A A A A A
Bible Book List

Prédikarinn 10-12 Icelandic Bible (ICELAND)

10 Dauðar flugur valda ódaun með því að hleypa ólgu í olíu smyrslarans. Ofurlítill aulaskapur er þyngri á metunum heldur en viska, heldur en sómi.

Hjarta viturs manns stefnir á heillabraut, en hjarta heimskingjans leiðir hann í ógæfu.

Og þegar aulinn er kominn út á veginn, brestur og á vitið, og hann segir við hvern mann, að hann sé auli.

Ef reiði drottnarans rís í gegn þér, þá yfirgef ekki stöðu þína, því að stilling afstýrir stórum glappaskotum.

Til er böl, sem ég hefi séð undir sólinni, nokkurs konar yfirsjón af hálfu valdhafans:

Heimskan er sett í háu stöðurnar, en göfugmennin sitja í niðurlægingu.

Ég sá þræla ríðandi hestum og höfðingja fótgangandi eins og þræla.

Sá sem grefur gröf, getur fallið í hana, og þann sem rífur niður vegg, getur höggormur bitið.

Sá sem sprengir steina, getur meitt sig á þeim, sá sem klýfur við, getur með því stofnað sér í hættu.

10 Ef öxin er orðin sljó og eggin er ekki brýnd, þá verður maðurinn að neyta því meiri orku. Það er ávinningur að undirbúa sérhvað með hagsýni.

11 Ef höggormurinn bítur, af því að særingar hafa verið vanræktar, þá kemur særingamaðurinn að engu liði.

12 Orð af munni viturs manns eru yndisleg, en varir heimskingjans vinna honum tjón.

13 Fyrstu orðin fram úr honum eru heimska, og endir ræðu hans er ill flónska.

14 Heimskinginn talar mörg orð. Og þó veit maðurinn ekki, hvað verða muni. Og hvað verða muni eftir hans dag _ hver segir honum það?

15 Amstur heimskingjans þreytir hann, hann ratar ekki veginn inn í borgina.

16 Vei þér, land, sem hefir dreng að konungi og höfðingjar þínir setjast að áti að morgni dags!

17 Sælt ert þú, land, sem hefir eðalborinn mann að konungi og höfðingjar þínir eta á réttum tíma, sér til styrkingar, en ekki til þess að verða drukknir.

18 Fyrir leti síga bjálkarnir niður, og vegna iðjulausra handa lekur húsið.

19 Til gleðskapar búa menn máltíðir, og vín gjörir lífið skemmtilegt og peningarnir veita allt.

20 Formæl ekki konunginum, jafnvel ekki í huga þínum, og formæl ekki ríkum manni í svefnherbergjum þínum, því að fuglar loftsins kynnu að bera burt hljóðið og hinir vængjuðu að hafa orðin eftir.

11 Varpa þú brauði þínu út á vatnið, því þegar margir dagar eru um liðnir, munt þú finna það aftur.

Skiptu hlutanum sundur í sjö eða jafnvel átta, því að þú veist ekki, hvaða ógæfa muni koma yfir landið.

Þegar skýin eru orðin full af vatni, hella þau regni yfir jörðina. Og þegar tré fellur til suðurs eða norðurs _ á þeim stað, þar sem tréð fellur, þar liggur það kyrrt.

Sá sem sífellt gáir að vindinum, sáir ekki, og sá sem sífellt horfir á skýin, uppsker ekki.

Eins og þú veist ekki, hvaða veg vindurinn fer og hvernig beinin myndast í móðurkviði þungaðrar konu, eins þekkir þú heldur ekki verk Guðs, sem allt gjörir.

Sá sæði þínu að morgni og lát hendur þínar eigi hvílast að kveldi, því að þú veist ekki, hvað muni heppnast, þetta eða hitt, eða hvort tveggja verði gott.

Indælt er ljósið, og ljúft er fyrir augun að horfa á sólina.

Því lifi maðurinn mörg ár, þá á hann að vera glaður öll þau ár og minnast þess, að dagar myrkursins verða margir. Allt sem á eftir kemur er hégómi.

Gleð þig, ungi maður, í æsku þinni, og lát liggja vel á þér unglingsár þín, og breyt þú eins og hjartað leiðir þig og eins og augun girnast, en vit, að fyrir allt þetta leiðir Guð þig fyrir dóm.

10 Og hrind gremju burt frá hjarta þínu og lát eigi böl koma nærri líkama þínum, því að æska og morgunroði lífsins eru hverful.

