í tjaldi sínu."`

17 Og Ísraelsmenn gjörðu svo, og söfnuðu sumir meira, sumir minna.

18 En er þeir mældu það í gómer-máli, hafði sá ekkert afgangs, sem miklu hafði safnað, og þann skorti ekki, sem litlu hafði safnað, heldur hafði hver safnað eftir því sem hann þurfti sér til fæðu.

19 Móse sagði við þá: "Enginn má leifa neinu af því til morguns."

20 En þeir hlýddu ekki Móse, heldur leifðu sumir nokkru af því til morguns. En þá kviknuðu maðkar í því, svo að það fúlnaði, og varð Móse þá reiður þeim.

21 Þeir söfnuðu því þá hvern morgun, hver eftir því sem hann þurfti sér til fæðu. En þegar sólin skein heitt, bráðnaði það.

22 En á sjötta deginum söfnuðu þeir tvöfalt meira af brauði, tvo gómera á mann. Komu þá allir foringjar lýðsins og sögðu Móse frá.

23 En hann sagði við þá: "Þetta er það, sem Drottinn sagði: ,Á morgun er hvíldardagur, heilagur hvíldardagur Drottins. Bakið það, sem þér viljið baka, og sjóðið það, sem þér viljið sjóða, en allt það, sem af gengur, skuluð þér leggja fyrir og geyma til morguns."`

24 Þeir lögðu það þá fyrir til næsta morguns, eins og Móse bauð, og fúlnaði það ekki né maðkaði.

25 Þá sagði Móse: "Í dag skuluð þér eta það, því að í dag er hvíldardagur Drottins. Í dag finnið þér það ekki á mörkinni.

26 Sex daga skuluð þér safna því, en sjöundi dagurinn er hvíldardagur, þá mun ekkert finnast."

27 Og sjöunda daginn gengu nokkrir af fólkinu út til að safna, en fundu ekkert.

28 Drottinn sagði við Móse: "Hversu lengi tregðist þér við að varðveita boðorð mín og lög?

29 Lítið á! Vegna þess að Drottinn hefir gefið yður hvíldardaginn, þess vegna gefur hann yður sjötta daginn brauð til tveggja daga. Haldi hver maður kyrru fyrir á sínum stað, enginn fari að heiman á sjöunda deginum."

30 Og fólkið hvíldist á hinum sjöunda degi.

31 Ísraelsmenn kölluðu þetta brauð manna. Það líktist kóríanderfræi, var hvítt og á bragðið sem hunangskaka.

32 Móse sagði: "Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið: ,Fyllið einn gómer af því til þess að geyma það handa eftirkomendum yðar, svo að þeir sjái það brauð, sem ég gaf yður að eta í eyðimörkinni, er ég leiddi yður út af Egyptalandi."`

33 Þá sagði Móse við Aron: "Tak eitt ker og lát í það fullan gómer af manna, og legg það til geymslu frammi fyrir Drottni, svo að það varðveitist handa eftirkomendum yðar."

34 Aron lagði það fyrir framan sáttmálið, til þess að það væri þar geymt, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

35 Ísraelsmenn átu manna í fjörutíu ár, uns þeir komu í byggt land. Þeir átu manna, uns þeir komu að landamærum Kanaanlands.

36 En gómer er tíundi partur af efu.

17 Allur söfnuður Ísraelsmanna tók sig nú upp frá Sín-eyðimörk, og fóru þeir í áföngum að boði Drottins og settu herbúðir sínar í Refídím. En þar var ekkert vatn handa fólkinu að drekka.

Þá þráttaði fólkið við Móse og sagði: "Gef oss vatn að drekka!" En Móse sagði við þá: "Hví þráttið þér við mig? Hví freistið þér Drottins?"

Og fólkið þyrsti þar eftir vatni, og fólkið möglaði gegn Móse og sagði: "Hví fórstu með oss frá Egyptalandi til þess að láta oss og börn vor og fénað deyja af þorsta?"

Þá hrópaði Móse til Drottins og sagði: "Hvað skal ég gjöra við þetta fólk? Það vantar lítið á að þeir grýti mig."

En Drottinn sagði við Móse: "Gakk þú fram fyrir fólkið og tak með þér nokkra af öldungum Ísraels, og tak í hönd þér staf þinn, er þú laust með ána, og gakk svo af stað.

Sjá, ég mun standa frammi fyrir þér þar á klettinum á Hóreb, en þú skalt ljósta á klettinn, og mun þá vatn spretta af honum, svo að fólkið megi drekka."

Og Móse gjörði svo í augsýn öldunga Ísraels. Og hann kallaði þennan stað Massa og Meríba sökum þráttanar Ísraelsmanna, og fyrir því að þeir höfðu freistað Drottins og sagt: "Hvort mun Drottinn vera meðal vor eður ekki?"

Þá komu Amalekítar og áttu orustu við Ísraelsmenn í Refídím.

Þá sagði Móse við Jósúa: "Vel oss menn og far út og berst við Amalekíta. Á morgun mun ég standa efst uppi á hæðinni og hafa staf Guðs í hendi mér."

10 Jósúa gjörði sem Móse hafði sagt honum og lagði til orustu við Amalekíta, en þeir Móse, Aron og Húr gengu efst upp á hæðina.

11 Þá gjörðist það, að alla þá stund, er Móse hélt uppi hendi sinni, veitti Ísraelsmönnum betur, en þegar er hann lét síga höndina, veitti Amalekítum betur.

12 En með því að Móse urðu þungar hendurnar, tóku þeir stein og létu undir hann, og settist hann á steininn, en þeir Aron og Húr studdu hendur hans, sinn á hvora hlið, og héldust þannig hendur hans stöðugar allt til sólarlags.

13 En Jósúa lagði Amalekíta og lið þeirra að velli með sverðseggjum.

14 Þá sagði Drottinn við Móse: "Rita þú þetta í bók til minningar og gjör Jósúa það hugfast, því að ég vil vissulega afmá nafn Amalekíta af jörðinni."

15 Og Móse reisti þar altari og nefndi það "Jahve-nisí".

16 Og hann sagði: "Með upplyftri hendi að hásæti Drottins sver ég: ,Ófrið mun Drottinn heyja við Amalekíta frá kyni til kyns."`

18 Er Jetró prestur í Midíanslandi, tengdafaðir Móse, heyrði allt það, sem Guð hafði gjört Móse og lýð sínum Ísrael, að Drottinn hafði leitt Ísrael út af Egyptalandi,

þá tók Jetró, tengdafaðir Móse, Sippóru konu Móse, en hann hafði sent hana aftur,

og tvo sonu hennar. Hét annar Gersóm, því að hann hafði sagt: "Gestur er ég í ókunnu landi."

Hinn hét Elíeser, því að hann hafði sagt: "Guð föður míns var mín hjálp, og hann frelsaði mig frá sverði Faraós."

En er Jetró, tengdafaðir Móse, kom með sonu hans og konu til hans í eyðimörkina, þar sem hann hafði sett búðir sínar hjá Guðs fjalli,

þá lét hann segja Móse: "Ég, Jetró, tengdafaðir þinn, er kominn til þín, og kona þín og báðir synir hennar með henni."

Gekk þá Móse út á móti tengdaföður sínum, laut honum og kyssti hann. Og þegar þeir höfðu heilsast, gengu þeir inn í tjaldið.

Og Móse sagði tengdaföður sínum frá öllu því, sem Drottinn hafði gjört Faraó og Egyptum fyrir sakir Ísraels, frá öllum þeim þrautum, sem þeim höfðu mætt á leiðinni, og hversu Drottinn hafði frelsað þá.

Og Jetró gladdist af öllum þeim velgjörðum, sem Drottinn hafði auðsýnt Ísrael, þar sem hann hafði frelsað hann undan valdi Egypta.

10 Og Jetró sagði: "Lofaður sé Drottinn fyrir það, að hann frelsaði yður undan valdi Egypta og undan valdi Faraós, fyrir það, að hann frelsaði fólkið undan valdi Egypta.

11 Nú veit ég, að Drottinn er öllum guðum meiri, því að hann lét Egyptum hefnast fyrir ofdramb þeirra gegn Ísraelsmönnum."

12 Þá tók Jetró, tengdafaðir Móse, brennifórn og sláturfórnir Guði til handa. Kom þá Aron og allir öldungar Ísraels, til þess að matast með tengdaföður Móse frammi fyrir Guði.

13 Daginn eftir settist Móse til að mæla lýðnum lögskil, og stóð fólkið frammi fyrir Móse frá morgni til kvelds.

14 En er tengdafaðir Móse sá allt það, sem hann gjörði við fólkið, þá sagði hann: "Hvað er þetta, sem þú gjörir við fólkið? Hvers vegna situr þú einn saman, en allt fólkið stendur frammi fyrir þér frá morgni til kvelds?"

15 Móse svaraði tengdaföður sínum: "Fólkið kemur til mín til þess að leita Guðs atkvæða.

16 Þegar mál gjörist þeirra á milli, koma þeir á fund minn, og ég dæmi milli manna og kunngjöri lög Guðs og boðorð hans."

17 Þá sagði tengdafaðir Móse við hann: "Eigi er það gott, sem þú gjörir.

18 Bæði þreytist þú og eins fólkið, sem hjá þér er, því að þetta starf er þér um megn, þú fær því ekki afkastað einn saman.

19 Hlýð nú orðum mínum. Ég vil leggja þér ráð, og mun Guð vera með þér. Þú skalt ganga fram fyrir Guð í nafni fólksins og fram bera málin fyrir Guð.

20 Og þú skalt kenna þeim lögin og boðorðin, og sýna þeim þann veg, sem þeir skulu ganga, og þau verk, sem þeir skulu gjöra.

21 Og þú skalt velja meðal alls fólksins dugandi menn og guðhrædda, áreiðanlega menn og ósérplægna, og skipa þá foringja yfir lýðinn, suma yfir þúsund, suma yfir hundrað, suma yfir fimmtíu og suma yfir tíu.

22 Og þeir skulu mæla lýðnum lögskil á öllum tímum. Öll hin stærri mál skulu þeir láta koma fyrir þig, en sjálfir skulu þeir dæma í öllum smærri málum. Skaltu þannig gjöra þér hægra fyrir, og þeir skulu létta undir með þér.

23 Ef þú gjörir þetta, og Guð býður þér það, þá muntu fá risið undir því, og þá mun og allt þetta fólk fara ánægt til heimila sinna."

24 Móse hlýddi orðum tengdaföður síns og gjörði allt, sem hann hafði sagt.

25 Og Móse valdi dugandi menn af öllum Ísraels lýð og skipaði þá foringja yfir lýðinn, suma yfir þúsund, suma yfir hundrað, suma yfir fimmtíu, suma yfir tíu.

26 Og mæltu þeir lýðnum lögskil á öllum tímum. Vandamálunum skutu þeir til Móse, en sjálfir dæmdu þeir í hinum smærri málum.

27 Lét Móse síðan tengdaföður sinn frá sér fara, og hélt hann aftur heim í sitt land.

18 Á þeirri stundu komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu: "Hver er mestur í himnaríki?"

Hann kallaði til sín lítið barn, setti það meðal þeirra

og sagði: "Sannlega segi ég yður: Nema þér snúið við og verðið eins og börn, komist þér aldrei í himnaríki.

Hver sem auðmýkir sjálfan sig eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki.

Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni, tekur við mér.

En hverjum þeim, sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem á mig trúa, væri betra að vera sökkt í sjávardjúp með mylnustein hengdan um háls.

Vei heiminum vegna ginninga hans. Hjá ginningum verður eigi komist, en vei þeim manni, sem veldur.

Ef hönd þín eða fótur tælir þig til falls, þá sníð hann af og kasta frá þér. Betra er þér handarvana eða höltum inn að ganga til lífsins en hafa báðar hendur og báða fætur og verða kastað í hinn eilífa eld.

Og ef auga þitt tælir þig til falls, þá ríf það úr og kasta frá þér. Betra er þér eineygðum inn að ganga til lífsins en hafa bæði augu og verða kastað í eldsvítið.

10 Varist að forsmá nokkurn þessara smælingja. Ég segi yður, að englar þeirra á himnum sjá jafnan auglit míns himneska föður. [

11 Því að Mannssonurinn er kominn að frelsa hið týnda.]

12 Hvað virðist yður? Ef einhver á hundrað sauði og einn þeirra villist frá, skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í fjallinu og fer að leita þess, sem villtur er?

13 Og auðnist honum að finna hann, þá segi ég yður með sanni, að hann fagnar meir yfir honum en þeim níutíu og níu, sem villtust ekki frá.

14 Þannig er það eigi vilji yðar himneska föður, að nokkur þessara smælingja glatist.

15 Ef bróðir þinn syndgar [gegn þér], skaltu fara og tala um fyrir honum, og sé það ykkar einna í milli. Láti hann sér segjast, hefur þú unnið bróður þinn.

16 En láti hann sér ekki segjast, skaltu taka með þér einn eða tvo, að ,hvert orð sé staðfest með framburði tveggja eða þriggja vitna.`

17 Ef hann skeytir þeim ekki, þá seg það söfnuðinum, og skeyti hann ekki söfnuðinum heldur, þá sé hann þér sem heiðingi eða tollheimtumaður.

18 Sannlega segi ég yður: Hvað sem þér bindið á jörðu, mun bundið á himni, og hvað sem þér leysið á jörðu, mun leyst á himni.

19 Enn segi ég yður: Hverja þá bæn, sem tveir yðar verða einhuga um á jörðu, mun faðir minn á himnum veita þeim.

20 Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra."

Read full chapter