Add parallel Print Page Options

Betra er gott mannorð en góð ilmsmyrsl og dauðadagur betri en fæðingardagur.

Betra er að ganga í sorgarhús en að ganga í veislusal, því að það eru endalok sérhvers manns, og sá sem lifir, hugfestir það.

Betri er hryggð en hlátur, því að þegar andlitið er dapurt, líður hjartanu vel.

Hjarta spekinganna er í sorgarhúsi, en hjarta heimskingjanna í gleðihúsi.

Betra er að hlýða á ávítur viturs manns en á söng heimskra manna.

Því að hlátur heimskingjans er eins og þegar snarkar í þyrnum undir potti. Einnig það er hégómi.

Kúgun gjörir vitran mann að heimskingja, og mútur spilla hjartanu.

Betri er endir máls en upphaf, betri er þolinmóður maður en þóttafullur.

Ver þú eigi fljótur til að láta þér gremjast, því að gremja hvílir í brjósti heimskra manna.

10 Seg ekki: Hvernig stendur á því, að hinir fyrri dagar voru betri en þessir? Því að eigi er það af skynsemi, að þú spyr um það.

11 Speki er eins góð og óðal, og ávinningur fyrir þá sem sólina líta.

12 Því að spekin veitir forsælu eins og silfrið veitir forsælu, en yfirburðir þekkingarinnar eru þeir, að spekin heldur lífinu í þeim sem hana á.

13 Skoða þú verk Guðs. Hver getur gjört það beint, er hann hefir gjört bogið?

14 Ver þú í góðu skapi á hinum góða degi, og hugleið þetta á hinum vonda degi: Guð hefir gjört þennan alveg eins og hinn, til þess að maðurinn verði einskis vísari um það sem síðar kemur.

15 Allt hefi ég séð á mínum fánýtu ævidögum: Margur réttlátur maður ferst í réttlæti sínu, og margur guðlaus maður lifir lengi í illsku sinni.

16 Ver þú ekki of réttlátur og sýn þig ekki frábærlega vitran _ hví vilt þú tortíma sjálfum þér?

17 Breyttu eigi of óguðlega og ver þú eigi heimskingi _ hví vilt þú deyja áður en þinn tími er kominn?

18 Það er gott, að þú sért fastheldinn við þetta, en sleppir þó ekki hendinni af hinu, því að sá sem óttast Guð, kemst hjá því öllu.

19 Spekin veitir vitrum manni meiri kraft en tíu valdhafar, sem eru í borginni.

20 Enginn réttlátur maður er til á jörðinni, er gjört hafi gott eitt og aldrei syndgað.

21 Gef þú heldur ekki gaum öllum þeim orðum sem töluð eru, til þess að þú heyrir eigi þjón þinn bölva þér.

22 Því að þú ert þér þess meðvitandi, að þú hefir og sjálfur oftsinnis bölvað öðrum.

23 Allt þetta hefi ég rannsakað með speki. Ég hugsaði: Ég vil verða vitur, en spekin er fjarlæg mér.

24 Fjarlægt er það, sem er, og djúpt, já djúpt. Hver getur fundið það?

25 Ég sneri mér og beindi huga mínum að því að þekkja og rannsaka og leita visku og hygginda og að gera mér ljóst, að guðleysi er heimska og heimska vitleysa.

26 Og ég fann að konan er bitrari en dauðinn, því að hún er net og hjarta hennar snara, hendur hennar fjötrar. Sá sem Guði þóknast, kemst undan henni, en syndarinn verður fanginn af henni.

27 Sjá, þetta hefi ég fundið, segir prédikarinn, með því að leggja eitt við annað til þess að komast að hyggindum.

28 Það sem ég hefi stöðugt leitað að, en ekki fundið, það er þetta: Einn mann af þúsundi hefi ég fundið, en konu á meðal allra þessara hefi ég ekki fundið.

29 Sjá, þetta eitt hefi ég fundið, að Guð hefir skapað manninn beinan, en þeir leita margra bragða.

Hver er sem spekingurinn og hver skilur þýðingu hlutanna? Speki mannsins hýrgar andlit hans, og harkan í svipnum breytist.

Ég segi: Varðveit þú boð konungsins, og það vegna eiðsins við Guð.

Ver þú eigi fljótur til að ganga burt frá honum, gef þig eigi við illu málefni. Því að hann gjörir allt, sem hann vill,

af því að konungsorð er máttugt, og hver segir við hann: Hvað gjörir þú?

Sá sem varðveitir skipunina, mun ekki kenna á neinu illu, og hjarta viturs manns þekkir tíma og dóm.

Því að sérhvert fyrirtæki á sinn tíma og dóm, því að böl mannsins hvílir þungt á honum.

Hann veit ekki, hvað verða muni, því að hver segir honum, hvernig það muni verða?

Enginn maður ræður yfir vindinum, svo að hann geti stöðvað vindinn, og enginn maður hefir vald yfir dauðadeginum, og enginn fær sig lausan úr bardaganum, og óhæfan bjargar ekki þeim, er hana fremur.

Allt þetta hefi ég séð, og það með því að ég veitti athygli öllu því, sem gjörist undir sólinni, þegar einn maðurinn drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.

10 Þá hefi ég séð óguðlega menn jarðaða, en þeir er gjört höfðu það sem rétt var, máttu fara burt frá hinum heilaga stað og gleymdust í borginni. Einnig það er hégómi.

11 Af því að dómi yfir verkum illskunnar er ekki fullnægt þegar í stað, þá svellur mönnum móður til þess að gjöra það sem illt er.

12 Syndarinn gjörir það sem illt er hundrað sinnum og verður samt gamall, þótt ég hins vegar viti, að guðhræddum mönnum, er óttast Guð, muni vel vegna.

13 En hinum guðlausa mun ekki vel vegna, og hann mun ekki verða langlífur fremur en skugginn, af því að hann óttast ekki Guð.

14 Það er hégómi, sem gjörist á jörðinni, að til eru réttlátir menn, sem verða fyrir því, er óguðlegir eiga skilið, og til eru óguðlegir menn, sem verða fyrir því, er réttlátir eiga skilið. Ég sagði: Einnig það er hégómi.

15 Fyrir því lofaði ég gleðina, því að ekkert betra er til fyrir manninn undir sólinni en að eta og drekka og vera glaður. Og það fylgi honum í striti hans um ævidagana, sem Guð hefir gefið honum undir sólinni.

16 Þegar ég lagði allan hug á að kynna mér speki og að sjá það starf, sem framið er á jörðinni _ því að hvorki dag né nótt kemur manni blundur á auga _

17 þá sá ég, að maðurinn getur ekki skilið til fulls allt Guðs verk, það verk sem gjörist undir sólinni, því að hversu mjög sem maðurinn gjörir sér far um að leita, fær hann þó ekki skilið það til fulls, og enda þótt spekingurinn hyggist að þekkja það, þá fær hann eigi skilið það til fulls.

Öllu þessu veitti ég athygli, og allt þetta reyndi ég að rannsaka: Að hinir réttlátu og vitru og verk þeirra eru í hendi Guðs. Hvorki elsku né hatur veit maðurinn fyrir, allt liggur fram undan þeim.

Allt getur alla hent, sömu örlög mæta réttlátum og óguðlegum, góðum og hreinum og óhreinum, þeim er fórnfærir og þeim er ekki fórnfærir. Hinum góða farnast eins og syndaranum, og þeim er sver eins og þeim er óttast svardaga.

Það er ókostur við allt, sem við ber undir sólinni, að sömu örlög mæta öllum, og því fyllist hjarta mannanna illsku, og heimska ríkir í hjörtum þeirra alla ævi þeirra, og síðan liggur leiðin til hinna dauðu.

Því að meðan maður er sameinaður öllum sem lifa, á meðan er von, því að lifandi hundur er betri en dautt ljón.

Því að þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt og hljóta engin laun framar, því að minning þeirra gleymist.

Bæði elska þeirra og hatur og öfund, það er fyrir löngu farið, og þeir eiga aldrei framar hlutdeild í neinu því, sem við ber undir sólinni.

Far því og et brauð þitt með ánægju og drekk vín þitt með glöðu hjarta, því að Guð hefir þegar lengi haft velþóknun á verkum þínum.

Klæði þín séu ætíð hvít og höfuð þitt skorti aldrei ilmsmyrsl.

Njót þú lífsins með þeirri konu, sem þú elskar, alla daga þíns fánýta lífs, sem hann hefir gefið þér undir sólinni, alla þína fánýtu daga, því að það er hlutdeild þín í lífinu og það sem þú fær fyrir strit þitt, sem þú streitist við undir sólinni.

10 Allt, sem hönd þín megnar að gjöra með kröftum þínum, gjör þú það, því að í dánarheimum, þangað sem þú fer, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.

11 Enn sá ég undir sólinni, að hinir fljótu ráða ekki yfir hlaupinu, né kapparnir yfir stríðinu, né heldur spekingarnir yfir brauðinu, né hinir hyggnu yfir auðnum, né vitsmunamennirnir yfir vinsældinni, því að tími og tilviljun mætir þeim öllum.

12 Því að maðurinn þekkir ekki einu sinni sinn tíma: Eins og fiskarnir festast í hinu háskalega neti og eins og fuglarnir festast í snörunni _ á líkan hátt verða mennirnir fangnir á óheillatíð, þá er hún kemur skyndilega yfir þá.

13 Þetta sá ég einnig sem speki undir sólinni, og fannst mér mikið um:

14 Einu sinni var lítil borg og fáir menn í henni. Voldugur konungur fór í móti henni og settist um hana og reisti mikil hervirki gegn henni.

15 En í borginni var fátækur maður, en vitur, og hann bjargaði borginni með viturleik sínum. En enginn maður minntist þessa fátæka manns.

16 Þá hugsaði ég: Viska er betri en afl, en viska fátæks manns er fyrirlitin, og orðum hans er eigi gaumur gefinn.

17 Orð viturra manna, sem hlustað er á í ró, eru betri en óp valdhafans meðal heimskingjanna.

18 Viska er betri en hervopn, en einn syndari spillir mörgu góðu.

13 Þetta er nú í þriðja sinn, sem ég kem til yðar. Því "aðeins skal framburður gildur vera, að tveir eða þrír beri."

Það sem ég sagði yður við aðra komu mína, það segi ég yður nú aftur fjarstaddur, bæði þeim, sem hafa brotlegir orðið, og öðrum: Næsta sinn, sem ég kem, mun ég ekki hlífa neinum,

enda krefjist þér sönnunar þess, að Kristur tali í mér. Hann er ekki veikur gagnvart yður, heldur máttugur á meðal yðar.

Hann var krossfestur í veikleika, en hann lifir fyrir Guðs kraft. Og einnig vér erum veikir í honum, en munum þó lifa með honum fyrir Guðs kraft, sem hann sýnir yður.

Reynið yður sjálfa, hvort þér eruð í trúnni, prófið yður sjálfa. Gjörið þér yður ekki grein fyrir, að Jesús Kristur er í yður? Það skyldi vera, að þér stæðust ekki prófið.

En ég vona, að þér komist að raun um, að vér höfum staðist prófið.

Vér biðjum til Guðs, að þér gjörið ekki neitt illt, ekki til þess að það sýni ágæti vort, heldur til þess að þér gjörið hið góða. Vér gætum eins sýnst óhæfir.

Því að ekki megnum vér neitt gegn sannleikanum, heldur fyrir sannleikann.

Vér gleðjumst, þegar vér erum veikir, en þér eruð styrkir. Það, sem vér biðjum um, er að þér verðið fullkomnir.

10 Þess vegna rita ég þetta fjarverandi, til þess að ég þurfi ekki, þegar ég er kominn, að beita hörku, samkvæmt því valdi, sem Drottinn hefur gefið mér. Það er til uppbyggingar, en ekki til niðurbrots.

11 Að öðru leyti, bræður, verið glaðir. Verið fullkomnir, áminnið hver annan, verið samhuga, verið friðsamir. Þá mun Guð kærleikans og friðarins vera með yður.

12 Heilsið hver öðrum með heilögum kossi. Allir heilagir biðja að heilsa yður.