12 Og mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum, áður en vondu dagarnir koma og þau árin nálgast, er þú segir um: "Mér líka þau ekki" _

áður en sólin myrkvast og ljósið og tunglið og stjörnurnar, og áður en skýin koma aftur eftir regnið _

þá er þeir skjálfa, sem hússins geyma, og sterku mennirnir verða bognir og kvarnarstúlkurnar hafast ekki að, af því að þær eru orðnar fáar, og dimmt er orðið hjá þeim, sem líta út um gluggana,

og dyrunum út að götunni er lokað, og hávaðinn í kvörninni minnkar, og menn fara á fætur við fuglskvak, en allir söngvarnir verða lágværir,

þá menn eru hræddir við hæðir og sjá skelfingar á veginum, og þegar möndlutréð stendur í blóma og engispretturnar dragast áfram og kaper-ber hrífa ekki lengur, því að maðurinn fer burt til síns eilífðar-húss og grátendurnir ganga um strætið _

áður en silfurþráðurinn slitnar og gullskálin brotnar og skjólan mölvast við lindina og hjólið brotnar við brunninn

og moldin hverfur aftur til jarðarinnar, þar sem hún áður var, og andinn til Guðs, sem gaf hann.

Aumasti hégómi, segir prédikarinn, allt er hégómi!

En auk þess sem prédikarinn var spekingur, miðlaði hann og mönnum þekkingu og rannsakaði og kynnti sér og samdi mörg spakmæli.

10 Prédikarinn leitaðist við að finna fögur orð, og það sem hann hefir skrifað í einlægni, eru sannleiksorð.

11 Orð spekinganna eru eins og broddar og kjarnyrðin eins og fastreknir naglar _ þau eru gefin af einum hirði.

12 Og enn fremur, sonur minn, þýðstu viðvaranir. Að taka saman margar bækur, á því er enginn endir, og mikil bókiðn þreytir líkamann.

13 Vér skulum hlýða á niðurlagsorðið í því öllu: Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Bréf Páls til Galatamanna 1 Icelandic Bible (ICELAND)

Páll postuli _ ekki sendur af mönnum né að tilhlutun manns, heldur að tilhlutun Jesú Krists og Guðs föður, sem uppvakti hann frá dauðum _

og allir bræðurnir, sem með mér eru, heilsa söfnuðunum í Galatalandi.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi,

sem gaf sjálfan sig fyrir syndir vorar, til þess að frelsa oss frá hinni yfirstandandi vondu öld, samkvæmt vilja Guðs vors og föður.

Honum sé dýrð um aldir alda, amen.

Mig furðar, að þér svo fljótt látið snúast frá honum, sem kallaði yður í náð Krists, til annars konar fagnaðarerindis,

sem þó er ekki til; heldur eru einhverjir að trufla yður og vilja umhverfa fagnaðarerindinu um Krist.

En þótt jafnvel vér eða engill frá himni færi að boða yður annað fagnaðarerindi en það, sem vér höfum boðað yður, þá sé hann bölvaður.

Eins og vér höfum áður sagt, eins segi ég nú aftur: Ef nokkur boðar yður annað fagnaðarerindi en það, sem þér hafið veitt viðtöku, þá sé hann bölvaður.

10 Er ég nú að reyna að sannfæra menn eða Guð? Er ég að leitast við að þóknast mönnum? Ef ég væri enn að þóknast mönnum, þá væri ég ekki þjónn Krists.

11 Það læt ég yður vita, bræður, að fagnaðarerindið, sem ég hef boðað, er ekki mannaverk.

12 Ekki hef ég tekið við því af manni né látið kenna mér það, heldur fengið það fyrir opinberun Jesú Krists.

13 Þér hafið heyrt um háttsemi mína áður fyrri í Gyðingdóminum, hversu ákaflega ég ofsótti söfnuð Guðs og vildi eyða honum.

14 Ég fór lengra í Gyðingdóminum en margir jafnaldrar mínir meðal þjóðar minnar og var miklu vandlætingasamari um erfikenningu forfeðra minna.

15 En þegar Guði, sem hafði útvalið mig frá móðurlífi og af náð sinni kallað,

16 þóknaðist að opinbera mér son sinn, til þess að ég boðaði fagnaðarerindið um hann meðal heiðingjanna, þá ráðgaðist ég eigi við neinn mann,

17 ekki fór ég heldur upp til Jerúsalem til þeirra, sem voru postular á undan mér, heldur fór ég jafnskjótt til Arabíu og sneri svo aftur til Damaskus.

18 Síðan fór ég eftir þrjú ár upp til Jerúsalem til að kynnast Kefasi og dvaldist hjá honum hálfan mánuð.

19 Engan af hinum postulunum sá ég, heldur aðeins Jakob, bróður Drottins.

20 Guð veit, að ég lýg því ekki, sem ég skrifa yður.

21 Síðan kom ég í héruð Sýrlands og Kilikíu.

22 Ég var persónulega ókunnur kristnu söfnuðunum í Júdeu.

23 Þeir höfðu einungis heyrt sagt: "Sá sem áður ofsótti oss, boðar nú trúna, sem hann áður vildi eyða."

24 Og þeir vegsömuðu Guð vegna mín.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes