Add parallel Print Page Options

19 Þegar Drottinn Guð þinn upprætir þær þjóðir, hverra land Drottinn Guð þinn gefur þér, og er þú hefir lagt þær undir þig og ert setstur að í borgum þeirra og húsum,

þá skalt þú skilja frá þrjár borgir í landi þínu, því er Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar.

Þú skalt leggja veg að þeim og skipta gjörvöllu landi þínu, því er Drottinn Guð þinn lætur þig eignast, í þrjá hluti, og skal það vera til þess að þangað megi flýja hver sá, er mann vegur.

Svo skal vera um veganda þann, er þangað flýr til þess að forða lífi sínu: Ef maður drepur náunga sinn óviljandi og hefir eigi verið óvinur hans áður,

svo sem þegar maður fer með náunga sínum í skóg að fella tré og hann reiðir upp öxina til að höggva tréð, en öxin hrýtur af skaftinu og lendir á náunga hans, svo að hann fær bana af _ sá maður má flýja í einhverja af borgum þessum og forða svo lífi sínu,

til þess að hefndarmaðurinn elti ekki vegandann meðan móðurinn er á honum og nái honum, af því að vegurinn er langur, og drepi hann, þótt hann sé ekki dauðasekur, með því að hann var ekki óvinur hans áður.

Fyrir því býð ég þér og segi: Þú skalt skilja þrjár borgir frá.

Og ef Drottinn Guð þinn færir út landamerki þín, eins og hann hefir svarið feðrum þínum, og hann gefur þér gjörvallt landið, sem hann hét að gefa feðrum þínum,

svo framarlega sem þú gætir þess að halda allar þessar skipanir, sem ég legg fyrir þig í dag, með því að elska Drottin Guð þinn og ganga á hans vegum alla daga, þá skalt þú enn bæta þrem borgum við þessar þrjár,

10 til þess að saklausu blóði verði eigi úthellt í landi þínu, því er Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar, og blóðsök falli eigi á þig.

11 En ef maður hatast við náunga sinn og situr um hann, ræðst á hann og lýstur hann til bana og flýr síðan í einhverja af borgum þessum,

12 þá skulu öldungar þeirrar borgar, er hann á heima í, senda þangað og sækja hann og selja í hendur hefndarmanni til lífláts.

13 Þú skalt ekki líta hann vægðarauga, heldur hreinsa Ísrael af saklausra manna blóði, svo að þér vegni vel.

14 Þú skalt eigi færa úr stað landamerki náunga þíns, þau er forfeðurnir hafa sett, á arfleifð þinni, er þú munt eignast í landinu, sem Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar.

15 Eigi skal eitt vitni koma fram gegn manni, þá er um einhvern glæp eða einhverja synd er að ræða _ hvaða synd sem það nú er, sem hann hefir drýgt. Því aðeins skal framburður gildur vera, að tveir eða þrír vottar beri.

16 Nú rís falsvottur gegn einhverjum og ber á hann lagabrot,

17 og skulu þá báðir þeir, er kærumálið eiga saman, ganga fram fyrir Drottin, fyrir prestana og dómarana, sem þá eru í þann tíma,

18 og dómararnir skulu rannsaka það rækilega, og ef þá reynist svo, að votturinn er ljúgvottur, að hann hefir borið lygar á bróður sinn,

19 þá skuluð þér gjöra svo við hann sem hann hafði hugsað að gjöra við bróður sinn, og þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér.

20 Og hinir munu heyra það og skelfast og eigi framar hafast að slíkt ódæði þín á meðal.

21 Eigi skalt þú líta slíkt vægðarauga: Líf fyrir líf, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hönd fyrir hönd, fót fyrir fót.

20 Þegar þú fer í hernað við óvini þína og þú sér hesta og vagna og liðfleiri her en þú ert, þá skalt þú ekki óttast þá, því að Drottinn Guð þinn er með þér, hann sem leiddi þig burt af Egyptalandi.

Og þegar að því er komið, að þér leggið til orustu, þá skal presturinn ganga fram og mæla til lýðsins

og segja við þá: "Heyr, Ísrael! Þér leggið í dag til orustu við óvini yðar. Látið ekki hugfallast, óttist ekki, skelfist ekki og hræðist þá ekki,

því að Drottinn Guð yðar fer með yður til þess að berjast fyrir yður við óvini yðar og veita yður fulltingi."

Því næst skulu tilsjónarmennirnir mæla til lýðsins og segja: "Hver sá maður, er reist hefir nýtt hús, en hefir ekki vígt það, skal fara og snúa heim aftur, svo að hann falli ekki í orustunni og annar maður vígi það.

Hver sá maður, sem plantað hefir víngarð, en hefir engar hans nytjar haft, skal fara og snúa heim aftur, svo að hann falli ekki í orustunni og annar maður hafi hans not.

Hver sá maður, er fastnað hefir sér konu, en hefir ekki enn gengið að eiga hana, skal fara og snúa heim aftur, svo að hann falli ekki í orustunni og annar maður gangi að eiga hana."

Enn fremur skulu tilsjónarmennirnir mæla til lýðsins og segja: "Hver sá maður, sem hræddur er og hugdeigur, skal fara og snúa heim aftur, svo að bræðrum hans fallist ekki hugur eins og honum."

Og er tilsjónarmennirnir hafa lokið því að mæla til lýðsins, skal skipa hershöfðingja yfir liðið.

10 Þegar þú býst til að herja á borg, þá skalt þú bjóða henni frið.

11 Og ef hún veitir friðsamleg andsvör og lýkur upp fyrir þér, þá skal allur lýðurinn, sem í henni finnst, vera þér ánauðugur og þjóna þér.

12 En vilji hún ekki gjöra frið við þig, heldur eiga ófrið við þig, þá skalt þú setjast um hana,

13 og þegar Drottinn Guð þinn gefur hana í hendur þér, skalt þú deyða með sverðseggjum allt karlkyn, sem í henni er,

14 en konum, börnum og fénaði og öllu, sem er í borginni, öllu herfanginu, mátt þú ræna handa þér og neyta herfangs óvina þinna, þess er Drottinn Guð þinn gefur þér.

15 Svo skalt þú fara með allar þær borgir, sem eru mjög í fjarska við þig og ekki eru af borgum þessara þjóða.

16 En í borgum þessara þjóða, sem Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar, skalt þú enga mannssál láta lífi halda.

17 Miklu fremur skalt þú gjöreyða þeim: Hetítum, Amorítum, Kanaanítum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum, eins og Drottinn Guð þinn hefir fyrir þig lagt,

18 til þess að þeir kenni yður ekki að taka upp allar þær svívirðingar, er þeir hafa í frammi haft guðum sínum til vegsemdar, og þér syndgið gegn Drottni Guði yðar.

19 Þegar þú verður að sitja lengi um einhverja borg til þess að taka hana herskildi, þá skalt þú ekki spilla trjám hennar með því að bera að þeim exi, því að þú getur etið af þeim aldinin, og þú skalt ekki höggva þau, því að hvort munu tré merkurinnar vera menn, svo að þau þurfi að vera í umsát þinni?

20 Þau tré ein, er þú veist að eigi bera æt aldin, þeim mátt þú spilla og höggva þau til þess að reisa úr þeim hervirki gegn borg þeirri, er á í ófriði við þig, uns hún fellur.

21 Ef maður finnst veginn í landi því, er Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar, liggjandi úti á víðavangi, en enginn veit, hver hann hefir drepið,

þá skulu öldungar þínir og dómendur fara út og mæla fjarlægðina til borganna, er liggja hringinn í kringum hinn vegna.

Og sú borg, sem næst er hinum vegna, _ öldungar þeirrar borgar skulu taka kvígu, sem eigi hefir höfð verið til vinnu né gengið hefir undir oki.

Því næst skulu öldungar borgarinnar fara með kvíguna ofan í dal með sírennandi vatni, sem hvorki er yrktur né sáinn, og þar í dalnum skulu þeir brjóta kvíguna úr hálsliðnum.

Þá skulu prestarnir, synir Leví, ganga fram, _ því að þá hefir Drottinn Guð þinn útvalið til að þjóna sér og til þess að blessa í nafni Drottins, og eftir atkvæði þeirra skal skera úr öllum þrætumálum og meiðslamálum _,

og allir öldungar þeirrar borgar, þeir er næstir eru hinum vegna, skulu þvo hendur sínar yfir kvígunni, sem hálsbrotin var í dalnum,

og þeir skulu taka til orða og segja: "Vorar hendur hafa ekki úthellt þessu blóði og augu vor hafa ekki séð það.

Fyrirgef, Drottinn, lýð þínum, Ísrael, er þú hefir leyst, og lát ekki lýð þinn Ísrael gjalda saklauss blóðs!" Og þeim skal blóðsökin upp gefin verða.

Þannig skalt þú hreinsa þig af saklausra manna blóði, svo að þér vegni vel, er þú gjörir það sem rétt er í augum Drottins.

10 Þegar þú fer í hernað við óvini þína og Drottinn Guð þinn gefur þá í hendur þér og þú hertekur fólk meðal þeirra,

11 og þú sér meðal hinna herteknu konu fríða sýnum og fellir hug til hennar og vilt taka hana þér fyrir konu,

12 þá skalt þú leiða hana inn í hús þitt, og hún skal raka höfuð sitt og skera neglur sínar

13 og fara úr fötum þeim, er hún var hernumin í. Síðan skal hún dvelja í húsi þínu og gráta föður sinn og móður heilan mánuð. Eftir það mátt þú ganga inn til hennar og samrekkja henni og hún vera kona þín.

14 En fari svo, að þú hafir eigi lengur þokka til hennar, þá skalt þú láta hana algjörlega lausa og mátt alls eigi selja hana við verði. Þú skalt ekki fara með hana sem ambátt, fyrir því að þú hefir spjallað hana.

15 Ef maður á tvær konur, og hefir mætur á annarri en lætur sér fátt um hina, og þær fæða honum sonu, bæði sú er hann hefir mætur á og sú er hann lætur sér fátt um, og frumgetni sonurinn er sonur þeirrar, er hann lætur sér fátt um,

16 þá skal honum ekki heimilt vera, er hann skiptir því sem hann á meðal sona sinna, að gjöra son konunnar, sem hann hefir mætur á, frumgetinn fram yfir son þeirrar, er hann lætur sér fátt um og frumgetinn er,

17 heldur skal hann viðurkenna frumgetninginn, son þeirrar, er hann lætur sér fátt um, og gefa honum tvöfaldan hlut af öllu því, er hann á, því að hann er frumgróði styrkleika hans, honum heyrir frumburðarrétturinn.

18 Ef maður á þrjóskan son og ódælan, sem eigi vill hlýða föður sínum og móður, og hann hlýðnast þeim ekki að heldur, þótt þau hirti hann,

19 þá skal faðir hans og móðir taka hann og fara með hann til öldunga borgar hans, að borgarhliðinu, þar sem hann á heima,

20 og segja við öldunga borgar hans: "Þessi sonur okkar er þrjóskur og ódæll og vill ekki hlýða okkur, hann er svallari og drykkjurútur."

21 Skulu þá allir borgarmenn lemja hann grjóti til bana. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér, og allur Ísrael skal heyra það og skelfast.

22 Þegar maður drýgir synd, sem varðar lífláti, og hann er líflátinn og þú hengir hann á tré,

23 þá skal líkami hans ekki vera náttlangt á trénu, heldur skalt þú jarða hann samdægurs. Því að sá er bölvaður af Guði, sem hengdur er, og þú skalt ekki saurga land þitt, það er Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar.

21 Og ef einhver segir þá við yður: ,Hér er Kristur,` eða: ,Þar,` þá trúið því ekki.

22 Því að fram munu koma falskristar og falsspámenn, og þeir munu gjöra tákn og undur til að leiða afvega hina útvöldu ef orðið gæti.

23 Verið varir um yður. Ég hef sagt yður allt fyrir.

24 En á þeim dögum, eftir þrenging þessa, mun sólin sortna og tunglið hætta að skína.

25 Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast.

26 Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýjum með miklum mætti og dýrð.

27 Og hann mun senda út englana og safna sínum útvöldu úr áttunum fjórum, frá skautum jarðar til himinskauta.

28 Nemið líkingu af fíkjutrénu. Þegar greinar þess fara að mýkjast og laufið að springa út, þá vitið þér, að sumar er í nánd.

29 Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að hann er í nánd, fyrir dyrum.

30 Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram.

31 Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða.

32 En þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn.

33 Verið varir um yður, vakið! Þér vitið ekki, nær tíminn er kominn.

34 Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka.

35 Vakið því, þér vitið ekki, nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun.

36 Látið hann ekki finna yður sofandi, þegar hann kemur allt í einu.

37 Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!"

Read full chapter