A A A A A
Bible Book List

Fimmta bók Móse 10-12 Icelandic Bible (ICELAND)

10 Í það sama sinn sagði Drottinn við mig: "Högg þér tvær töflur af steini, eins og hinar fyrri voru, og kom til mín upp á fjallið. Þú skalt og gjöra þér örk af tré.

Ég ætla að rita á töflurnar þau orð, sem stóðu á hinum fyrri töflunum, er þú braust í sundur, og skalt þú síðan leggja þær í örkina."

Ég gjörði þá örk af akasíuviði og hjó tvær töflur af steini eins og hinar fyrri, gekk því næst upp á fjallið með báðar töflurnar í hendi mér.

Þá ritaði Drottinn á töflurnar með sama letri og áður tíu boðorðin, þau er hann hafði talað til yðar á fjallinu út úr eldinum, daginn sem þér voruð þar saman komnir. Síðan fékk hann mér þær.

Þá sneri ég á leið og gekk ofan af fjallinu og lagði töflurnar í örkina, er ég hafði gjört, og þar voru þær geymdar, eins og Drottinn hafði fyrir mig lagt. (

Ísraelsmenn fóru frá Beerót Bene Jaakan til Mósera. Þar dó Aron og var jarðaður þar, og Eleasar sonur hans varð prestur í hans stað.

Þaðan fóru þeir til Gúdgóda, og frá Gúdgóda til Jotbata, þar sem gnægð er vatnslækja.

Þá skildi Drottinn ættkvísl Leví frá til þess að bera sáttmálsörk Drottins, til þess að standa frammi fyrir Drottni og þjóna honum og til að blessa í hans nafni, og er svo enn í dag.

Fyrir því fékk Leví eigi hlut né óðal með bræðrum sínum. Drottinn er óðal hans, eins og Drottinn Guð þinn hefir heitið honum.)

10 En ég dvaldi á fjallinu fjörutíu daga og fjörutíu nætur, eins og hið fyrra sinnið, og Drottinn bænheyrði mig einnig í þetta skiptið: Drottinn vildi ekki tortíma þér.

11 Og Drottinn sagði við mig: "Tak þig upp og hald af stað, til þess að þú megir fara fyrir lýðnum, er hann leggur upp, svo að þeir komist inn í og fái til eignar land það, sem ég sór feðrum þeirra að gefa þeim."

12 Og nú, Ísrael, hvers krefst Drottinn Guð þinn af þér nema þess, að þú óttist Drottin Guð þinn og gangir því ávallt á hans vegum, og að þú elskir hann og að þú þjónir Drottni Guði þínum af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni

13 með því að halda skipanir hans og lög, er ég legg fyrir þig í dag, og þér er fyrir bestu?

14 Sjá, Drottni Guði þínum heyrir himinninn og himnanna himnar, jörðin og allt, sem á henni er,

15 og þó hneigðist Drottinn að feðrum þínum einum, svo að hann elskaði þá, og hann útvaldi yður, niðja þeirra, eftir þá af öllum þjóðum, og er svo enn í dag.

16 Umskerið því yfirhúð hjarta yðar og verið ekki lengur harðsvíraðir.

17 Því að Drottinn Guð yðar, hann er Guð guðanna og Drottinn drottnanna, hinn mikli, voldugi og óttalegi Guð, sem eigi gjörir sér mannamun og þiggur eigi mútur.

18 Hann rekur réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar og elskar útlendinginn, svo að hann gefur honum fæði og klæði.

19 Elskið því útlendinginn, því að þér voruð sjálfir útlendingar í Egyptalandi.

20 Drottin Guð þinn skalt þú óttast, hann skalt þú dýrka, við hann skalt þú halda þér fast og við nafn hans skalt þú sverja.

21 Hann er þinn lofstír og hann er þinn Guð, sá er gjört hefir fyrir þig þessa miklu og óttalegu hluti, sem augu þín hafa séð.

22 Sjötíu að tölu voru feður þínir, þá er þeir fóru til Egyptalands, en nú hefir Drottinn Guð þinn gjört þig að fjölda til sem stjörnur himins.

11 Fyrir því skalt þú elska Drottin Guð þinn og varðveita boðorð hans, lög, ákvæði og skipanir alla daga.

Viðurkennið í dag _ því að ekki á ég orðastað við börn yðar, sem eigi hafa þekkt það né séð _, viðurkennið ögun Drottins Guðs yðar, mikilleik hans, hina sterku hönd hans og útréttan armlegg hans,

tákn hans og verk, sem hann gjörði í Egyptalandi á Faraó Egyptalandskonungi og öllu landi hans,

hversu hann fór með herlið Egypta, hesta þeirra og vagna, hversu hann lét vötn Sefhafsins flæða yfir þá, er þeir veittu yður eftirför, og tortímdi þeim fram á þennan dag,

og hversu hann gjörði til yðar í eyðimörkinni allt til þess er þér komuð hingað,

og hversu hann fór með Datan og Abíram, sonu Elíabs Rúbenssonar, hversu jörðin lauk upp munni sínum og svalg þá mitt á meðal allra Ísraelsmanna, ásamt fjölskyldum þeirra og tjöldum og öllum lifandi skepnum, sem voru í fylgd með þeim.

Því að augu yðar hafa séð öll hin miklu verk, sem Drottinn hefir gjört.

Fyrir því skuluð þér varðveita allar þær skipanir, sem ég legg fyrir þig í dag, til þess að þér verðið sterkir, komist inn í og fáið til eignar land það, er þér haldið nú yfir til, til þess að taka það til eignar,

og til þess að þér megið lifa langa ævi í landinu, sem Drottinn sór feðrum yðar að gefa þeim og niðjum þeirra, _ landi, sem flýtur í mjólk og hunangi.

10 Landið sem þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar, það er ekki eins og Egyptaland, þaðan sem þér fóruð, þar sem þú sáðir sæði þínu og vökvaðir landið með fæti þínum eins og kálgarð,

11 heldur er land það, er þér haldið nú yfir til, til þess að taka það til eignar, fjallaland og dala, og drekkur vatn af himnum þegar rignir,

12 land, sem Drottinn Guð þinn annast. Stöðuglega hvíla augu Drottins Guðs þíns yfir því frá ársbyrjun til ársloka.

13 Ef þér hlýðið skipunum mínum trúlega, þeim er ég legg fyrir yður í dag: að elska Drottin Guð yðar, og þjóna honum af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar, _

14 þá mun ég gefa landi yðar regn á réttum tíma, haustregn og vorregn, svo að þú megir hirða korn þitt, aldinlög þinn og olíu þína.

15 Þá mun ég og láta gras spretta í högum þínum handa skepnum þínum, svo að þú megir eta og saddur verða.

16 Gætið yðar, að hjarta yðar láti ekki tælast og þér víkið ekki af leið og dýrkið aðra guði og fallið fram fyrir þeim,

17 ella mun reiði Drottins upptendrast í gegn yður, og hann mun loka himninum, svo að eigi komi regn og jörðin gefi eigi ávöxt sinn, og þér munuð skjótlega eyðast úr landinu góða, sem Drottinn gefur yður.

18 Fyrir því skuluð þér leggja þessi orð mín á hjarta yðar og huga, og þér skuluð binda þau til merkis á hönd yðar og hafa þau sem minningarbönd á milli augna yðar.

19 Og þér skuluð kenna þau börnum yðar með því að tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur.

20 Og þú skalt skrifa þau á dyrastafi húss þíns og á borgarhlið þín,

21 til þess að þér og börn yðar megið lifa í landinu, sem Drottinn sór feðrum yðar að gefa þeim, svo lengi sem himinn er yfir jörðu.

22 Ef þér varðveitið kostgæfilega allar þessar skipanir, sem ég legg fyrir yður að halda: að elska Drottin Guð yðar, að ganga ávallt á hans vegum og halda yður fast við hann, _

23 þá mun Drottinn stökkva burt undan yður öllum þessum þjóðum, og þér munuð leggja undir yður þjóðir, sem eru stærri og voldugri en þér.

24 Hver sá staður, er þér stígið fæti á, skal verða yðar eign. Frá eyðimörkinni allt til Líbanon, frá fljótinu, Efratfljótinu, allt til vesturhafsins skal land yðar ná.

25 Enginn mun standast fyrir yður. Ótta við yður og skelfingu mun Drottinn Guð yðar láta koma yfir hvert það land, er þér stígið fæti á, eins og hann hefir heitið yður.

26 Sjá, ég legg fyrir yður í dag blessun og bölvun:

27 blessunina, ef þér hlýðið skipunum Drottins Guðs yðar, sem ég býð yður í dag,

28 en bölvunina, ef þér hlýðið ekki skipunum Drottins Guðs yðar og víkið af þeim vegi, sem ég býð yður í dag, til þess að elta aðra guði, sem þér eigi hafið þekkt.

29 Þegar Drottinn Guð þinn leiðir þig inn í landið, sem þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar, þá skalt þú leggja blessunina á Garísímfjall og bölvunina á Ebalfjall.

30 En þau eru hinumegin Jórdanar, vestanvert við sólarlagsveginn, í landi Kanaanítanna, þeirra er búa á sléttlendinu, gegnt Gilgal, hjá Mórelundi.

31 Þér farið nú yfir Jórdan til þess að komast inn í og taka til eignar landið, sem Drottinn Guð yðar gefur yður, og þér munuð fá það til eignar og setjast að í því.

32 Gætið þess þá að halda öll þau lög og ákvæði, sem ég legg fyrir yður í dag.

12 Þetta eru lög þau og ákvæði, sem þér skuluð gæta að breyta eftir í landi því, sem Drottinn, Guð feðra þinna, gefur þér til eignar, alla þá daga sem þér lifið á jörðinni.

Þér skuluð gjöreyða alla þá staði, þar sem þjóðirnar, er þér leggið undir yður, hafa dýrkað guði sína, á háum fjöllum, á hæðum og undir hverju grænu tré.

Þér skuluð rífa niður ölturu þeirra, brjóta í sundur merkissteina þeirra, brenna asérur þeirra í eldi, höggva sundur skurðlíkneski guða þeirra og afmá nafn þeirra úr þeim stað.

Eigi skuluð þér svo breyta við Drottin Guð yðar,

heldur skuluð þér leita til þess staðar, sem Drottinn Guð yðar mun til velja úr öllum kynkvíslum yðar til þess að láta nafn sitt búa þar, og þangað skalt þú fara.

Þangað skuluð þér færa brennifórnir yðar og sláturfórnir, tíundir yðar og það, sem þér færið að fórnargjöf, heitfórnir yðar og sjálfviljafórnir, og frumburði nautgripa yðar og sauðfénaðar.

Og þar skuluð þér halda fórnarmáltíð frammi fyrir Drottni Guði yðar og gleðja yður ásamt fjölskyldum yðar yfir öllu því, er þér hafið aflað, yfir því, sem Drottinn Guð þinn hefir blessað þig með.

Þér megið ekki hegða yður þá eins og vér hegðum oss hér nú, er hver gjörir það, sem honum gott þykir,

því að þér eruð ekki enn komnir á hvíldarstaðinn né til arfleifðarinnar, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.

10 En þegar þér eruð komnir yfir Jórdan og hafið setst að í landinu, sem Drottinn Guð yðar lætur yður fá til eignar, og þegar hann hefir veitt yður frið fyrir öllum óvinum yðar allt í kring og þér búið óhultir,

11 þá skal sá staður, er Drottinn Guð yðar velur til þess að láta nafn sitt búa þar, vera staðurinn, sem þér færið til allt sem ég býð yður: brennifórnir yðar og sláturfórnir, tíundir yðar og það sem þér færið að fórnargjöf og allar útvaldar heitfórnir yðar, er þér heitið Drottni.

12 Og þér skuluð gleðjast frammi fyrir Drottni Guði yðar, þér og synir yðar og dætur, þrælar yðar og ambáttir, ásamt levítunum, sem eru innan borgarhliða yðar, því að þeir hafa eigi hlutskipti né óðal með yður.

13 Gæt þín, að þú fórnir ekki brennifórnum þínum á hverjum þeim stað, er þér ræður við að horfa,

14 heldur á þeim stað, er Drottinn velur í einhverri af kynkvíslum þínum. Þar skalt þú fórna brennifórnum þínum og þar skalt þú gjöra allt það, sem ég býð þér.

15 Þó mátt þú slátra og eta kjöt eftir eigin vild þinni innan allra borgarhliða þinna, eftir þeirri blessun, er Drottinn Guð þinn gefur þér. Bæði óhreinn maður og hreinn mega eta það, sem væri það skógargeit eða hjörtur.

16 Aðeins megið þér ekki eta blóðið; þú skalt hella því á jörðina sem vatni.

17 Þú mátt eigi eta innan borgarhliða þinna tíund af korni þínu, aldinlegi þínum og olíu þinni, né frumburði nautgripa þinna og sauðfénaðar, né nokkuð af heitfórnum þínum, er þú hefir heitið, né sjálfviljafórnir þínar, né nokkuð, sem þú færir að fórnargjöf,

18 heldur skalt þú eta það frammi fyrir Drottni Guði þínum, á þeim stað, sem Drottinn Guð þinn velur, þú og sonur þinn og dóttir þín og þræll þinn og ambátt þín og levítinn, sem er innan borgarhliða þinna, og þú skalt gleðjast frammi fyrir Drottni Guði þínum yfir öllu því, sem þú hefir aflað.

19 Gæt þín, að þú setjir ekki levítana hjá alla þá daga, sem þú lifir í landi þínu.

20 Þegar Drottinn Guð þinn færir út landamerki þín, eins og hann hefir heitið þér, og þú segir: "Ég vil eta kjöt!" af því að þig lystir að eta kjöt, þá mátt þú eta kjöt, eins og þig lystir.

21 Ef sá staður, sem Drottinn Guð þinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar, er mjög langt í burtu frá þér, þá skalt þú slátra af nautum þínum og sauðum, sem Drottinn hefir gefið þér, eins og ég hefi fyrir þig lagt, og þú skalt eta það innan borgarhliða þinna eins og þig lystir.

22 Aðeins skalt þú eta það eins og menn eta skógargeit eða hjört; bæði óhreinn maður og hreinn mega eta það.

23 Þó skalt þú varast það grandgæfilega að neyta blóðsins, því að blóðið er lífið, og þú skalt ekki eta lífið með kjötinu.

24 Þú skalt ekki neyta þess, þú skalt hella því á jörðina sem vatni.

25 Þú skalt ekki neyta þess, svo að þér vegni vel og börnum þínum eftir þig, er þú gjörir það sem rétt er í augum Drottins.

26 En helgigjafir þínar, þær er þér ber að færa, og heitfórnir þínar skalt þú taka og fara með þær til þess staðar, sem Drottinn velur.

27 Og þú skalt fram bera brennifórnir þínar, kjötið og blóðið, á altari Drottins Guðs þíns, og blóðinu úr sláturfórnum þínum skal hella á altari Drottins Guðs þíns, en kjötið skalt þú eta.

28 Varðveit þú og hlýð þú öllum þessum boðorðum, sem ég legg fyrir þig, svo að þér vegni vel og börnum þínum eftir þig ævinlega, er þú gjörir það, sem gott er og rétt í augum Drottins Guðs þíns.

29 Þegar Drottinn Guð þinn upprætir þær þjóðir fyrir þér, er þú heldur nú til, til þess að leggja þær undir þig, og er þú hefir lagt þær undir þig og ert setstur að í landi þeirra,

30 þá gæt þín, að þú freistist ekki til þess að taka upp siðu þeirra, eftir að þeir eru eyddir burt frá þér, og að þú farir ekki að spyrjast fyrir um guði þeirra og segja: "Hvernig dýrkuðu þessar þjóðir guði sína, svo að ég geti og farið eins að?"

31 Þú skalt eigi breyta svo við Drottin Guð þinn, því að allt sem andstyggilegt er Drottni, það er hann hatar, hafa þær gjört til heiðurs guðum sínum, því að jafnvel sonu sína og dætur hafa þær brennt í eldi til heiðurs guðum sínum.

32 Þér skuluð gæta þess að halda öll þau boðorð, sem ég legg fyrir yður. Þú skalt engu auka við þau né heldur draga nokkuð undan.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Markúsarguðspjall 12:1-27 Icelandic Bible (ICELAND)

12 Og hann tók að tala til þeirra í dæmisögum: "Maður plantaði víngarð. Hann hlóð garð um hann, gróf fyrir vínþröng og reisti turn, seldi hann síðan vínyrkjum á leigu og fór úr landi.

Á settum tíma sendi hann þjón til vínyrkjanna að fá hjá þeim hlut af ávexti víngarðsins.

En þeir tóku hann og börðu og sendu burt tómhentan.

Aftur sendi hann til þeirra annan þjón. Hann lömdu þeir í höfuðið og svívirtu.

Enn sendi hann annan, og hann drápu þeir, og marga fleiri ýmist börðu þeir eða drápu.

Einn átti hann eftir enn, elskaðan son. Hann sendi hann síðastan til þeirra og sagði: ,Þeir munu virða son minn.`

En vínyrkjar þessir sögðu sín á milli: ,Þetta er erfinginn. Förum og drepum hann, þá fáum vér arfinn.`

Og þeir tóku hann og drápu og köstuðu honum út fyrir víngarðinn.

Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra? Hann mun koma, tortíma vínyrkjunum og fá öðrum víngarðinn.

10 Hafið þér eigi lesið þessa ritningu: Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn hyrningarsteinn.

11 Þetta er verk Drottins, og undursamlegt er það í augum vorum."

12 Þeir vildu taka hann höndum, en óttuðust fólkið. Þeir skildu, að hann átti við þá með dæmisögunni. Og þeir yfirgáfu hann og gengu burt.

13 Þá sendu þeir til hans nokkra farísea og Heródesarsinna, og skyldu þeir veiða hann í orðum.

14 Þeir koma og segja við hann: "Meistari, vér vitum, að þú ert sannorður og hirðir ekki um álit neins, enda gjörir þú þér engan mannamun, heldur kennir Guðs veg í sannleika. Leyfist að gjalda keisaranum skatt eða ekki? Eigum vér að gjalda eða ekki gjalda?"

15 En hann sá hræsni þeirra og sagði við þá: "Hví freistið þér mín? Fáið mér denar, látið mig sjá."

16 Þeir fengu honum pening. Hann spyr: "Hvers mynd og yfirskrift er þetta?" Þeir svöruðu: "Keisarans."

17 En Jesús sagði við þá: "Gjaldið keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er." Og þá furðaði stórlega á honum.

18 Saddúkear komu til hans, en þeir neita því, að upprisa sé til, og sögðu við hann:

19 "Meistari, Móse segir oss í ritningunum, ,að deyi maður barnlaus, en láti eftir sig konu, skuli bróðir hans ganga að eiga ekkjuna og vekja honum niðja.`

20 Nú voru sjö bræður. Sá fyrsti tók sér konu, en dó barnlaus.

21 Annar bróðirinn gekk að eiga hana og dó barnlaus. Eins hinn þriðji,

22 og allir sjö urðu barnlausir. Síðast allra dó konan.

23 Í upprisunni, þegar menn rísa upp, kona hvers þeirra verður hún þá? Allir sjö höfðu átt hana."

24 Jesús svaraði þeim: "Er það ekki þetta, sem veldur því, að þér villist: Þér þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs?

25 Þegar menn rísa upp frá dauðum, kvænast þeir hvorki né giftast. Þeir eru sem englar á himnum.

26 En um þá dauðu, að þeir rísa upp, hafið þér ekki lesið það í bók Móse, í sögunni um þyrnirunninn? Guð segir við Móse: ,Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.`

27 Ekki er hann Guð dauðra heldur lifenda. Þér villist stórlega."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes